Ó, mæ got

Ó, mæ got

Það er þess vegna sem Jesús Kristur varar okkur við því að rífa okkur sjálf niður, að syndga gegn því fallega og góða í okkur sjálfum. Gegn andanum. Hann veit að afleiðingarnar eru vondar. Ef við afneitum andanum erum við að afneita andardrætti lífsins í okkur sjálfum.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
18. ágúst 2013
Flokkar

speech_bubble_wide.jpg
“Ó, mæ got!” Heyrum við reglulega hrópað í dag, af fimm ára og eldri.

Er það guðlast?

Þegar ég var lítil stúlka í sumarbúðum var guðlast tekið fyrir í einni samverunni. Ég gleymi þeirri útskýringu seint. Í stórum dráttum fjallaði hún um að það væri ekki Guði þóknanlegt að nota upphrópanir eins og ”Guð minn góður!” eða ”Jesús minn!”, nema við værum að biðja. Þetta var síðan útskýrt með dæmisögu um hana Jósefínu. Þar kom skýrt fram að það væri ljótt að leggja nafn Guðs við hégóma. Að það væri guðlast. Ástæðan var sú að það væri ekki fallegt að vera að kalla á Guð án þess að þurfa raunverulega á Guði að halda. Að við værum með þessu að blanda Guði í eitthvað ómerkilegt. Eitthvað sem skipti engu máli.

Sagan um Jósefínu var einföld og sniðug og útskýringin nokkuð rökrétt. Og ég man enn eftir mér sitjandi  á gólfinu í fallegu setustofunni með vefstólunum og mastermind spilunum enda tók ég öllu því er fram fór í þessu herbergi afar hátíðlega. En það var samt eitthvað við söguna sem ég tók aldrei alveg trúanlega. Mér fannst einhvern veginn ekki passa alveg við boðskapinn sem ég annars heyrði um Guð, að það mætti ekki trufla Guð vegna einhverra smáatriða. Að við ættum aðeins að kalla á Guð þegar við ættum mikilvægt erindi.

Þessi túlkun er reyndar strang Lúthersk og ekki er ólíklegt að upphafið að henni sé að finna í Fræðum Lúthers minni í skýringum hans við annað boðorðið.

Vandinn var bara að við Guð áttum alltaf svo persónulegt samband að það hvarflaði aldrei að mér annað en að Guði væri alveg sama þótt ég hrópaði nafnið hennar (eða hans) þegar ég upplifði eitthvað stórkostlegt eða svakalegt. Þó ekki væri það endilega merkilegt.

Guðlast þá Það er reyndar engin tilviljum að í sumarbúðunum var mér kennt að guðlast væri ljótt því sterk hefð er fyrir að líta á það sem alvarlegan glæp í bæði kristinni hefð og gyðingdómi.  Í þriðju Mósebók (24.16) er sagt að sá er fremur guðlast skuli grýttur og þar með líflátinn. Á þessari aftökuhefð voru þær lögskýringar gyðinga byggðar, sem voru notaðar gegn Jesú þegar hann var dæmdur til dauða fyrir guðlast. Guðlast Jesú fólst reyndar ekki í að hrópa “Guð minn góður!” eða „Ó, mæ got!“ heldur í því að brjóta gegn hefðum og siðum og með því að segjast vera Messías, Guðs son. Með því að setja sig í hásæti, jafnfætis Guði og þannig leggja nafn Guðs við hégóma.

Ég held að það sé alveg óhætt að segja að guðlastið sem Jesús var dæmdur fyrir hafi fyrst og fremst snúist um pólitík en minna um trú, nema að því leyti sem trúin var samofin pólitíkinni.

Guðlast nú Hvert er þá guðlast í dag? Megum kannski við segja allt í dag? Ef guðlast var pólitík á tímum Jesú er það þá pólitík enn þann dag í dag?

Felst guðlast dagsins, á Íslandi, í því að láta það út úr sér opinberlega að gleðigangan sé hættuleg börnum og ofbjóði augum eðlilegs gagnkynhneigðs fólks?

Eða er guðlast dagsins kannski að segja að gay pride eigi rétt á sér og sé jafnvel nauðsynleg enn í dag vegna þessa að fordómar eru enn við lýði?

Felst guðlast dagsins kannski í orðum alþingiskonu sem hótar ríkisfjölmiðli með niðurskurði vegna þess að henni líkar ekki fréttaflutningurinn? Eða ætli það sé einmitt fjölmiðillinn sem guðlastar með því að fjalla um virðulega alþingiskonu á hátt sem henni er ei þóknanlegur?

Ætli pólitískur rétttrúnaður sé kannski guðlast dagsins eða er guðlastið fólgið í því að stimpla skoðanir sem okkur líkar ekki sem pólitískan rétttrúnað?

Getur verið að guðlastið sé fólgið í hræsninni í því að hneykslast þegar einn leiðtogi múslima á Íslandi talar um að samkynhneigð geti leitt til barnaráns á meðan gamall poppari fær óendanlegt rými til að setja fram svipaðar skoðanir í DV og öðrum fjölmiðlum? Kannski vegna þess að hann er Íslendingur, líklega kristinn og poppari. Imaminn, sem allir hneiksluðust á, lét einmitt hafa eftir sér svipaðar skoðanir á samkynhneigð og Franklin Graham sem á að tala á Kristinni samkomu á Íslandi í september. Sá ameríski er reyndar aðeins fágaðari en imaminn í framsetningu sinni.

Hvað sem guðlast vikunnar eða dagsins í dag er, þá er afar líklegt að við séum ekki sammála um það.

Megum við kannski segja hvað sem er í nafni tjáningarfrelsis?

Tjáningarfrelsi Í vestrænum samfélögum er fólk ekki tekið af lífí vegna ógætilegra orða. Í þessum samfélögum er mikið lagt upp úr tjáningarfrelsi en á sama tíma skiptir virðing fyrir öllu fólki og ábyrgt orðalag einnig miklu máli.

Á sama tíma og málfrelsið gefur okkur frelsi til þess að segja hug okkar hefur reynst nauðsynlegt að setja lög sem verja minnihlutahópa fyrir hatursorðræðu. Í almennum hegningarlögum segir að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef einhver, með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á fólk vegna þjóðernis þess, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar.

Guðlast gegn sjálfri þér eða heilögum anda Í Biblíutextum dagsins erum við hvött til þess að gæta tungu okkar. Við erum hvött til þess að tala fallega. Til þess að stunda ekki guðlast.

Og Jesús er ákveðinn í guðspjalli dagsins þegar hann segir að okkur verði fyrirgefnar allar syndir og öll guðlöstun nema þegar við við syndgum gegn andanum. Við megum syndga gegn Guði og gegn Jesú Kristi en ekki gegn andanum. Hann er meira að segja svo harður að halda því fram að okkur verði aldrei fyrirgefið ef við tölum gegn andanum. Aldrei nokkurn tíma. Hvorki í þessum heimi né öðrum.

Þetta eru harkaleg orð. Og merkileg.

Við megum tala illa um Guð og Jesús en ekki um heilagan anda.

Hvað er svona merkilegt við þennan anda? Hver er hann eiginlega?

Heilagur andi hefur oft verið til umræðu hér í þessari kirkju en ég trúi því að heilagur andi sé andardrátturinn þinn. Allt það góða sem í þér býr, sem umlykur þig og verndar. Ef þú talar illa um, guðlastar gegn andanum þá ert þú að gera lítið úr sjálfri/sjálfum þér. Þá ert þú að rífa niður það góða sem býr í þér og allt í kringum þig. Afleiðingar þess geta aldrei verið góðar. Afleiðingar þess að bera ekki virðingu fyrir sjálfri/sjálfum þér og því góða í kringum þig, eru skelfilegar. Þær birtast nefnilega í öllu þínu umhverfi. Í afkomendum þínum. Í augum þeirra sem elska þig.

Það er þess vegna sem Jesús Kristur varar okkur við því að rífa okkur sjálf niður, að syndga gegn því fallega og góða í okkur sjálfum. Gegn andanum. Hann veit að afleiðingarnar eru vondar. Ef við afneitum andanum erum við að afneita andardrætti lífsins í okkur sjálfum.

Ekki gera það!

Ekki gera það segir Jesús!

Því miður getum við öll fallið í það að rífa okkur niður og því er mikilvægt að við hjálpumst að við að velja lífið og það góða í kringum okkur . Það góða í okkur og lærum að láta okkur þykja vænt um okkur sjálf. Andi Guðs er í okkur, elskar okkur og vill okkur aðeins vel.

Þegar við rífum niður annað fólk með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt þá erum við að ráðast gegn okkur sjálfum og anda Guðs. Framkoma okkar í garð annarra speglar framkomu okkar og viðhorf til okkar sjálfra. Ef við berum ekki virðingu fyrir okkur sjálfum þá er ólíklegt að við getum borið virðingu fyrir öðru fólki.

Ó, mæ got Í þessu samhengi fá upphrópanir eins og; “ó, mæ got!” eða “Jeus Christ!” lítið vægi.

Það sem skiptir máli hlýtur alltaf að vera að tala fallega um okkur sjálf og hvert annað.

Ég er enn sannfærð um að Guð vill vera með þér í smáu og stóru. Líka þegar þú sérð eitthvað fallegt eða upplifir eitthvað skrýtið eða skelfilegt og það fyrsta sem þér dettur í hug er að hrópa á Guð og segja “ó, mæ got!”. Amen.