Í landi friðarins

Í landi friðarins

Er ekki umhugsunarvert nú árið 2013 að það skiptir máli hvar við fæðumst á þessari jörð. Börnin öll sem eru að fæðast á þessari stundu eiga ekki öll sömu framtíðarmöguleika. Á Kóreuskaganum, sem ég sótti heim á árinu, er mikill munur á framtíð barna eftir því hvar á skaganum þau fæðast. Í Suður-Kóreu njóta börnin skólagöngu og flestra lífsins gæða og möguleika.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
25. desember 2013
Flokkar

Prédikun flutt í Dómkirkjunni jóladag 2013. Jes 62.10-12; Tít 3.4-7; Lúk. 2:15-20.

Í gærkveldi heyrðum við mörg frásögu Lúkasar guðspjallamanns og læknis um fæðingu Jesú. Frásöguna sem sett er í sögulegt samhengi þannig að hægt er með nokkurri vissu að tímasetja hana í heimssögunni, þegar Ágústus var keisari og Kýreneus var landstjóri á Sýrlandi. Þar segir frá Maríu og Jósef sem fóru til að láta skrásetja sig eins og yfirvaldið hafði boðað, til að öruggt væri að allir vinnandi menn borguðu skatt til samfélagsins. Í þessum kafla er ekki aðeins frásaga af fæðingu barns heldur er einnig talað til okkar allra og okkur sagt, mér og þér að frelsari okkar sé fæddur. Tíðindin bárust hirðum sem gættu hjarðar sinnar og engill og kórinn hans fluttu þessi himnesku boð. Með fæðingu barnsins hennar Maríu varð viðsnúningur í henni veröld. Með barninu kom von um breytingar í heimi hér og í lífi mannanna. Von um betri heim, von um sælla líf. Englarnir sungu um dýrð Guðs og frið á jörð. Já, lofgjörð til Guðs er nefnd í sama orðinu og friður á jörðu. Við, dauðlegir menn, erum minnt á þörfina fyrir leiðsögn Guðs til að finna leiðina að friði og réttlæti, sáttargjörð og lífi í fullri gnægð. Við þörfnumst ljóss frá Orði Guðs til að leiðbeina okkur á lífins göngu.

Í dag heyrðum við framhald þessarar sögu. Heyrðum um viðbrögð hirðanna, sem fyrstir fengu að heyra og nú vildu þeir sjá. Við heyrðum einnig um viðbrögð móðurinnar ungu, Maríu og við fengum að heyra að það sem hirðarnir sáu var eins og þeim hafði verið sagt.

Við lítum líka barnið í jötunni og hugsum til barna heimsins sem fæðast um veröld víða á hverri mínútu. Það þarf ekki mikla rannsókn til að átta sig á því að framtíð barns er líka undir því komin hvar það fæðist í heiminum. Það voru ekki kjöraðstæður hjá Maríu þegar Jesús fæddist. Fjölskyldan flúði til Egyptalands til að koma í veg fyrir að barnið nýfædda yrði tekið af lífi. Flóttamannavandamál er enn til staðar í heiminum í dag, 2000 árum síðar. Fólk flýr ófrið og óöryggi og mörgum reynist erfitt að eignast öruggt heimili.

Nýlega var frétt í hérlendu dagblaði um erlenda móður sem vill búa hér á landi. Hún hafði þetta að segja um þann vilja sinn: „Ég vil bara búa í friði með börnunum mínum. Klára nám mitt. Sjáðu hvað börnunum mínum líður vel. Ég kom ekki til að eignast peninga. Ég veit að það er efnahagskreppa hér eins og annarsstaðar. Ég kom útaf friðinum.“

Við gleymum því ef til vill Íslendingar hversu dýrmætt er að fæðast í landi friðarins. Þó ýmislegt megi bæta getum við verið nokkuð viss um að þegar börnin okkar fæðast hér er þeim opinberlega tryggð barnavernd, skólaskylda og félagslegt öryggi. Hið sama er ekki að segja um öll heimsins börn. Börnin sem ég hitti í Malawí og Kenýa fyrr á þessu ári voru að sönnu glöð börn. En ég velti því fyrir mér hvers vegna væri svona mikill munur á aðbúnaði barna, aðstöðu og framtíðarmöguleikum. Þau voru að sönnu skólaskyld en því var ekki fylgt eftir að þau gengu í skóla. Þau sem nutu skólagöngu gengu svo sannarlega í orðsins fyllstu merkingu. Þau gengu sum hver marga kílómetra dag hvern í skólann og til baka.

Hver var von þeirra um betri heim og framtíð? Vonin kom ekki hvað síst í gegnum starf kristniboðanna, sem hafa gert sér grein fyrir að trúin er ekki bara boðuð í orði heldur einnig í verki. Kristniboðarnir hafa alla tíð lagt áherslu á menntun barna og í marga skólana kom ég í Pókot héraði í norð-vestur Kenýu sem kristniboðið hafði lagt grunninn að. Í einum þeirra, stúlknaskóla, var skólastjórinn kona sem hafði notið menntunar á vegum kristniboðsskóla í sínu ungdæmi.

Er ekki umhugsunarvert nú árið 2013 að það skiptir máli hvar við fæðumst á þessari jörð. Börnin öll sem eru að fæðast á þessari stundu eiga ekki öll sömu framtíðarmöguleika. Á Kóreuskaganum, sem ég sótti einnig heim á árinu, er mikill munur á framtíð barna eftir því hvar á skaganum þau fæðast. Í Suður-Kóreu njóta börnin skólagöngu og flestra lífsins gæða og möguleika á meðan börnin í Norður-Kóreu lifa við ýmis höft og verða að lúta stjórnsömum yfirvöldum sem skerða persónufrelsi þeirra.

Þegar Jesús fæddist höfðu drengir meiri möguleika til menntunar en stúlkur og þannig er það enn í dag sums staðar í heiminum. Okkur finnst það einkennilegt að það skipti máli af hvoru kyninu barnið er þegar horft er til framtíðar þess. En því miður er það svo á þessari jörð að drengir og stúlkur njóta ekki sömu réttinda til náms og framtíðarmöguleika alls staðar. Hæfileikar og langanir ráða ekki hver framtíðin verður, heldur kynið. Jafnrétti kynjanna er því einn af lyklum betri og réttlátari heims.

Fátækir hirðar, sem ekki voru hátt skrifaðir í mannfélagsstiganum í landi sínu urðu þess heiðurs aðnjótandi að fá fyrstir fréttirnar af fæðingu barnsins í Betlehem. Þeim var sagt þeir myndu finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Þeir fóru og það stóðst. Allt stóðst sem sagt hafði verið.

Margar ævisögur koma út hér á landi, bæði íslenskar og þýddar. Við lesum þær. Erum við að lesa þær til að forvitnast, til að hneykslast, til að skilja, til skemmtunar. Ég held að ævisögur séu vinsælt lesefni af því okkur finnst gott að geta samsamað okkur sögupersónunum og lært af þeim. Og þannig er það einnig með sögupersónur jólaguðspjallsins. Við getum ótal margt lært af Jósef og Maríu og líka af hirðunum, sem fyrstir fengu boðin um fæðingu frelsarans.

Hirðarnir fóru rakleiðis til Betlehem eftir að þeim bárust tíðindin. Við skiljum það vel, því við fáum sjálf þá tilfinningu þegar eitthvað gerist að við viljum fara og sjá. Við skiljum því vel hirðan, sem vildu sjá það sem gjörst hafði. Og auðvitað sögðu þeir frá upplifun sinni. Það þekkjum við líka. Við segjum frá reynslu okkar og aðkomu að atburðum þegar við erum mætt á staðinn.

Og allir viðstaddir undruðust nema María. Enda hafði hún áður fengið heimsókn engils, sem hafði sagt henni að hún bæri son Guðs undir belti og skyldi ekki vera hrædd. Óttast þú eigi hafði engillinn sagt við hana alveg eins og við hirðana þegar þeim voru borin tíðindin.

En hvað gerðu hirðarnir svo. Jú, þeir lofuðu Guð og vegsömuðu fyrir það sem þeir höfðu reynt og orðið vitni að. Okkar upplifanir af Guðdómnum eru e.t.v. ekki eins sterkar og hirðanna. Við sjáum ekki engla eða heyrum raddir svona dags daglega, en við fáum samt á hverjum degi ástæðu til að þakka Guði og lofa hann. Það er svo ótal margt sem við getum þakkað fyrir, en það er eins og við skynjum það ekki fyrr en að myrkrið hefur sótt okkur heim. Ljósið verður að skína í myrkrinu. Þegar heilsan hefur bilað t.d. finna margir að það er ekkert sjálfsagt að halda heilsu alla daga. Þannig lærum við smám saman að þakka fyrir hversdagslega hluti, því við skiljum að þeir eru ekki allir sjálfsagðir.

Á þessum jólum skulum við því minnast þakklætisins. Þakklætis fyrir að fá að lifa í landi sem lýtur stjórn þeirra sem gert hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, landi lýðræðisins. Því þó margt megi betur fara erum við þó hamingjubörn miðað við margar aðrar þjóðir. Við getum líka þakkað fyrir líf okkar og þeirra sem á undan eru gengin og beðið Guð að líkna þeim sem þjást og stríða og stefna í faðm hans að leiðarlokum.

Megi boðskapur jólanna, kærleikurinn sem þau boða standa hjarta okkar nær og láta okkur bera hann áfram til samferðamanna okkar. Gleðileg jól í Jesú nafni. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.