16,7 milljónir króna hafa farið í gegnum Hjálparstarf kirkjunnar til þess að byggja upp líf og eignir þeirra sem lentu í jarðskjálftunum í Pakistan í október 2005. Ég fór þangað í byrjun apríl og hitti þann sem kallaður er „Rafvirkinn” á götum úti. Hann heitir Farhat Hussein og er stoltur af nýrri stöðu sinni í samfélaginu. Hann er 21 árs, einn 9 systkina. Fjölskyldan missti húsið sitt í skjálftunum og var það ein ástæðan fyrir því að Farhat komst inn á námskeið sem samstarfsaðilar Hjálparstarfs kirkjunnar í Pakistan skipulögðu fyrir íbúa á svæðinu. Það var eitt af mörgu sem gert var til að byggja upp færni og þekkingu til að takast á við eyðilegginguna. Kristnu samtökin Church World Service hafa starfað í Pakistan í tæp 30 ár að neyðar- og þróunarstarfi og hafa varið söfnunarfé héðan. Kristnir sem múslímskir starfsmenn hennar, gjörþekkja aðstæður og hjálpin hefur skilað sér vel. Farhat er dæmi um það. Hann lauk námi í rafvirkjun sem honum þótti vel skipulagt, honum var greitt fyrir svo hann gæti stutt fjölskyldu sína á meðan og hann útskrifaðist með verkfærakassa til að geta hafið störf. Hann dreif í því strax eftir útskrift að opna raftækjaverslun með hjálp bróður síns. Nú fer hann heim til fólks og tekur út hversu mikið þurfi að tenglum og vírum í raflagnir húsanna sem verið er að reisa úr rústunum. „Ég hafði enga kunnáttu í neinu áður, ég hafði hætt í skóla og var bara í krikket allan daginn” sagði Farhat. „Núna kallar fólk mig Rafvirkjann! Fólk lítur upp til mín!” Farhat er duglegur og er að þjálfa 7 menn til viðbótar. Hann er eftirsóttur því á námskeiðinu voru kenndir opinberir öryggisstaðlar sem innleiddir voru eftir skjálftana. Þeir eldri í greininni þurfa að hafa fyrir því að ná sér í þá þekkingu.
„Vil leggja mitt af mörkum”
Mushtaq Miralam dregur 15.000 rúpíur úr vasanum og segir stoltur: „Sjáðu, ég hef peninga í vasanum.” Áður en Mushtaq lauk námi hjá samstarfsaðilum Hjálparstarfsins var hann oftast bara heima. „Ég hafði enga menntun og ég hafði bara ekki döngun í mér til að bera mig eftir henni. Ef mig vantaði eitthvað fékk ég peninga hjá mömmu.” Eftir pípulagninganámið sem er kostað m.a. fyrir framlög frá Íslandi hefur hann gert við kamra, reist sturtu- og þvottaaðstöðu og lagt vatn inní hús. Hann tekur 2.500 rúpíur fyrir kamarinn. „Vanalegt verð er 4.000 rúpíur en ég gef góðan afslátt. Ég er að vinna við uppbygginguna og ég vil leggja eitthvað af mörkum í mitt samfélag.” Með nýrri þekkingu pípulagningamannsins gengur fjölskyldunni miklu betur að sjá fyrir sér en fyrir jarðskjálftann.
Margt gott í kjölfarið – þrátt fyrir allt
Kennsla í byggingargreinum er hluti af uppbyggingarstarfi Hjálparstarfs kirkjunnar í Pakistan ásamt því að veita neyðaraðstoð í búðum strax eftir skjálftana, endurreisa vatnsból, tanka og dreifikerfi, útvega byggingarefni, útvega konum skepnur og kenna þeim að halda þær, verkfæri og annað sem auðveldar fólki að afla sér tekna. Hnitmiðuð námskeið fyrir karla og konur hafa bætt líf fólks til frambúðar, eins og þeir Farhat og Mushtaq eru dæmi um. Konur vernda sig og fjölskyldur sínar með nýfenginni þekkingu á smithættu og hve nauðsynlegt sé að þvo sér vel um hendur, sjóða vatn og verja mat með flugnaneti. Þær hafa lært að vera yfirsetukonur og eiga áreiðanlega eftir að bjarga lífi sængurkvenna og nýfæddum börnum. Viðhorf hafa breyst. Karlar sem komu í tjaldbúðir, sóttu námskeið og sáu konur sínar læra og hafa gagn af samvistum við aðrar óskyldar konur urðu opnari fyrir því að þær tækju meiri þátt í samfélaginu en karlar sem urðu eftir í þorpunum að gæta eigna eftir hamfarirnar. Börn voru bólusett og upplýsingar um heilsufar þeirra voru færðar í spjaldskrá sem var ekki til áður. Kortin fylgja þeim heim í hérað og nýtast við framtíðarheilsugæslu. Börnin fengu útrás fyrir tilfinningar í skipulagðri starfsemi fyrir þau á vegum samstarfsaðila Hjálparstarfsins.
Hjálparstarfið flytur með
Fólkið sem ég hitti var þakklátt fyrir aðstoðina sem það hafði fengið í tjaldbúðunum veturinn eftir jarðskjálftana. Það fann traust í því að hjálparstarfið flutti með þeim heim í hérað þegar voraði, að það skyldi ekki sent eitt út í óvissuna þegar búðunum var lokað. Fólki fannst það betur í stakk búið til að kljást við lífið með nýrri þekkingu og ýmislegri efnislegri aðstoð sem framlag frá Íslandi var notað í. Það sagðist þó ekki horfa langt til framtíðar. Margir gátu ekki flutt heim, hreinlega vegna breytts landslags eftir skjálftana. Aðrir höfðu haft samning við landeiganda sem var dáinn. Fjölskyldur sem höfðu búið saman vildu nú búa sér, hvar áttu þær að fá land? Sum svæði voru lýst bannsvæði, heil þorp þurftu að rísa annars staðar. Áhrifa jarðskjalftans mun gæta áfram og móta fólk og samfélag. En fyrir fjármuni almennings á Íslandi hefur verið unnið gott verk í Pakistan, í fullu og góðu samstarfi við trúarleiðtoga, íbúa, stjórnvöld og önnur hjálparsamtök. Gert er ráð fyrir að uppbyggingarstarfi samstarfsaðila Hjálparstarfs kirkjunnar í Pakistan ljúki 2009.