Við erum það sem við munum

Við erum það sem við munum

Eitt af því mikilvægasta sem kirkjan man og kann ótal sögur um er það að Guð hefur sætt heiminn við sig í Jesú Kristi. Þess vegna getur hún munað og dregið ályktanir öld fram af öld og þarf engu að gleyma og ekkert að flýja þar þar sem fyrirgefningin er megin inntak alls sem hún er.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
13. júní 2010
Flokkar

 

Í gær stóð ég með sonardóttur mína Bergþóru Hildi í fanginu og við horfðumst sameiginlega í augu við gíraffa. Það er gaman að horfa á gíraffa því þeir eru enn flottari í návígi en á myndum. Hún er bara rúmlega 13 mánaða gömul og mun ekki muna þennan atburð. Samt mun heimsóknin í dýragaðinn í Kaupmannahöfn verða hluti af minningum hennar því við Jóna Hrönn munum geyma myndir og rifja upp seinna og segja: „Það var svo gaman þegar við fórum í dýraðgarðinn í Kaupmannahöfn. Og hvað þú varst hrifin af gíraffanum!”  Þannig mun frásögnin verða að sameiginlegri minningu, enn einn þráðurinn í þeim flókna vef sem bindur saman barnabarn og afa og ömmu.   

 

Minningar tengja okkur við vini og ástvini. Þess vegna tökum við ljósmyndir, geymum alls konar hluti á hinum og þessum stöðum í híbýlum okkar og erum alltaf að segja sögur. Við erum vegna þess að við munum. Það er uppsöfnuð og varðveitt reynsla sem veldur því að við getum ráðið í umhverfi okkar, fundið öryggi í samfélagi við fólk og jafnvel gert okkur í hugarlund atburðarrás áður en hún verður.   

Ég las það í flugvélinni í morgun haft eftir ágætum lífefnafræðingi, Sigríði Ólafsdóttur að nafni, að hún telur sannað að traust á milli fólks vaxi í réttu hlutfalli við magn hormónsins Oxýtósíns í blóði. Í greininni er gefið í skyn að þarna sé líklega fundið hið raunverulega lím samfélagsins, ástæða þess að menn og skepnur geti treyst og vilji bindast tilfinningaböndum.  En í lok viðtalsins undirstrikar vísindakonan að ekki megi gleyma því að við höfum líka vilja og vit.  

Vilji og vit! Það er einmitt það sem Bergþór Hildur hefur nú þegar í ríkum mæli og þess vegna verðum við að eignast sameiginlegar minningar ef hún á að vilja elska okkur ömmu sína.  Við getum ekki beðið einhver misseri þar til unga fólkið kemur frá námi og bara hampað nýjum nefúða með Oxýtósínhormónum handa barninu svo að því líki við okkur. Við erum það sem við munum og minningar okkar eru í senn vitrænar og valkvæðar. Þær varða bæði vitið og viljann.  

Einstaklingur sem man ekki sögu sína verður aldrei fyllilega með sjálfum sér. Fjölskylda sem ekki rifjar upp og segir sögur, gliðnar með tímanum. Það sama gildir um þjóðfélagið. Við verðum að þekkja sögu okkar, fjalla um hana, kenna börnunum bæði um landnámið og hernámið og líka um fjárnámið! Með vitið og viljann að vopni þurfum við í sífellu að safna sögum, varðveita minningar og reynslu. Eitt hús er t.d. í sjálfu sér lítils virði en sé þar hins vegar haldið heimili eða rekið fyrirtæki skiptir öllu máli hvernig samskiptum fólks er háttað í því húsi. Götur og stræti eru heldur ekki mikil eign borið saman við þau erindi sem menn eiga um göturnar og ástæður þess að fólk fer á milli staða.  Erindin og ástæðurnar eru allt sögur, reynslusjóður, sem gerir okkur að því fólki sem við erum. Að vera Íslendingur er ekki þorskur og megvött, en það hvernig við veiðum fisk, vinnum hann og skiptum með okkur arðinum eða hvernig við virkjum aflið í fallvötnum og iðrum jarðar og með hvaða hugarfari það allt er gert, það er að vera Íslendingur.  Um það þarf að segja sögur og hafa um það mörg orð.  

Kirkjan er svona sagna-samfélag. Hvert einasta kirkjuhús saman stendur af veggjum, þaki og einu borði og á því borði liggur bók og þegar bókinni er flett heyrast ótal raddir frá ólíkum tímum og aðstæðum.  Þessar raddir ræðast við og eru í óða önn að túlka hver aðra og hvert sinn sem lesið er úr bókinni bætist rödd inn í samtalið. Við sem tilheyrum kristinni kirkju erum með viti okkar og vilja að taka þátt í samtali sem staðið hefur a.m.k. allt frá tímum forn-Hebrea. Það eru svona þrjúsþúsundogfimmhundruð ár. Þetta samtal snýst eins og öll samtöl um það að segja sögur og leita að merkingu með því að muna saman, hugsa saman og gæta þess þannig að missa ekki hvert af öðru.  

Sagan um vonsvikna veitandann sem lesin er sem guðspjall á þessum sunnudegi er dæmisaga sem útskýrir þetta samfélag kirkjunnar og hún rifjar upp hvað það er sem við missum af ef við ‘klikkum á kirkjunni’ ef ég má komast svo að orði. Veislan sem hér er boðið til og talað um er félagsskapurinn um góðu fréttirnar. Þegar við komum saman sem kirkja þá er það gert til þess að rifja upp og lifa út þá góðu fregn sem Oxýtósínið bíður eftir  í æðum allra manna svo að blóðið ólgar og hjörtun slá: „Ég þekki þig og ég elska þig!”  Með sögum sínum og söngvum, borðhaldi sínu og skírnarbaði, með klukkum sínum og klerkalátum öllum er kirkja Jesú ætíð að rifja upp og heyra þetta sagt: „Ég þekki þig og ég elska þig!”  Og erindi hennar við fólkið í heiminum er bara þetta sem hún hefur sannast heyrt og finnur sig í sífellu knúna til að bera út um veröldina: „Ég þekki þig og ég elska þig!”  

Ef sonardóttir mín litla veit ekki að ég þekki hana, þá er merkingarlaust að segjast elska hana. Kirkjan iðkar og boðar þá trú að til sé Guð sem þekki og elski. Um það snýst öll hennar tilvera. „Í upphafi skapaði Guð...” eru fyrstu orð þess samtals sem byrjar í textum ritningarinnar.   Hvernig má það vera? Hvernig má ég vita það? Hvað merkir það fyrir mig og hvaða áhrif hefur það á líf heims og manns ef til er höfundur alls lífs sem elskar? Um þetta er kirkjan að spyrja þegar hún les og rannsakar ritningarnar og ræðir þær fram og aftur, deilir um þær, dásamar þær og dæsir yfir svo mörgu sem þar er munað og sagt.  

Við sáum líka nashyrning! Horfðum á hann sofandi í gegnum lítinn glugga þar sem hann lá inni í bás sem minnti bara á venjulegan fjósbás fyrir austan fjall. Furðulegt að sjá þessa stóru tignarlegu skepnu hvíla sín þungu augnlok í þessu nauða hversdagslega umhverfi. Þetta var eins og að rekast á Jesú í strætó. Algjörlega absúrd hversdagur í lífi nashyrnings. En þannig er einmitt sá Guð sem Biblían er alltaf að tala um. Jesús er Guð í strætó líkt og nashyrningur á báshellu austur í Holtum.  Guð er stiginn inn í hversdaginn til þess að þekkja þig og elska þig. Það eru góðu fréttirnar sem kirkjan man og lifir og trúir.  Þess vegna var svo rosalegt að þessir þrír skyldu klikka á því að mæta og velja frekar að skoða nýjan akur eða  hvað þeir voru að sýsla. Ekkert, ekki einu sinni nýtt hjónaband og jafnvel ekki heil og glæný og kynhlutlaus hjónabandslöggjöf frá Alþingi er merkilegri en fregnin stóra sem kirkjan ber í gegnum allar aldir. „Ég þekki þig og ég elska þig!”  

Í annarri útgáfu þessarar sömu sögu, - því Biblían er svo dásamleg að hún er aldrei bókstaflega samkvæm sjálfri sér heldur segir sömu sögur með ólíkum efnisatriðum og áherslum án þess að blygðast sín hið minnsta fyrir ósamkvæmnina – í annarri útgáfu er s.s. veislan sem boðið er til brúðkaupsveisla og þar er það konungur sem heldur brúðkaup sonar síns og er að vonum móðgaður út í þá sem upphaflega voru á gestalistanum. Þar segir: „Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“  (Matt. 22)  

Veistu hvað ég held að þetta sé? Brúðkaupsklæðin tákna inntak samskiptanna í kirkjunni. Þau tákna það að vera með á nótunum, tilheyra sögunni sem verið er að segja, eiga hlut í atburðarás Guðsríkis. Vonbrigði gestgjafans í dæmisögunni eru vonbrigði Guðs yfir því að veröldin skuli ekki taka við góðu fréttunum nema með semingi eða jafnvel háði og ofsóknum. “Hann kom til eignar sinnar” stendur í fyrsta kafla Jóhannesarguðspjalls þegar verið er að kynna Jesú til sögunnar.  „Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.” (Jóh. 1) Þetta er staðan.  Guð kemur í strætó en fólk tekur bara sinn skiptimiða og fer út á Hlemmi. Heimurinn þekkir ekki vitjunartíma sinn. Veislan í sögunni er samfélag þeirra sem skilja hvað er í gangi. Hér er kirkjan sem Kristur Jesús stofnar í heiminum, kirkjan sem man og ætlar ekki neinu að gleyma heldur læra og vaxa um eilífð. En hvað er það sem maður þarf að eiga ætli maður ekki að þurfa að gleyma og grafa liðna atburði? Hvers þarfnast maður fyrst og síðast eigi ekkert að þurfa að gleymast svo að hægt sé að halda áfram að læra af lífinu án þess að þurfa neitt að vera hræddur? Ef ekkert í lífi þínu á að gleymast heldur skuli það munast og varðveitast að eilífu, - hvers þarfnast þú þá? Eða ég?  Ja, ég veit það fyrir sjálfan mig að þá þarf ég fyrst og síðast fyrirgefningu. Brúðkaupsklæðin tákna þetta aðal inntak kristins samfélags, þau tákna fyrirgefninguna. Eitt af því mikilvægasta sem kirkjan man og kann ótal sögur um er það að Guð hefur sætt heiminn við sig í Jesú Kristi. Þess vegna getur hún munað og dregið ályktanir öld fram af öld og þarf engu að gleyma og ekkert að flýja þar þar sem fyrirgefningin er megin inntak alls sem hún er. (2.Kor.5.19)  

Manstu óþolið fyrir öllu gömlu sem ríkti í aðdraganda hrunsins? Manstu hvernig íbúðir voru teknar í nösina og hvað persónulegir munir í húsnæði fólks þóttu hallærislegir? - „Ég þekki þig ekki og mig varðar ekkert um þig!”  voru skilaboð tíðarandans sem þekkti ekki einu sinni sjálfan sig, þekkti ekkert og vildi ekkert muna nema hina óseðjandi löngun hins einangraða manns.  

 „Ég þekki þig og ég elska þig!” segir sá Guð sem kirkja Jesú tilbiður. Ég man sögu okkar segir kirkjan við heiminn og ég þreytist ekki á að skilja og greina samhengi okkar, hvað það merkir að vera manneskja í veröldinni.  Þess vegna eru og verða átök innan kristinnar kirkju. Kirkjan er ekki einfaldur staður. Hún er sannarlega veisluhús en hún er líka fæðingarstofa. Kirkjan á ekki sannleikann og finnur hann ekki heldur, hún fæðir hann með þrautum. Núna er kirkjan í okkar samfélagi að fæða fram með miklu erfiði og sársauka þann sannleika að hjónabandið er eitt, heilagt og öllum opið. Og loksins þegar fæðingin er af staðin mun þrautunum linna og heilög gleði mun fylla fæðingarstofnuna því að nýtt líf er fætt.