Tilviljun eða heilög köllun

Tilviljun eða heilög köllun

Oddur siglir frá Kaupmannahöfn um vorið, kom í Skálholt og fór síðan hringinn í kringum landið á sama sumrinu 1589.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
07. maí 2018

Það var margt og sérstakt sem átti sér stað og hafði áhrif á, að sr. Einar Sigurðsson varð prestur í Heydölum og líktist fremur ævintýri en áætlun.
Sr. Einar bjó með fjölskyldu sinni í prestsembætti við mjög þröngan kost í Nesi í Aðaladal í Mývatnssveit. Til eru bréf frá sr. Guðbrandi, biskupi á Hólum, til nágranna sr. Einars, þar sem biskup biður um að horft sé til með sr. Einari og fjölskyldu og hjálpað með helstu nauðsynjar svo þau kæmust af.

Oddur, sonur sr. Einars og Margrétar Helgadóttur, var kjörinn biskup í Skálholti árið 1588. Margrét, móðir hans, lést 44 ára að aldri, en þá var sr. Einar þrítugur. Þau höfðu eignast 8 börn og lifðu aðeins þrjú og þar á meðal Oddur. Síðar kvæntist sr. Einar Ólöfu þórarinsdóttur og eignuðust þau mörg börn og komust flest á fullorðinsár.

Sr. Oddur kom heim úr vígsluför sinni frá Kaupmannahöfn vorið 1589 og fór þá um sumarið norður í Hóla til að hitta sr. Guðbrand, biskup. Frá Hólum skreppur hann síðan í Nes í Mývatnssveit til að vitja fósturmóður sinnar og systkina, en sr. Einar kom til móts við son sinn á Hólum og reið svo með honum í Nes. Eftir viðdvöl í Nesi, fer ungi biskupinn austur hingað á firðina í vísitasíuheimsókn og þaðan heim í Skálholt um haustið.
Stöldrum hér við. Oddur siglir frá Kaupmannahöfn um vorið, kom í Skálholt og fór síðan hringinn í kringum landið á sama sumrinu árið 1589, ekki akandi á bifreið, heldur ríðandi, engar brýr brúaðar og margir farartálmar á leiðinni og útivistarbúnaður og matföng af öðrum toga en við þekkjum í dag.
Á þessari ferð hefur biskupinn komið í Heydali og kynnst hér aðstæðum. Líklega hefur þessi för biskupsins ráðið miklu um það að sr. Einar varð hér prestur ári síðar.
Í heimsókn sr. Odds í Nesi varð að ráði, að faðir hans og fjölskylda færi suður í Skálholt þá um haustið og dveldi þar um veturinn. Syninum hefur líklega ekkert litist á aðstæður í Nesi, fátækt og umkomuleysi föður síns.

Fjölskyldan taldi 11 börnin þeirra á ýmsum aldri og tvö barnabörn í þeirri för suður yfir heiðar í Skálholt, var mikil hrakför og lá við að fólkið yrði úti á leiðinni og taldi sr. Einar handleiðslu Guðs að þakka að fólkið komst heilt í áfangastað í Skálholti og orti af því tilefni:
„Yngri börnin, öll þá sýkjast og móðirin veik, þá mæddist líka, en óveður á þau dundu, seint á haustíma í háska staddir. – Á miðjum öræfum, en þá reyndu dásemd eina drottins ljósa. Þar sem að allir villtir voru, engill drottins, þá á veg leiddi. Komst svo síðan heim með heiðri í Skálholti“.

Vorið 1590 var afráðið að sr. Einar yrði prestur í Hvammi í Norðurárdal og yfirprófastur í Vestfirðingafjórðungi. Það þótti mikið vildarbrauð og talsverð metorð fólgin í prófaststöðunni. Prestaskiptin í Hvammi virðast ekki hafa verið einföld, jafnvel sár. Þar hafði þjónað lengi sr. Salamón Guðmundsson, aldraður maður. Hann var látinn víkja fyrir sr. Einari. Sagt er að sr. Salamón færi frá Hvammi nauðugur og jafnvel grátandi.
En fljótt skipast veður í lofti. Fjölskyldan staldraði stutt við í Hvammi, aðeins sumarlangt, tóku sig upp um haustið og fóru saman langa leið úr Hvammi austur í Heydali, þangað sem sr. Oddur hafði nú skipað föður sinn prest. Í Heydölum bjó sr. Einar svo fram á sinn hinsta dag árið 1626 eða í 36 ár og orti flesta af sínum sálmum og ljóðum.
Af þessari frásögn má glöggt ráða, að koma sr. Einars í Heydali var ekki samkvæmt fyrirfram gerðri langtímaáætlun, heldur hafi aðstæður og jafnvel tilviljanir ráðið þar miklu umvafið í heilga köllun.
Svo vekur athygli í þessari atburðarás, að Austfirðir virðast ekki álitnir afskekktir né einangraðir í þjóðlífinu og ekki hindrað sr. Einar t.d. í að koma kveðskap sínum á framfæri.

Fólkið á þessum tíma var duglegt að ferðastt um landið. Sr. Einar skrapp t.d. með sonum sínum suður í Skálholt sumarið eftir að hann kom hingað fyrst og svo þaðan með Oddi, biskupi syni sínum, norður í Hóla þar sem Oddur kvæntist Helgu Jónsdóttur og eftir það fór „Einar, faðir hans, í Austfjörður að Eydölum heim í hvíldar sæti“, eins og skáldið sjálft komst að orði. Svo yrkir skáldið: „Enn var siðvenja Einars sona árlega, að ríða í Austfjörður til sumarvistar hjá sínum foreldrum, á haustin þá aftur heim til skóla.“