Blessar Guð Ísland?

Blessar Guð Ísland?

Bænin Guð blessi Ísland er bæn um það að við notum gjafir gjafarans og ávöxtum þær til eflingar mennskunni og til að kveða niður hvers konar tröllsku og þursahátt.
fullname - andlitsmynd Einar Sigurbjörnsson
05. október 2009

Guð blessi Ísland

Samkvæmt auglýsingu á bls. 36 í Morgunblaðinu 4. október 4, 2009 er þessi spurning yfirskrift ráðstefnu Norræna byggingardagsins sem haldin verður í Norræna húsinu þriðjudaginn 6. október. Undir spurningunni stendur sem undirfyrirsögn: verktaka og ráðgjafamarkaðurinn á Íslandi í sögulegri lægð. Ef maður metur samband spurningar og lýsingar fær maður á tilfinninguna að forráðamenn þessara samtaka líti svo á að lægðin í verktaka- og ráðgjafamarkaðinum sé merki um að Ísland njóti nú ekki lengur blessunar Guðs en hæðin hafi verið vísbending um hana.

Klifunin á lokaorðum Geirs Haarde í ávarpi hans til íslensku þjóðarinnar fyrir réttu ári: Guð blessi Ísland, virðist byggjast á þeirri túlkun orðanna að blessun Guðs taki við þegar öll sund séu lokuð fyrir fólki. Meðan allt lék í lyndi drupu blessunardaggirnar og verktaka- og ráðgjafaiðnaðurinn ekki síst naut þerra í ríkum mæli. Og gleymum ekki forstjórum og talsmönnum greiningardeilda bankanna sálugu sem lifðu mikla gósentíð, ósparir á að benda fólki hvar fjármunum þess væri best borgið og hversu stórkostlegir bankarnir væru. Og eitthvað minnir mig að fjölmiðlafólk hafi verið ötult við að útbreiða þann boðskap.

Blessar Guð Ísland?

Já, Guð blessar Ísland því að blessun Guðs er það sem við lifum, hrærumst og erum í. Án blessunar Guðs drögum við ekki andann, hugsum ekki, tölum ekki, áætlum ekki, framkvæmum ekki.

Meðan við njótum lífsins og gjafa þess njótum við blessunar Guðs. Ég minni á skýringu Lúthers á upphafsorðum trúarjátningarinnar: Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Hvað er það? spyr Lúther og svarar: „Ég trúi að Guð hafi skapað mig og alla hluti, hafi gefið mér líkama og sál, augu, eyru og alla limi, skynsemi og öll skilningarvit og haldi því enn við; auk þess klæði og skæði, mat og drykk, hús og heimili, maka og börn, akur, fénað og öll gæði; sjái mér ríkulega og daglega fyrir öllum þörfum og fæðslu þessa líkama og lífs; verndi mig gegn allri hættu, og gæti mín og varðveiti mig frá öllu illu; og allt þetta af einskærri, föðurlegri, guðlegri gæsku og miskunn, án allrar minnar verðskuldunar og tilverknaðar. En fyrir allt þetta ber mér skylda til að þakka honum og vegsama hann, þjóna honum og hlýða. Það er vissulega satt.“

Allt sem við erum, eigum og njótum er gjafir Guðs sem við eigum að nota honum til þakklætis, dýrðar, þjónustu og hlýðni.

Meðan við þökkum Guði, vegsömum hann, þjónum honum og hlýðum játum við við hvern við erum í skuld og hverjum við eigum að gera reikningsskil.

Ef þökkin, vegsemdin, þjónustan og hlýðnin víkur fyrir hinu gagnstæða minnir Guð á vald sitt með því að mótsögn blessunarinnar kemur í ljós.

Hallgrímur og Vídalín nefndu það opinberun reiði Guðs.

Meðan uppgangurinn í efnahagslífinu var sem mestur hér á landi og í nágrannalöndunum framgengu menn í trássi við ef ekki beinlínis afneitun á lögmáli skaparans og í stað þakklætis, lofgjörðar, þjónustu og hlýðni var eigingirnin, makræðið og græðgin sett í öndvegi.

Slíkt er ómennskt og kallar á tröllsku í stað mennsku.

„Þekkirðu muninn á þursi og manni?“ spurði Dofrinn Pétur Gaut. Þegar svarið vafðist fyrir Pétri kom Dofrinn sjálfur með lausnina:

„Þar úti sem nótt fyrir árdegi víkur er orðtakið: Maður ver sjálfum þér líkur. En meðal vor þar sem myrkt er öll dægur er máltækið: Þursi ver sjálfum þér – nægur.“

Blessar Guð Ísland?

Já, Guð blessar Ísland og blessun hans sjáum við hvarvetna í kringum okkur, í gjöfum landsins, menntaðri og þróttmikilli þjóð. Bænin Guð blessi Ísland er bæn um það að við notum gjafir gjafarans og ávöxtum þær til eflingar mennskunni og til að kveða niður hvers konar tröllsku og þursahátt. Dofrinn heimtaði af Pétri Gaut að hann forðaðist allt sem utan ríkis síns væri – manndáð hverja, hvern heiðan blett.“

Manndáð felst ekki síst í því að ganga fram sem náungi öðrum, setja sig í annarra spor og veita blessun þangað sem skortur, neyð og böl ríkir. Kristið fólk er sér meðvitandi um að blessun Guðs birtist í jafnvægi og kærleika í samskiptum. Í kalli til mennsku heyrir kristinn maður Guð sjálfan kalla með boðorðinu: Elska skalt þú náunga þinn eins og sjálfan þig.

Til viðbótar boðorðinu reiðir kristinn sig á fyrirheitið: Ekkert fær gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Bænin Guð blessi Ísland er því ekki bæn hins ráðþrota, þess er telur að öll sund séu lokuð, lýsir engan veginn hugarfari séra Sigvalda sem sagði þegar spilaborg hans hrundi: Nú er kominn tími til að fara að biðja fyrir sér.

Nei, bænin Guð blessi Ísland er bæn um að Guð kalli á mennskuna í okkur, kalli okkur til vitundar um þá auðlegð sem við eigum í okkur sjálfum og landinu umhverfis og efli hjá okkur kjark til að takast á við vandann í von.

Guð blessi Ísland er líka bæn um að við hvert og eitt megum reynast blessun í umhverfi okkar samkvæmt orðum sálmsins góða (Sálmabók nr. 374):

Að létta bróður böl og bæta raunir hans, að seðja, gleðja, græða mein sé gleði kristins manns.

Vér trúum á þitt orð þótt efi myrkvi jörð að miskunn við hinn minnsta sé þér, mannsins sonur, gjörð.