En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Lúk. 2. 1-14
Jólaguðspjallið sem lesið var skírskortar til þess sem við köllum grundvallargildi sem við viljum og verðum að standa vörð um. Þar segir frá undrinu mikla, Guð - Guð sem er kærleikur - kom í heiminn og vitjaði mannanna, en umgjörð þessa undurs er í sjálfu sér hvorki glæsileg né upphafin.
Ung hjón á ferðalagi hafa ekki efni á því að borga hótelherbergi á uppsprengdu verði, þau verða að láta sér nægja að gista í fjárhúsi og þar fæðist barnið sem fólk hefði kallað óskilgetið. Fjárhirðar, sem ekki voru hátt skrifaðir á þeirra tíma mælikvarða, sjá ástæðu til að fagna með foreldrunum, en um leið er þetta atburður sem varðar alla menn, allan heiminn - sköpunina í heild - og hátt settir sendimenn frá fjarlægum löndum mæta á staðinn og bera fram gjafir og votta virðingu sína.
Skepnurnar í gripahúsinu eru líka til vitnis- og stjarnan á himninum.
Við vitum ekki nákvæmlega hvenær Jesús frá Nasaraet fæddist. Sagnfræðin getur ekki hjálpað okkur til að finna afmælisdaginn, en hún segir okkur að líklega var drengurinn fæddur árið 4 fyrir Krist. En trúin er ekki í vafa — tímatalið byrjar með fæðingu hans og afmælisdagurinn er myrkasti tími ársins, þá kemur hann í heiminn og þetta kemur skýrt fram í jólaguðspjalli Jóhannesar sem kennir fæðingu Jesú við ljósið, hið sanna ljós, sem í eðli sínu er alger andstæða við myrkrið.
Í upphafi Jóhannesarguðpjalls er undrinu lýst með öðrum táknum og líkingum. Þar er talað um logos, um orðið, skynsemina, viskuna, orðið sem var í upphafi, orðið sem varð hold. Hér er talað um komu guðs í heiminn, fæðingu hans sem lítils barns, en þeir textar sem kirkjan vísar til í upphafi kirkjuársins fjalla einnig um komu hans í annarri merkingu, endurkomuna, sem réttláts dómara sem dæmir um verk og vilja mannanna. Þessir textar falla oft í skuggann af myndinni fögru af nýfæddu barninu í örmum móður sinnar, en okkur ber að hafa þá einnig í huga.
Á þeim tímum sem nú eru leitum við að kjölfestunni og við vitum og skynjum að hana er að finna í einföldum grundvallargildum. Það er litið til stofnunarinnar sem við þjónum, Háskóla Íslands, sem kjölfestu í þeim erfiðleikum sem þjóðin glímir við nú og því er mikilvægt að við stöndum vörð um þá stefnu sem mörkuð hefur verið þótt nú um stundir sé ágjöf og erfiðleikar framundan - já sumir sjá aðeins svartnætti.
Kirkju Krists er oft líkt við skip, skip á siglingu yfir hafið til fyrirheitna landsins og við vitum það sem eyþjóð og þjóð sem þekkir sjómennsku, að það er mikilvægt að áhöfnin standi saman, að kærleikur, virðing og samhjálp ríki í samskiptum einstaklingana um borð. Þetta eru viðmiðin sem hafa gildi og skila okkur fram á veginn. Á jólunum erum við minnt á að leiðarstjarnan fyrir stafni, morgunstjarnan er einmitt hann sem fæddist í heiminn á jólunum, Kristur, sem vakir yfir okkur og vitjar okkar.
Hann er morgunstjarnan sem boðar nýjan dag, bjartan dag, bjarta framtíð.