Mæðgin

Mæðgin

Myndin segir mér að taka við barninu, hlúa að því, virða það, fara vel með það, taka þátt í því að vera áframhaldandi farvegur fyrir það í veröldinni, og taka eftir móðurástinni, því sterka afli, sem birtir mátt Guðs, sem birtir mátt huglægra gæða eins og kærleika. Það eru þau gæði sem mölur og ryð fá ekki eytt, það er hinn himneski fjársjóður eins og svo oft hefur verið minnt á.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
25. mars 2012
Flokkar

Ég heimsótti Stykkishólm síðustu helgi og átti þar heilnæma og notalega dvöl í faðmi stórfjölskyldunnar. Í Stykkishólm hef ég ekki komið nema einu sinni áður. Um er að ræða afar sjarmerandi bæ, er hefur yfir sér norskan og danskan blæ, sem útlit margra húsanna skapa. Það er því ekkert óeðlilegt að þarna séu t.d. haldnir Danskir dagar árlega. Þá er dásamlegt að horfa út á Breiðafjörðinn, þar sem nokkrar af eyjunum óteljandi blasa við. Ég hef heyrt það hjá sjómönnum á Grenivík að þarna séu verulega fengsæl mið, ég efast ekki um það. Við erum að tala um blómlegt byggðarlag, sem fóstrar um 1100 manns, og gott að vita að slík byggðarlög séu ekki einvörðungu í Eyjafirðinum. Þrátt fyrir að körfubolti taki mikið rými í Hólminum svokallaða þá er alveg ljóst að sterkur farvegur hefur skapast þar fyrir trúarlíf. Í sjö áratugi hafa systur frá St. Fransiskussreglunni sett svip sinn á mannlífið í bænum og byggðu þær t.d. upp heilbrigðisþjónustuna þar í samvinnu við heimamenn. Þarna gekk ég líka framhjá reisulegu íbúðarhúsi, þar sem Hvítasunnusöfnuðurinn hefur aðsetur sitt og óhætt er að fullyrða að sóknarkirkjan standi tignarleg, áberandi bygging með sérstökum stíl teiknuð af Jóni Haraldssyni arkitekt. Á degi Drottins fyrir sléttri viku síðan ákvað ég að sækja messu í Stykkishólmskirkju ásamt móður minni. Það var ánægjulegt samfélag í friðsamri umgjörð rétt eins og hér í dag. Við sátum þarna mæðginin og tókum við Orðinu eilífa af vörum prestsins sr. Gunnars Eiríks Haukssonar og tókum jafnframt þátt í söngnum, þar sem kórinn söng uppáhaldssálma sína skv. tilkynningu með söfnuði. Allt var það með miklum sóma gert, það er dýrmætt fyrir söfnuði landsins að hafa góða kóra í þjónustunni og Laufásprestakall á t.a.m. því láni að fagna. Ég hugsaði með mér að allur söfnuðurinn í þjónustunni er farvegur fyrir Guðs kristni hér í heimi, og þess vegna er það ánægjulegt að sjá kórfélaga, aðra þjóna og kirkjufólk leggja sig fram um að vanda til verka við að skapa helgar stundir í tilverunni. Ég fór að hugsa um þetta í téðri messu, þar sem ég sat við hlið móður minnar og horfði á stóra altarismynd í kirkjunni, sem birtir Maríu móður Jesú, þar sem hún heldur á barni sínu. Myndin er eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur myndlistarkonu, sem er héðan frá Akureyri, og naut t.a.m. þess heiðurs að vera kjörin bæjarlistamaður Akureyrarbæjar 1996-1997. Hún hefur mikið unnið með þemað móður og barn og það gerir hún, svo ekki verður um villst, í þessu verki sínu. Myndin hefur sérstök áhrif á mann. Þarna svífur móðirin fyrir ofan íslensk fjöllin á stjörnubjörtum himni og ber fram barn sitt eins og gjöf. Birta umlykur móður og barn í náttmyrkrinu, birta vonar. Myndverkið sendi mér þau skilaboð að Jesúbarnið sé sú gjöf sem móðirin María tekur þátt í að gefa þér, hún sem bauðst til að vera farvegurinn fyrir holdgerving vonar inn í þennan heim. „Sjá ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Myndin segir mér að taka við barninu, hlúa að því, virða það, fara vel með það, taka þátt í því að vera áframhaldandi farvegur fyrir það í veröldinni, og taka eftir móðurástinni, því sterka afli, sem birtir mátt Guðs, sem birtir mátt huglægra gæða eins og kærleika. Það eru þau gæði sem mölur og ryð fá ekki eytt, það er hinn himneski fjársjóður eins og svo oft hefur verið minnt á. Og ég hugsaði með mér með móðurástina við hlið mér og fyrir framan mig að þegar hún er til þá getur illskan ekki sigrað að lokum. Það bara getur ekki verið og það er bjart framundan eins og kristin von tjáir okkur í sífellu. Þá fær maður einnig betur skilið sigurinn á krossinum, sigur lífs og kærleika yfir dauða og djöfli. Það er vissulega þannig að illskunni tekst stundum að snúa móðurástinni á hvolf þannig að okkur bregður í brún. Það þarf örugglega heilmikið til. Við höfum því miður heyrt sárar fréttir af pyntingum á börnum innan sem utan heimila þeirra, þau svívirt og kvalin og við höldum fyrir augu og eyru því það er allt eitthvað svo óeðlilegt, það er alltént einlæglega á skjön við fyrrnefnda altarismynd. Við spyrjum okkur sömuleiðis hvernig þetta sé hægt, hvernig er hægt að koma svona fram við börn, hvernig er hægt að skaða saklausar sálir, hvað býr að baki? Þegar ég tala um heimili þá á ég einnig við staði þar sem við teljum okkur vera örugg eins og kirkjuna, hún skal vera andlegt heimili, tryggt athvarf í nauðum, en þar hafa sömuleiðis átt sér stað vondir atburðir sem skekkja allt heilbrigt siðgæði og velsæmi, já þar smeygir illskan sér eins og höggormur inn í aldingarð og nærist t.a.m. á þeim röddum er gera síðan allt heimilið, íbúa þess og anda tortryggilegt í ljósi válegra einstakra viðburða. Það er þyngra en tárum taki að heyra af slíku. Þegar slíkt hendir er mikilvægt að muna eftir hreinni og tærri mynd af móðurelskunnar í samskiptum Maríu og Jesú. Hún fæðir hann fyrir það fyrsta í kuldalegu umhverfi illsku og ótta, sem hefur ætíð verið til, en með afli móðurástar vefur hún barnið reifum, verndar og skýlir með hjálp radda og ljóss er eiga uppruna sinn hjá Guði, já hjá gæsku og hreinleika. Ungu foreldrarnir í Betlehem forðum flýja svo út fyrir umráðasvæði illsku og hættu og snúa ekki til baka fyrr en hún er liðin hjá. Og áfram hélt María að fylgjast með drengnum einstaka. Hún var með í förinni til Jerúsalem þegar Jesús var 12 ára gamall og kom í fyrsta sinn til musterisins. Í borginni hvarf sveinninn en óttaslegin móðir gerði dauðaleit að honum og fann hann að lokum í musterinu, húsi föðurins á himnum. María var viðstödd þegar Jesús gerði sitt fyrsta kraftaverk í Kana og henni leið afar illa að vita af syni sínum í þeirri hættuför sem boðunarstarf hans var meðal ísraelsþjóðar, hún grét við krossinn en hún hélt áfram að lifa með syni sínum eftir upprisu hans í frumsöfnuðinum í Jerúsalem. Móðurástin leiddi þannig stöðugt til nándar og efldi hana, það er víst eðli hennar. Verði misbrestur þar á fjarlægist fólk fremur líf sitt og tilfinningar og ekki bara það, það fjarlægist líka Guð og barráttan við að nálgast Guð aftur verður þyngri og dekkri, en þó ekki vonlaus. Vonin liggur nefnilega m.a. í títtnefndri móðurást þeirri sem María sýnir Jesúbarninu, sú ást getur bætt fyrir þau vonbrigði er geta orðið í samskiptum foreldris og barns, ekki ósvipað því að dauði Jesú á krossi bætir fyrir afglöp og syndir mannkyns, fyrirgefningaratburðurinn á Golgata, þar sem Guð finnur farveg fyrir ást sína í garð hverrar manneskju hjálpar henni að opna hjarta sitt og huga og sættast við tilfinningar sínar og uppruna, hvort sem hann er brotinn eða heill. Með þeim hætti eiga allir möguleika, og þess vegna á ekki að útskúfa einum né neinum, þess vegna er það fásinna og fáviska að standa á torgum og kalla hátt hverjir fara til himna og hverjir fara til helvítis, þegar þú útilokar fólk, þá útilokar þú sjálfan þig. Myndin í Stykkishólmskirkju bendir m.a. á þetta og hún bendir þér á að þiggja þann sannleika, þiggja lífið, það gerði María, hún þáði einstakt hlutverk, hún þáði það að verða móðir, það að gefa heiminum líf. Er eitthvað sem hindrar þig í því að þiggja gjöf lífsins? Pældu í því hvað það getur verið? Er það uppruni þinn, er það geðsslag þitt, eru það óuppgerðar tilfinningar þínar, eru það brostnar vonir, er það forlagatrúin sem á ekkert skylt við kristna trú, já veltu þessu aðeins fyrir þér? Ég hugsaði mikið um þetta í kirkjunni fyrir viku síðan en missti þó ekki af öllu sem presturinn sagði. Að lokinni messugjörð mundi ég eftir því að styðja við fullorðna móður mína aldrei þessu vant og við mæðgin gengum saman út úr kirkjunni eftir að hafa þakkað Guði og þjónum fyrir notalega og lærdómsríka stund. Ég man að ég nam aðeins staðar í útidyrum og þakkaði í huga mínum altarismyndinni fyrir sterk skilaboð móðurástar. Amen.