Snýst þetta ekki um okkur?

Snýst þetta ekki um okkur?

Sálmurinn birtist í Vísnabók Guðbrands árið 1612. Tveimur árum áður hafði Galíleó rýnt í sjónaukann og séð fyrstur manna tungl ganga í kringum plánetuna Júpíter. Það sannfærði hann enn frekar um að í sólkerfinu væru fyrirbæri sem ekki snerust um hvirfil jarðarbúa. Þetta snýst sem sagt ekki allt um okkur.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
25. desember 2022
Flokkar

Hvar er miðjan? Hver er kjarninn sem allt snýst um? Svona getum við spurt og svona höfum við spurt. Við sjáum líka ýmis merki þess að fólk hefur þóst vita svarið á ýmsum tímum.


Hvar er miðjan?

Valdhafar settu niður kennileitin. Steinblokkir voru dregnar hundruði kílómetra og við ákveðin tímamót beinast geislar sólar á tiltekinn hvirfilpunkt í miðjunni. Gömul kort sýna helgar borgir sem gegna þessu hlutverki. Nöfn landa og landsvæða vísa til miðjunnar. Pílagrímar lögðu á sig langa leið til að vitja þeirra áfangastaða og stóðu mitt undir sólinni í þeirri trú að alheimurinn snerist utan um þennan tiltekna reit.

 

Það var mikið áfall þegar hugsuðir bentu á að raunin væri ekki sú að sólin og önnur himintungl gengju á sporbaug í kringum okkur sjálf. Sagan sýnir að þegar Kópernikus, Galileo, Brúnó og aðrir frumkvöðlar tóku að halda fram þessum sjónarmiðum þá hafi valdið brugðist ókvæða við. Og á einhvern hátt getum við sagt að valdhöfum hafi verið vorkunn. Hversu miklu hafði verið tilkostað til að staðfesta fyrri hyggju sem nú var í uppnámi? Hversu mikið var í húfi? Hvað yrði um þá heimsmynd alla ef raunin er sú að við þeytumst um í tóminu og höfum í raun hverfandi áhrif á þá ógnarkrafta sem leika um himingeiminn?

 

Við getum líka leikið okkur með þá hugsun að þessi tíðindi hafa ekki náð skilningi okkar og vitund nema að takmörkuðu leyti – enn í dag. Það þykir í það minnsta ekki tiltökumál að ræða um sól-setur og sólar-upprás – þótt öllum megi vera það ljóst að sólin er ekkert að rísa eða setjast.


Já, það getur einmitt verið erfitt að horfast í augu við þá mikilvægu staðreynd: að þetta snýst ekki um okkur – þegar öllu er á botninn hvolft. Þau sannindi geta átt torsótta leið að hjörtum okkar í víðari skilningi.


Jólanóttin

 

Og nú er jólanóttin runnin upp. Skammdegið grúfir yfir öllu hjá á norðurhveli. Við höldum þessi tímamót um það leyti sem gangur sólar lengist að nýju – nokkuð sem hefur snert við fyrri kynslóðum fólks allt frá steinöld þegar þjóðir hafa reynt að blíðka þau öfl sem færa birtu og yl.

 

Þetta er stundin þar sem mér líður jafnvel eins og tíminn standi í stað. Jólanóttin er jú ákveðinn skurðpunktur eftirvæntingar og minninga. Við höfum talið niður dagana – hvort heldur það er í spenningi barnsins eða fullorðnum áhyggjum af því sem þarf að klára fyrir jól.

 

Svo á komandi dögum getum við vonandi rifjað upp þetta kvöld og þessa nótt. Óskandi er að hún veiti okkur notalega kennd þegar við hugsum um samveruna, sönginn, helgina, já sjálfa jólasöguna. Þá verður hún vettvangur fallegra minningarbrota.

 

Við getum sagt að jólanóttin sé í þeim skilningi nokkurs konar miðja. Hún er í það minnsta ólík öðrum nóttum ársins og stendur þeim ofar.

 

Tímaleysi hennar birtist ekki síst í því hvernig við getum leyft stundinni að tengja okkur við liðnar kynslóðir á liðnum öldum.


Cor

 

„Nóttin var sú ágæt ein“ sungum við hér áðan í viðlaginu við sálm séra Einars Sigurðssonar í Heydölum. Upphaflegt heiti þessa mikla ljóðabálks sem telur margfalt fleiri erindi, er „Kvæðið af stallinum Kristí“ og er í raun Vöggukvæði. Það er ort undir víkivakahætti og við getum séð fyrir okkur að prúðbúin hafi forfeður okkur og mæður stigið hægan hringdans eins og við þekkjum enn í dag hjá Færeyingum. Áður en sögurinn hófst komu þessar upphafslínur:

 

Emmanúel heitir hann

herrann minn enn kæri.

Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

 

Emmanúel þýðir: „Guð er hér“. Já, þetta er staðurinn þar sem Guð mætir okkur. Og skáldið góða – er ekkert að velta því fyrir sér hvort steinblokkir, hallir eða höfuðborgir séu í miðjum kjarna hins óþekkta alheims.

 

Því, kjarninn sjálfur er nefnilega vaggan þar sem hvítvoðungurinn hvílir. Emmanúel – Guð er hér – þetta er það sem öllu máli skiptir. Svo laumar hann til okkar í einu versinu lýsingu á því hver þessi vagga er sem við hrærum með vísnasöng. Við sungum það hérna áðan:

 

Þér gjöri eg ei rúm með grjót né tré,

gjarnan læt eg hitt í té,

vil eg mitt hjartað vaggan sé,

vertu nú hér minn kæri.

Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

 

Kjarninn – er það ekki annað orð yfir hjartað? Cor er það á latínu – og merkir einmitt hvort tveggja: hjartað og kjarnann. Það er miðjan sjálf, upphafsreiturinn. Þar byrjar sjónardeildarhringur hverrar manneskju sem horfir í kringum sig og kann að furða sig á óravíddum alheims og sköpunar.

 

Boðskapur jólanæturinn talar inn í þennan kjarna – talar til hjarta mannskjunnar og segir þetta orð sem Einar gerði að upphafslínu þessa sálms: Emmanúel: Guð er hér.

 

Og þegar hjartað hrærist í hluttekningu yfir hinu viðkvæma lífi, eins og hið æðsta mætir okkur í fæðingarfrásögninni þá vöggum við hvítvoðungnum.


Séra Einar og Galíleó

 

Hvar er miðjan? Það er gaman að leiða hugann að því að vísan var samin einmitt um það leyti sem vísindabyltingin svo nefnda var að hefja innreið sína í menningu og heimsmynd Vesturlanda.

 

Sálmurinn birtist í Vísnabók Guðbrands árið 1612. Tveimur árum áður hafði Galíleó rýnt í sjónaukann og séð fyrstur manna tungl ganga í kringum plánetuna Júpíter. Það sannfærði hann enn frekar um að í sólkerfinu væru fyrirbæri sem ekki snerust um hvirfil jarðarbúa. Þetta snýst sem sagt ekki allt um okkur.

 

Það er eins og hið íslenska skáld umorði þá hugsun hafði setið svo lengi í fyrri kynslóðum og bendir á þá staðreynd að hvernig sem allt hreyfist, þá sé hjartað okkar mælikvarðinn sem við ættum að leggja á gott og illt. Þar leynist kjarninn og þar hefur hann fundið vögguna sem Jesúbarnið hvílir í.

 

Svo hrærum við vögguna með vísnasöngnum.