16. september skipar ákveðin sess í lífi okkar hjóna. Þetta var síðasti dagurinn áður en við höfðum formlega myndað fjölskyldu. Þennan dag fyrir sautján árum vorum við par. Degi síðar vorum við orðin fjölskylda.
Þvílík breyting. Eftir að dóttir okkar kom í heiminn varð staða okkar öll önnur en áður hafði verið. Við bárum nú mun meiri ábyrgð en áður. Við þurftum að hugsa lengra fram í tímann. Gleðin varð sannarlega öll miklu meiri og tilveran öðlaðist nýja dýpt. Óslitinn nætursvefn var hins vegar liðin tíð – í bili. Margir og langir veikindadagar fylgdu, heimsóknir á móttökur spítalanna og eyrnaskoðun og lyfjajöf – allt þetta varð hluti af rútínu daganna þetta fyrsta ár okkar sem fjölskylda.
Hversu léttvægar höfðu áhyggjur okkar verið fram til þessa? Og gleðin áður ,,hljómlaus, utangátta og tóm“? Já, mikil var breytingin – frá pari til fjölskyldu.
Þessi tímamót reyna á fólk. Tölur sýna að stærstur hluti skilnaða og sambandsslita verður á fyrsta árinu eftir að barnið fæðist. Aldrei er stuðningurinn við fjölskyldur brýnni en einmitt þá. Þar getur kirkjan leikið stórt hlutverk.
Nú í haust býður Keflavíkurkirkja upp á námskeið að bandarískri fyrirmynd sem eru hugsuð fyrir þennan hóp. Yfirskriftin er, ,,Barnið borið heim“ (e. Bringing Baby Home) og er þar miðlað fræðslu til nýbakaðra foreldra um breytt hlutverk þeirra og möguleika á að þroska og efla sambandið í takt við nýjar kröfur og ný tækifæri. Auk undirritaðs verður félagsráðgjafi með fræðsluna en skilyrði til þess að geta miðlað slíkri fræðslu er að hafa sótt námskeið í þessum fræðum.
Þetta er stórt tækifæri fyrir kirkjuna og þarna mætir hún brýnni þörf. Kirkjan tengist stærstu tímamótum í lífi fólks. Breytingin frá pari til fjölskyldu á sannarlega heima í þeim flokki. Óskandi er að verkefni af þessum toga verði í framtíðinni sjálfsagður hluti af starfsemi safnaðanna.