Orð til lífs

Orð til lífs

Aginn er nauðsynlegur þáttur kærleikans. Þetta vitum við foreldrar mæta vel. Ástin er ósönn án aga. Elskan til náungans og til sjálfs þín byggir á aga, að mannlegum kenndum séu sett mörk. Það er margt í Biblíunni sem lesist frá því sjónarhorni.

Guðspjall: Lúk 8.4-15

Á þessum vetri hefur ýmislegt verið sagt og skrifað um orð Guðs, Biblíuna. Vantrúarmenn, sem oft virðast meiri bókstafstrúarmenn en við hin, hafa dregið fram eitt og annað sem þeirra rannsókn á ritningum kristinna manna virðist benda til að sé á skjön við almenna skynsemi. Deilt hefur verið um nýja þýðingu á íslensku, tímabæra þó að flestra mati, enda hafði Biblían ekki verið þýdd í heild sinni í eitthundrað ár. Og svo hefur verið spurt að því hvaða erindi siðgæðið sem kristinn siður grundvallar á sinni Heilögu ritningu eigi inn í lög um grunnskóla.

Öll er þessi umræða gagnleg, þó ekki sé hún ávallt gleðileg. Við þurfum á því að halda að staldra við og íhuga okkar eigin afstöðu til Orðs Guðs. Með stórum staf er Orðið Jesús Kristur, samanber upphaf Jóhannesarguðspjalls, en með litlum staf er orðið fagnaðarerindið sem Biblían boðar, bæði í Gamla og Nýja testamentinu.

Við kristið fólk lesum Biblíuna á ýmsa vegu. Hvaða lestrargleraugu eru sett upp fer að einhverju leyti eftir því hvaða kirkjudeild við tilheyrum en líka eftir einstaklingum. Mesti munurinn birtist líklega í því hvernig fengist er við siðrænar spurningar nútímans, sem varla voru til á því fimmtánhundruð ára tímabili sem ritunartími Biblíunnar spannar. Grundvöllurinn er þó ávallt hinn sami, traustið á kærleiksríkri leiðsögn Guðs sem birtist í helgiritunum.

Orð í ást og aga Lúther sagði samtíma sínum að lesa Heilaga ritningu með Jesú Krist fyrir augunum. Hann einn væri Orð Guðs, kærleikurinn holdi klæddur, og þar með lykillinn að kærleiksboðskap orðs Guðs, Biblíunni. Með því er ekki sagt að ekkert sé að marka annað en það sem augljóslega miðlar kærleika. Guðfræðin skiptir boðskap Heilagrar ritningar í lögmál annars vegar, fagnaðarerindi hins vegar. Lögmálið er sett til að tyfta og aga, samanber þessi vers úr 12. Passíusálmi Hallgríms Péturssonar, um iðran Péturs:

Lögmál Guðs hrópar hátt hanagal annað, segir og sýnir þrátt, hvað sé þér bannað.

Það þvingar, þrúgar með, það slær og lemur, sorgandi, syndugt geð særir og kremur.

Það verkar sorg og sút þeim seka manni, hjálpar þó engum út úr synda banni. ...

En Jesú álit skýrt anda Guðs þýðir, sá gjörir hægt og hýrt hjartað um síðir.

Lætur hann lögmál byrst lemja og hræða. Eftir það fer hann fyrst að friða og græða.

Orð Jesú eðla sætt er hans verkfæri. Helzt fær það hugann kætt, þó hrelldur væri.

Aginn er nauðsynlegur þáttur kærleikans. Þetta vitum við foreldrar mæta vel. Ástin er ósönn án aga. Elskan til náungans og til sjálfs þín byggir á aga, að mannlegum kenndum séu sett mörk. Það er margt í Biblíunni sem lesist frá því sjónarhorni. Sumt er stuðandi, enda barn síns tíma. Við lesum það og heimfærum upp á okkar líf eftir því sem við á. Svonefnt bókstafstrúarfólk innan hinnar kristnu fjölskyldu les einmitt Ritninguna þannig, ávallt með skírskotun til eigin lífs. Þannig les ég – mér til lífs.

Meira að segja stríðslýsingar Gamla testamentisins, svo framandi sem þær kunna að vera okkur hér norður frá, er hægt að lesa sér til sáluhjálpar. Megininntakið er þetta: Fel Drottni vegu þína og treyst honum, sama hver baráttan er. Hann mun vel fyrir sjá (Sálm 37.5) eða eins og segir í einni “stríðsbókinni”, Jósúabók:

Þessi lögbók skal ekki víkja úr munni þínum. Þú skalt hugleiða efni hennar dag og nótt svo að þú getir gætt þess að fylgja nákvæmlega því sem þar er skráð, til þess að ná settu marki og þér farnist vel. Hef ég ekki boðið þér að vera djarfur og hughraustur? Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast því að Drottinn, Guð þinn, er með þér hvert sem þú ferð (Jós 1.8-9)
Jarðvegur orðsins Í guðspjalli dagsins segir Jesús sögu, dæmisögu. Við þekkjum hana vel og hún á að vera okkur áminning um að skoða stöðu okkar gagnvart orði/Orði Guðs. Er hugur okkar lokaður eins og moldargata, troðin niður af forherðingu samtímans? Erum við hörð eins og grjót í afstöðunni til Guðs og hans blessaða orðs sem boðast okkur (Passíusálmur 44:10)? Leyfum við neikvæðri umræðu, þyrnum og netlum nútímans (Jes 55.13), að varna kærleika Guðs leið inn í líf okkar?

Jesús talar í dæmisögum. Hann veit að bæði fyrr og síðar kemur fólk ekki auga á sannleiksorð Guðs þó það birtist því augliti til auglitis. Það er ekki Guði að kenna heldur andlegri missýn og sjónskekkju fordómanna, sem hindra fólk í að sjá og meðtaka sannleika Guðs. Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki. Dæmisagan á að greiða Orðinu veg inn í huga fólks, auka skilninginn, gefa grósku inn í grandaleysið svo að við snúum okkur til Drottins sem miskunnar og fyrirgefur ríkulega (Jes 55.7).

Ígrundum afstöðu okkar. Skoðum okkur sjálf í þessu ljósi. Viljum við vera jarðvegur sem ber ávöxt – eða viljum við hindra framgang hins góða í okkar lífi og annarra? Hefðbundin kristin hugsun er sú að til að geta átt ávaxtarsamt líf (eða árangursríkt líf upp á nútímamál) sé þekking á Biblíunni og boðskap hennar grundvallaratriði. Þar sé að finna leiðsögureglur hins góða lífs, sem felst ekki í því að stýra öllu sjálfum sér til hagsbóta eða láta allt eftir sér, eins og nútíminn vill hafa það, heldur setja traust sitt á Drottin.

Svo er sáðmanninum farið. Hann tekur einn dag í einu og sleppir síðan tökunum og leyfir Guði. Auðvitað verður að vökva og rífa burt illgresi en vöxtinn gefur Guð. Þannig erum við samverkamenn Guðs í okkar lífi og annarra. Við þurfum að mýkja jarðveginn okkar, hafa opinn hug gagnvart Orði Guðs, lesa í Ritningunni, tala við frelsarann í bæn, sækja samfélag trúaðra í kirkjunni og þiggja; þiggja leiðsögn Guðs og lækningu lífsins. Með öðrum orðum að viðurkenna vanmátt okkar, trúa á æðri mátt sem geti gert okkur heil að nýju, láta líf og vilja lúta handleiðslu Guðs.

Útbreiðsla orðsins Við erum lánsöm hér uppi á Íslandi. Við höfum fengið að njóta orðs Guðs á okkar tungu frá því á 16. öld og jafnvel fyrr, því kaflar úr Biblíunni voru þýddir þegar á 13. öld. Flest íslensk heimili eiga líklega hina helgu bók, alla vega þar sem fimmtubekkingar hafa fengið að þiggja Nýja testamentið og Davíðssálma að gjöf frá Gideonfélaginu.

Hið íslenzka biblíufélag, www.hib.biblían.is stendur ár hvert fyrir söfnun til þýðingar- eða útbreiðslustarfa meðal þjóða sem ekki eru jafn lánsöm og við hvað varðar aðgengi að orði Guðs. Þetta árið er safnað til einangraðra svæða á Indlandi, en í þessu næstfjölmennasta ríki veraldar eru afskekktir þjóðflokkar sem aldrei hafa heyrt nafn Jesú nefnt. Læsi er þó nokkuð almennt og Biblíufélagið á Indlandi hefur til reiðu starfsmenn og sjálfboðaliða úr ýmsum kirkjudeildum og félögum til að vinna að dreifingu Biblíunnar á þessum landsvæðum.

Stuðning okkar við útbreiðslu Biblíunnar á Indlandi getum við sýnt í verki með því að leggja inn á söfnunarreikning HÍB nr. 0101-26-3555, kt. 620169-7739.

Opinn hugur fyrir Orðinu Einn lykill að heilsteyptu lífi er að lesa daglega í Biblíunni. Stundum hefur verið tekin líking af því að kaupa sér eitthvert tæki og reyna að nota það án þess að lesa leiðbeiningarnar. Þannig sé Biblían leiðarvísir hins kristna lífs sem allt kristið fólk þurfi að sjálfssögðu að kynna sér til að lífa lífinu til fulls, hinu kristna lífi í fullri gnægð eða eins og orð Jesú eru endurgefin í nýju þýðingunni: Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð (Jóh 10.10).

Ég les Biblíuna mér til lífs. Það er ekki sáluhjálparatriði að hafa lesið öll 77 ritin í öllum þeirra dásamlega fjölbreytileik. Það dugar að þekkja litlu Biblíuna, hafi maður lagt hana að hjarta sér: Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf (Jóh 3.16). Guð elskar mig svo mikið að hans eingetni sonur, Jesús Kristur, gaf mér líf sitt. Sömuleiðis þig og þér.

En lestur Heilagrar ritningar er mínu andlega lífi það sem maturinn er líkamanum. Stundum sekk ég mér ofan í heilu kaflana og finn bragðið af dýrindismáltið og háma í mig orðið. Á öðrum stundum er lestur Biblíunnar eins og að taka lýsi – ekkert gott á bragðið, en ákaflega hollt fyrir sjónina og vörn gegn ýmsum kvillum. Ritningunni hefur líka verið líkt við ástarbréf. Hún tjáir ást Guðs til veraldarinnar í margbreytileik mannlífsins. Sú ást er ekki blind. Það er heilbrigð ást, ást sem agar og setur mörk, hrósar og hughreystir.