Fortíðin vatnsgreidd og í matrósufötum

Fortíðin vatnsgreidd og í matrósufötum

Hversu oft skyldum við standa frammi fyrir framtíðinni? Á hverju andartaki lífs okkar hlýtur að vera svarið við þessari spurningu. Margur ber kvíðboga fyrir morgundeginum og til þess að gera næstu andartökum. Ekki vegna þess að hún – framtíðin stendur nakin frammi fyrir okkur og fortíðin í matróstufötum og eða blúndukjól – saklaus og hrein, sem hún alls ekki er.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
27. nóvember 2005
Flokkar

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Herrann þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.

Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:

Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.

Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum! Matt 21.1-9

Framtíðin í auðmýkt

Hversu oft skyldum við standa frammi fyrir framtíðinni? Á hverju andartaki lífs okkar hlýtur að vera svarið við þessari spurningu. Margur ber kvíðboga fyrir morgundeginum og til þess að gera næstu andartökum. Ekki vegna þess að hún – framtíðin stendur nakin frammi fyrir okkur og fortíðin í matróstufötum og eða blúndukjól – saklaus og hrein, sem hún alls ekki er. Ekki vegna þess að hún vill það heldur vegna þess að við klæðum hana í þau föt. Við erum gjörn á að segja: “Í gamla daga var þetta betra. Því þá var það svona og hinsegin...”

Það er nú einu sinni þannig að við vitum hvað við höfum gengið í gegnum og við eftir bestu getu tekist á við það. En öðru máli gegnir með framtíðina hún er ekki komin. Hún er alltaf einu skrefi á undan okkur. Það skiptir engu hvort við erum fótfrá eða lúin, hún er alltaf á undan okkur. Við getum aðeins lifað í núinu en aldrei í framtíðinni, þótt við náum henni. Það er vel hægt að líkja þessu við martröð sem við könnumst við þegar við dreymum um að einhver sé á hælum okkar og við hlaupum og hlaupum en erum alltaf á sama stað. Kannski hugsar framtíðin þannig. Hún getur ekki hrist okkur af sér því við erum allaf á hælum hennar hversu hratt sem hún hleypur framtíðin. Framtíðin er ekki martröðin heldur er martröðin við sem erum að reyna að ná til hennar til að eiga orðastað við hana. Hún vill ekki láta ná tali af sér. Þegar og ef við komust upp að henni og ætlum að segja eitthvað við hana komum við ekki upp orði því á því andartaki að við ætlum að segja eitthvað við hana er hún farin-framtíðin, það er einfaldlega hennar háttur. Því hvað höfum við að segja inn í framtíðina? Einhver kann að segja margt og mikið á meðan annar/önnur segja fátt. Ef við höfum yfir höfuð eitthvað að segja kunna þau orð ekki ná langt á veginum sem liggur inn til framtíðar. Oftar en ekki er fálega tekið á móti þeim og alls ekki fagnað. Því það sem frá okkur kemur er aðeins eitthvað sem berst af munni manneskju. Framtíðin kann að hlusta og ekki hlusta á okkur. Víst er að hún hefur ekki viðtalstíma. Þannig að við verðum að sætta okkur við að hún fer sínu fram stundum með skelfilegum afleiðingum og stundum til góðs. Stundum vegna þessa sem við manneskjurnar höfum lagt inn til framtíðarinnar og stundum án þess að við höfum hvergi komið þar nærri, erum saklaus eins og ungabarnið sem fært var til skínar hér áðan, sem nú á þessari stundu sefur vært í faðmi foreldris síns og hefur engar áhyggjur af framtíðinni. Barnið er alls ókunnugt um framtíðina og þess sem bíður á vegi þess til framtíðar. Það eina sem við getum gert er að horfa til framtíðar í auðmýkt. Ganga til hennar í auðmýkt og von um að vel verði fyrir séð.

Værðarvoð næturinnar er ekki myrkrið

Svipað því sem Jesús gerði og sagt er frá í guðspjalli dagsins. Þegar hann reið inn í Jerúsalem á ösnu. Hann reið inní borg þar sem ráðamenn hennar voru honum óvinveittir. Hann vissi ekki hverjar móttökurnar yrðu ekki frekar en við vitum hvernig morgundagurinn er skapi farinn. Heilsar hann okkur með virktum. Fagnar hann okkur eða birtir ekki af degi gleðinnar með söng umhverfisins? Hver dagur er sem gjöf sem við fáum óverðskuldað að opna og þó ekki enn því að nóttinn grúfir yfir og birta nýs dags enn falin í dimmu framtíðarinnar.

Nóttinn sefur ekki í myrkrinu og kúrir undir hlýrri sæng. Hún er heldur ekki andvaka og byltir sér því hún vakir yfir okkur. Hún hvíslar í vitund okkar sem kunnum að kvíða deginum sem koma skal, að við eigum að vaxa og við eigum að þroskast. Það er boðskapur aðventunnar um tilkomu Drottins. Við erum í umvafin myrki nætur, það er liðið á hana svo að birta nýs dags er úti við sjóndeildarhringinn. Dagur Drottins er í nánd-en hann er ennþá ekki runninn upp.

Það er tvennt til í lífinu að láta framtíðina koma sér algjörlega á óvart og hitt að undirbúa sig fyrir hana eins og okkur er mögulegt að gera. Aðventan er tími undirbúnings.

Undirbúnings fyrir það sem koma skal. Ekki aðeins undirbúnings hins veraldlega heldur og hins andlega. Aðventan er undirbúningur fyrir birtu nýs dags. Ef aðventan gæti mælt frá munni þá mundi hún tala einni tungu inn í framtíðina. Þrátt fyrir það heyrum við hana sem fjölradda kór og göngum eftir þeim röddum í allar áttir þangað til að við erum búin að missa okkur og týnast í áttleysi.

Aðventan er alltaf samkvæm sjálfri sér. Hún kemur í kyrrð og í lotningu. Það gerum við þegar við nálgumst vöggu ungabarns, í kyrrð og ró og undrumst sköpun Guðs. Það erum við sem stöndum hjá og horfum á hana nálgast og verða að veruleika í lífi okkar sem gerum hana stundum hávaða og erilsama. Það er ekkert sem segir að hún skuli vera þannig –aðventan. Hún gengur með okkur, hún gengur hjá okkur, hún gengur á undan okkur og sýnir okkur mannlífið – lífið og tilveruna eins og það mætti vera, en er ekki endilega vegna þess að við gerum hana þannig. Hún veitir okkur gleði. Hún gerir okkur döpur. Ekki vegna þess að hún gefur tilefni til þess – heldur vegna þess að við erum stödd þar í lífinu sem veldur okkur hugarangri. Ekki vegna þess að hún – aðventan vilji það. Miklu frekar að við finnum okkur í þeim aðstæðum vegna fátæktar, vegna sorgar missis vegna þess að við eigum lítið til að gleðjast yfir. Vegna þess að við höfum ekki bolmagn til að veita okkur og öðrum það sem nútíminn kallar á að við gerum svo mikið á tiltölulegum stuttum tíma. Aðventan er margfróð um staðhætti hugans hjá hverju og einu okkar. Við göngum skrefinu á eftir og við ákveðum hvort við göngum humátt á eftir aðventunni og þangað sem hún ætlar sér að leiða okkur eða að við tökum okkur til og lítum á útstillingaglugga tilverunnar með ýmsum kostaboðum sem erfitt er að ganga framhjá án þess að gera eitthvað í því. Aðventan er ekki að flýta sér en þolinmæði hennar eru takmörkunum háð og kann það vera stundum, að við missum sjónar af henni um stund, en flest finnum við hana aftur og felum okkur í birtu hennar frekar heldur en í skugga. Aðventan er stór og að sama skapi birtan sem hún varpar frá sér og skuggar hennar miklir sem við manneskjurnar köllum fram í eigin huga og vörpum fram í veruleikann og eða höldum því fyrir okkur sjálf.

„Borgarhlið væntinga“

Aðventan er undirbúningstími jólanna. Þá ekki aðeins undirbúningur hins ytra heldur og ef eitthvað er mun mikilvægara undirbúningur hins innra sjálfs. Þess sem snýr sjaldan eða aldrei út á við. Það sem snýr út á við er vel sýnilegt. Eins og ljósin, og skrautið og allt það sem fylgir undirbúningi jólanna. Það er allt gott um það að segja ef við gleymum okkur ekki. Gleymum ekki að setjast niður og og tendra ljósið innra með okkur. Það er ekki nóg að hafa ljósið hangandi utan á ef það er myrkrur innra með okkur. Hið innra kúldrist undir sæng draum okkar sem fá ekki að vakna og verða að því sem við helst óskum okkur. Aðventan er óskastund og hún vill fá að banka á dyr hjartna okkar og fá okkur til að koma út að leika. Það gerir hún hvort sem við viljum það eða ekki. Hvort sem við heyrum bank hennar á “hurð” tilfinninga okkar eða ekki. Hún stendur á þröskuldi veruleika okkar í dag. Hún er ekki einsömul og hún er einradda.

Aðventan talar til okkar og segir að Jesús Kristur er konungurinn, sem var, er og kemur. Á hinum fyrstu jólum kom hann í barninu í jötunni, til að reisa fallinn heim. Hann mun koma á efsta degi, öllum augljós, þannig að hvert auga mun sjá og hvert eyra mun heyra. Guð er að koma í heiminn vegna þess að hann ann sköpun sinni og vill umfaðma hana í elsku. Hann spyr ekki hvort þú ert verður elsku hans. Hann setur engin skilyrði önnur en að þú kannist við mennsku þína. Þú kannist við veikleika þinn og styrk.

Kann að að vera að þú hikir við “borgarhlið” lífs þíns vegna þess að þú berð ótta í hjarta hvað gæti mætt þér innan þess. “Borgarhlið” okkar, sem við komum upp sjálf og efnistakan er fortíðin og framtíðin skilur af hið ytra og hið innra sjálf.

Aðventan-sá tími sem afmarkast af deginum í dag og síðasta sunnudag fyrir aðfangadag er og ætti að vera tími umhugsunar. Leyfa sér aldrei sem fyrr að líta um öxl og það sem mikilvægara er að horfa fram á veginn. Líta um öxl og brosa af fortíðinni sem fyrir einhverjum er vatnsgreidd og í matrósufötum.

Verum upplitsdjörf þegar við horfumst í augu við framtíðina og fyrirverðum okkur ekki og lítum ekki undan þótt hún komi okkur fyrir sjónir sem ókunnug tíð. Við vitum ekki hvað morgundagurinn hvíslar í eyru. Við vitum ekki hvort við viljum yfir höfuð hlusta á hann og fara okkar fram.

Við göngum fram inn í hvern dag inn í framtíðna til að gera það sem skiptir máli. Ekki aðeins fyrir okkur heldur og náunga okkar hver sem hann er og hvar sem hann er. Það er eitthvað sem er aldrei of seint að byrja á. Aðventan er góður tími til að byrja á að snerta á og pota í framtíðina því í dag er “áramót” kirkjuársins. Á þeim tímamótum og þeim tíma sem spenntur bíður þess að taka á móti okkur skulum við óhikað umbreyta framtíðinni fyrir marga með því að taka þátt í söfnun Hjálparstarfs Kirkjunnar. Fyllum baukana sem borist hafa heim til okkar með von og nýjum tíma fyrir þá sem líta til framtíðar í ótta-hvað hún ber með sér.

Því í dag og aldrei sem í dag stöndum við-við “borgarhlið” framtíðar okkar. Hvað bíður okkar vitum við ekki. Það eina sem við getum gert er að ganga inn um hliðið í auðmýkt. Þannig getum við lokið upp ekki aðeins “borgarhliði” heldur og “borgarhliðum” framtíðar ssvo margra þótt við finnum okkur í vanmætti hafa um það að segja að umbreytt tilveru einhvers eða einhverra sem á og eða átti sér ekki von um birtu framtíðar. Þannig og aðeins þannig getum við staðið frammi fyrir framtíðinni vitandi ekki hvort hún taki fagnandi á móti okkur eða ekki í styrkleika vanmáttar okkar og auðmýktar.