Áhyggjurnar, móðurástin og gleymskan

Áhyggjurnar, móðurástin og gleymskan

„Mamma, þú verður að lofa að gleyma ekki að koma að sækja mig“ segir sjö ára sonur minn við mig á hverjum einasta morgni þegar ég kveð hann við dyrnar að skólastofunni hans.

„Mamma, þú verður að lofa að gleyma ekki að koma að sækja mig“ segir sjö ára sonur minn við mig á hverjum einasta morgni þegar ég kveð hann við dyrnar að skólastofunni hans. Og nú er rétt að taka það fram strax svo söfnuðurinn fari ekki að hafa áhyggjur af velferð piltsins að það hefur aldrei gerst að við foreldrarnir höfum gleymt að sækja drenginn okkar, ekki ennþá að minnsta kosti! Engu að síður hefur hann áhyggjur af því að svo kunni að fara einn daginn að hann verði hreinlega ekki sóttur og verði að hafast við í skólanum yfir nótt. Hvernig svarar maður svona áhyggjum? Ég er satt að segja ekki viss þótt ég hafi reynt ótal útgáfur undanfarna daga. Það sem ég veit er að það er ekki gott þegar áhyggjur, sem stundum eru ástæðulausar, hafa of mikil áhrif á líf okkar.

Í lestri dagsins úr spádómsriti Jesaja heyrum við hvernig Guð bregst við áhyggjum fólks sem lýsir því yfir að Guð hafi gleymt þeim, að aðstæður þeirra í lífinu séu með þeim hætti að það sem hefur hent þau sé svo hræðilegt að það gæti aldrei hafa gerst ef Guð bara hefði haldið verndarhendi sinni yfir þeim. Hér er um að ræða fólk af Ísraelsþjóðinni sem hafði verið herleitt til Babyloníu og við það misst margt af því sem þeim var kærast: föðurland sitt, heimili, atvinnu og jafnvel ástvini. Og við þessar aðstæður var undirstöðum trúar þeirra ógnað eins og verða vill í ítrustu aðstæðum lífsins. En Guð svarar, ávarpar áhyggjur þeirra með því að vísa í það sem við getum eflaust verið sammála um að lýsi einhverjum nánustu tengslum milli tveggja einstaklinga sem við getum hugsað okkur. „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?“ Þetta svar Guðs hlýtur að slá á óttann, Guð segist vera eins og móðir brjóstbarnsins sem vakir yfir velferð þess daga og nætur og getur hreinlega ekki gleymt barninu sínu, þótt hún gleymi reyndar flest öllu öðru, eða það er mín reynsla af fyrstu vikum eftir fæðingu barna minna að muna varla hvað ég heiti heldur hverfa algjörlega inn í hlutverkið sem brjóstmjólkandi móðir og hafa varla sinnu á neinu öðru. Ég man t.d. vel eftir því hvað mér fannst merkingarlaust að hafa fréttatíma í útvarpi og sjónvarpi, og fáránlegt að einhver skyldi enn hafa áhuga á kvótamálum, ESB eða forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu þegar merkilegasta viðburði mannskynssögunnar – fæðingu barnsins míns – var ekki gefinn nokkur gaumur.

En – svo kemur hið óvænta, Guð bætir við:“Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig í lófa mér.“ Hér erum við minnt á það að öllum myndlíkingum af Guði eru takmörk sett. Við hreinlega eigum ekki réttu eða nógsamlegu orðin til að lýsa Guði. Af því við vitum að mæður brjóstbarna eru þrátt fyrir allt manneskjur sem af einhverjum ástæðum geta gleymt börnunum sínum. Fréttir af vanrækslu barna þekkjum við og heyrum allt of oft og stinga okkur í hjartað, og jafnvel þótt svo sé ekki þykir mömmum ósköp gott að fá að gleyma börnunum sínum í smástund og hugsa um eitthvað allt annað. En Guð er ekki þannig móðir, og ástæðuna fyrir því heyrum við líka: „Ég hef rist þig í lófa mér“. Það var nefnilega siðvenja á þessum tíma að þrælar hefðu nafn húsbónda síns rist í lófa sína svo það væri hverjum manni sýnilegt hverjum þrællinn tilheyrði, hver ætti hann, hverjum hann væri skuldbundinn. Þessu snýr Guð á hvolf. Það er Guð sjálfur sem hefur rist nöfn allra þeirra sem tilheyra honum, okkar allra, í lófa sinn. Skilaboðin eru skýr: ég vil deila kjörum með ykkur. Og hvernig gæti ég gleymt þér? segir Guð. Nafnið þitt er rist í lófa minn, ég hef það sífellt fyrir augum.

Guðspjallið fjallar líka um áhyggjurnar. Og við fyrstu sýn er það er satt að segja dálítið öfugnsúið sem Jesús segir við okkur þar. Hann veit að við höfum áhyggjur en segir okkur samt að hafa þær ekki. Ekki af því hverju við klæðumst eða hvað við eigum að eta og drekka. Og í þokkabót bætir hann við að einnig á morgun munum við hafa áhyggjur, og þá kannski líka af þessu sama, að eiga nóg fæði og klæði fyrir okkur sjálf og þau sem okkur er falið að gæta og að það sé algjör vitleysa. Þetta er dáldið snúið því lífið í veröldinni krefst þess að við eigum tiltekin veraldleg gæði og að án þeirra verði lífsbaráttan erfið. Við vitum t.d. að í hverri viku kemur fólk hingað í Selfosskirkju til þess að sækja um fjárhagsaðstoð í Hjálparstarf kirkjunnar af því að það á ekki fyrir mat handa sér og börnunum sínum. Það væri ekki sæmandi að segja því fólki að hafa ekki áhyggjur eða leitast ekki við að aðstoða það. Þeirra áhyggjur eru alvarlegar og vandinn oft slíkur að maður getur ekki annað en komist við. En í guðspjallinu er Jesús reyndar að ávarpa það hvernig áhyggjurnar fá að móta líf okkar ef við náum ekki tökum á hugsunum okkar, eins og í þessu tilfelli þann hóp lærisveina hans sem hefur valið sér það hlutskipti að gefa öðrum af eigum sínum og jafnvel svo rausnarlega að þeir eiga ekki nóg fyrir sig sjálfa. Þá koma áhyggjurnar siglandi og setjast að í höfðinu og fara að ráða ferðinni í lífinu.

En, Guð hefur þau rist í lófa sér eins og okkur öll hin. Og Guð mun gefa þeim það sem þau þarfnast. Það er fær vegur og það er nóg. Á vissan hátt verður það að nægja okkur að mega lifa í þeirri vissu að Guð þekkir færan veg fyrir okkur út úr því sem veldur okkur áhyggjum og mun leiða okkur eftir honum. Og hér ómar í bakgrunninum hin Biblíulega hefð sem minnir okkur á að vissulega hefur Guð alltaf fætt sitt fólk, en ekki alltaf á hefðbundin hátt. Við minnumst þess til dæmis þegar Guð lét manna, brauði, rigna á eyðimerkurgöngu Ísraelsþjóðarinnar.

Guð er í senn sá sem öllu ræður og fyrir öllu sér og sá sem þekkir hlutskipti okkar og vill deila kjörum með okkur.

Í þessu samhengi var líka hressandi að lesa viðtal við söngvarann ástsæla Ragga Bjarna í tilefni af áttræðisafmæli hans og stórtónleikum þar sem hann var spurður hvort hann hefði ekki áhyggjur af því að eitthvað gæti farið úrskeiðis á tónleikunum: „Ég hef ekki áhyggj­ur af neinu nema ef ég gleymi ein­hverju, þá læt ég bara fólkið vita af því að allt sé komið í klessu.“ Æðruleysið uppmálað.

Á morgun 29.september verða fjörutíu ár liðin frá því sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir var vígð til prestsþjónustu, fyrst íslenskra kvenna. Ég eins og aðrar prestsvígðar íslenskar konur á henni því mikið að þakka fyrir hennar brautryðjendastarf í kirkjunni. Auður Eir hefur skrifað tvær bækur um guðfræði og í annarri þeirra Vináttu Guðs segir hún þetta um áhyggjurnar: „allar manneskjur óttast. Biblían er alltaf að segja okkur að óttast ekki. Það er vegna þess að óttinn hefur ævinlega fylgt mannkyninu. Sumum finnst engin huggun í að vita að annað fólk er líka óttaslegið. Mér finnst það huggun. Það gerir minn eigin ótta ekki eins óttalegan og óeðlilegan. Fólk óttast það óþekkta, sjálft sig, annað fólk, slúðrið, samkeppnina, sjúkdóma, ellina, einmanaleikann og dauðann og ýmislegt annað. Það óttast lífið, ekki alltaf, en stundum.

Það þýðir ekki að bíða eftir því að lífið hætti að vera óttalegt. Það er eins og maðurinn að norðan sagði: það er alltaf eitthvað. Og ef það er ekki eitthvað, þá er það bara eitthvað annað.“

Og hún vitnar í austurlenska speki: „Við getum ekki bannað fuglunum að fljúga yfir höfðinu á okkur, en við þurfum ekki að láta þá byggja hreiður í hárinu á okkur. Þetta er það sem kristin trú segir á margan hátt, til dæmis svona: Verið ekki hugsjúk um neitt heldur talið um það við Guð (Fil 4.6). Hugsanir okkar eru okkar hugsanir. Þær bitna á okkur eða verða okkur til gleði. En þær bitna líka á öðrum eða verða þeim til góðs. Mörg hinna þekkja það af eigin raun sem veldur okkur áhyggjum og það getur verið gott að tala um það. En það leysir ekki vanda okkar til frambúðar nema það verði til þess að við lærum að nota tilfinningar okkar til að skilja sjálf okkur betur.“

Já, við þurfum að ná utan um áhyggjur okkar. Og gera eins og Raggi Bjarna, láta bara fólkið í kringum okkur vita af því að allt sé komið í klessu. Og umfram allt láta Guð vita. Sem hefur rist þig í lófa sér, vill deila með þér kjörum og gleymir þér aldrei.

Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen.

Jes 49.13-16a 1Pét 5.5c-11 Mt. 6.24-34.