„Faðir við son og sonur við föður...“

„Faðir við son og sonur við föður...“

Hæglega hefði verið hægt að leiða biskupsmálið til lykta með farsælum hætti fyrir alla hlutaðeigandi á grundvelli rannsóknarskýrslunnar sem kom út rétt fyrir hvítasunnuhelgina.
fullname - andlitsmynd Pétur Pétursson
20. júní 2011

Um biskupsmálið og stöðu kirkjunnar eftir hvítasunnuþingið

Hæglega hefði verið hægt að leiða biskupsmálið til lykta með farsælum hætti fyrir alla hlutaðeigandi á grundvelli rannsóknarskýrslunnar sem kom út rétt fyrir hvítasunnuhelgina. Hvítasunnan lofaði góðu því að rannsóknarhópurinn hafði unnið sitt verk og yfirstjórn þjóðkirkjunnar virtist alvarleiki málsins ljós þar sem aukaþing var kallað saman strax á þriðjudaginn. En þingið stóð ekki undir þeim væntingum sem við höfðum mörg til þess. Málinu var vísað í eina nefndina enn eins og stefnan væri að málið yrði smám saman kæft, svo kemur næsta nefnd og svo næsta ... Öll þjóðin veit nú um píslargöngu kvennanna, sem Ólafur Skúlason biskup er sakaður um að hafa brotið gegn, um ranghala hinnar stofnanavæddu kirkju.

Í fyrri umræðu þingsins komu fram hugmyndir sem horfðu til framtíðar, endurnýjunar og hreinsandi ferlis sem hefði getað skapað leið til sátta við konurnar. En það er eins og viðreisnarandinn hafi rokið úr þingmönnum eftir umræður í nefndum.

Eftir þingið er eins og þær konur sem stigið hafa fram með sína ólýsanlegu sáru reynslu og upplifað niðurlægjandi málsmeðferð af hálfu yfirstjórnar kirkjunnar eigi sjálfar að finna frið í hjarta sínu og sættast við Guð og kirkjuna. Kirkjunnar menn sjá sig tilneydda til að biðjast afsökunar þegar þeir standa frammi fyrir staðreyndum í rannsóknarskýrslu.

Hversu djúpstæð og afgerandi er sú afsökunarbeiðni og hvert leiðir hún? Felur hún í sér beiðni um fyrirgefningu? Getur verið að hún bæti aðeins gráu ofan á svart? Sá sem biðst í raun fyrirgefningar reynir að bæta fyrir brot sitt.

Af hverju í ósköpunum notaði kirkjuþing ekki tækifærið til fá dr. Sólveigu Önnu Bóasdóttur forseta Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar til að veita nefndinni sem á að fylgja málinu eftir forstöðu. Hún er sérfræðingur í kynlífssiðfræði og hefur kynnt sér kynferðislegt ofbeldi í trúfélögum og meðferð slíkra mála. Er Sólveig e.t.v. einn af þeim guðfræðingum sem eru í ónáð hjá biskupi? Það hefði verið tilvalið að bjóða Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur að sitja í nefndinni. Einnig komu Sigrún Óskarsdóttir og Kristín Þórunn Tómasdóttir til greina, þeim mæltist báðum vel í fyrri umræðu um málið og bentu á vænlegar leiðir til endurreisnar. Það er ljóst að þöggunin er enn í gangi í þessu máli.

Alla leið

Margt kemur upp í hugann í sambandi við aðdraganda þingsins, þinghaldið sjálft og afdrif þess. Hvorki Kirkjuráð né Kirkjuþing virðast t.d. geta sagt það hreint út að kynferðislegt ofbeldi sé synd og tekið þannig undir með konunum. Ef við setjum þetta inn í hefðbundið hugtakaform kristninnar þá er þetta ekki léttvæg synd heldur brot gegn lífi sálar, svonefnd dauðasynd, og á slík hugtakanotkun við í nútímanum engu síður en á miðöldum. Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum er í raun meðal verstu synda sem hægt er að hugsa sér í nútíma þjóðfélagi.

Ég átti tal við fagaðila á þessu sviði um daginn sem sagði að auðvitað hefðu ábyrgir menn og fagaðilar innan kirkjunnar átt að fylgja málinu eftir alla leið og styðja Guðrúnu Ebbu, dóttur Ólafs heitins biskups, allt frá því þegar hún opnaði sjálf á það. Það var skylda þeirra þótt eðlilega fyndist henni sú leið stundum svakaleg og ófær. En það voru bersýnilega of margar goðsagnir sem þurfti að brjóta upp og of miklir hagsmunir í húfi til þess að leiðin yrði greið.

Vandinn er í grundvallaratriðum hið mikla og ögrandi viðfangsefni að skapa félagslega og pólitíska umgjörð fyrir kærleiksboðskap Jesú Krists, þann boðskap að Guð er kærleikur sem kemur mér, þér og öllum persónulega við. Boðun Jesú Krists og öll breytni hans snerust um þetta, það sem Guð vildi með afskiptum sínum af lífi manna í gegnum boðorðin, spámennina og trúna. Hann var sem helgimyndabrjótur (iconoclast) sífellt að brjóta upp alls kyns helgisiði og goðsagnir í tengslum við trúna á Guð til þess að komast að kjarnanum, hinni lifandi trú, og það var auðvitað þetta sem kom honum í koll og á krossinn að lokum.

Það er þetta margslungna og stórvarasama samband milli lögmáls og fagnaðarerindis sem hér er um að ræða. Um leið og Jesús Kristur vildi ekki leysa upp stafkrók í lögmálinu boðaði hann siðbyltingu í samskiptum manna, siðbót sem kirkja sem kennir sig við hann (og Lúther) verður stöðugt að vera viðbúin að ganga í gegnum á hverjum tíma. Hvað merkir t.d. þessi spurning Jesú Krists? „Ætlið þér að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki. Upp frá þessu verða fimm í sama húsi sundurþykkir, þrír við tvo og tveir við þrjá, faðir við son og sonur við föður, móðir við dóttur ...“ (Lk 12:49-53.) Skyldi þetta eiga við um þjóðkirkjuna í dag?

Hin ítrustu sannindi

Hvernig í ósköpunum er hægt að gera erindi Jesú Krists að veruleika í samfélaginu, í hinu daglega lífi, í hinum pólitíska veruleika þjóðfélagsins? Þetta er glíman sem guðfræðingar eru í – en um leið eru þeir auðvitað að glíma við sína eigin trú sem gengur út á það að brjótast undan stirðnuðum formum og dauðum táknum, goðsögnum og fyrirkomulagi sem tengist hagsmunum einstaklinga, fjölskyldna, hópa, ríkja og þjóða.

Í þessu samhengi er áhugavert að skoða framlag guðfræðinganna Ernests Troeltsch og Richards Niebuhrs sem greindu félagsleg birtingarform fagnaðarerindisins (kirkja, sértrúarhópur og mystík) og mismunandi tengsl Jesú Krists og menningar í sögunni. Guðfræði Pauls Tillichs er einnig mikilvæg í þessu samhengi. Við ættum að nota greiningu þeirra og innsæi til að sjá hvað við náum langt með fagnaðarerindið um frelsi kristins manns í þjóðfélagi okkar í dag.

Lifandi trú er um hið endanlega (the ultimate), það sem er mikilvægast og hafið yfir alla gagnrýni, og eina ráðið til að tjá sig um trúna og nálgast þetta endanlega er í gegnum tákn sem nýta reynslu og viðfangsefni lífsins í heiminum til að vísa út fyrir sig. Lifandi trú byggir þannig á skapandi ímyndunarafli (symbolic imagination). Táknin tengjast og úr verða goðsagnir sem veita aðgang að heimi trúarinnar og við ríghöldum í það sem tengir okkur við Guð og um leið hugmyndir okkar og kenningar um hann þótt þær nái aldrei alveg að gera viðfangsefninu tæmandi skil.

Vandinn mikli er að við samsömum okkur táknum og goðsögnum – bókstaf, formi, embætti, skipulagi, helgisiðum og mannasetningum – en þurfum um leið að komast handan þeirra, brjóta þau upp, ef við ætlum að þroskast sem manneskjur og þroskast um leið í trúnni.

Trú og hugrekki

Það getur verið eðlilegt að við sem einstaklingar, hópar og þjóð höldum í það sem var á meðan það dugði. Tillich bendir á þetta og kallar afstöðuna náttúrulega bókstafshyggju (natural literalism) en við getum líka kallað það barnatrú eða jafnvel einfalda trú þar sem jafnt goðsögnin sem bókstafurinn eru óaðgreinanleg ytri ásynd hlutanna – eða með orðum Tillichs: „Inability to separate the creation of symbolic imagination from the facts which can be verified through observation and experiment.“

Þess vegna er uppgjörið svo sárt og þess vegna nægir oft ekki að lýsa fyrirbærunum. Tillich bætir við: „This stage has a full right of its own and should not be disturbed, either in individuals or in groups...“ (Dynamics of Faith, 1957:52.) En svo kemur að því að Adam og Eva eru ekki lengur í Paradís, því að þetta hald er í lagi aðeins „up to the moment when man’s questioning mind breaks the natural acceptance of the mythological vision as literal“ (sama, 52).

Þroskinn, sem felur í sér skapandi og um leið gagnrýna hugsun, færir manninn áfram nær hinum raunverulega Guði, rót alls sem er, og þá þarf hann að sama skapi að losna úr viðjum ófullkominna goðsagna til að geta orðið sannur gagnvart sjálfum sér, sannleikanum og um leið Guði. Þetta er áhætta og til þess þarf hugrekki. En þetta er um leið óhjákvæmilegt vegna þess að trúartákn og goðsagnir vísa alltaf út fyrir sig sjálf, vísa á hinn endanlega veruleika. Ef við höldum okkur bara í þau haldreipi sem finna má í heiminum, sættum við okkur við stöðnun sem í reynd er afturför, en þá höfum við líka villst af vegi trúarinnar og tekið upp hjáguðadýrkun.

Þegar hér er komið í þroskasögu trúarinnar eru þrjár leiðir mögulegar, í fyrsta lagi að varðveita trúna með því að brjóta upp táknin og goðsagnirnar, í öðru lagi bæla rödd skapandi hugsunar vegna þeirrar áhættu og þess kvíða sem það skapar að missa haldið í trúnni eins og hún var á hinu fyrra skeiði eða í þriðja lagi að þagga niður í þeirri sömu rödd með því að snúa baki við öllu trúarlegu án þess að endurmeta táknin og goðsagnirnar í víðara samhengi.

Skýrslan og viðbrögðin við henni sýna svart á hvítu að kirkjan okkar hefur valið aðra leiðina. Ef  áhættan er ekki tekin þá lendum við inn í annarri tegund af bókstafshyggju sem er hin meðvitaða bókstafshyggja (conscious literalism) en hún er að mati Tillichs þöggun bæði inn á við (sjálfsblekking) og út á við (valdbeiting) sem leiðir til þess að fólk er vanvirt í þágu ákveðinna hagsmuna og því ekki sýnd umhyggja og kærleikur – og hér erum við komin að viðfangsefni þeirrar pólitísku guðfræði sem spornar gegn skaðlegri þöggun.

Tillich segir í því sambandi: „The tool of repression is usually an acknowledged authority with sacred qualities like the Church or the Bible, to which one owes unconditional surrender.“ (Sama, 53.) Við þennan lista getum við í vissum tilfellum bætt við biskupum, prestum, yfirmönnum, vinum, eiginkonum, eiginmönnum, feðrum, mæðrum ...

Æðsti yfirmaður

Biskupsmálið rís upp í enn magnaðri og hræðilegri mynd þegar í ljós kemur að biskupinn hefur brotið gegn eigin dóttur. Hann er bæði höfuð kirkjunnar og faðir konunnar sem brotið var á. Biskup skiptir máli fyrir kirkjuna bæði inn á við og út á við og það sama gildir líka um biskupsheimilið. Það er sett á stall og biskupsfjölskyldan á að vera til fyrirmyndar.

Um hana skapast goðsagnir sem sumum eru heilagar. Þar skiptir engu máli þótt biskupinn hafi áður bara verið prestur og venjuleg eða óvenjuleg manneskja eftir atvikum. Þetta snertir því þjóðina alla, hvert heimili í landinu og um leið kirkjuna sjálfa, þ.e. ímynd hennar jafnt inn á við sem út á við.

Ímynd skiptir máli og kirkjan er sérstaklega háð henni því að náðarvaldið er þrátt fyrir allt ekki einskorðað við embættið, allra síst í nútímanum. Okkur ber að iðka það sem við boðum. Jesús Kristur og Páll postuli segja að forstöðumenn kirkna og safnaða eigi að vera fyrirmynd annarra í siðferðilegum efnum.

Hvernig leið biskupsdótturinni Guðrúnu Ebbu þegar hún fékk að heyra það að málið væri „svona heimilismál“? Var þetta kjaftshögg frá mönnum sem henni var eðlislægt að leita til eða var henni létt?

Skýrslan sýnir að kirkjunnar mönnum fannst málið of viðkvæmt og að það væri enginn eðlilegur farvegur fyrir það innan kirkjunnar. Þó var þetta í raun sama málið og felldi hinn fyrri biskup. Fagleg viðbragðsáætlun kirkjunnar réði því miður ekki við málið.

Verndum bernskuna

Mannhelgi, mannréttindi og barnæska eru gildi sem hafa hlotið vægi umfram allt annað (ultimate value) í nútíma þjóðfélögum. Trúarbragðafélagsfræðingurinn Emile Durkheim kallar þetta „the cult of man“ og það er það eina sem er heilagt og ósnertanlegt í nútíma fjölmenningarsamfélagi þar sem viðmið og gildi eru háð aðstæðum og virkni ólíkra þjóðfélagsþátta.

Hér getur kristindómurinn veitt bernskunni vernd og þjóðkirkjan hefur komið á sérstöku prógrammi í þeim efnum og sett sér siðareglur. Nútíminn hefur leitt helgi barnæskunnar fram enda felast í henni möguleikar einstaklingsins til að njóta sín bæði sem barn og síðar sem fullorðinn sjálfráða einstaklingur. 

Ég fann þetta svo greinilega þegar ég var að vinna að sálgæslu meðal Breiðavíkurdrengjanna að beiðni séra Bjarna Karlssonar í Laugarneskirkju. Allir vita nú að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum rænir þau bernskunni og skaðar varanlega möguleika þeirra til að vera það sem þau geta orðið, raungera þá hæfileika sem Guð hefur gefið þeim sér og öðrum til heilla eða eins og þegar kirkjan tekur undir með Jesú Kristi í skírnarávarpinu: „Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki.