Bænadagar

Bænadagar

Bænadagar kallast dagurinn í dag og á morgun og laugardagurinn sem í hönd fer, þrír helgustu dagar ársins og allra daga, allra tíma. Það eru öðruvísi dagar, ólíkir öllum öðrum dögum.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
21. apríl 2011

Three

Bænadagar kallast dagurinn í dag og á morgun og laugardagurinn sem í hönd fer, þrír helgustu dagar ársins og allra daga, allra tíma. Það eru öðruvísi dagar, ólíkir öllum öðrum dögum.

Skírdagur

Skírdagur kallast svo vegna þess að á þeim degi sýndi Jesús fordæmi hinnar hljóðlátu, auðmjúku þjónustu kærleikans, er hann laut niður og þvoði fætur lærisveina sinna. Þannig tjáði þeim kærleika sinn og gaf þeim síðan til borðs með þeim, þeim sem áttu eftir að svíkja hann, afneita honum, sofna á verði, flýja af hólmi, og láta hann eftir einan, ofurseldan óvinum sínum. Hann rétti þeim brauðið og vínið:„Þetta er líkami minn, fyrir yður gefinn, þetta er blóð mitt fyrir yður úthellt til fyrirgefningar syndanna. Gerið þetta í mina minningu.”

Föstudagurinn langi

Föstudagurinn sem komandi nótt elur af skauti sínu, nóttin, sem hann svikinn var, kallast föstudagurinn langi. Sá dagur var langur, þó byrgði sólin auglit sitt á hádegi og myrkur lagðist yfir landið. Hann var langur, því það var sem tíminn stæði kyrr, stundirnar frysu í sporunum, þegar lausnari heimsins háði sitt dauðastríðHann sem bar synd heimsins var kvalinn, deyddur og lagður í gröf.

Laugardagurinn fyrir páska

Svo kemur laugardagurinn fyrir páska, hvíldardagurinn mikli, eins og hann kallaðist í eina tíð; Dagurinn er Jesús hvíldi í gröf sinni og sorgin var yfir og allt um kring; dagurinn þegar lífið heldur í sér andanum í ofvæni andspænis því sem er með öllu óhugsandi: dauða Guðs. Og svo þegar nýr dagur rís, hinn fyrsti dagur nýrrar viku, og ársólin varpar geislum sínum yfir landið, þá leiðir hún í ljós opna gröf, steininum var velt frá, hinn krossfesti er upprisinn!

Í þeirri sögu sem rifjuð er upp um bænadaga dymbilviku er það sem til forna var nefnt „axis mundi,” möndull heims. Allt sem er og var frá öndverðu og allt sem verða mun um eilífð, hið mikla, stóra, og hið smáa, ómælisvíddir alheims og innstu hjartans inni, allt er á undursamlegan hátt ofið inn í það sem þarna gerist. Um þetta snýst veröldin, þessa fórn, þennan kærleika, þessi heilögu spor, þetta líf, Jesú sem kom til að þjóna og gefa líf sitt. Í honum sem var kominn til að þjóna, sem braut brauðið í loftsalnum á skírdagskvöld og engdist síðan í trúarglímu grasgarðsins, í honum sem hrópaði í dauðans angist og einsemd á krossinum, í honum er alfa og ómega, upphafið og endirinn.

Bænadagarnir minna á að lífinu var hafnað, hatrið og dauðinn hafði sigur, lífið dó. Dveljum við þá höfnun, ósigur og dauða og hugleiðum hann, við sem vitum það eitt um ókomin skref og ókomnar stundir að þær færa okkur nær eigin dauðastund. Horfum inn í þetta rökkur loftsalarins og Getsemane og myrkur Golgata og grafarinnar. Vegna þess að sérhvert mannslíf sér hér sína sögu sagða. Í þessum dauða, sem sumir myndu nefna tilgangslausan, má sjá tilgang alls lífs og eilífa ákvörðun. Í skuggsjá krossins sjáum við hver við erum vegna þess að þar er hann sem er sá sem okkur er ætlað að vera. Við sjáum það í birtu páskanna, upprisu hins krossfesta, að kærleikurinn sigrar, lífið sigrar. Guð blessi okkur öllum þá von og trú í frelsarans Jesú nafni.