Verkefninu Söfnuður til safnaðar var hrundið af stað fyrir um tveimur árum síðan til að gefa söfnuðum þjóðkirkjunnar tækifæri til að tengjast systursöfnuði á starfssvæðum íslenskra kristniboða í Keníu og Eþíópíu. Hugsunin var einnig að opna fyrir slík tengsl við lúthersku kirkjuna í Malaví. Talsmaður verkefnisins frá upphafi hefur verið séra Jakob Á. Hjálmarsson en hugmyndina fékk hann eftir heimsókn og starf á slóðum kristniboðanna í Pókot í Keníu. Hann sinnir verkefninu sem sjálfboðaliði og vill gjarnan komast í tengsl við fleiri söfnuði til að kynna það.
Markmið verkefnisins er að þeir söfnuðir sem tengjast vináttuböndum njóti góðs af því að fylgjast hver með öðrum, fá fréttir af því sem gerist og biðji fyrir starfi og starfsfólki safnaðanna. Þannig má tengja sunnudagaskóla á Íslandi við sunnudagsskóla í Eþíópíu. Æskulýðsstarfið getur skrifast á við unglinga í æskulýðsstarfi kirkjunnar í Pókot. Í guðsþjónustum sunnudagsins má koma með stutt fréttabrot, nefna nafn vinasafnaðarins og biðja fyrir honum, starfsfólki og sjálfboðaliðum. Koma má upp myndatöflu sem minnir á starf og þarfir vinasafnaðarins í báðum löndum. Þannig má áfram telja. Er fram í sækir má sjá fyrir sér gagnkvæmar heimsóknir. Ávinningur hér á landi er aukin meðvitund um kjör og aðstæður systra og bræðra í trúnni í þróunarríkjum, aukin víðsýni með innsýn í fjölbreytt safnaðarstarf, sem byggir á annars konar menningu, og gleði yfir því að geta gert öðrum gott.
Tengslin eru bein og milliliðalaus og án skilyrða en byggja á ráðgjöf og umsögn stuðningsaðila sem eru Kristniboðssambandið hér á landi og biskupsstofurnar í Afríkuríkjunum. Ef þörfin knýr og fjárhagslegt bolmagn leyfir er þetta einnig leið til að sýna samstöðu í verki með fjárhagslegum stuðningi til safnaðar sem vantar þak yfir bygginguna sína, bekki í kirkjuna, gítar fyrir æskulýðsstarfið eða annað sem löngun er til að gleðja með. Varast ber að lofa meiru en til stendur eða geta leyfir. Aldrei verður heldur unnt að uppfylla allar þarfir og svara öllum beiðnum játandi enda er það ekki aðalmarkmiðið með þessum tengslum. Í leiðbeiningum kristniboðs- og hjálparstarfsnefndar kirkjunnar er þeim tilmælum beint til safnaða hér á landi að láta fjárhagslegan stuðning fara um hendur Kristniboðssambandsins og þaðan um skrifstofur biskupsdæmanna í viðkomandi löndum. Með því er girt fyrir misnotkun, ferlið er gegnsætt og allir fjármunir lúta endurskoðun.
Nú þegar kristniboðsdagurinn stendur fyrir dyrum er gott tækifæri til að skoða þetta tækifæri og nefna það við söfnuðinn ef vera kynni að einhverjir úr röðum hans vildu taka að sér þetta verkefni fyrir hönd safnaðarins í samráði við prest og sóknarnefnd.