Mér er það sönn ánægja, ágætu samstarfsmenn, að fá að vera með ykkur á þessari prédikunarráðstefnu Kjalarnessprófastsdæmis. Mér var falið að prédika um frelsið. Við skulum því ganga saman inn á sýningu sem ber yfirskriftina Birtingarmyndir frelsisins. „Svo braut ég niður vegg,“ sagði hún brosandi og snerist á hæl á gegnheilu eikarparketi. „En frábært,“ sagði þáttarstjórnandinn og starði opinmynntur á vegginn sem einu sinni var. „Já, eldhúsið var svo þröngt. Við þurftum meira ljós og rými, vildum ekki að okkur liði eins og í fangelsi á eigin heimili.“
Frelsið er feikivinsælt um þessar mundir. Það er að minnsta kosti mín tilfinning að við séum uppteknari en oft áður af því að komast sífellt nær því sem við teljum vera hina einu og sönnu frelsistilfinningu. Við þurfum birtu og ljós, þráum að baða okkur í ljómanum og sannfærast um þá staðreynd að við séum einstök.
Meðan ég daðra við frelsið er ekki laust við að hugurinn hvarfli eilítið til andstæðunnar, haftanna, kúgunarinnar og fangelsanna. Það er hægt að vera fangi í ýmsum skilningi. Þriggja barna móðirin sem ég hitti á ónefndum bar á liðnu kvöldi kvaðst hafa glatað frelsi sínu og væri nú föst í bragðdaufu hjónabandi og slítandi áhyggjum af börnum um ókomin ár. Ég hef það líka fyrir satt að einn starfsmaður Hagstofu Íslands, sem situr dagana langa yfir tölum um utanríkisverslun, spyrji sig daglega hvað hann hafi til saka unnið að verðskulda þessa útreið. Svo eru það þeir sem eru fangar í hefðbundnum skilningi. Þeir sem brotið hafa af sér samkvæmt landslögum og ríkisvaldið hefur svipt frelsi og lokað inni.
Stundum hugsa ég um drauminn þann þegar ég rölti niður Skólavörðustíginn. Við þessa fegurstu götu borgarinnar Reykjavíkur stendur reisulegt steinhús frá seinni hluta nítjándu aldar. Það geymir fanga og er í daglegu tali nefnt Hegningarhúsið. Þar er mönnum hegnt fyrir glæpina. Já, kæru lesendur, við erum stödd í hjarta Reykjavíkur. Í 39 þrepa fjarlægð getur þú fengið besta kakó á gjörvöllu Íslandi og 2 sentimetra þykkt ristað brauð með sultu. Þú getur lesið Moggann og þar er maður sem býður þér ljóð til kaups – og ef þú ert heppinn, annar maður með fíngerða fingur sem teiknar þig í laumi. Þar er sæt stelpa með svarta svuntu og þar er stór, ítölsk kaffivél sem gefur frá sér notalegt murr. Aðeins ofar í götunni getur þú keypt frábæra geisladiska á spottprís. … Þegar degi tekur að halla getur þú svo rölt niður Vegamótastíg. Þar lúrir lágreistur bar í skjóli við Hegningarhúsið. Ef þú ert heppinn getur þú horfst í augu við sjarmerandi skáld yfir rauðvínsglasi sem segir þér krassandi sögur frá Berlín – en ef óheppnin eltir þig á röndum situr þú uppi með „ungpólitíkus“ á fertugsaldri í fanginu. Taktu samt sénsinn, tefldu á tæpasta vað og splæstu í bjór. Sestu og láttu fara vel um þig. Finndu hvernig alkóhólið sígur mjúklega í aðra tána og spjallaðu eins og þú eigir lífið að leysa. Þegar líða tekur að miðnætti ætla ég að biðja þig að standa upp, slá í glas og kveðja þér hljóðs. Biddu viðstadda um að lækka róminn og slökkva á tónlistinni. Segðu þeim að hinum megin við vegginn séu nokkrir mis-hamingjusamir, ófrjálsir menn sem séu að reyna að festa svefn. Þeir hafi nú þegar fengið matarkex frá Frón og verið læstir inni í klefum sínum. Sjálf ætla ég að standa upp og ganga um gömlu hverfi borgríkisins, finna frelsið heltaka mig – horfa í gegnum glerið á fólkið hamast við að njóta þess sem borgin hefur upp á að bjóða.
Þetta er óður Hilmu Gunnarsdóttur bloggara til frelsisins.
Höldum áfram um sýningarsalinn og skoðum aðra svipmynd af frelsinu:
Það er til í útlendum bókum ein heilög saga af manni sem varð fullkominn af því að sá í akur óvinar síns eina nótt. Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns alt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu.
Á öðrum stað í þessu fræga riti eru þessi fleygu orð:
Þú getur haft mig fyrir því, að frelsið er meira vert en lofthæðin í bænum … [F]átækt fólk er ævinlega hamingjusamara en þetta svokallaða ríka fólk, sem er í raun og veru ekki til. Því hvað er ríkt fólk? Það er fólk sem hefur mikið í veltunni og á ekki neitt nema áhyggjurnar ef alt væri gert upp, og fer útúr heiminum alveg nákvæmlega eins snautt og hinir, að því undanteknu að það hefir haft meira af búksorgum, minna af sannri lífsgleði.
Svipaðan frelsisstreng má einnig greina hjá nóbelsskáldinu í Íslandsklukkunni. Hjartað er bústaður hamingjunnar og sá kúgaði þræll sem Arnasi Arnæusi varð tíðrætt um í Íslandsklukkunni var meiri mannkostamaður en þjónninn digri því að í hjarta þrælsins bjó hið sanna frelsi. Öll eigum við okkar myndir af frelsinu. Tvær myndir koma upp í huga minn, önnur af örfáum hamingjusömum kvígum sem hlaupa um grænar grundir í Landeyjunum af stjórnlausri gleði eftir vetrardvöl í fjósinu á Bjarkalandi. Ég var sex ára. Hvílík heimsendahamingja er þetta, hugsaði ég með sjálfum mér. Hin myndin er af föður sem tekur utan um son sinn, lítur í augu hans og segir: „Það er sama hvað gerist, þú veist að ég elska þig.“ Breytt ásjóna, þrungið andrúmsloft, heilög stund, og ég hugsaði með sjálfum mér: „Þarna er frelsið.“ Í amstri dagsins verður okkur tíðrætt um frelsi. Við tölum um tjáningarfrelsi, ritfrelsi, fundafrelsi, trúfrelsi og jafnvel er rætt um frelsi til að vígvæðast. Við tökum frelsið sem sjálfsögðum hlut. En þrátt fyrir viðurkenningu okkar á frelsinu deilum við um eðli þess, hvernig það beri að skilgreina og að hve miklu leyti við megum nýta það í eigin þágu. Einstaklingsfrelsið og sjálfstæði sjálfsins við ákvarðanatöku gengur oft í berhögg við reglur samfélagsins. Sem dæmi um það þá er oftar en ekki deilt um rétt fjölmiðla til að taka á viðkvæmum málum en halda heimildum eða heimildarmönnum leyndum. Víðast hvar í vestrænum samfélögum er rétturinn til bænahalds á opinberum stöðum harðlega gagnrýndur. Við, Íslendingar, teljum okkur eiga skilyrðislausan rétt til hvalveiða í eigin lögsögu sem sjálfstæð þjóð í samfélagi þjóðanna og gefum lítið fyrir harða gagnrýni annarra þjóða. Hvað svo sem segja má um fullyrðingar okkar eða viðteknar skoðanir á frelsi, þá veldur hugtakið okkur heilabrotum og ruglar okkur oftar en ekki í ríminu. Það er því ekki skrýtið að fólk almennt staldri við og hugleiði hvað Páll postuli eigi við þegar hann segir í Galatabréfinu: „Til frelsis frelsaði Kristur oss.“ Það flækir málið til muna að við á Vesturlöndum höfum í dag fyrirframgefnar hugmyndir um hvað felst í orðinu frelsi og þegar við síðan tökum þessar hugmyndir okkar og heimfærum þær á orð postulans fáum við ranga mynd af frelsispredikun Páls. Þegar Páll predikar frelsi er hann ekki að tala um frelsi sem mannréttindi, heldur sem gjöf frá Guði. Þó að vissulega sé hægt að líta á mannréttindi sem Guðs gjöf er það ekki sú Guðs gjöf sem Páll talar um. Í samhengi Páls fellur það meira undir það svið sem tengist nálægð Guðsríkisins sem við göngum til móts við. Og þetta frelsi öðlumst við fyrir einskæra náð, það er Guðs gjöf. Jesús kunngjörði Guðsríkið sem fagnaðarerindið um að Guð væri sestur að völdum. Frelsi Páls hefur með öðrum orðum með hjálpræði mannssálarinnar að gera. Að meðtaka eða ganga inn til samfélagsins við Jesú Krist felur í sér að við leggjum alla von á hinn eina, sanna Guð og snúum okkur þess vegna frá hjáguðum. Náðin opnar okkur dyr að hinu síkvika samfélagi við Jesús Krist. Frelsið í Kristi felur þó ekki endilega í sér félagslegt og pólitískt frelsi. Þó hafa til dæmis frelsunarguðfræðingar gert þá hugsjón að megininntaki sinnar guðfræði. Hinn 1. ágúst árið 1834, þegar frelsisstríðið stóð sem hæst hjá enskumælandi þrælum á karabísku eyjunum, komu þeir saman í kirkjum baptista og meþódista til að þiggja frelsið, ekki frá stjórnarherrunum, heldur frelsið í Jesú Kristi. Studdust þeir þá við texta Galatabréfsins: „Til frelsis frelsaði Kristur oss.“ Því miður leiddi frelsisstríðið ekki til þjóðfélagsbreytinga. Efnahagsleg og pólitísk kúgun varði í fjölda ára á þessu svæði. Guðsríkið færir okkur ekki endilega leiðréttingu á félagslegu ranglæti, eins og sagan hefur svo margoft kennt okkur. Frelsið birtist okkur í ákveðnum félagslegum raunveruleika, en stendur jafnframt ofar honum. „Gerðu það sem þú vilt!“ Í þessu fólst skilningur Rómverja og Grikkja á frelsinu í hinum forna heimi. Stóumenn töluðu um fullkomna sjálfsstjórn sem leiddi til innra frelsis. Páll andmælti þessu og lagði áherslu á að frelsið kæmi að utan. Við þiggjum frelsið, en það er ekki innbyggt. Frelsið er með öðrum orðum ekki fólgið í því að hverfa inn í sjálfan sig, heldur felst frelsunin í frelsun sjálfsins, sem kristnir menn þiggja af Kristi, sem beinir sjálfinu til undirgefni og hlýðni við Guð. Þekktur guðfræðingur komst svo að orði: Blekking frelsisins er fólgin í hugsuninni um að hið sanna frelsi felist í því að gera það sem maður vill. Raunveruleiki frelsisins er aftur á móti sá að vilja það sem hinn almáttugi vill: „Þar sem andi Drottins þar er frelsi.“ Páll tekur á mörgum afar krefjandi trúar- og siðferðisspurningum í bréfi sínu til safnaðarins í Galatalandi. Þar stendur hæst deilan við Júdaista, en þeir reyndu að snúa heiðinkristnum mönnum til gyðingdóms. Páll lagði á það áherslu að hinir kristnu í söfnuðinum þyrftu ekki að undirgangast lögmál Gyðinga og undirstrikaði þar með muninn á kenningu Krists og Gyðinga. Í hirðisbréfi sínu tekur Páll á mörgum grundavallarspurningum trúarinnar og guðfræðinnar. Ástandið í Galatalandi var einfaldlega þetta: Sumir prédikuðu að það væri ekki nóg að trúa á Krist. Vandamál Galatamanna var það sama og einkenndi í raun allan hinn forna heim og var fólgið í hjáguða- og skurðgoðadýrkun. Fólki var kennt að hjálpræðið og frelsunin væri fólgin í veraldlegum hlutum og athöfnum og Galatamönnum að það væri umskurn og lögmál. Páll segir: „Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli.“ Það er engin önnur leið til Guðs nema fyrir kærleika Jesú Krists. Þegar guðfræði Páls er skoðuð áttar maður sig á því hversu margir það eru nú á tímum sem vilja bæta hinu og þessu við fagnaðarerindið. Freistingin er fólgin í því að hengja eitthvað annað utan á Krist en trúna eina (sola fide). Í sumum tilvikum getur það verið eitthvað göfugt eins og að gefa til hjálparstarfsins, betri litúrgía og lofgjörð eða að mæta þörfum samfélagsins. „Þá fyrst frelsumst við.“ Við þekkjum tíundarfyrirkomulagið víða í Bandaríkjunum og á meðal fríkirkna á Íslandi. Í sjálfu sér er ekki endilega rangt að tala um það sem göfugt og þarft því að það gerir í sjálfu sér ekkert gagn og bætir engu við hjálpræðið. Fjölvítamín er gott fyrir heilsuna, en það læknar ekki illkynja sjúkdóma. Þessir þættir verða í raun andstæðir hjálpræðinu sem fullkomnaðist á krossinum þegar þeir, eins og umskurnin, koma í stað eða bætast við trúna á Krist einan. „Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú sem starfar í kærleika.“ Ég velti því fyrir mér hvort íslenska þjóðkirkjan prédiki umskurn í stað Krists. Er áherslan á hjónabandið og sambúð samkynhneigðra orðin að einhvers konar skurðgoði? Hvað með áhersluna á regluverk kirkjunnar, popúlisma og athyglisþörf okkar á meðal? Dýrkum við hið almenna form en ekki innhaldið? Hvað með öfgar í umhverfisvernd, og áhersluna á að tala um Guð í kvenkyni ¬– hún Guð – og jafnrétti innan kirkjunnar? Hvort sem við lítum á þetta sem skurðgoðadýrkun eða ekki, þá er eitt víst, að öll þessi umræða er farin að skyggja verulega á krossinn og þann boðskap sem okkur er trúað fyrir, sem er Kristur og frelsunin sem veitist fyrir trú á hann einan. Og ekki verður framhjá því litið að íslensk menning er gegnsýrð af afhelguðum hjálpræðis- og frelsunarboðskap. Ef maður lifir bara heilsusamlega, notar rétta tannkremið, drekkur ávaxtasafa, er grannur, brúnn og ríkur, hugsar jákvætt, tekur prósak og fylgir rétttrúnaðinum, þá verður maður heilsuhraustur, auðugur, sterkari og betri. Ef kyngetan er ekki alveg að gera sig fær maður sér bara eina víagra. Þegar aðrir fjölskyldumeðlimir deyja pantar fólk bara prestinn með áfallahjálpina og hann bjargar málunum. Er nema von að við spyrjum með Jónasi Hallgrímssyni: „Ísland, farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir! Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?“ Í hverju birtist manndáðin og hið sanna frelsi? „Til frelsis frelsaði Kristur oss.“ Í hverju er þetta frelsi fólgið? Til hvers erum við frelsuð og frá hverju? Kristur kom til að frelsa okkur frá öllu sem afmáir og brýtur niður hina sönnu mennsku sem hann einn birtir og við erum sköpuð til. Og við erum frelsuð til að elska, elska Guð, samferðafólk okkar, og hlúa að Guðs góðu sköpun í sínu víðasta samhengi. Þetta var fallegur sumardagur þegar faðirinn tók utan um son sinn, leit í augu hans og sagði: „Það er sama hvað gerist, þú veist að ég elska þig.“
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.