Góða ferð

Góða ferð

Við erum samferðafólk á ferð og þokumst í átt til Betlehem. Gangan þangað er, eins og gengur og gerist okkur mislétt eða miserfið. Sum okkar eru stressuð og æst vegna þess sem í vændum er, meðan önnur varðveita kyrrðina og lotninguna fyrir því sem koma skal.
fullname - andlitsmynd Ursula Árnadóttir
08. desember 2009

Vi tror på JesusAðventan er ferðalag. Ferðalag frá Nasaret til Betlehem, frá hversdagslífinu til hátíðarinnar. Ferðalag þar sem vegurinn getur bæði verið grýttur og sléttur og það skiptist á skin og skúrir. Við erum öll á þessu ferðalagi því við höfum valið að slást í för með ungu pari sem fer þessa leið. Hún er unglingsstúlka sem á von á barni og hann, sennilega dálítið eldri, áttaviltur, ringlaður vegna atburða gærdagsins og óttast morgundaginn. Þau eru á ferð að skipun keisarans, en við veljum að fylgja þeim eftir því við þekkjum áfangastaðinn og hvað þýðingu ferðalokin hafa fyrir okkur öll. Áfangastaðurinn er ávallt sá sami, fjárhús þar sem lítill drengur verður vafinn reifum og lagður í jötu. Við fylgjum þeim eftir af því að við viljum upplifa undrið stórkostlega, enn og aftur og taka þátt í fögnuði á himni og á jörðu, fögnuði engla, fjárhirða og vitringa. Við vitum að litla barnið í jötunni hefur óendanlega mikla þýðingu fyrir líf okkar og fyrir alla heimsbyggðina.

Við erum samferðafólk á ferð og þokumst í átt til Betlehem Gangan þangað er, eins og gengur og gerist, okkur mislétt eða miserfið. Sum okkar eru stressuð og æst vegna þess sem í vændum er, meðan önnur varðveita kyrrðina, lotninguna fyrir því sem koma skal. Þetta ferðalag veitir okkur gleði en gerir okkur líka döpur. ekki vegna sjálfs ferðalagsins, heldur vegna þess hvar við eru stödd í lífinu, vegna fátæktar, vegna sorgar eða annars missis. Við finnum ekki gleðina og skiljum ekki í svipinn tilgang ferðarinnar. Við höfum ekki ráð á að veita okkur og okkar nánustu það sem samferðafólkið kallar eftir, ætlast er til af okkur. Við eigum nefnilega mismikið nesti.

Á göngunni leifum við okkur að líta í kringum okkur og sjáum glysið og glingrið, látum hrífast með um stund. Föllum fyrir kostaboðum farandsalanna. En sjáum líka fegurðina í sköpuninni, listunum og öðrum verkum mannanna Stundum drögumst við aftur úr samferðafólki okkar, göngum í humátt á eftir, nokkrir gefast upp og þurfa aðstoð. Aðrir geysast fram úr og eru komin á áfangastað á undan öllum öðrum, líta á ferðalagið sem keppni í dugnaði og framtakssemi.

Ferðalagið er líkamlega áreynsla, við hlaupum fram og til baka og reynum að undirbúa ferðalokin hið ytra, söfnum vistum og gjöfum. En gangan gefur okkur líka tækifæri til að íhuga og byggja okkur upp hið innra, svo að við getum við ferðalok komið vel undirbúin til hátíðinnar, bæði hið innra og hið ytra. Á þessu ferðalagi, sem öðrum, þurfum við að gefa okkur tíma til að á, setjast niður um stund. Gefa okkur tíma til að ræða við samferðafólk okkar og hlúa að litla sálarljósinu okkar, glæða logann og virkja huga, hjarta og hönd. Senda samferðafólki okkar hlýjar kveðjur og góðar óskir í tilefni hátíðarinnar. Sýna náungakærleika, umhyggju, miskunnsemi, fyrirgefa og biðjast fyrirgefningar. Notum þessa göngu til að líta yfir farinn veg, leiðrétta mistök. Trú okkar krefst þess að við auðsýnum frumkvæði til góðs fyrir samferðafólk okkar. Á göngunni skulum við einbeita okkur að því að vera með einhverjum hætti uppfylling fyrirheitanna um heim þar sem fjötur syndar og sjálfselsku er rofinn, þar sem vetrarmyrkur eigingirni og kaldlyndis víkur fyrir kærleika litla barnsins sem kemur til okkar við ferðalok.