Setningarræða á prestastefnu 24. apríl 2018
Dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen, vígslubiskupar, prestar, djáknar, gestir.
Sognepræst Martin Ishøj. Jeg byder dig velkommen til Island og også til
vores præstekonference. Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin
til setningar prestastefnunnar hér í Neskirkju á því herrans ári 2018.
Árinu sem við fögnum aldarafmæli fullveldisins og aldarafmæli
prestafélagsins. Ég þakka fólkinu hér í Neskirkju fyrir fundaraðstöðuna
og allan undirbúninginn. Einnig þakka ég synodusnefndinni samstarfið,
en í henni eru auk starfsfólks á Biskupsstofu, fulltrúar úr stjórn
Prestafélagsins. Ég þakka doktor Arnfríði Guðmundsdóttur fyrir
prédikunina við guðsþjónustuna og þeim er þjónuðu með einum eða öðrum
hætti við hana. Organistanum og kórnum hér í kirkjunni þakka ég fyrir
að vera með okkur hér í dag og flytja okkur fallega tónlist. Einnig vil
ég þakka starfsfólki Biskupsstofu fyrir þeirra framlag við
undirbúninginn sem og þeim er hafa lagt hönd á plóg með einum eða öðrum
hætti.
Umhverfismál
Á þessari prestastefnu verður fjallað um umhverfismálin og er
yfirskriftin tekin úr 1. kafla 1. Mósebókar „Og Guð leit allt sem hann
hafði gert, og sjá, það var harla gott.“ Umhverfismálin hafa verið á
dagskrá hjá þjóðkirkjunni eins og öðrum systurkirkjum okkar undanfarin
ár og því eðlilegt að þau séu til umræðu einnig á prestastefnunni nú.
Biblíulestrar, fyrirlestrar og málstofur taka eðlilega mið af því.
Á kirkjuþinginu í október sagði ég m.a. í setningarræðu minni:
„Auk minningar siðbótarinnar stendur upp úr öllu því mikla og góða
starfi þjóðkirkjunnar og þjónustu hennar um landið allt, ráðstefna
Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðina sem fram fór í samvinnu
við þjóðkirkjuna, í síðasta mánuði. Þetta var í fyrsta skipti sem slík
umhverfisráðstefna er haldin hér á landi. Fulltrúar þeirrar ráðstefnu
tóku einnig þátt í ráðstefnu hringborðs norðurslóða, Artic Circle þar
sem aðalræðumaðurinn var hans heilagleiki Bartholomew fyrsti, leiðtogi
grísk orþódoxu kirkjunnar, annarrar stærstu kirkjudeildar heims á eftir
rómversk kaþólsku kirkjunni.“
Það er gleðilegt að aftur hefur verið óskað eftir þátttöku kirkjunnar á
næstu norðurslóðaráðstefnu í október í haust og er stefnt að því að
daginn fyrir ráðstefnuna komi biskupar af norðurslóðum saman og ráði
ráðum sínum varðandi umhverfismálin. Þeir munu síðan taka þátt í
norðurslóðaráðstefnunni og prédika í kirkjum á suðvesturhorninu á
sunnudeginum, áður en haldið er heim.
Umhverfismálin hafa verið á dagskrá þjóðkirkjunnar. Söfnuðir hafa verið
hvattir til þátttöku í tímabili sköpunarverksins sem stendur yfir frá
1. september til 4. október í ár eins og síðast liðið ár. Markmiðið er
að umhverfisstarfið tvinnist inn í daglega starfsemi safnaðanna og
kirkjunnar allrar. Ég hef hvatt til athafna í hverjum söfnuði og tel
æskilegt að söfnuðir kirkjunnar sækist eftir vottun Umhverfisstofnunar á
starfsemi sinni. Á morgun mun fulltrúi Umhverfisstofu fræða okkur
nánar um það ferli. Heimsbyggðin skynjar nú sem aldrei fyrr nauðsyn þess
að hlúa að jörðinni og sérstaklega því að snúa við og draga úr ofhlýnun
jarðarinnar. Næstu 5-10 ár munu skipta sköpum um það hvort mannkyn nái
markmiðum Parísarsamkomulagsins, svo að hlýnunin fari ekki yfir 2°C.
Gerist það ekki, verða afleiðingarnar skelfilegar fyrir mannkyn og
lífríkið allt. Nú þurfa orð að verða að verkum og þar getur kirkjan
skipt sköpum.
Á ráðstefnunni um réttlátan frið við jörðina var samþykkt ályktun sem
allir viðstaddir þátttakendur skrifuðu undir í Þingvallakirkju. Þar
segir m.a.: „Við hvetjum kirkjur til að nýta sér sitt eigið tungutak,
ekta biblíumál og kirkjuhefðir til að auka umhverfisvitund, hvetja til
aðgerða og auka sjálfbærni í kirkju og samfélagi.
Við hvetjum kirkjur til virkrar þátttöku við að koma á og efla sjálfbæra
lífshættti á öllum sviðum, á þjóðfélags vísu og eins í hverjum söfnuði.
Og við fögnum því að kirkjur og kirkjulegar stofnanir ákveði að beina
fjárfestingum sínum frá óvistvænum og ósjálfbærum iðnaði. Sé horft til
þess hvað samtök okkar kristinna manna eru víðtæk innan þjóðlanda og á
heimsvísu felast fjölmörg tækifæri í nettengslum okkar og samskiptum við
samskiptaaðila innan annarra trúarbragða. Við ættum að nýta allar
tiltækar leiðir, þar á meðal samskiptagetu okkar bæði innanlands og á
alþjóðavettvangi, til að virkja þessa kosti.“
Lokaorð yfirlýsingarinnar, hljóða þannig. „Í Opinberunarbók Jóhannesar
(22.2) er þeirri sýn brugðið á loft um að mannlegt líf blómgist og
dafni, sem Ráðstefnan aðhyllist: „Beggja vegna móðunnar var lífsins tré
sem ber tólf sinnum ávöxt. Í hverjum mánuði ber það ávöxt sinn. Blöð
trésins eru til lækningar þjóðunum.
Endurnýjum og helgum tengsl okkar við náttúruna til líknar þjóðum og heimi.“
Hið íslenska biblíufélag
Biskup Íslands er forseti hins íslenska Biblíufélags og hefur verið það
allt frá stofnun félagsins þann 10. júlí árið 1815. Geir Vídalín var þá
biskup Íslands og þar með fyrsti forseti félagsins. Telst mér til að
ég sé 14. forseti félagsins. Í stjórn þessa elsta starfandi félags
landsins eru auk biskups Íslands 4 guðfræðingar og 4 leikmenn. Nýr
verkefnisstjóri tók til starfa í byrjun árs og er það Guðmundur
Brynjólfsson djákni. Skrifstofan flutti frá Biskupsstofu í
safnaðarheimili Dómkirkjunnar í lok febrúar. Ný heimasíða félagsins var
einnig opnuð á árinu og Biblían á íslensku er nú komin á app. Tilkoma
snjalltækja felur í sér mikla samfélagsbreytingu og er stór hluti
Íslendinga með snjalltæki á sér flestar stundir. Þegar Biblían er
aðgengileg á slíku appi þá þýðir það að meirihluti Íslendinga verður með
rafrænan aðgang að Biblíunni í vasanum, allar stundir! Er það von
stjórnarinnar að þessar breytingar allar verði til blessunar fyrir
kirkju og almenning.
Áskorun afhent
Þann 15. janúar 2018 afhentu formaður félags prestsvígðra kvenna og
varaformaður Prestafélagsins áskorun til yfirstjórnar kirkjunnar. Undir
hana skrifa 65 prestsvígðar konur. Í áskoruninni segir:
„Konur í prestastétt búa, líkt og aðrar konur, við kynbundið ofbeldi,
áreitni og mismunun á vinnustöðum sínum. Gerendur eru yfirmenn,
samstarfsfólk, sjálfboðaliðar og þau sem nýta sér þjónustu kirkjunnar.
Allar konur eiga rétt á að starfa í öruggu umhverfi, vera lausar við
kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun af öllu tagi í sínum störfum.
Frásagnir prestvígðra kvenna sem starfa í þjóðkirkjunni sýna svart á
hvítu að breytinga er þörf.
Þjóðkirkjan hefur líkt og mörg önnur félagasamtök og stofnanir markað
stefnu og búið til úrræði í þessum málum en sögur kvenna í kirkjunni
sýna að mikið verk er óunnið þar sem annars staðar í samfélaginu.
Við undirritaðar skorum á biskup Íslands, kirkjuráð, kirkjuþing, presta
og sóknarnefndir að beita sér fyrir siðbót hvað varðar vinnuumhverfi
kvenna, prestvígðra og annarra, í kirkjunni.
Undir þessa yfirlýsingu skrifa konur í prestastétt. Ekki er víst að
náðst hafi í allar prestvígðar konur við gerð þessarar áskorunar.“
Áður höfðu karlkyns prestar og djáknar sent frá sér yfirlýsingu á facebook. Þann 24. nóvember var þessi yfirlýsing birt:
„Við, karlprestar og karldjáknar í þjóðkirkjunni, heitum því að gera
allt sem við getum til að tryggja konum öryggi innan þjóðkirkjunnar og
þar sem við höfum völd og áhrif.
Þöggun um kynferðislega áreitni og valdbeitingu verður ekki liðin af okkar hálfu.
Við munum tilkynna áreitni sem við verðum vitni að.“ Undir þessa yfirlýsingu skrifa 73 karlar.
Það ljóst að alheimsbyltingin metoo hefur náð inn í kirkjuna okkar og um
það eru flestir sammála að taka hana alvarlega og vinna að siðbót innan
hennar til að tryggja öruggar aðstæður fyrir þau öll er henni þjóna og
hana sækja.
Árið 2012 skilaði svonefnd úrbótanefnd tillögum sínum um úrbætur til að takast á við mál af þessum toga. Það hefur verið erfið fæðing að koma þeim tillögum í framkvæmd en ein þeirra verklag í viðkvæmum aðstæðum verður kynnt hér á prestastefnunni. Hugmyndin er að þau öll sem þjóna innan kirkjunnar með einum eða öðrum hætti fari í gegnum netnámskeið um verklag í viðkvæmum aðstæðum og er það einn þátturinn í að gera kirkju okkar betri og öruggari fyrir alla. Einnig vil ég minna á að árið 2003 gaf kirkjan út efni, „Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum“ og er það gott innlegg í umræðu dagsins um úrbætur í kirkjunni.
Fræðslustarf
Eins og kunnugt er þurfti að setja ýmis mál í biðstöðu vegna fjárskorts
þegar kirkjunni var gert að skera niður fjárhagslega vegna hrunsins.
Sem betur fer hefur staðan batnað og nú er verið að vinna að því að auka
fræðslustarf kirkjunnar til muna. Það er alveg ljóst að kirkjan verður
sjálf að axla ábyrgð varðandi kristindómsfræðslu ef komandi kynslóðir
eiga að kunna á henni einhver skil. Öll fræðsla kirkjunnar er
skírnarfræðsla, enda er það að boði frelsarans sjálfs sem við erum send
út með það erindi að skíra og kenna. Skírnum hefur fækkað hér á landi
eins og í nágrannalöndum okkar og er það ávísun á minnkandi þekkingu á
kristinni trú og þeim gildum sem felast í henni. Það er alvarlegt mál
fyrir kirkjuna ef hún stendur sig ekki í skírnarfræðslunni og þegar nýr
verkefnisstjóri var ráðinn á fræðslusviðið síðast liðið haust setti ég
fræðslu um skírnina sem forgangsmál.
Viðbótarskyldur – breyting á launakerfi
Nokkrir prestar í fámennum prestaköllum hafa fengið viðbótarskyldur við
þjóðkirkjuna, m.a. í fræðslumálum. Varðandi þessar viðbótarskyldur þá
vil ég taka fram að sé sóknarprestsstaða auglýst með viðbótarskyldum við
þjóðkirkjuna þá gengur sóknarprestsstarfið alltaf fyrir. Viðkomandi
prestur er fyrst og fremst sóknarprestur og þjónn sóknarbarna sinna.
Þannig hefur verið hægt að auglýsa fámenn prestaköll en ekki leggja þau
niður eða sameina þau öðrum.
Mínar hugmyndir um framtíðarskipan prestakalla eru þær að prestaköll
verði í framtíðinni stór með mörgum prestum. Svo dæmi sé tekið, þar sem
ég þekki best til, þá sé ég fyrir mér að öll Ísafjarðarsýsla verði eitt
prestakall þar sem prestarnir vinni saman, skipuleggi saman og skipti
með sér verkum þó þeir búi á mismunandi stöðum í prestakallinu. Þetta
tel ég vera ákall nútímans og framtíðarinnar. Ég hef tekið eftir því að
unga fólkinu hugnast ekki að vera einyrkjar. Þannig tel ég líka að
bæta megi þjónustu við sóknarbörnin og jafna álag presta í starfi.
Þetta sé ég fyrir mér um allt land, í dreifbýli, sem og í þéttbýli.
Eins og kunnugt er var gerð breyting á launakerfi presta í lok síðasta
árs. Horfið var frá jafnlaunastefnunni sem ríkt hefur í prestastéttinni
um árabil. Prestar eru nú í ólíkum launaflokkum. Þegar til framtíðar
er litið þá getur þessi stefna t.d. haft þau áhrif að sum prestaköll
verða rýr á meðan önnur gefa meira. Ef prestaskortur verður eins og
hefur gerst í kirkjusögunni þá getur verið erfitt að manna rýrt
prestakall sem e.t.v. vill er með mörgum litlum sóknum, fámenni í
dreifðum byggðum. Stækkun prestakallanna ætti því að vera jákvæð þegar
horft er til þessarar breytingar á launastefnunni.
Það eru fleiri vígðir þjónar í kirkju okkar en prestar í sóknum
landsins. Nokkrir djáknar starfa í sóknum og hjá stofnunum með prestum
eða sem einyrkjar. Prestar eru líka í þjónustunni sem sinna fólki í
sérstökum aðstæðum. Sjúkrahúsprestar, fangaprestur, prestur
heyrnarlausra, prestur fatlaðra, prestur Kvennakirkjunnar og prestur
innflytjenda. Mikið hefur mætt á þeim síðastnefnda, Toshiki Toma
undanfarin ár og hefur hann þjónað þeim sem hingað leita erlendis frá,
m.a. hælisleitendum sem margir hverjir hafa flúið ömurlegar aðstæður
sínar og sumir vegna trúar sinnar. Ég þakka honum og ykkur öllum sem
hafið tekið þátt í starfinu með honum.
Unga fólkið
Unga fólkið er framtíðin er oft sagt með réttu. Á síðasta kirkjuþingi
var samþykkt ályktun um hlutdeild unga fólksins í kirkjustarfi og
stjórn. Þessi ályktun fylgir eftir ályktun tólfta þings Lúterska
heimssambandsins frá síðasta ári um þátttöku ungs fólks í stjórn
aðildarkirkna sambandsins. Miðað er við að ungt fólk á aldrinum 16 – 30
ára verði að jafnaði minnst tuttugu prósent innan hverrar
skipulagsheildar í kirkjunni. Þetta á m.a. við varðandi kirkjuþingið
sem kjósa á til í næsta mánuði. Við erum ekki að standa okkur vel í
þessum efnum og verður fróðlegt að sjá hvort breyting verður á. Ungt
fólk í prestsþjónustu, þ.e. innan við þrítugt nær ekki einu sinni 5%
eins og er.
Kirkjuþing unga fólksins er haldið ár hvert og ljóst er af þeim málum
sem þar eru á dagskrá að ungt fólk er lengra komið í hugsun en eldra
fólk, t.d. hvað umhverfismál varðar. Víða er æskulýðsstarf í blóma en
ljóst er að við verðum að leggja enn meiri áherslu á það í náinni
framtíð.
Farskóli leiðtogaefna útskrifar nema árlega, nú síðast þann 11. apríl.
Ungmenni í farskólanum stunda tveggja ára leiðtoganám. Markmið skólans
er að vera stuðningur við söfnuði í þjálfun hæfra og góðra leiðtoga og
þannig undirbyggja faglegt barna- og unglingastarf innan kirkjunnar. Í
farskólanum er fræðsla um kristna trú, kirkjuna og starf hennar.
Nemendur eru þjálfaðir í félagsstörfum um leið og áhersla er lögð á að
sinna uppbyggingu hvers þátttakanda. Einnig er mikið lagt upp úr því
að skapa gott samfélag. Farskólinn hefur starfað um árabil og margir
nemendurnir tekið þar sín fyrstu skref sem leiðtogar innan kirkjunnar.
Leitandi.is
Eins og flestir vita hefur verið settur í loftið nýr vefur á vegum
kirkjunnar sem kynna á það góða starf sem fram fer í kirkjum og sóknum
landsins. Þar er fjallað um gildi góðs lífs og haldið á lofti því sem
fólkið í kirkjunni hefur fram að færa. Myndver hefur verið sett upp hér
á neðri hæðinni í Neskirkju en hluti af efninu á vefnum birtist í
myndbandsformi. Tilvist þessa nýja vefs hefur ekki farið hátt enda er
hann enn í þróun en engu að síður er alveg óhætt er að halda honum á
lofti og benda á hann. Prestum landsins hafa nýverið verið sendar
upplýsingar frá vefstjóranum og hvet ég ykkur til að kynna ykkur vefinn
og nýta ykkur hann.
Kirkjan hefur fleira en prédikunarstólinn til að koma boðun sinni,
fræðslu og kynningu á framfæri. Með nýjum aðferðum og nýrri tækni
myndast tækifæri til að koma boðskapnum til skila með þeim miðlum sem
eru fyrir hendi á hverri tíð. Tæknin kemur þó ekki í stað mannlegra
samskipta og því mun áfram verða net kirkjunnar þjóna um land allt þó
betri samgöngur og breyting á íbúaþróun hafi þar eitthvað að segja.
Samstarf og GTD
Um árabil hefur samstarf verið á milli þjóðkirkjunnar og Guðfræði- og
trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands um menntun presta. Sérstakur
samningur hefur verið endurnýjaður og bættur, nú síðast árið 2017. Er
hann gerður til að styrkja tengslin milli þessara aðila með það að
markmiði að efla starfsmenntun og starfsþjálfun verðandi þjóna
kirkjunnar. Til að hljóta embættisgengi þurfa nemendur að klára
mag.theol. próf frá H.Í. og starfsþjálfun frá þjóðkirkjunni. Þetta
samstarf hefur verið gefandi og árangursríkt og geta má þess að á
ráðstefnu Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðina voru
guðfræðinemar sjálfboðaliðar og lögðu ráðstefnugestum lið og sáu um ýmis
hagnýt mál fyrir ráðstefnuna og á henni. Er þeim þakkað ánægjulegt
samstarf.
Umsagnir og viðtöl
Undanfarna mánuði hafa mörg frumvörp verið borin upp á Alþingi er snerta
trú og lífsskoðun. Má þar nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum
um brottnám líffæra, tillögu til þingályktunar um dánaraðstoð og
frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum er varða umskurð
drengja. Biskup hefur sent umsagnir um þessi mál og fleiri en mesta
athygli hefur vakið málið varðandi umskurð drengja. Innlendir og
erlendir fjölmiðlar hafa óskað eftir viðbrögðum biskups og það ásamt
fleiru leiddi til þess að ráðstefna var haldin í síðustu viku í Norræna
húsinu á vegum samráðsvettvangs trúarbragðanna um málið. Fyrirlesarar
voru flestir erlendir, gyðingar, múslimar, kristnir, stjórnmálamenn og
fólk sem vinnur á vegum kirknasamtaka. Þarna var virðing fyrir
mismunandi skoðunum í hávegum höfð og augljóst að málið á sér margar
hliðar sem verður að taka tillit til við afgreiðslu þess á Alþingi.
Ráðstefnunni var streymt beint út og á að vera hægt að sjá hana á
veraldarvefnum. Skipuleggjendum ráðstefnunnar, fulltrúum trúarbragðanna í
samráðsvettvangnum, er þakkað þeirra góða starf, en fyrir því fer Jakob
Rolland prestur kaþólskra nú um stundir.
Þess skal og getið að verið er að vinna að uppsetningu nýrra vefja í stað kirkjan.is og tru.is. Efni prestastefnunnar og önnur gögn hennar hafa verið sett inn á nýjan þjónustuvef, innri vef kirkjunnar. Þessi vinna hefur tekið allt of langan tíma og hefur það valdið ýmsum vandræðum s.s. við skýrsluskil. Er beðist velvirðingar á því.
Mannauðsmál
Stjórnsýsla kirkjunnar tekur mið að regluverki og stjórnsýslu ríkisins.
Um árabil hefur það tíðkast að prestar sem hafa látið af störfum hafa
getað sinnt afleysingaþjónustu og er þeim öllum sem brugðist hafa vel
við slíkri beiðni þakkað fyrir. Nú hefur það hins vegar komið í ljós að
biskup getur ekki sett presta sem orðnir eru 70 ára til afleysinga eins
og verið hefur. Þetta kann að hafa það í för með sér að vígja þurfi
presta til afleysingaþjónustu. Það hefur ekki verið gert í fjölda ára.
Nokkrir prestar hafa óskað eftir því að minnka þjónustu sína í 50%
starf og hefur verið reynt að bregðast við því eins og flestu því er
lýtur að mannauðsmálum í kirkjunni.
Kynning á niðurstöðu starfsánægjukönnunar sem gerð var á síðasta ári hefur farið fram í öllum prófastsdæmum. Undirbúningur stendur yfir að því að gera áætlun um hvernig unnið verði úr niðurstöðum könnunarinnar. Verður það gert í samstarfi við prestastéttina. Niðurstöður könnunarinnar voru í flestu jákvæðar, að mínu mati, og verður reynt að bæta úr þeim atriðum sem fram kom að laga þurfi. Ég þakka ykkur fyrir að taka þátt og gera okkur þannig kleift að bæta kirkjuna og gera hana að betri og öruggari vinnustað.
Persónuvernd
Ný reglugerð um persónuvernd tekur gildi á Evrópska efnahagssvæðinu þann
25. maí nk. Í reglugerðinni felst aukin vernd neytenda gegn misnotkun
persónuupplýsinga og að draga úr söfnun upplýsinga og miðlun. Margvísleg
fleiri nýmæli er þar að finna. Þjóðkirkjan þarf að undirbúa gildistöku
reglnanna eins og aðrir. Söfnuðir og aðrar skipulagsheildir kirkjunnar,
vígðir þjónar og aðrir starfsmenn þurfa að huga að þessum málum.
Biskupsstofa hefur hafið undirbúning að þessu verkefni og fengið
sérfræðinga til ráðgjafar. Vígðir þjónar gegna mikilvægu hlutverki við
innleiðingu reglugerðarinnar hvað varðar skráningu og meðferð
persónuupplýsinga í sóknum og í tengslum við prestsþjónustu við
einstaklinga. Biskupsstofa mun senda öllum vígðum þjónum í þjónustu
þjóðkirkjunnar nánari upplýsingar um þetta mál mjög fljótlega. Ég
treysti því að vígðir þjónar muni bregðast vel við og taka þátt í þessu
þýðingarmikla verkefni, sem snýst ekki hvað síst um að virða mannhelgi
allra.
Nývígðir prestar og djákni
Á synodusárinu voru 5 prestar vígðir og einn djákni.
Mag. theol. Stefanía G. Steinsdóttir, var vígð 13. ágúst 2017, skipaður
prestur í Glerárprestakalli, Eyjarfjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi frá
15. ágúst 2017.
Cand. theol. Sylvía Magnúsdóttir, var vígð 24. september 2017, til þjónustu sem prestur á Landspítala.
Mag.theol. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, var vígð 12. nóvember 2017,
skipaður sóknarprestur í Hofsprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi frá
15. nóvember 2017.
Mag.theol. Dís Gylfadóttir, var vígð 12. nóvember 2017, sem prestur í
Lindaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. nóvember 2017.
Mag.theol. Díana Ósk Óskarsdóttir, var vígð 25. mars 2018 til þjónustu sem prestur á Landspítala.
Nývígður djákni
Elísabet Gísladóttir, var vígð 24. september 2017, sem djákni á Sóltúni í Reykjavík.
Skipanir í embætti og lausn frá embætti
Séra Stefán Már Gunnlaugsson, sóknarprestur í Hofsprestakalli,
Austurlandsprófastsdæmi var skipaður héraðsprestur í
Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. júní 2017.
Séra Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, prestur heyrnarlausra, skipaður
prestur í Njarðvíkurprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. júní
2017.
Séra Sveinn Valgeirsson, prestur í Dómkirkjuprestakalli,
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra var skipaður sóknarprestur í sama
prestakalli frá 1. júlí 2017.
Séra Fritz Már Jörgensson, prestur í Noregi, skipaður prestur í
Keflavíkurprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. október 2017.
Séra Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Keflavíkurprestakalli,
Kjalarnessprófastsdæmi var skipaður héraðsprestur í
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. nóvember 2017.
Séra Sunna Dóra Möller, prestur í Akureyrarprestakalli, skipaður
sóknarprestur í Hjallaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá
16. janúar 2018.
Einnig tók séra Hulda Hrönn M. Helgadóttir við embætti prests í
Kvennakirkjunni auk þess að sinna verkefnum er lúta að áskorun
prestsvígðra kvenna um siðbót innan kirkjunnar hvað varðar vinnuumhverfi
kvenna, prestvígðra og annarra, í kirkjunni.
Andlát
Prestar
Séra Gísli Halldórsson Kolbeins, fyrrv. sóknarprestur í
Stykkishólmsprestakalli Vesturlandsprófastsdæmi, lést 10. júní 2017.
Hann var fæddur 30. maí 1926.
Eftirlifandi eiginkona séra Gísla er Sigríður Ingibjörg Bjarnadóttir.
Séra Björn Helgi Jónsson, fyrrum sóknarprestur í Húsavíkurprestakalli,
Þingeyjarprófastsdæmi, lést 1. apríl 2018. Hann var fæddur 31. október
1921.
Prestsmakar
Frú Unnur Guðjónsdóttir, ekkja séra Péturs T. Oddssonar. fyrrv.
sóknarprests í Hvammsprestakalli og prófasts í Dalaprestakalli, lést 1.
september 2017. Séra Pétur lést 1956.
Frú Jakobína Finnbogadóttir, ekkja séra Þóris Kr. Þórðarsonar,
prófessors við guðfræðideild Háskóla Íslands, lést 18. desember 2017.
Þórir Kristinn lést 26. febrúar 1995.
Frú Auður Guðjónsdóttir, ekkja séra Kristjáns Róbertssonar, fyrrv.
sóknarprests í Seyðisfjarðarprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi, lést
1. mars 2018. Séra Kristján lést 2008.
Frú Beta Einarsdóttir, eiginkona séra Fjalars Sigurjónssonar, fyrrv.
sóknarprests í Kálfafellsstaðarprestakalli og prófasts í
Skaftafellsprófastsdæmi lést 2. mars 2018.
Frú Sigurveig Georgsdóttir, eiginkona séra Lárusar Guðmundssonar, fyrrv. sendiráðsprests í Kaupmannahöfn, lést 4. mars 2018.
Við þökkum Guði fyrir trúa þjónustu þeirra í kirkjunni og biðjum Guð að
helga minningu þeirra og blessa ástvini þeirra. Rísum úr sætum og lútum
höfði í hljóðri bæn.
Jafnræði Umhyggja Samstaða
Í biskupstíð minni hef ég leitast við að fara ekki í manngreinarálit
þegar mál koma upp. Ég hef ávallt haft að leiðarljósi að allir séu
jafnir, hafi jafnan rétt og fái réttláta málsmeðferð. Starfsmannamál
eru erfiðust allra mála og aldrei má gleyma því að bak við hvert slíkt
mál er manneskja sem á sér fjölskyldu og vini sem líka þjást þegar
erfiðleikar steðja að. Biskupsembættið verður að lúta lögum og reglum og
lögfræðingar eru best til þess fallnir að lesa úr þeim og veita
lögfræðilegar leiðbeiningar og ráð. Í hverju máli ráðfæri ég mig við
fleiri en einn lögfræðing áður en ákvörðun er tekin og bið einnig Guð um
leiðbeiningu og hjálp. Það kemur fyrir að menn eru ekki sáttir við
niðurstöðu mína og þá er hægt að skjóta málum til annarra aðila innan
kirkju sem utan. Það er réttur hvers manns.
Umhyggja er góður eiginleiki stjórnenda og á það líka við í kirkjunni.
Samstaða er nauðsynleg í kirkjunni. Án hennar mun okkur ekki takast að gera kirkjuna betri. Við höfum öll það hlutverk að koma fagnaðarerindinu til skila og ljóst er að orð baráttumannsins „sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér“ eiga við kirkjuna, þegar sótt er að henni úr öllum áttum.
Kirkjan er samfélag, þar sem umhyggja og kærleikur eiga að ríka. Hún
flytur það besta erindi sem mannkyni hefur borist um fullkomna elsku
Guðs til manna. Framkoma okkar gagnvart hvert öðru á að endurspegla þá
elsku. Jesús sagði og segir enn: “Ég kalla yður ekki framar þjóna því
þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því
ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki
útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara
og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það
sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið
hvert annað.“
Ég þakka ykkur trúa þjónustu í kirkju Krists og bið hann að gefa ykkur kraft og djörfung til góðra verka.
Göngum með gleði til starfa á þessari prestastefnu. Göngum með gleði til þjónustunnar í kirkju Krists. Bræður og systur. Megi vinátta okkar styrkjast og samheldni okkar aukast. Prestastefna Íslands árið 2018 er sett.