Guðsmóðir í gallajakka

Guðsmóðir í gallajakka

Má leika Maríu mey í gallajakka, í helgileik skólans?

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu á þessu helga kvöldi, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega jólahátíð kæru kirkjugestir!

i.

En það bar til … alla heimsbyggðina … fyrsta skrásetningin … fóru þá allir …

Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. (Lúkasarguðspjall 2:7)

En það bar til um þessar mundir, nýlega, að helgileikur var settur upp í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Ég sá hann ekki – því miður. En af þessari leiklist bárust fréttir, ég segi ekki um alla heimsbyggðina, en í það minnsta hingað út í Þorlákskirkju.

Þetta var svo sem hvorki fyrsti né eini helgileikurinn sem var settur upp þá er Guðni Th. Jóhannesson var landstjóri á Íslandi, en það skiptir bara engu máli. Þetta var samt helgileikur.

Stuttu síðar fóru mörg börn í Þorlákshöfn, öll í sína kirkju, Þorlákskirkju – í sunnudagaskólann sinn, því þeim fannst gaman í sunnudagaskólanum; þar þurftu þau ekkert að láta skrásetja sig. Það sem þau gerðu þar var að syngja og tralla, fara með bænir, lofa Guð, horfa á Rebba og Vöku skjaldböku spjalla saman og lita myndir, hitta vini sína, fá límmiða – og hlusta á sögu.

Söguna sagði feitur kall sem sat á kistu þarna framan við gráturnar. Það var djákninn. Sagan var um Maríu sem síðar varð mamma hans Jesú. Börnin könnuðust við Maríu úr helgileiknum í skólanum. Leikþætti þar sem sjötti bekkur hafði, samkvæmt hefð, sviðsett jólaguðspjallið.

Og þá var það að ein lítil engilfríð stúlka leit á djáknann og sagði: „Sjá ég boða yður mikinn fögnuð …“ Nei annars, nú er ég ýkja … Litla fallega stúlkan leit björtum augum á djáknann og sagði:

„Hún var í gallajakka.“
„Hver var í gallajakka?“ Svaraði djákninn.
„María mamma hans Jesú, sjötti bekkur lét hana vera í gallajakka í leikritinu.“ Sagði þá stelpan.

Og svo var ögn spjallað um þessa frumlegu leið í sviðsetningu; búningavalið á Guðsmóðurina – og við urðum sammála um að það væri allt í lagi að hafa Maríu í gallajakka. En, mér skildist að eitthvað hefðu sumir yngstu áhorfendurnir verð skepstískir á þessa ákvörðun leikhópsins – enda börn gjarna raunsæisfólk í listum. Líkt og margur sem kominn er til vits og ára og hefur hefðina í heiðri.

Og þá er spurt: Má það vera að María eigi að vera í gallajakka? – Er María í gallajakka?

Til að svara þessum spurningum ætlar sá sem hér stendur að grípa til þess að blanda saman menntun sinni í guðfræði og leiklistarfræðum og þá verður útkoman þessi:

Það gengur fullkomlega upp að hafa Maríu í gallajakka.

Í fyrsta lagi vegna þess að gallajakkar eru yfirleitt bláir og það er einmitt litur Maríu í listasögunni í gegnum aldirnar og þannig er líka María sögð klædd í raun og sann; um það vitna þau sem hafa séð hana; má þar nefna sýnirnar við Lourdes í Frakklandi (1858), Guadalupe í Mexíkó (1531) og Las Lajas í Kólumbíu (1754). Hún er alltaf í einhverju bláu, en það er alltaf í það minnsta eitthvað blátt í búningi hennar. Blái liturinn táknar náttúruna; himinn og haf, og hann táknar líka hið eðalborna og hann táknar einnig frið. Þess vegna er óhætt að hafa Maríu mey í gallajakka.

Í öðru lagi vegna þess að hin sögulega María hefur að öllum líkindum ekki verið í neinum litklæðum þegar hún kom til Betlehem því hún var alþýðukona; fátæk. Gallajakkinn er líka upphaflega alþýðuklæðnaður, fatnaður þrælandi vinnufólks – þannig er það líka rétt að hafa Maríu í gallajakka.

Í þriðja lagi vegna þess að María mey er móðir okkar allra um leið og hún er móðir Jesú Krists. Hún er konan sem bregður yfir sig gömlum gallajakka þegar hún skottast út í búð eftir langan vinnudag að kaupa bjúgu í matinn; hún er mamman sem á ekkert mikið af fötum en nær að gera mikið úr litlu og verður svona líka ljómandi töff í flottum gallajakka; og hún er móðirinn sem hefur tapað og situr í hópi útigangsfólks í skítugum gallajakka á fúnu vörubretti í ljótu húsasundi í borginni.

María mey, María Guðsmóðir, er mamma mín og mamma þín. Hún er táknmynd þess sem verndar, hún er táknmynd vonar og hún er táknmynd hreinleikans. Og það er einmitt vegna alls þess: verndar, vonar og hreinleika sem móðirinn verður svo átakanleg þegar lífið fer úrskeiðis.

Gallajakkinn spannar einmitt allt þetta litróf. Því var það frábær hugmynd að klæða Maríu í þá frægu fjölnota flík þegar sjötti bekkur Grunnskólans í Þorlákshöfn sviðsetti jólaguðspjallið á dögunum.

ii.

Guð er Guð og hefði getað með öllu móti, mögulegu jafnt sem ómögulegu, sent son sinn til manna. En kaus að gera það með milligöngu, móður. Aldrei hefur auðmýktin risið hærra en þegar konan sem valin var til þess að vera móðir Guðs á jörð sagði: „ég er ambátt Drottins“ (Ecce ancilla Domini). [ég hef þetta með á latínu svo þið gerið ykkur grein fyrir því hvað ég hef lagt mikla vinnu í þessa predikun]

Samþykki Maríu fyrir því að fá að bera Guð í heiminn er hámark lítilþægðar en um leið mikilfengleiki sem verður seint til jafnað; hér ganga í takt guðdómur og kvenleg reisn. Hinar sönnu táknmyndir auðmýktarinnar og kærleikans.

Og konan sem er útvalin er ekki sótt í höllu eða hof, heldur finnst hún á fábreyttu heimili og er þar slegin tónninn sem síðar varð hljómkviða Guðs í heimi, í lífi Jesú Krists: Staðan með þeim smáa og veika, þeim venjulega og að margra mati, óverðuga. Auðmýkt Maríu er ekki undirgefni heldur fyrstu skrefin í átt að mestu dýrð sem við þekkjum, þeirrar dýrðar sem við lofsyngjum í kvöld. Hún er vissulega þjónn. En hún bar líka þjón í þennan heim; okkar einasta eina líðandi þjón – okkar vegna. Fyrir mig – fyrir þig.

Hún verður þá strax móðirin sem gengur með okkur, á undan okkur, móðirin sem tekur svari okkar, móðirin sem líður með okkur og leiðir okkur. Hún er móðir okkar allra er hún vefur hann reifum og leggur hann í jötu; þar leggur hún okkur um leið og syngur í svefn. Það er leyndardómurinn og hann opinberast okkur einmitt svo sterkt í lofsöng Maríu þar sem hún fer frá því sem hún telur lítilmótlegast til þess sem hún telur stórkostlegast:

Önd mín miklar Drottin,
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.

(Lúkasarguðspjall 1:46-53)

Svo fór hún bara í gallajakkann sinn, sín alþýðuföt, gallajakka þess tíma, og heim til Jósefs. Og hann fór nokkru síðar með hana til Betlehem að láta skrásetja þau; og hún fór í gallajakkanum sínum og það var ekki pláss fyrir þau enda er ekki alltaf pláss fyrir lið í gallajökkum; það er kallað „dress code“ á útlensku. Og svo átti hún barn en á sama tíma voru hirðar úti í haga – og allir þekkja jú einkennisklæðnað þeirra. Og þeir vitjuðu hennar. Og við skulum hafa í huga að fjárhirðar þóttu nú ekki merkilegasti pappírinn í mannlegu samfélagi á þessum tíma. Oft var litið á þá sem hverja aðra umrenninga og sveitanna mestu slúberta. En, hvað um það, þeir kíktu fyrstir inn á hina undarlegu fæðingadeild … Og þið þekkið restina.

iii.

Af öllu þessu má læra að María er allar konur jafnt, allar konur jafnar. Af þessu má og læra að konan er kjarni lífsins og ekki bara hvaða kona sem er heldur móðirinn; móðir okkar allra, mæðurnar. Formæður okkar, en einnig þær yngstu mömmur sem við þekkjum í það og það sinnið, í gallajökkum. María.

Mömmur eru mömmur – eins og Guð er Guð, og þær geta svo sem með öllu móti, mögulegu jafnt sem ómögulegu, passað upp á okkur. Það er þeirra leyndardómur. Þær eru með okkur og ylja okkur – þær lifa í okkur og eru alltaf þær, sama hvernig allt veltist.

Það stendur í jólaguðspjallinu að Kristur Drottinn hafi fæðst, hann fæddist – og það merkir það eitt að hann átti mömmu, sem fæddi hann. Því helga ég þessa helgu stund móðurinni; hún knýr þessa frásögn hún ber ávöxt Guðs og svo Guð í heiminn – án hennar hefði orðið önnur saga, saga sem við þekkjum ekki og munum aldrei kynnast. Þessi dugar, þessi sem innifelur þennan dýrðarboðskap:

Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu. (Lúkasarguðspjall 2:11-12)

Stundum er sagt: „Jólin eru hátíð barnanna.“ Það er vissulega rétt, en jólin eru ekki síður hátíð mæðranna; það tel ég að þið þekkið flest ef ekki öll – með einum eða öðrum hætti. Skáldið Jón úr Vör setur móður og jól í fallegt samhengi í litlu ljóði sem heitir einmitt „Jól“:

Jól,
kertaljós í bláum fjarska,
bak við ár,
æskuminning um fegurð.

Stíg ég hreinn upp úr bala
á eldhúsgólfinu,
signdur af þreyttri móður,
færður í nýja skyrtu.

Jól,
fagnaðartár
fátæks barns –

Já, móðirin er ekki einsleit stærð, hún er auðvitað með ýmsum brag – hún kann að vera vel sett eða illa stæð, heilbrigð eða veik, heil eða biluð, skarti klædd eða í gallajakka. En hún er samt alltaf móðir. Það er hún sem gengur með og það er hún sem fæðir, það er hún sem annast og hún býr um, það er hún sem verndar – þegar plássleysið í heiminum verður svo yfirþyrmandi að það er ekki rúm fyrir þá sem smæstir eru; þá sem eiga allt sitt undir öðrum. Við sjáum það á hverjum degi; þá smán.

Mæður með börn. Maríu. Nakta, hrjáða, meidda, særða, eina eða í hópi. Hér heima, í útlöndum. Maríu í gallajakka.

Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu því eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. (Lúkasarguðspjall 2:7)

Munum það. Á fátt erum við eins stranglega minnt í jólaguðspjallinu eins og það: Að láta ekki umbúðirnar bera ástúðina ofurliði.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.