Ég á mér hirði hér á jörð

Ég á mér hirði hér á jörð

Studdur af góðri fjölskyldu og eiginkonu var yndislegt að fá að starfa sem prestur í fjörutíu ár, á meðal margra góðra vina, ævivina, sannkallaðra „Kristsvina.“ Vina sem höfðu fundið og komust að því að „góði hirðirinn“ leiðir okkur að „lindum lífsins“ sem eru svo dýrmætar og mikilvægar í lifuðu lífi.

Bæn: Ó, kom minn Jesús, kom sem fyrst, ó, kom og mér í brjósti gist, ó, kom þú, segir sála mín, ó, seg við mig: Ég kem til þín.

Biðjum saman! Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.

Jesús sagði: „Ég er góði hirðirinn. Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast.“

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum, Drottni Jesú Kristi! Amen. Þau eiga svo sannarlega við í kveðjumessu orð guðspjallsins í dag, á dögunum eftir páska, sem nefndir eru gleðidagar í kirkjunni. Rétt eftir að við höfum fagnað aðalhátíð kristinna manna, sjálfri upprisuhátíðinni. Upprisumorguninn var einstaklega fallegur í ár. Sólargeislarnir léku um alla kirkjuna okkar, Grafarvogskirkju, og listaverkið „Kristnitakan árið 1000“ eftir listamanninn Leif Breiðfjörð, sem er þekktur um allan heim fyrir listaverk sín í steindu gleri, hleypti geislum sólar í gegnum sig og mikil birta var til staðar í kirkjunni okkar, Grafarvogskirkju, en hún hefur verið mikið lofuð fyrir arkitektúr bæði hér heima og erlendis. Sérstaklega vel gerð fyrir fjölbreytilegt safnaðarstarf í nútíma samfélagi. Arkitektar hennar eru þeir Finnur Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, nefndi altarisgluggann þjóðargersemi (National Treasure) á fimmtíu ára afmæli Lionshreyfingarinnar, sem var haldið hátíðlegt hér í Grafarvogskirkju fyrir nokkrum árum. Á altarisglugganum má sjá Krist birtast á Þingvöllum árið 1000 og Þorgeir Ljósvetningagoða lýsa því yfir að hér á landi skyldu vera „ein lög, einn siður – ein trú.“ Í myndverkinu umlykur hann „hið skærasta ljós.“ Sjá má höfðingjana á Þingvöllum, þingmennina sem samhuga og samstilltir sameinuðust um niðurstöðu Þorgeirs um að ein lög, einn siður og ein trú skyldu ríkja á Íslandi.

Listaverkið var gefið af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á Kristnihátíðarári árið 2000 og vígt á vígsludegi Grafarvogskirkju þann 18 júní það ár. Listaverkið var gefið æsku landsins en Grafarvogssókn var þá og er ein fjölmennasta barnakirkjusókn á Íslandi.

Á liðnum árum hef ég haft yndi af því að segja frá því að Ísland hafi verið eina landið í veröldinni sem tók á móti kristinni trú án nokkurra blóðsúthellinga. Enginn lét lífið. Það má svo benda á að auðvitað var það snilli Þorgeirs sem olli því að friður skapaðist er hann greindi frá því að hinir heiðnu mættu iðka trú sína á laun.

Á Íslandi í rúm 1000 ár hafa allir þegnar þjóðarinnar getað iðkað trú sína frjálsir og óháðir. Hér á okkar ágæta landi, hjá okkar litlu þjóð, er til staðar trúfrelsi, þó flestir Íslendingar, eða yfir 90%, eigi sína kristnu trú. Af hverju skyldi svo vera? Jú, það er vegna þess að við höfum í meira en tíu aldir átt þann að, sem við höfum nefnt „góða hirðinn,“ þann sem boðar frið, kærleika og fyrirgefningu.

Þar sem ég er farinn að nefna listaverk í kirkjunni og kirkjuna okkar, Grafarvogskirkju, sem listaverk er ekki óeðlilegt að ég nefni listaverk, myndverk Magnúsar Kjartanssonar hins þjóðþekkta listamanns. Við fáum að hafa þau til sýnis hér í kirkjunni. Þau sýna m.a. krossfestingu Krists og önnur trúarstef. Verkin eru í eigu ekkju Magnúsar, listakonunnar Koggu.

Nýja kirkjuselið okkar á Spönginni hér í Grafarvogi prýðir einnig listaverk eftir Leif Breiðfjörð sem nefnist Andagift og tengist það altarisglugganum í kirkjunni. Kirkjuna okkar og kirkjuselið prýða einnig fallegir kirkjugripir, listaverk, sem allir eru hannaðir og smíðaðir af gullsmiðnum Stefáni Boga Stefánssyni. Stefán hefur hannað og smíðað kirkjugripi í fjölmargar kirkjur hér á landi og erlendis.

Konurnar þrjár, samviskusömu konurnar þrjár, sem lögðu leið sína við upprisu sólar í austri að gröf Jesú Krists á helgum páskamorgni voru mjög svo leiðar vegna þess að þær töldu að sá sem hafði kennt þeim svo mikið í lífinu væri látinn. Töldu að Kristur Jesús væri ekki lengur mitt á meðal þeirra.

Við ástvinamissi komust við mennirnir oft að því hvað lífið er. Sá sem hefur misst mest spyr ávallt stærstu spurninganna. Hann spyr heitast. Þegar við missum okkar nánustu fer oft hluti af okkur sjálfum en um leið öðlumst við meiri skilning á lífinu. Við öðlumst meiri þroska.

Konurnar þrjár sem komu að gröfinni höfðu eignast sinn góða hirði sem hafði „leitt þær að vötnum þar sem þær máttu næðis njóta“ eins og segir í 23. Davíðssálmi. Þær gengu inn í gröfina, hvar steininum, sem lokaði af gröfina, hafði verið velt frá. Þar inni var „hvítklæddur engill,“ engill klæddur hvítum kyrtli rétt eins og fermingarbörnin okkar og skírnarbörn klæðast Engillinn bauð konunum að vera ekki hræddar. Jólakveðjan „Verið óhræddir“ var endurtekin en hljómar ávallt á páskum: „Verið óhræddar.“ „Þér leitið að hinum krossfesta. Sjá þarna er staðurinn sem þeir lögðu hann. Hann er ekki hér. Hann er upprisinn.“

Sá sem hafði lýsti því yfir að hann væri „góði hirðirinn“ hafði sigrað sjálfan dauðann. Í einum af textum eftir páska segir hann; „Ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast. hver og einn skiptir máli. Þær konurnar þrjár, sem komu að gröfinni, áttu eftir að hitta Krist Jesú fyrir upprisinn. Það gerðu lærisveinar hans einnig. Það gerum við kæru vinir líka. Við mætum þeim sem breytir öllu okkar lífi og tilveru. Við hittum hinn upprisna og hann gerir lífið þess virði að því sé lifað frá degi til dags. „Þér eruð hjörð mín, sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar“ segir Drottinn Guð.

Hann hefur svo sannarlega komið og kemur til okkar sem hinn „ góði hirðir.“ Þess vegna eigum við okkar góðu og traustu kirkju, hina lifandi og gefandi kirkju. Í nútímanum hér á Íslandi virkar það á okkur sem kirkjan okkar, hin kristna kirkja, sem á hinn góða hriði að, þann sem vill leiða okkur, blessa og styrkja, eigi nokkuð erfitt uppdráttar, eða hvað? Síðastliðið sumar sótti ég ráðstefnu í Kaupmannahöfn í Danmörku. Þar voru samankomnir forystumenn í kirkjunni á Norðurlöndunum sem einnig eru forystumenn í félagsmálum. Á ráðstefnunni var fjallað um hina kristnu trú og kirkju hins „góða hirðis“ Þjóðkirkjurnar á Norðurlöndunum, hvernig kirkjunni vegnar í nútímanum og hvernig henni gengur að koma kærleiks- og friðarboðskap sínum til skila. Þar greindu prestarnir, sem sátu fundinn, frá því hve margir væru hjá hverri þjóð á Norðurlöndunum teknir inn í Kirkju Jesú Krists á jörðu í skírninni og hve mörg ungmenni í 8. eða 9. bekk væru fermd ár hvert. Það kom í ljós að engin af þjóðunum eða Þjóðkirkjum Norðurlandanna var nálægt því að vera með eins hátt hlutfall af skírðum og fermdum eins og Þjóðkirkjan á Íslandi. Þarna sátu menn, prestar, prófastar, forystumenn í félagsmálahreyfingum, eins og áður sagði, og fjölluðu um kristindóm nútímans og stöðu kirkjunnar. Og hver var niðurstaðan. Jú, hún var sú að á Íslandi væri í þessum málum algjört dýrðarríki, himnaríki, svo hátt væri hlutfall þeirra sem væru skírðir og fermdir og þeirra sem tilheyra Þjóðkirkjunni á Íslandi. Um 73% Íslendinga eru í Þjóðkirkjunni og í landinu öllu eru yfir 90% kristinnar trúar, tilheyra kristnum trúfélögum. Þetta finnst okkur Íslendingum ef til vill nokkuð merkilegt, eða hvað? Við hér í Grafarvogskirkju, prestar og starfsfólk kirkjunnar, vorum nýlega að ræða um það að það væru að verða til í landinu okkar góða, hjá þjóð okkar, „tvær kirkjur.“ Annars vegar sú kirkja sem oft er rætt um í fjölmiðlum og samkvæmt umræðunni virðist allt vera þar í „hers höndum,“ hins vegar kirkjan okkar sterka og trausta, þar sem safnaðarlíf er mjög svo blómlegt og víða fermast yfir 90 % af börnunum okkar á fermingaraldri.

Það er merkilegt að lítill hópur í þjóðfélaginu, sem er ekki stærri en einn fermingarhópur hér hjá okkur í Grafarvogskirkju, móti þjóðfélagsumræðuna svo mjög. Framkvæmi jafnvel sjálfur, þessi litli hópur, skoðanakönnun um trú og trúrækni Íslendinga. Það er ekki mjög fagmannlegt eða hvað? Sem betur fer er því þó þannig varið að við hittum fyrir hinn „góða hirði“ sem leiðir okkur og styrkir þrátt fyrir alla fjölmiðlaumræðu og ágang lítilla öfgahópa í þjóðfélaginu. „Góði hirðirinn“ opnar svo sannarlega augu okkar fyrir dásemdum lífsins, fyrir friði og kærleika.

Ef menn eða hópar vilja fara aðrar leiðir í trúmálum en kirkjan okkar boðar, þá ræðst kirkjan ekki gegn þeim. Hver og einn á að hafa frelsi til velja sem við nefnum hinn „rétta veg“ og teljum þann besta. Ég hef verið svo heppinn að finna í lífi mínu fyrir boðskap og kenningu hins „góða hirðis.“ Sá boðskapur gefur mér svar við lífi mínu, gefur mér svar við spurningum lífsins. Fjögurra ára gamall gekk ég í kirkju með ömmu minni Guðrúnu Bríet. Hún var kirkjukona, kirkjuvinur. Við fórum í Hallgrímskirkju sem þá var ekki fullbyggð. Messað var þar í kórnum á þeim tíma. Eftir messuna, er heim var komið, tók amma mín eftir því og reyndar afi líka, að ég tók þykka sokkaleista sem afi átti og fór inn í herbergið þar sem olíufýring var til staðar en hitaveitan var ekki komin í öll hús. Amma leit aðeins inn í herbergið og sá að ég hafði lagt sokkaleistana um hálsinn og var að „blessa“ söfnuðinn sem í þetta sinn var sjálf olíufýringin. Eftir þetta sagði amma mín ávallt við mig á meðan hún lifði: „Þór þú verður ábyggilega prestur.“

Síðan var ég svo heppinn að kynnast blómlegu safnaðarlífi og æskulýðsstarfi í Langholtssöfnuði. Fékk að taka þátt í því að undirbúa fyrstu Poppmessuna eins og hún var nefnd. Við, sem vorum í undirbúningshópnum, gleymdum okkur og fórum ekki nógu vandlega yfir lagavalið fyrir messuna og ein vinsælasta poppstjarna þeirra tíma söng lagið „Haltu kjafti og slappaðu af:“ Messan skapaði umræður en var í raun þáttur í því að kirkjan var að stíga inn í nútímann.

Eina vandamálið okkar á þessum tíma á æskulýðsfundum í Langholtskirkju var , að það komust ekki allir inn í kirkjuna til að vera með á fundunum. Það voru góðir tímar þegar Jón Stefánsson, Jónsi, sat við píanóið, en hann átti síðar eftir að breyta allri tónlistarsögu þjóðar okkar. Þá söng þar hún Ólöf Kolbrún, óperusöngkonan okkar góða, ameríska sálma.

Síðan liðu árin og ég fékk að læra um hinn „góða hirði“ Í Háskóla Íslands, í Þýskalandi og út í Bandaríkjunum þar sem ég kynntist mjög svo fjölbreyttu safnaðarlífi. Mitt lán og fjölskyldu minnar var svo að ég hlaut prestsvígslu og var vígður til Siglufjarðarprestakalls þar sem ég fékk að starfa með mörgu góðu fólki, kirkjuvinum, og síðar var ég valinn sem fyrsti sóknarpestur Grafarvogsprestakalls.

Studdur af góðri fjölskyldu og eiginkonu var yndislegt að fá að starfa sem prestur í fjörutíu ár, á meðal margra góðra vina, ævivina, sannkallaðra „Kristsvina.“ Vina sem höfðu fundið og komust að því að „góði hirðirinn“ leiðir okkur að „lindum lífsins“ sem eru svo dýrmætar og mikilvægar í lifuðu lífi. Þau öll vissu og vita að trúarneistinn er til í öllum mönnum eða eins og hann séra Sigurbjörn Einarsson biskup og vígslufaðir minn orðaði það í upphafi Trúarbragðasögu sinnar: „Sjaldan var svo heiðið hold. Hér eða þar á jarðarmold. Að ekki kunni á því skil. Að einhver væri Drottinn til.“

Þegar við tökum á móti hinum „góða hirði“ verðum við, eins og Marteinn Lúther kirkjudeildarfaðir okkar orðaði það, „ að undursamlegum listamönnum, sem vinna að því að breyta sorginni í gleði, óttanum í hughreystingu, syndinni í réttlæti og sjálfum dauðanum í líf. Það er hlutverk okkar í lífinu.

Hann, hinn „góði hirðir,“ gefur okkur eilíft líf sem er þess virði að því sé lifað frá degi til dags.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verða mun um aldir alda. Amen. Takið hinni postulegu kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs, samfélag heilags anda sé með yður öllum. Í Jesú nafni Amen.