Í ár er þess minnst að konur fengu kosningarétt fyrir einni öld. Réttindi kvenna hafa styrkst og vaxið jafnt og þétt með sleitulausri baráttu þessa öld sem liðin eru.
Konur sátu þó ekki á bekknum eða heima fyrir og biðu þess að allt breyttist fyrir 1915 heldur létu til sín taka á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Birtist það m.a. í starfi kristniboðsins en elsta aðildarfélag Kristniboðssambandsins er Kristniboðsfélag kvenna sem stofnað var af hugsjónaríkum konum sem báru hag fólks í öðrum löndum fyrir brjósti – og töldu sig geta lagt sitt af mörkum þrátt fyrir fjarlægð og takmörkuð almenn réttindi kvenna í samfélaginu á þeim tíma.
Konur hafa alltaf verið virkar í kristniboðsstarfinu frá fyrstu stundu fram á þennan dag. Meirihluti íslenskra kristniboða hafa verið konur. Ein þeirra var Ingunn Gísladóttir sem fór ung að árum, fyrir 60 árum, til Konsó í Eþíópíu og starfaði þar sem kristniboði í áraraðir við fátæklegan búnað í erfiðum aðstæðum á sjúkrastöð kristniboðsins og kirkjunnar. Hún vann ómetanlegt hjálparstarf og var sterkur vitnisburður um kærleika Guðs í Jesú Kristi með orðum sínum og verkum. Margir nutu einnig blessunar af starfi hennar og þjónustu hér á landi eftir að starfstíma hennar í Eþíópíu lauk. .
Á kristniboðsakrinum, á sínum tíma í Kína, og á seinni hluta liðinnar aldar og það sem af er þessari hefur kristniboðið rutt konum leið, gefið þeim nýja sjálfsmynd, eflt þær til verka og í lífsbaráttunni sem oft er hörð. Þær hafa bæði í kirkjustarfi og samfélaginu sýnt að trúin á Jesú hafi gefið þeim nýja von og ný tækifæri. Þær eru elskaðar af Guði, jafndýrmætar í hans augum og karlarnir og þess megnugar að koma miklu og mörgu til leiðar. Vitnisburður margra þeirra um hvað Jesús hefur fyrir þær gert og þann styrk sem trúin veitir er stórkostslegur.
Meðal málefna sem snert hafa og snerta konur beint má nefna að framan af 20. öldinni voru fætur ungra stúlkna í Kína reyrðir til þess að þeir yrðu ekki of stórir. Þessu fylgdi mikil þjáning og jafnvel afskræming vegna staðalímyndar sem reynt var að þvinga upp á konurnar. Kristniboðarnir reyndu eftir besta megni að vinna gegn þessari hugsun og sið sem eyðilagði líf margra.
Í Afríkuríkjunum Eþíópíu og Keníu hafa kristniboðarnir og kirkjurnar bent á heilsufarslega áhættu, þjáningu og eyðileggingu sem fylgt hefur umskurði stúlkna. Siðurinn á sér djúpar rætur í menningu þeirra þjóðflokka sem leggja stund á hana. Umskurnarathöfnin hefur gegnt lykilhlutverki í félagsmótun og þroskaskeiði ungra stúlkna frá því að vera stúlkur og yfir í að verða gjafvaxta konur. Siðurinn hefur staðið það föstum fótum í samfélaginu að það hefur kostað harkalegt einelti og nánast félagslega útskúfun að láta ekki umskerast. Nú er svo komið á starfssvæði kristniboðsins í Pókot í Keníu að þeim stúlkum hefur fjölgað mikið sem komið hafa sér undan þessum sið og kristnir foreldrar standa þétt við bak þeirra.
Umskurður kvenna er trúlega bara einn þáttur menningar sem byggir á ættfeðra hugsun sem víða hefur verið ráðandi í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum. Kristilega sjónvarpsstöðin Sat7 sem Kristniboðssambandið á aðild að reynir að hugga, styrkja og hvetja kirkjuna á útsendingarsvæði sínu í erfiðum aðstæðum og upplausn sem víða ríkir. Kristnu fólki hefur fækkað alla liðna öld og sérstakalega síðustu þrjú árin. Sat7 heldur fagnaðarerindinu um kærleika Guðs í Jesú Kristi á lofti.
Sat7 sendir út marga dagskrárþætti sem fjalla um stöðu kvenna, réttindi þeirra og vandamál sem þær glíma við m.a. vegna veikrar stöðu þeirra í samfélaginu.
Kynferðisleg áreitni, valdbeiting, heimilisofbeldi og þvinguð hjónabönd eru meðal vandamála sem margar konur í Mið-Austurlöndum glíma við. Þáttaframleiðandi Sat 7, Maggie Morgan frá Egyptalandi, hefur unnið til margra verðlauna vegna þátta á Sat7 og kvikmynda sem hún hefur gert. Hún gefur konum rödd í þættinum Nál og þráður þar sem þær geta fjallað um þessi og önnur skyld mál sem mætt hafa þöggun í samfélaginu. Aðeins fjórðungur kvenna er læs í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, en þær þurfa ekki leskunnáttu til að fylgjast með sjónvarpinu.
„Konurnar stíga fram af virðingu, ekki sem fórnarlömb. Þær segja frá reynslu sinni og sögu á yfirvegaðan hátt, án þess að hafa alltaf lausnina. En það breytir miklu að geta tjáð sig á þennan hátt um það sem hefur heft þær.“
Maggie fékk sjálf tækifæri til háskólanáms eins og bróðir hennar en varð með tímanum vör við að aðrar væntingar voru gerðar til hennar en hans. „En ég var heppinn en vildi gera kvikmynd um konur sem ekki voru eins heppnar og ég. En mér lærðist að vandamál þeirra og barátta væri einnig mín.“
Kristniboðið hefur breytt mörgu fyrir fjölmargar konur – og gerir það enn.