Umhverfismálin eru mál málanna í dag. Eins og allir vita berast okkur stöðugt fréttir af þeirri ógn sem vofir yfir umhverfi okkar og lífríkinu öllu. Inngrip okkar mannanna í náttúruna verður stöðugt meira og afdrifaríkara. Á öldum áður var barátta mannsins við umhverfið jöfn og upp á líf og dauða eins og við oft fengum að reyna hér á landi. En í kjölfar iðnbyltingarinnar hefur dæmið snúist við. Nú er það náttúran sem á undir högg að sækja. Stöðug fjölgun jarðarbúa helst í hendur við sí-aukna sókn í auðlindir jarðarinnar. Það þarf að fæða og klæða og hýsa fleiri og fleiri mannanna börn hverja stund sem líður. Til þess þarf að höggva meiri skóga, brjóta meira land til ræktunar, veiða meira í höfunum, og auka notkun eldsneytis í öllum sínum myndum.
Það er þó ekki þar með sagt að neyslan og skipting auðæfa jarðarinnar sé réttlát og jöfn. Það vitum við líka af fréttum. Við hér á Vesturlöndum eyðum meiru en aðrir íbúar jarðarinnar samanlagt af olíu og öðrum afurðum jarðarinnar. Við búum líka yfir meiri tækni en aðrir til að virkja afl jarðar. En því miður virðumst við ekki kunna okkur hóf. Bílum fjölgar, loftmengun eykst og nú vofa yfir loftslagsbreytingar af mannavöldum sem munu umhverfa lífríkinu í öllum sínum myndum. Vísindamenn spá hækkandi hitastigi jarðar, auknum öfgum í veðurfari, þurki þar sem áður rigndi, kulda þar sem áður var hiti og þannig mætti lengi telja.
Aðgangsharkan gagnvart jörðinni og umhverfi okkar mun smátt og smátt breyta lifnaðarháttum okkur. Talað er um að styrjaldir 21. aldarinnar muni fyrst og fremst verða háðar um orkulindir og vatn sem verður dýrmætara með hverjum deginum sem líður. Og mengun er ekki aðeins eitthvað sem á sér stað í útlöndum eins og gjarnan var viðkvæðið hér á landi áður fyrr.
Misskipting auðæfa heimsins er heldur ekki einskorðuð við útlönd. Hér á landi berast fréttir af ótrúlegum tekjum auðmanna þrátt fyrir kreppu, á meðan aðrir eiga ekki til hnífs og skeiðir. Því finnum við átakanlega fyrir við kirkjuna um þessar mundir.
Það takast á ólik sjónarmið í þessari umræðu. Bent er á nauðsyn atvinnutækifæra í heimi þar sem fólksfjöldi fer vaxandi, heimurinn krefst aukinnar framleiðslu, neyslan eykst dag frá degi og þannig mætti lengi telja. Hinn ríkari hluti heimsins vill fleiri bíla, meiri olíu, meiri munaðarvöru. Uppbygging krefst fórna eins og til dæmis skógarhöggið í Amason sem ógnar lungum jarðarinnar en stjórnvöld í Brasilíu segja nauðsynlegt ef framleiðslan eigi að halda áfram að aukast þar í landi.
Kirkjan og allt kristið fólk er kallað til að láta sig umhverfismál varða, kallað til að bera ábyrgð á þeirri sköpun Guðs sem okkur er falin og vernda hana eftir mætti. Því lífríkið allt er sköpun Guðs, helgað af Guði og dýrmætt í augum hans. Okkur mönnunum er fengið lífríkið að láni á meðan við lifum hér á jörðu ,við eigum að skila því af okkur heilu og í blóma fyrir nýjar kynslóðir.
Guð vakir yfir öllu lífi, allri tilverunni og lætur sér það varða hverja stund. Í fyrstu Mósebók er þessu lýst á svo ljóðrænan og skáldlegan hátt með þeim orðum að Guð hafi aðgreint ljósið og myrkrið þegar hann skapaði heiminn í upphafi. Hebreska orðið sem notað er til að túlka þessa sköpunarathöfn Guðs skilar sér reyndar ekki vel í íslenskru þýðingunni. Það þýðir í raun að Guð hafi gengið inn í myrkrið sem stöðugt ógnar heiminum og aðgreint það með krafti sínum frá ljósinu. Allar stundir og að eilífi heldur Guð síðan frummyrkrinu frá sköpuninni, frummyrkrinu og hinni endanlegu eyðingarógn. En ógnin er alltaf fyrir hendi. Myrkrið sækir að sköpuninni og reynir sífellt að þrengja sér framhjá máttugum armlegg Drottins. Ef Drottin drægi vernd sína frá heiminum myndi myrkrið gleypa ljósið og lífið. Það vofir því stöðug ógn yfir heiminum. Allt það sem berst gegn lífinu í sínum margbreytileika berst með myrkrinu og eyðingaöflunum.
Og við mennirnri, okkur er falið hlutverk í þessari miklu kosmisku baráttu ljóss og myrkurs, sköunar og eyðingar, Guðs og hins illa. Við erum samverkamenn Guðs í heiminum. Hann hefur kallað okkur til að starfa með sér, til að heyja hina góðu baráttu fyrir ljósinu og lífinu með sér. Ábyrgð okkar er því mikil og alger í raun og veru. Hver einasti maður er ábyrgur. Enginn fær skorast undan þessu hlutverki sínu. Því sönn mennska, það er að axla ábyrgð sína og taka á með sköpunarmætti Guðs.
Að axla þannig ábyrgð sína þýðir ekki að við eigum að hverfa aftur upp í trén. Sem samverkamenn Guðs er okkur vissulega falið að nýta auðlyndir jarðarinnar okkur sjálfum og mannkyni öllu til góða. En okkur ber að gera það undir merkjun ljóssins, með fullri ábyrgð og af virðingu fyrir þeirri sköpun sem Guð helgar og viðheldur hverja stund – vitandi að sköpunin er ekki okkar eign heldur Guðs.
Það getum við gert í stóru sem smáu hvert og eitt. Með því til dæmis að hugsa um neyslu okkar, kunna okkur hóf, flokka sorp, endurvinna dagblöð og fleira í þeim dúr. Það getum við líka gert sem þjóðfélag. Og hin þjóðfélaglega ábyrgð felst ekki síst í því að finna samhljóm milli þess hvernig við nýtum auðlyndir jarðarinnar og verndum þær um leið og við skilum þeim til komandi kynslóða.
En það er kannski stærsta áskorun mannkyns á 21. öldinni, þetta að finna samhljóminn milli nýtingar og verndar og virðingar gagnvart náttúrinni.