Í voða, vanda og þraut

Í voða, vanda og þraut

Boðskapur trúarinnar er ekki ósvipaður vita sem lýsir í myrkrinu. Hann er óháður því hversu þugnvopnaður nútíminn er og hversu hratt hann siglir. Nei, þessi skilaboð eru skýr. Þau kalla okkur til ábyrgðar gagnvart gjöfum Guðs og minna okkur á hlutverk okkar.

Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“

Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“ Matt 8.23-27

Í voða, vanda og þraut vel ég þig förunaut yfir mér virztu vaka og vara á mér taka. Jesús mér fylgi í friði með fögru englaliði.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sjómannadagurinn er runninn upp og við ákváðum að færa okkur hingað í Duus hús og halda hann þar hátíðlegan. Keflavíkurkirkja hefði vissulega sómt sér vel sem vettvangur slíkrar guðsþjónustu en kirkjan er vitaskuld samofin sjómennskunni. Með það í huga að sjómenn sæju turn kirkjunnar er þeir sigldu inn til hafnar var ákveðið að snúa kirkjunni öfugt við það sem hefðbundið er. Forkirkjan eða anddyrið með turninn snýr mót austri en altarið mót vestri. Og ekki mátti byggja milli kirkju og sjávar sem undirstrikar þessi tengsl enn frekar. Kirkjan stendur jú spölkorn frá sjónum. Hér erum við hins vegar við sjóinn og horfum út á hafið í gegnum gluggana.

Sjór og saga

Duus húsin tengjast þó sögu kirkjunnar órofaböndum þar sem húsráðendur hér lögðu fram ríkulegt framlag til þess að unnt yrði að klára kirkjuna við hin erfuðustu skilyrði og rúmaði hún þá alla íbúa bæjarins. Því fer vel á því að vera hér á sjómannadegi. Að lokinni guðsþjónustunni heyrum við svo lýsingar á lífinu hér við sjávarsíðuna þegar sjávarútvegur var helsta framfærsla Keflvíkinga.

Sjálfur hef ég leitast við að kynna mér þá sögu. Bæði frá hlið þeirra sem gerðu út báta hér við erfiðustu aðstæður og hinna sem sjóinn sóttu og framfleyttu oft stórum fjölskyldum með lágmarkstekjur. Slíkt gerist jafnan í tengslum við það þegar mér hefur hlotnast sá heiður að setja saman minningarorð þeirra sem stóðu þar fremstir í flokki. Meðal þeirra var bróðir Kristjáns, Benedikt Jónsson, sem sigldi kornungur með föður sínum út á hafið í ótraustum bátum og lærði handtökin af þeim görpum sem þar drógu fiska að landi.

Aðrir stóðu frammi fyrir atvinnuleysi eða hörðum erjum í kreppunni þegar skyndilega var ekki hægt að koma afla í verð og heilu fjölskyldurnar sultu. Margar frásagnir eru til um það hvernig menn sóttu sjóinn við erfiðustu skilyrði til þess að framfleyta sér og öðrum.

Flagð undir fögru skinni

Sjórinn er vitaskuld nátengdur sögu okkar og saga sjósóknar er saga átaka og lífshættu. Á Ísafirði horfði kollegi minn eitt sinn á spegilsléttan sjóinn í Djúpinu og hafði á orði við eldri konu er stóð þar við hlið hans að erfitt væri að hugsa sér fegurri náttúrusýn. Konan kinkaði vissulega kolli en bætti svo við þessum orðum: „Já, en oft er flagð undir fögru skinni.“ Ekki þurfti að velta vöngum yfir því hvað við var átt. Fyrir fáum áratugum var það árvisst að mannskaði yrði á þessum slóðum þar sem allra veðra er von. Sé litið lengra til baka var ekki óalgengt að heilu þéttbýlissvæðin fyrir vestan misstu á einni óveðursnóttu alla unga menn þegar skipsskaði varð. Svo var vitaskuld víða um land.

Já, ein hlið á þessari sögu er sorgin og hinn persónulegi harmleikur sem risti heilu samfélögin eins og rýtingur. „Oft er flagð undir fögru skinni“ sagði gamla konan. Meira þurfti ekki að segja.

Í voða, vanda og þraut

Hallgrímur Pétursson er höfundur sjóferðabænarinnar sem hér var farið með í upphafi og kveður hann við sama tón: „Í voða, vanda og þraut“ eru upphafsorðin og lýsa þau vel því hugarástandi sem þeir voru í sem sigldu út á úfinn sæinn þar á 17. öld. Slíkar sjóferðabænir voru ómissandi hluti sjómennskunnar allt fram til þess þegar yfirbyggðir vélbátar leystu þá gömlu af hólmi. Já, þá hættu menn að biðja bænarinnar enda hafði tæknin aukið öryggið svo mjög að menn töldu óþarft að reiða sig á æðri máttarvöld. Fram að því hafði tíðkast að staldra við skömmu eftir að róið hafði verið út og fór þá formaður með bænina.

Er þetta þá ekki einn vitnisburðurinn enn um yfirburði vísindanna gagnvart gömlum heimi trúarinnar? Við fyrstu sýn kynni svo að virðast. Var ekki stálbyrðingurinn öflugri bænatalinu? Tryggðu ekki vélarnar aukið öryggi umfram handaflið? Voru leiðsögutækin og allur útbúnaður ekki miklu líklegri til árangurs en gamlar bænir?

Framþróunin

En við þurfum ekki að líta langt til þess að sjá hvernig tæknin hefur ætt á undan okkur. Sjávarútvegurinn hefur ekki aðeins notið framfaranna hann hefur líka goldið þeirra. Veiðiskipin urðu fljótt öflugri en svo að þeim væri treystandi til þess að veiða allan þann fisk sem græjurnar buðu upp á. Því þurfti að setja kvóta á þau og svo keyptu menn og seldu kvótann eins og hver önnur verðmæti. Hér í Keflavík sjáum við afleiðingarnar af slíkum viðskiptum.

Hér urðu umskiptin snögg þegar menn gátu komið þeim afla í verð. Í einni andrá varð aldalöng saga útgerðar í bænum að engu. Húsin sem eitt sinn hýstu Hraðfrystihúsið í Keflavík standa nú tóm og þegar kviknaði þar í nú í vetur var skaðinn enginn því þar eru engin verðmæti lengur. Þar störfuðu áður 250 manns að staðaldri og í kringum þá iðju hafði safnast saman ómetanleg reynsla og menning á sviði sjávarútvegs. Þessi tómu húskynni minna okkur sannarlega á það hversu skammgóður vermir tæknin getur verið ef þar er ekki gætt hófs.

Vissulega ber að þakka af heilum hug fyrir allt það góða sem gert hefur verið fyrir sæfarendur. En hugsum lengra. Hugsum lengra fram í tímann. Miklu alvarlegri dæmi má nefna um hrakfarirnar sem sóknin í tækni hefur haft í för með sér. Nú í sjónvarpinu á föstudaginn var þáttur sem nefnist Heimkynni eða Home á frummálinu og sýnir hann okkur hina hliðina á þeirri tæknibyltingu sem heimurinn hefur notið síðustu hálfu öldina. Þar hefur vissulega verkfræðin leyst guðfræðina af hólmi á mörgum sviðum en árangurinn er ekki einhlítt góður. Raunar stefnir í það með óbreyttum hraða að heimurinn okkar ráði ekki lengi við þá öru þróun sem við köllum gjarnan framfarir í daglegu tali.

Þín hægri hönd oss haldi

Yfirburðir okkar gagnvart náttúrunni eru slíkir að við virðumst hafa gleymt því að við erum hluti náttúrunnar. Við höfum gert okkur sek um að ganga hrokanum á hönd. Við virðumst hafa staðið í þeirri trú að þessi sama framsókn tækninnar sem ruddi úr vegi bænum okkar yrði til þeirrar sömu blessunar og við höfðum beðið almættið um.

Afleiðingarnar eru skelfilegri en orð fá lýst eins og vísindamenn þeir sem rætt var við í þættinum lýstu. Þeir drógu upp dökka mynd af núverandi ástandi jarðarinnar okkar og enn dekkri mynd af því sem bíður okkar ef ekki verður tekið í taumana.

Þá sjávarbylgjan blá borðinu skellur á, þín hægri hönd oss haldi og hjálpi með guðdómsvaldi. Jesús mér fylgi í friði með fögru englaliði.

Svona yrkir séra Hallgrímur og þarna er kveðið við tón sem er afar frábrugðinn því sem einkennir sókn okkar eftir gróða og völdum. Hann yrkir út af guðspjallstextanum sem hér var lesinn þar sem óttinn heltók þá sem í bátnum var uns Kristur stillti storminn. Þarna er það ekki maðurinn sem knýr náttúruna til hlýðni. Þarna er það Kristur sem vísar aftur til sköpunarsögunnar og kemur á reglu þar sem áður var glundroði og vá. Hugsunin er ekki sú að náttúran sé lamin með lurk eins og við höfum stundað svo lengi. Miklu fremur hitt að í ólgusjónum getum við leitað vars í trúnni.

Leiðarljósið

Því trúin er ekki eingöngu haldreipi í ólgusjónum. Hún kallar fram hið sanna jafnvægi þar sem maðurinn er stöðugt minntur á það hvaðan gjafirnar góðu koma og um leið er hann áminntur um að umgangast þær góðu gjafir með virðingu og af kærleika.

Eitt sinn var stórt amerískt orustuskip á siglingu í þoku og hvassviðri. Áhöfnin greindi í gegnum sortann ljóstýru sem virtist vera skip beint framundan. Þarna stefndi í óefni. Stýrimaðurinn var þó í engum vafa um hvor yrði að víkja, tók merkjaljósið og sendi skilaboð til hins ókunna sæfaranda þar framundan: „Víktu 20 gráður á bakborða við stefnum beint á þig“. Skömmu síðar komu ljósglampar frá hinu ókunna fari: „Nei, þið verðið að víkja 20 gráður á bakborða“. Stýrimaðurinn brást reiður við þessari ótrúlegu framhleypni og sendi skeyti um hæl: „Við erum eitt fullkomnasta orustuskip bandaríkjaflota. Víkið 20 gráður á bakborða undir eins!“. Eitt andarak leið og svo kom skeyti um hæl: „Ég get það ekki. Ég er staddur um borð í vita.“ Ekki fór frekari sögum af því skipið beygði 20 gráður á bakborða án frekari málalenginga.

Þakkið Drottni

Boðskapur trúarinnar er ekki ósvipaður vita sem lýsir í myrkrinu. Hann er óháður því hversu þugnvopnaður nútíminn er og hversu hratt hann siglir. Nei, þessi skilaboð eru skýr. Þau kalla okkur til ábyrgðar gagnvart gjöfum Guðs og minna okkur á hlutverk okkar.

Þakkið Drottni því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Já, við þökkum Drottni gjafir hans. Það gerðu sjómennirnir í byrjun síðustu aldar þegar þeir sigldu inn í Víkina eftir að hafa barist við öldurnar á Faxaflóanum oft við erfiðustu skilyrði. Kaupmennirnir hér í Duus vissu hvernig þeir gátu eflt þá og hvatt til frekari dáða. Þeir reistu kirkjuna á þeim stað þar sem turn hennar blasti við og var eins og viti fyrir þá er þeir stefndu að landi. Hugleiðum þann boðskap á sjómannadegi kæru gestir.

Megi Guð vera með okkur og gefa okkur vit og kjark til þess að vinna þau verk sem veröldin okkar þarfnast.

Amen.