„Treystum Guði - og látum púðrið ekki vökna“

„Treystum Guði - og látum púðrið ekki vökna“

Eða með öðrum orðum, höfum ekki áhyggjur af framtíðinni, lífi, dauða eða öðru sem á dynur. Treystum Guði fyrir öllu. En leggjum um leið okkar að mörkum, höldum púðrinu þurru svo við getum barist trúarinnar góðu baráttu.

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“ Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. ...... Kenn oss at telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta. (90 Sálmur Davíðs)

Merkilegt hvað tíminn hleypur hratt fram. Mér finnst svo stutt síðan við stóðum í þessum sömu sporum síðast, að kveðja liðið ár og horfa til þess sem í vændum er. En svona er tíminn undarlegt fyrirbæri. Okkur finnst við hafa hann í hendi okkar. Sérstaklega þegar við erum ung og óþreyjufull eftir því að takast á við lífið, verða fullorðin og vinna alla þá sigra sem við erum sannfærð um að bíði okkar. En ekkert getur verið meir fjarri lagi. Áður en við er litið er æfin hlaupin frá okkur og við skiljum ekki hvað varð um öll árin og alla draumana. Og þó. Á meðan tíminn líður safnast í sarp minninganna. Góðar minningar og slæmar er þar að finna vissulega í bland. En allt eru það minningar sem hafa mótað okkur og gert okkur að því sem við erum. Eins og ein ágæt fullorðin kona sagði, þegar hún var spurð að því hvort hún vildi ekki láta fjarlægja krukkurnar úr andliti sínu: „nei takk, ég hef haft svo mikið fyrir því að fá þær“.   Smátt og smátt eftir því sem árin líða, rennur ef til vill upp fyrir okkur ljós. Það ljós að ef þetta væri nú allt, ef lífið væri aðeins þessi tími sem miskunarlaust hleypur frá okkur og stefnir okkur að endimörkum tilveru okkar - sumum svo allt of fljótt - þá væri nú harla lítill tilgangur með þessu öllu saman.

Já tilvera okkar er skammvinnt fyrirbæri og undarlegt ferðalag. Það finnum við best á áramótum. "Oss héðan varpað, hvaðan, óaðspurt. Og héðan aftur snarað, hvert, á burt – ó fyllum glasið, fá mér annað til, sú frekja gerir hjartað hart og þurrt" orkti persneska skádið Omar Khayyyam fyrr á öldum. Til hvers er þetta eiginlega allt saman? Því hafa menn velt fyrir sér frá upphafi sögunnar. Svörin hafa verið og eru mismunandi. Sum trúarbrögð tala um hringrás lífsins og eilífa endurfæðingu mannsins. Heimspekingar hafa svarað því til að sjálf leitin að tilgangnum sé tilgangur tilverunnar. Enn aðrir segja sem svo að allt sé þetta því miður tilgangslaust, það sé enginn tilgangur. Við séum aðeins afsprengi eðlisfræðilegra lögmála, tilviljun í tómum alheimi sem sjálfur er ekkert annað en bóla óendanlegar alheima í myrkum geymi tómsins.

Davíðssámurinn sem var lesinn hér frá altarinu áðan, boðar okkur allt önnur sannindi. Hann horfir utan heimsins og tilvistarinnar og finnur veru okkar grundvöll í þeim Guði sem hefur verið okkur mönnunum athvarf frá kyni til kyns. Áður en heimurinn - eða heimarnir allir, allt eftir því hvaða speking við viljum hlusta á, áður en allt þetta óskiljanlega fyrirbæri sem við köllum veröldina okkar, varð til, þá var Guð til. Þúsund ár eru í augum hans eins og dagurinn í gær þegar hann er liðinn. Hann er utan og ofar tímans flaumi, óbreytanlegur og óhagganlegur. Okkur er ekki varpað hingað óaðspurt eins og Omar Kayma orkti – heldur hefur þessi Drottinn skapað okkur, gefið okkur lif og tilvist og tilgang. Hann gerir hvert ár okkar öðru merkilegra, hvern dag öðrum þýðingarmeiri. Hann helgar hver áramót lífsins. Og þegar æfinni lýkur er okkur ekki heldur snarað héðan á burt – heldur hverfum við aftur til hans, þaðan sem við komum. Hann vakir yfir hverri kynslóð, hann er okkur athvarf ,vernd, styrkur og stoð.

Í honum finnum við tilgang daga okkar og verka. Hann hefur kallað okkur til starfa  og ætlað okkur hlutverk. Hann er hinn hæsti höfuðsmiður tilverunnar.

“Já, kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta“ segir sálmaskáldið. „Kenn okkur að meta tilveru okkar, dagana sem okkur eru gefnir, kenn okkur góði Guð að þekkja hina sönnu speki og finna lífi okkar takmark og tilgang í þér“ – þannig hljóma bænarorð sálmaskáldsins sem eru eins og óbrotgjan klettur í lífi þess manns er leggur þau sér við hjartarætur.

Þessi Davíðssálmur varð löngu seinna yrkisefni Mattíasar Jockumssonar er hann samdi þann sálm sem nú er þjóðsöngurinn okkar.

  “Hvað boðar nýárs blessuð sól” syngjum við í öðrum þekktum sálmi Mattíasar. Um áramót er hefð fyrir því að menn stígi á stok, velti fyrir sér fortíðinni og því sem liðið er og spái í framtíðina. Það hafa menn gert í ár eins og venjulega. Fjölmiðlarnir eru uppfullir af slíkum vangaveltum. Sitt sýnist auðvitað hverjum um hvað það er sem upp úr stendur og er eftirminnilegt á liðnu ári. Sjálf eigum við öll okkar persónulegu minningar um atburði ársins stóra og smáa – minningar sem skipta okkur máli, jafnvel öllu máli, en koma öðrum að sama skapi lítið við. En hvað með árið sem er á næsta leiti? Spekingar hafa spáð í það og eru frekar svartsýnir á framtíðina. Eins og reyndar endranær um áramót. Menn vilja nú hafa sitt á hreinu og eins og á öllum öldum telja menn það gömul og góð sannindi að heimur versnandi fari. Hagspekingar spá heimskreppu. Náttúrufræðingar vistkreppu. Herfræðingar stórstyrjöld. Og þannig mætti lengi telja.

Hér á landi er það vinsæl iðja að skoða spádóma hinna ýmsu spákarla og kvenna um hver áramót. Ætli vinsælasta spákonan sé ekki hin svokallaða Völva Vikunnar sem örugglega allir þekkja eða hafa heyrt af? Nú heyrði ég í fréttum á sjálfu ríkisútvarpinu, að hún spáði öllu hinu versta fyrir komandi ár, Kötlugosi, veikindum og óáran.

Og til að bæta gráu ofan á svart hafa sumir rifjað það upp um þessi áramót að fornir spámenn Asteka í Suður- Ameríku hafi spáð heimsendi einmitt árið 2012.   Er þá allt á heljarþröm?Bíður ársins 2012 skeggöld, skálmöld, vindöld, vargöld eins og segir í Völuspá hinni fornu, áður veröld steypist?

Kristinn maður hlýtur að taka öllum slíkum spádómum með rósemi. Heimsendi hefur verið spáð oftar en ég hef tölu á – og aldrei hefur af honum orðið. Líklegt er að hann frestist enn eitt árið. Enda er framtíðin aldrei fyrirfram ákveðin. Engin veitt hvað verður nema Guð einn.

  Andspænis heimsendaspádómum og öðru svartagallsrausi getum við kristnir menn falið Guði alla okkar framtíð í fullu trausti þess að hann muni vel fyrir sjá.   Auðvitað kemur einhverntíman að því að heimurinn líður undir lok. Allt er hverfulleikanum undirorpið, nema Guð. Okkar eigin tilvist er lika takmörkuð –hún er á enda fyrr en varir. En þegar þar að kemur þurfum við heldur engu að kvíða. Við treystum Guði í lífi og dauða. Þegar æfinni lýkur hverfum við til hans sem er og verður, löngu eftir að við erum horfin á braut. Og þegar allir hafa löngu gleymt okkar stuttu æfi og vegsummerki okkar eru öllum horfin – þá munum við áfram líta Guð þar sem þúsund ár eru eins og dagurinn í gær þegar hann er liðinn. Þannig lifum við mennirnir á tveimur tilverustigum. Annað er tímanlegt og takmarkað, breytingunni undirorpið og hverfulleikanum.   Hitt er eilíft og óbreytanlegt. Við köllum það Guð án þess ef til vill að vita hvað við meinum með orðinu. En í Guði er lykillinn að leyndardómi og merkingu tilverunnar fólginn. Honum getum við örugg falið allt.

Því eins og Mattías yrkir: í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár.   En eigum við þá að leggja árar í bát andspænis ógnum heimsins og óráðinni framtíð? Nei, þvert á móti. Því sá Guð sem er okkur athvarf kallar okkur um leið til verka. Við erum samverkamenn hans í heiminum þá daga sem okkur eru gefnir hér á jörðu. Þess vegna ber okkur að gæta þeirra vel, og nýta þá til góðs fyrir heiminn, ástvini okkar og Guði til dýrðar.

Eða eins og hinn breski trúmaður og baráttumaður fyrir réttlæti á Bretlandseyjum á 17. öld, Oliver Cromvell, orðaði það:  

” Treystum Guði – og látum púðrið ekki vökna”.

Eða með öðrum orðum, höfum ekki áhyggjur af framtíðinni, lífi, dauða eða öðru sem á dynur. Treystum Guði fyrir öllu. En leggjum um leið okkar að mörkum, höldum púðrinu þurru svo við getum barist trúarinnar góðu baráttu.

 

Vor sól og dagur herra hár, sé heilög ásján þín í ár. ó Drottinn, heyr vort hjartans mál, í hendi þér er líf og sál.   Guð gefi þér og þínum gleðilegt nýtt ár.

Takk fyrir það ár sem senn er liðið. Mundu að treysta Guði á komandi tíð – og láta púðrið aldrei vökna.