Velkomin hingað í helgidóminn á sjálfa jólanóttina. Þessi nótt er helguð andartökunum sem fæðast og lifa í einni andrá og koma aldrei aftur. En stundum nemum við staðar mitt í þeirri stöðugu framvindu og finnum eins og vísarnir á klukkunum fari sér ögn hægar. Sú tilfinning er að sönnu góð. Það er nærandi að kyrra hugann og festa rætur í þeirri stundu sem núna er. Hversu lengi höfum við ekki verið með hugann bundinn við einmitt þetta kvöld sem senn er á enda runnið? Höfum við ekki undirbúið það af kostgæfni undanfarnar vikur. Og látum okkur ekki detta það til hugar eitt andartak að sá undirbúningur sé eigingjarn og bundinn í klafa efnishyggju og veraldarvafsturs.
Hjartað og fjársjóðurinn
Nei, aðdragandi þessa kvöld, þessarar nætur hefur miklu fremur einkennst af þeim orðum sem kennd eru við Jesú frá Nazaret sem fæddist jú á hinum fyrstu jólum: sælla er að gefa en þiggja. Keflavíkurkirkja hefur fengið tíðar heimsóknir góðra gesta sem hafa komið til okkar með framlög sín og gjafir. Hér hefur stundum ekki verið þverfótað fyrir varningi sem kærleiksríkt fólk hefur borið hingað í þeim helga og merka tilgangi að gefa. Og hvaða trúarjátningar sem það nú eru sem fólk kennir sig við þá er hin sanna játning fólgin í því framlagi sem hver og einn er tilbúinn að færa þeim sem á þurfa að halda. Játningin byggir á því hvernig við sýnum það í verki hvernig hjarta okkar slær. Þar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þinn vera.
Gjafmild hjörtu
Á helgum jólum verður þessi veruleiki okkur svo sýnilegur. Hér í kór kirkjunnar er svo jatan fallega sem tökum fram á þessum helgu tímum. Hún stendur hér í látleysi sínu en er um leið svo rík að táknum. Hún minnir okkur á þær aðstæður þar sem frelsarinn fæddist. Hann kom að lokuðum dyrum þegar fjölskyldan knúði dyra á gistihúsum. Loks leituðu þau út fyrir hina mannlegu byggð og í stað þess að frelsari mannkyns væri lagður í vöggu eins og önnur mannanna börn varð það hlutskipti hans að hvíla í þeim stalli sem ætlaður var dýrunum til þess að éta úr.
Jatan
Já, jatan tengist framlagi til þeirra sem minna mega sín. Þar fæddist Jesús á hinum fyrstu jólum.
Kristin trú á ýmis tákn sem lýsa hlutverki hennar og stöðu. Krossinn er auðvitað þekktastur, sjálft aftökutækið er varð síðar merki um upprisu og sigur lífs á dauðanum. Dúfan táknar heilagan anda, vatnið táknar hreinsun og líf og sjálft brauðið sem við neytum við heilaga kvöldmáltíð er til marks um samfélag kristnina manna sem neyta máltíðarinnar eins og ein fjölskylda.
En jatan?
Er jatan ekki tákn um örlætið, lífgefandi stallinn þangað sem málleysingjar fá næringu sína?
Er hún ekki til marks um tengslin við allt sköpunarverkið? stöðu mannsins í lífheiminum þar sem allt nær saman í hinu stóra sigurverki? Þær lífverur sem stærstar eru og hafa náð lengst í þróun eiga allt sitt undir hinum smæstu. Þannig eiga gjafir okkar mannanna að beinast að lífríkinu öllu, að varðveita það og rækta. Jatan er tákn um auðmýktina og lotninguna sem við berum til þess sem er okkur æðra. Hann var í jötu lagður lágt, segir í sálminum og við finnum fyrir tign þess sem kemur fram með hinum friðsæla hætti og byggir starf sitt ekki á ofbeldi og drottnun heldur á gjafmildi og líkn. „Af munni barna og brjóstmylkinga hef ég gert mér vígi.“ Þessi orð flutti Jesús frá Nazaret sá er lagður var í jötu á hinum fyrstu jólum.
Loks er jatan táknið um þann stað þar sem fjársjóðir okkar liggja. Hún lýsir hjarta hins kristna manns. Stallurinn sjálfur er opinn fyrir því sem þar er lagt. Og í jötunni hvílir sjálft Jesúbarnið á hinum helgu jólum. Þar á það bústað sinn. Það er vagga Krists eins og Einar í Heydölum orti á 16. öld og við flytjum enn tóna hans okkur til gleði og uppörvunar.
Þér gjöri' eg ei rúm með grjót né tré, gjarnan læt ég hitt í té, vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri. :,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,: