Snákurinn í grasinu: Hugleiðing um hugrekki

Snákurinn í grasinu: Hugleiðing um hugrekki

Snákurinn í grasinu situr eftir í huga þeirra sem rýndu í myndina. Þar leyndist jú hættan. Með sama hætti standa ögurstundirnar eftir í minningunni. Þær voru sú prófraun, sem sýndu hvað í okkur býr og mótaði okkur meira en önnur tímabil ævinnar. Og þegar við lítum til baka kann að vera að reyndumst búa yfir meira hugrekki en við gerðum okkur grein fyrir.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
18. október 2024

Í einhverri rannsókninni létu sálfræðingar sjálfboðaliða virða fyrir sér mynd með alls kyns plöntum og dýrum. Svo báðu þeir þá að rifja upp hvað var á henni. Fólk var misduglegt í þeim efnum en snákurinn sem skreið í grasinu var alltaf nefndur. Þar leyndist hættan og hún fangaði athyglina. Í okkur blundar arfur liðinna kynslóða sem þurftu að hafa vakandi auga yfir hverju því gat talist skaðlegt.

 

Hann situr enn í okkur, beygurinn.

 

Það á ekki aðeins við um þær hættur sem stafa að okkur sjálfum. Fólkið sem okkur þykir vænt um getur kallað fram í okkur sömu kennd eða jafnvel sterkari.

 

Þegar ég, presturinn, skíri börn, lít ég yfir gestina sem eru saman komnir við athöfnina. Þá velti ég því gjarnan fyrir mér hvað athöfn þessi hefur margar víddir. Ein þeirra er þakkargjörð, sem er um leið áminning til okkar allra um að ala önn fyrir hinu varnarlausa lífi. Þverstæðan er þessi: hvítvoðungurinn hefur í umkomuleysi sínu svo ótrúlega mikil áhrif. Hann skapar sterkar kenndir í samfélaginu sem tekur á móti honum. Gleðin sem fylgir því að eignast barn nær ein ekki utan um þær tilfinningar. Rannsóknir sýna þvert á móti að barnlaust fólk á fleiri hamingjustundir en foreldrar. Það að bera ábyrgð á svo viðkvæmu lífi skapar ekki bara notalegar tilfinningar í brjóstum fólks.

 

Mér finnst viðeigandi að tengja stef þessara vikna, hugrekki, við þá lífsbreytandi reynslu að ala önn fyrir börnum. Umhyggjan og áhyggjan eru systur. Orðin vísa bæði til hugans og þess sem hugsun okkar beinist að. Hið sama á við um hugrekki. Það er einmitt hugarstyrkurinn sem felst í því að láta ekki hætturnar buga sig hvað sem á dynur. Hér erum við í raun komin að kjarna hverrar forystu. Hugrekki skipar þar lykilsess.

 

Hugrekki er ólík öðrum dygðum eins og skynsemi og réttlæti að því leyti að við beitum hugrekkinu ekki á hverri stundu. Nei, við eigum nafn yfir þau tímabil ævinnar þar sem mest reyndi á kjarkinn sem í okkur býr. Við köllum þær ögurstundir. Ef við lítum til baka þá ættum við að geta sótt í minningar af því þegar veröldin eins og við þekkjum hana var í uppnámi. Ögurstundir hafa breytingarmátt, þær geta gefið okkur nýja þekkingu á mikilvægasta viðfangsefni okkar, nefnilega okkur sjálfum. Það að ala upp börn, felur í sér margar slíkar stundir.

 

Þótt hamingjukenndin geti ekki talist markmið barneigna er vitanskuld fátt eins og gefandi og innihaldsríkt eins og það að fylgja manneskju eftir þroskabraut hennar. Þar kemur jú annað til en notaleg sæla. Börnin miðla vitund fyrir tilgangi og markmiði þegar þau eiga líf sitt og framtíð undir þeim komið, sem ala fyrir þeim önn. Hið sama getum við sagt um það að móta einstaklinga og samfélög til betri vegar. Forystuhlutverkið er krefjandi en getur verið afar gefandi. 

 

Hugrekki er einmitt það, að halda í slíka óvissuferð. Við getum fundið fleiri líkingar um slíkt. Þegar við teflum á tæpasta vað, tökum okkur fyrir hendur eitthvað sem gæti ógnað öryggi okkar og komumst vel út úr því, sendir líkaminn okkur sterk boðefni sem gefa til kynna að við höfum valið vel. Stundum leikum við okkur að hættum. Við tiplum í kringum ógnina eins og krummi sem stríðir hundinum á bænum, lætur hann gelta og elta sig en stekkur fimlega frá þegar hann er kominn of nærri. Allt þetta er okkur nauðsynlegt til vaxtar og þroska.

 

Páll postuli orðar þetta svona: „Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan.“

 

Okkur hættir líka að gera þau mistök við uppeldi barna okkar að hlífa þeim um of við áreiti og hættum. Við viljum ekki sjá að afkvæmi okkar mæti þeim erfiðleikum sem við sjálf höfum þurft að horfa upp á, þessum ögurstundum sem áttu eftir að breyta lífi okkar. En þá sviptum við þau mikilvægu tækifæri til að vaxa og þroskast.

 

Snákurinn í grasinu situr eftir í huga þeirra sem rýndu í myndina. Þar leyndist jú hættan. Með sama hætti standa ögurstundirnar eftir í minningunni. Þær voru sú prófraun, sem sýndu hvað í okkur býr og mótaði okkur meira en önnur tímabil ævinnar. Og þegar við lítum til baka kann að vera að reyndumst búa yfir meira hugrekki en við gerðum okkur grein fyrir.

 

Pistill þessi var fluttur á uppástandi á Rúv.