Gestalistinn

Gestalistinn

Þar er ekki bara Ívar Guðmunds, Arnar Grant og Unnur Birna heldur líka Jón á Nesvöllum, hann Villi okkar, Árnína blessunin og allir þeir aðrir sem tilheyra söfnuði Guðs.

Við segjum fermingarbörnum frá því í upphafi vetrar hvað hlutirnir og rýmin hér í helgidómnum heita. Þeim þykir það vonandi fróðlegt, ekki síst þegar talað er um stóla sem enginn getur setið í, grátur og það sem heitir á erlendum tungum „vopnahús“, en hér svo langt frá heimsins vígaslóð var það kallað forkirkja. Og svo er það náttúrulega stærsta rýmið – sjálft kirkju-skipið. Já, af hverju köllum við það skip? spyrjum við. Þar, sem víðar þarf að horfa aftur til baka. Í þessu tilviki er rifjuð upp sagan af honum Nóa sem bjargaði útvöldum dýrum í örkina sína. Örkin og skipið eru þarna að vinna að sama marki – að hýsa þá sem hafa verið útvaldir til merkilegs hlutskiptis. Já, við erum útvalinn lýður – sem höfum alveg sérstöku hlutverki að gegna.

Útvaldir á útopnu

Allir muna eftir laginu með Ingó og Veðurguðunum þar sem úrvalsfólk landsins er talið upp á gestalista. Við eru á þessum gestalista sem hlýtur aðgang að dýrðinni. Þar er ekki bara Ívar Guðmunds, Arnar Grant og Unnur Birna heldur líka Jón á Nesvöllum, hann Villi okkar, Árnína blessunin og allir þeir aðrir sem tilheyra söfnuði Guðs.

En það er nú dæmigert að guðspjall þetta þar sem talað er um hina útvöldu og aðkomu þeirra að veislunni – skuli liggja til grundvallar guðsþjónustu nú í sumarbyrjun. Getum við ekki sett okkur í aðstæður veisluhaldarans sem ætlaði að safna fjöldanum saman? Hér er nú oft fjölmennara um að litast en nú. Hugur sóknarbarnanna er bundinn vötnum þar sem fólk má næðis njóta yfir hásumarið að ógleymdum hinum grænu grundum þar sem það fær hvíld frá amstri hversdagsins. Já um þessar mundir eru sumarbústaðalöndin og golfvellirnir iðandi af lífi.

Sumir eru líklega með hugann við aðrar grænar grundir þar sem kappleikirnir fara fram nú þessa dagana. Nei, grænu kirkjubekkirnir okkar hér í Keflavíkurkirkju hafa ekki eins mikið aðdráttarafl yfir sumartímann. Og samt komum við hér saman eins og við gerum alla sunnudaga ársins og miklu oftar. Þetta samfélag sem við köllum Keflavíkurkirkja iðar af lífi alla daga vikunnar. Í safnaðarheimilið streymir fólk í ýmsum erindagjörðum – til listsköpunar, til þess að þiggja aðstoð, til þess að gefa fé til góðra mála, til þess að leggja sitt af mörkum í sjálfboðavinnu, já við erum alla jafna ekki einmana í Keflavíkurkirkju. En jafnvel þegar lítil von er á húsfylli, þráumst við hér úti á ystu nesjum, við, fjarri kjarrskógunum og höldum messu.

Einmana gestgjafi

Hann var einmana maðurinn sem bauð til kvöldmáltíðar og átti von á svo mörgum. Það stóð hún heldur betur ekki til að hann myndi verja kvöldinu einn síns liðs. Þarna átti allt að iða af lífi. Já, hvaða vandræði voru þetta? Þegar allt var tilbúið – veisluborðin glæsileg, tónlistarfólkið búið að gera sig klárt, þá mátti enginn vera að því að mæta. Þetta voru auðvitað mikil vonbrigði og þrátt fyrir að afsakanirnar kunni að vera góðar hrekkur það skammt. Fyrirfólkið sem veislan var ætluð reyndist hafa of mörg járn í eldinum og enginn mátti vera að því að mæta þegar stundin var runnin upp.

Boðskapur sögunnar talar jú til okkar á öllum öldum. Það er ekki alltaf fullt út að dyrum í kirkjunni. Stundum er þar fátt um manninn og fólk hefur allt annað við sinn tíma að gera en að huga að eilífðarmálunum. „Undrist ekki, systkin, þótt heimurinn hati ykkur“ segir postulinn og vísar til þess að heimurinn er ekki alltaf tilbúinn að mæta þeirri köllun sem Guð ætlar honum. Við tökum auðvitað ekki svo djúpt í árinni á þessum sunnudegi – en ef við horfum lengra og dýpra sjáum við að fagnaðarerindið mætir oft miklum mótbyr og þeir eru margir sem hatast við lífgefandi boðskap þess.

Guðsþjónusta

Það er sannarlega nærtækt að hugleiða þessi mál nú um hásumar þegar söfnuðirnir um land allt minna á veislugestina í guðspjallinu – sem hafa tíma fyrir allt annað en að mæta í kirkju. En er það raunverulega boðskapurinn? Var Kristur virkilega sendur til okkar sem frelsari og lausnari – til þess að mannkynið láti sjá sig endrum og eins í helgidómnum? Hvað sagði hann sjálfur um þau húsakynni sem Gyðingar sóttu og hvað fannst honum um þá helgisiði sem þeir ástunduðu? Hvað segir Kristur um tilbeiðsluna og helgihaldið?

...þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

Nei, boðskapur Krists nær aðeins dýpra en svo að þar sé aðeins verið að krefja okkur um fáeinar klukkustundir í messusetu um ævina. Þarna fetaði hann í fótspor spámannanna sem fordæmdu yfirborðsmennskuna sem því fylgdi að láta sjá sig sem fróma og göfuga menn um leið og þeir ástunduðu svik og óheilindi gagnvart bræðrum sínu og systrum.:

Hvað varða mig yðar mörgu sláturfórnir? spyr Drottinn. [...]Færið mér ekki framar fánýtar kornfórnir, reykelsi er mér viðurstyggð. [...] Þvoið yður! Hreinsið yður! Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum. Hættið að gera illt, lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. Rekið réttar munaðarleysingjans. Verjið mál ekkjunnar.

Þurfum við ekki að túlka orðin í guðspjallinu í ljósi þessa? Þetta er ekki hefðbundið kvart um þátttökuleysi í kirkjulegri athöfn þótt freistandi sé að færa umfjöllunina í þann farveg nú í þessum harðindum sem ríkja á kirkjubekkjunum um þessar mundir. Hér er miklu fremur horft til hinnar eiginlegu guðsþjónustu sem snýst um það hvernig við lifum lífinu. Já, guðsþjónustan fer ekki bara fram í hádegisbirtu sunnudagsins. Hún á sér stað þegar við ferðumst frá vöggu til grafar og byggist á því að við nýtum þann tíma sem okkur er úthlutaður til þess að, já þjóna Guði.

Þetta er vel orðað í pistli dagsins:

Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.

Eins og í orðum Jesaja og Krists er skýr greinarmunur gerður á „tómum orðum“ og „verki og sannleika.“ Þetta er mikil blessun. Já, það er ótrúleg blessun að við skulum hafa þennan skarpa hníf sem skilur á milli þeirrar hegðunar sem er æskileg og hinnar sem engum tilgangi þjónar. Það eru mörkin á milli hins góða lífs sem leiðir til blessunar og hins sem lætur nægja að sýnast en er ekki neitt. Líf okkar á sér skýrt leiðarljós sem vísar okkur leiðina inn í dýrðina, sem má svo vel líkja við yndislegt veisluborð.

Skilin eru svo skörp. Annað er Guðs-þjónusta en hitt þjónar einhverju öðru. Og það er þessi Guðsþjónusta sem fjallað er um í dag. Veislustjórinn vildi bjóða fólkinu heim til sín. Skilaboðin beinast að hinni útvöldu þjóð og boðskapurinn er sá að með Jesú Kristi beinist boðunin ekki lengur aðeins að Ísrael heldur að öllu mannkyni. Kristur talar til hins útvalda lýðs og segir: Ykkur var boðið í veisluna en þið máttuð ekki vera að því. Þið voruð alltof upptekin af því að þjóna eigin hvötum og eigin löngunum. Það var enginn tími eftir að þjóna Guði.

Gestalistinn

En hver er þá hin útvalda þjóð? Hverjir eru þeir sem hafa verið valdir úr til þess að verða hólpnir. Hverjir eru á gestalistanum góða? Þar erum við. Við höfum fengið boðskortið að taka þátt í þeirri dásamlegu veislu sem við köllum Guðsþjónustu. Hún fer vissulega fram hér í þessu rými – í kirkjuskipinu. Þar nærumst við af orðinu og það er hverjum kristnum manni nauðsynlegt að eiga það samfélag sem hér er í boði. En markmiðið með lífi mannsins er að það verði ein samfelld Guðsþjónusta sem miðar að því að bæta, næra og græða þá sköpun sem okkur er falið að rækta. Sú iðja er gleðileg, hún er tilgangsrík og hún er þrungin siðferðislegu inntaki. Alveg eins og stórkostlegur viðburður sem okkur er boðið að vera með í.

Við erum á gestalistanum og við skulum taka þátt í veislunni.

Textar: Jes 25.1, 6-9; 1Jóh 3.13-18 og Lúk 14.16-24