Um snúning himintunglanna

Um snúning himintunglanna

Þótt fjarlægar stjörnur komi okkur í sjálfu sér ekki mjög mikið við (nema ef við erum spennt fyrir stjörnuspeki) þá höfðu þeir Kópernikus, Bruno, Galilei og aðrir frömuðir vísinda og frjálsrar hugsunar ekki bara áhrif á það hvernig við litum á hringi, leiðir og hnetti uppi á himinhvolfinu. Verk þeirra breyttu mestu um það hvernig við litum á okkur sjálf.

Flutt 1. október 2017 í Neskirkju

Marta María og Marta og María. Við ætlum að ræða sýninguna hennar Mörtu Maríu Jónsdóttur hér á eftir. Og í guðspjallinu fáum við innsýn í sorg og harm þessara nafntoguðu systra sem voru til umfjöllunar í síðustu messu líka. Textana veljum við ekki sjálf svo hér er komin ein af þessum skemmtilegu tilviljunum sem krydda dagana.

Marta og María

Í síðustu viku, var Marta á þönum að stjana við Jesú en María sat sem fastast og hlýddi á hann. Þegar Marta fór að kvarta undan þessu kom Jesús Maríu til varnar og sagði að hún hefði valið góða hlutskiptið. Núna er Marta aftur á ferðinni, hleypur á móti Jesú þar sem hann var á leiðinni til þeirra en Lazarus bróðir þeirra var látinn. Stundum finnst mér eins og þær séu hluti af sama sjálfinu, systur þessarar. Önnur er hvik og sífellt á ferðinni, hin er hæg og íhugul. Eins og valkostir einnar manneskju sem stendur frammi fyrir ólíkum aðstæðum á lífsins leið og þarf að bregðast við.

Megum við lesa á milli lína? Eru hugrenningatengsl við guðspjall síðasta sunnudags? Eru textar þessir óður til æðruleysis, að una við það sem við fáum ekki breytt og viðurkenna takmörk okkar í lífinu? Erum við minnt á mörkin sem eru okkur svo mikilvæg, á milli þess sem við höfum áhrif á og svo hins sem við höfum áhyggjur af?

Við höfum jú áhyggjur af heilum ósköpum og áhyggjumengið er miklu stærra og víðtækara en áhrifamengið. Áhyggjurnar okkar lúta að öðru fólki, liðnum atburðum og því sem við getum ekki unnið með. Áhrif höfum við fyrst og fremst á okkur sjálf, samtíðina og framtíðina. Eru Marta og María tvær hliðar á mér og þér? Eru þær tveir valkostir í flóknum aðstæðum og áminning um það að týna okkur ekki í þeim hafsjó sem áhyggjurnar eru?

Marta María

Og nú hef ég haft sýningu Mörtu Maríu (er þetta ekki pínu flókið?) fyrir augunum frá því í sumar. Listakonan gaf henni afgerandi heiti. Yfirskriftin er sumsé: „Um snúning himintunglanna”, eftir samnefndu riti Kópernikusar sem kom fyrst út árið 1543. Í sýningarskránni ræðir hún þá undarlegu tilfinningu sem því fylgir að vera hluti af einhverju sem er mögulega endalaust í tíma og rúmi. Listin hennar Mörtu Maríu er óhlutbundin. Hún vísar í verk sænsku myndlistarkonuna Hilmu af Klint, sem var frumkvöðull abstraktlistar þar sem hún tengdi verk sín hinu innra lífi sem ekki fæst skilið eða mótað með ytri augum.

Listakonan Gerður Helgadóttir starfaði á þeim sömu forsendum. Þar á meðal eru verkin hennar hér í Neskirkju. Ljósdeplar á veggjunum í kringum altarið minna okkur á snúning þessa himintungsl þar sem þeir færast til er sólin skín í gegnum glerið frá mismunandi horni. Og við getum fundið því stað í ómælisvíddum hugtaka og tenginga. Himintunglin eru jú hluti af okkur sjálfum.

Þótt fjarlægar stjörnur komi okkur í sjálfu sér ekki mjög mikið við (nema ef við erum spennt fyrir stjörnuspeki) þá höfðu þeir Kópernikus, Bruno, Galilei og aðrir frömuðir vísinda og frjálsrar hugsunar ekki bara áhrif á það hvernig við litum á hringi, leiðir og hnetti uppi á himinhvolfinu. Verk þeirra breyttu mestu um það hvernig við litum á okkur sjálf.

Lýsing á ferðalagi fjarlægra hnatta breytti stöðu mannsins í hinu stóra samhengi. Glöggir stjörnufræðingar höfðu löngum rýnt upp í himininn og skrásett allar hreyfingar sem þeir greindu þar. En vegna þess að þeir trúðu ekki öðru en að við, og jörðin okkar, væru miðstöð alls þurftu þeir að útbúa alls kyns krókaleiðir og snúninga fyrir stjörnurnar á himinhvelinu. Kópernikus leysti úr þessum vanda en skapaði nýjar flækjur. Í raun hratt hann manninum út á ómælisdjúpið, stefndi honum fjarri miðju alls þar sem hann fann sér engan stað.

Listakonan vinnur með þessa hugsun – og snertifleti trúar og vísinda sem hafa stundum verið sársaukafullir. Að endingu snerta þeir við tilvist okkar, tilgang og eðli.

Andblær hins kalda tóms

Vitundin um að maðurinn standi á jaðrinum en ekki í miðjunni var risabylting þótt það ætti eftir að taka tíma fyrir hana að seitla inn í vitundina. Um aldamótin 1900 sagði heimspekingurinn Nietzsche frá brjálæðingnum sem kveikti á lugt um hábjartan dag og lýsti svo yfir dauða Guðs. Þar kom hann inn á þessa stöðu. Yfirlýsinguna setti hann fram í bók sinni um hin kátu vísindi og þar segir:

Hvað vorum við að gera þegar við losuðum þessa jörð frá sinni eigin sól? Hvert hreyfist hún núna? Hvert stefnum við? Burt frá öllum sólum? Erum við ekki alltaf að hrapa? Aftur á bak og útá hlið, fram, til allra átta? Vitum við lengur hvað snýr upp og hvað niður? Ráfum við ekki um í óendanlegu tómi? Finnum við ekki andblæ hins kalda tóms? Er það ekki að kólna? Er ekki sífellt að skella á nótt?

Já, hann vísar í þennan atburð þegar hreyfing himintunglanna ýtti okkur sjálfum frá kjarnanum og lét okkur una því að þeytast um einhvers staðar úti í buskanum og hann spyr hvort við finnum ekki fyrir andblæ hins kalda tóms.

Það er einmitt inntakið í því angistarfulla ákalli Mörtu til Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn“. Við getum með sanni sagt að hún finni fyrir myrkinu og kuldanum sem sækir að okkur þegar lífið hegðar sér með öðrum hætti en okkur finnst rétt og eðlilegt. Af orðum hennar að dæma er eins og heimur hennar hafi hrunið og fótfestan er horfin.

Við erum jú öll með klukkuvísana tifandi yfir höfðum okkar og þegar þeir eru komnir á sína endastöð mætir okkur hið ókunna. Endaleysan og endastöðin eru tvær hliðar á lífinu. Dauðinn er sú ráðgáta sem maðurinn stendur frammi fyrir, og í þeim heilabrotum mætast bæði heimur og Guð. Um þetta fjalla textar þessa sunnudags. Þeir leiða hugann okkar að þeim takmörkunum sem líf okkar hugsandi manna eru sett. Hinar ókönnuðu lendur tilverunnar eru þar til umfjöllunar. 

Svar Krists við ákalli Mörtu er hið sama og mætir okkur þegar við horfum ringluð upp í himingeiminn, þegar við hugleiðum þá staðreynd að við á hverju andartaki erum á fleygiferð í tóminu endasendumst í einhvers konar spíral í áttina frá upphafsreitnum þar sem vísindin segja að allt hafi myndast, tími og rúm. Þar horfir Kristur inn í sálu okkar og minnir okkur á að hvert og eitt erum við í raun sjálfstæður heimur, í huga okkar búa ómælisvíddir og sú afstaða sem við tökum skiptir að endingu meginmáli.

Við getum valið að varpa því öllu frá okkur sem gerir líf okkar ríkt að inntaki og merkingu. Við getum líka horfið inn á svið áhyggjunnar þar sem við streitumst gegn því sem er. Þá æðum við um eins og ráðvillt dýr í búri. Það á við um kirkjuleiðtogana sem beittu þá ofbeldi sem risu upp gegn staðnaðri hugsun, brenndu þá jafnvel á báli sem þorðu að segja hvernig heimurinn blasti við þeim. Og Biblían birtir okkur ótalmörg dæmi, stór og smá, þar sem fólk reynir að stjórna lífinu, heiminum, Guði.

Öll kristnisagan er lýsing á því þegar við reynum að stjórna því sem við fáum ekki ráðið, erum á þönum eins og Marta sem eirir sér ekki í óskiljanlegum heimi. Skilaboðin eru jafnan þau sömu. Við horfum á Maríu sem situr í sorgarhúsinu og tekst á við þær sáru kenndir sem lífið færir okkur. Jesús bendir inn í hjartað og segir að trúin frelsi manninn. Í henni býr æðruleysi gagnvart því sem við fáum ekki breytt. Lotning fyrir leyndardómum tilverunnar.

Alheimurinn og við

Svo þegar við hugleiðum það, í köldum heimi þar sem eru ekki bara orsakir og afleiðingar, heldur einnig óskiljanleg óreiða. Þá er sérstaða okkar, þessara örvera í hinu stóra samhengi, miklu meiri en við höfum nokkru sinni gert okkur grein fyrir. Ef við fórnum trúnni, ef við hættum að spyrja okkur stórra spurninga um tilgang, líf og tilvist, hver gerir það þá? Kristur tengir saman hið hverfula og hið eilífa og talar um upprisu mannsins, enn einn leyndardóminn sem við stöndum frammi fyrir. Hún verður okkur hvatning til þess að lifa lífinu í allri sinni fullnustu. Því ef við öxlum ekki það hlutverk, þá vitum við ekki betur en að alheimurinn verður svo óendanlega miklu snauðari fyrir vikið.