Sjaldan fleiri

Sjaldan fleiri

Þetta fer hljótt í fjölmiðlum, ekki efst á baugi, hvorki fyrir eða eftir jól. Um þetta er tæpast spurt í aðdraganda jóla og má sín lítils í umræðunni um verslunarsiði og matseðil hátíðarinnar.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
23. desember 2016

Sjaldan koma fleiri saman opinberlega af einu tilefni en á aðfangadagskvöldi klukkan sex í kirkjum landsins. Og aldrei er meira sungið á Íslandi en einmitt þá. Og svo aftur á jólanótt fyllast margar kirkjurnar af fólki. Þetta fer hljótt í fjölmiðlum, ekki efst á baugi, hvorki fyrir eða eftir jól. Um þetta er tæpast spurt í aðdraganda jóla og má sín lítils í umræðunni um verslunarsiði og matseðil hátíðarinnar. En samt flykkist fólkið til kirkju til að samfagna, njóta helgi og kærleika, festa tilefni jólanna í huga og hjarta. Syngja saman sálmana, hlusta á guðspjallið og fá í veganesti orðið til hugleiðingar um lífið og tilgang þess. Lyfta anda í hæðir, helga hátíð blessun og friði.

Bernskuminning mín er samofin hörðum bekknum í Hafnarfjarðarkirkju, þar sem ég beið alltaf lengi með fjölskyldu minni eftir því að messan hæfist á aðfangadagskvöldi. Engar skreytingar hef ég rannsakað betur með augum mínum en myndirnar og orðin sem þar standa á veggjum. Óþolimótt barnshjartað skynjaði þó nándina við hið heilaga. Eitthvað einstakt og fagurt eins og umvafið dýrð sem barnið skynjar betur en menntað vitið.  Svo þegar kirkjuklukkurnar hringdu inn og orgelið fyllti kirkjuna með hljómfalli sínu, þá varð bókstaflega heilagt.

Við erum í sporum genginna kynslóða í kirkjunni á jólum. Margir geta ekki hugsað sér jól öðruvísi en að njóta þar samfélags. Þá verður svo ljóst hve fólkið metur mikils að rækta fallega menningu í heilögu umhverfi og halda fast við gróna siði sem reynst hafa lífinu vel. Það staðfestir samfélagið í kirkjum landsins á jólum.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. desember 2016