Hugleiðing um kórsöng og lífið á aðventu

Hugleiðing um kórsöng og lífið á aðventu

Fátt veit ég skemmtilegra en að hlýða á kóra syngja. Það færir tilfinningarnar á æðra plan og getur lifað í minningunni um langa hríð. Það er líka gaman að horfa á kóra, sjá öll þessi andlit sem hafa æft sama stykkið en bjóða samt upp á svo margar ólíkar útfærslur af því.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
18. desember 2008
Flokkar

Fátt veit ég skemmtilegra en að hlýða á kóra syngja. Það færir tilfinningarnar á æðra plan og getur lifað í minningunni um langa hríð. Það er líka gaman að horfa á kóra, sjá öll þessi andlit sem hafa æft sama stykkið en bjóða samt upp á svo margar ólíkar útfærslur af því. Jafnvel innan sömur raddar er ýmis blæbrigði að finna. Sumir eru pollrólegir, ískaldir –  sýna fá svipbrigði hreyfast ekki hvað sem gengur á í verkinu. Aðrir eiga erfiðara með að hemja sig – dilla sér í takt við tónlistina, túlka hana með augnaráði og öðru látbragði. Og svo allt þar á milli!  

Allir þessir einstaklingar 

Svo er líka merkilegt að velta því fyrir sér hvernig allt þetta fólk hefur komið saman – hvert úr sinni áttinni. Kórinn er eins og samfélag sem einstaklingar mynda. Hver og einn sinnir hver að sínum verkefnum í amstri hversdagsins, en svo mætir hann á tilstettum tíma í hópinn sinn til þess að æfa og flytja tónlist í hópnum. Allir þessir einstaklingar – hver með sína sögu og á sínum forsendum tjá og túlka sem ein heild eitthvað af því sem menningin hefur fært okkur og gerir lífið ekki bara skemmtilegra heldur fyllir það meira innihaldi.

Í vel heppnuðum kórsöng skynjum við hvernig við getum upplifað og notið tilverunnar þar sem allt gengur upp og allir leggjast á eitt. Fyrir þá sem hafa sungið í kór er þetta kunnugleg tilfinning. Sjálfur hef ég nokkra reynslu af slíku en ein eftirminnilegasta uppfærslan var þegar við á Ísafirði settum upp Messías eftir Händel. Fram að því hafði ég lítt kynnt mér þetta merkilega verk en mér er minnisstætt þegar við söfnuðumst saman haustið 1997 í tónlistarskólanum til fyrstu æfingarinnar. Hver rödd hélt af stað í eitthvert herbergi skólans með píanóleikara og svo æfði hún sinn þátt í fyrsta verkinu: „And the Glory of the Lord“.

Þessi fyrstu kynni mín af verkinu voru ekki góð.  Við, bassarnir, þrumuðum eina og eina hendingu og svo taldi píanistinn þagnirnar – 1, 2, 3, 4. Þá kom ein setning í viðbót þar til næsta þögn tók við. Algerlega óskiljanleg tónlist, fannst mér.  Loks þegar þessi einkennilegi gjörningur var að baki eftir einhverjar 30 mínútur söfnuðust allar raddirnar saman  þar sem átti að fara yfir æfingaplanið. En svo prófuðum við að syngja verkið í sameiningu og hvílík undur! Þarna rann þetta allt í eina heild. Þagnirnar voru ekki lengur þagnir heldur undurþýður söngur tenóra, milliraddar og sópran og með undirleik af píanói fékk þetta enn skýrari merkingu. Ekki þarf svo að fara neinum orðum um það hvernig tilfinningin var að standa á kórpöllum í kirkjunni um páskana með synfóníuhljómsveit í stað píanós, einsöngvara og við auðvitað búin að læra okkar línur. Þá ljómaði Dýrð Drottins að ógleymdum Hallelújakórnum og öðrum þáttum óratoríunnar í fjórum röddum, með fiðlum, trompetum, pákum og öðru því sem hljómsveitin hafði að skarta!

Velferðarsjóður

Kórsöngur er svolítið eins og lífið sjálft. Stundum er því svo háttað að ein og ein rödd hefur lítið að segja – en þegar hún hljómar með öðrum röddum þá geta undur og stórmerki átt sér stað. Töfrarnir liggja á þessum hárfínu mörkum hins sérstaka og hins sameiginlega. Ef allar raddirnar hljóma eins stendur kórverkið varla undir nafni og ef tengslin á milli þeirra eru ekki nógu skýr þá skilja áheyrendur og jafnvel flytjendur ekkert í því sem sungið er. Já, töfrar eru það því þegar vel tekst til með samvinnu og samstarf getur samanlögð útkoma verið miklu meiri en hver og einn hefði getað afrekað í sínu horni. Núna á aðventunni stöndum við í nokkrum stórræðum sem minna um margt á það þegar fólk safnast saman úr öllum áttum til þess að flytja tónverk í sameiningu. Stofananir og félagasamtök hafa myndað í sameiningu sjóð sem við köllum Velferðarsjóð á Suðurnesjum. Þar verður á einum stað hægt að leggja fram fé sem síðan er nýtt til þess að veita stuðning og lið þeim sem þurfa á að halda. Nú þegar hefur talsvert fé safnast í sjóðinn – en þörfin er að sönnu brýn.

Við leggjum okkur fram um að stilla saman strengina og höfða til hóps sem er ekki bara fjölmennur heldur líka fjölbreyttur. Verkefni okkar er að styðja og styrkja þá sem hafa misst vinnu eða eru í sárri neyð núna á tímum samdráttar og atvinnuleysis. Hér leggur hver fram það sem hann hefur fram að færa enda eru aðstæður okkar frábrugðnar. Kristur minnti okkur á það í sögunni af fátæku ekkjunni að henn framlag væri hærra en hinna því hún gaf af skorti sínum.

Þarna minnir hann á það hversu mikilvægt það er að leggja af mörku það sem hver og einn getur. Kjörorð okkar og leiðarstef í lífinu ætti jú að vera það að gera fyrir aðra það sem við viljum að aðrir geri fyrir okkur. Já, og breytni okkar ætti að miða við það að við teldum það æskilegt að allir aðrir ynnu í sama anda. Þannig var framlag fátæku ekkjunnar til góðra málefna metið í hlutfalli við eigur hennar en ekki endilega í magninu sem kom í sjóðinn.

Blessunarlega er meirihluta íbúa hér á svæðinu enn með vinnu þótt allir búi vissulega við skert kjör miðað við það sem hefur verið hér undanfarin ár. Hlutverk okkar er að styðja og efla þá sem þurfa á því að halda þar til hagur okkar vænkast að nýju og hjólin snúast á eðlilegum hraða. Og með því að setja kraftana alla í einn sjóð skapast stóraukin tækifæri á því að hjálpa, styðja og efla þá sem hafa orðið fyrir skakkaföllum. Með því móti getum við rétt eins og einstaklingarnir sem leggja saman krafta sína í kórsöngnum búið til eitthvað stærra og merkilegra en hver og einn þeirra hefði getað gert óstuddur. Sameiginlegur sjóður hefur burði til þess að létta byrðum með fólki og brúa þetta bil. Fyrir vikið fjölgar þeim einstaklingum sem unnt verður að rétta hjálparhönd og allt samfélagið dafnar.

Verum örlát, hugrök og stórhuga á þessum tímum þegar slíkra eiginleika er mest þörf. Guð blessi okkur öll og gjafir okkar.

Aðventuhugvekja flutt á tónleikum í Kirkjulundi 14. desember 2008 til styrktar velferðarsjóði á Suðurnesjum