Sama sól og sami máni

Sama sól og sami máni

Sama jörð, sami himinn, sama sól og sami máni. Konurnar á Tonga í Suður-Kyrrahafi litu upp í sama himinn og við höfum gert hér í dag. Þær voru fyrstu konurnar til að vakna til þessa alþjóðlega bænadags kvenna og enn eiga konur eftir að koma saman og biðja.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
01. mars 2013
Flokkar

Hugleiðing á alþjóðlegum bænadegi kvenna 1. mars 2013 í Aðventkirkjunni í Reykjavík.

Ég heilsa ykkur í Jesú nafni og þakka fyrir að fá að vera með ykkur hér í kvöld.

Sama jörð, sami himinn, sama sól og sami máni. Konurnar á Tonga í Suður-Kyrrahafi litu upp í sama himinn og við höfum gert hér í dag. Þær voru fyrstu konurnar til að vakna til þessa alþjóðlega bænadags kvenna og enn eiga konur eftir að koma saman og biðja, því í þeim rúmlega 170 löndum sem bænakeðjan nær til líða um 35 klukkustundir frá því dagurinn byrjar á Tonga og þar til hann endar á Vestur-Samóaeyjum. Við sem erum hér saman komin erum því hluti af stórri heild, fjölmennum hópi kvenna og karla sem kemur saman víðsvegar um heiminn undir kjörorðunum upplýst bæn – bæn í verki. Við trúum því og treystum að bænin hafi tilgang og sé heyrð og henni svarað af þeim Guði er Jesús Kristur birti og boðaði, þeim Guði er sameinar okkur þó við tilheyrum mörgum kirkjudeildum.

Í meira en hálfa öld hafa íslenskar konur úr nokkrum kirkjudeildum undirbúið alþjóðlegan bænadag hér heima. Víða um land eru á þessari stundu biðjandi konur. Sjálf hef ég tekið þátt eða staðið fyrir bænasamkomu á þessum degi í meira en 30 ár og þykir afskaplega vænt um þennan atburð. Konur hafa undirbúið daginn og sent okkur efnið, eitt land á hverju ári og í dag eru það franskar konur sem hafa ákveðið og sent okkur efnið eins og fram hefur komið. Frakkland er ekki framandi land í huga okkar Íslendinga. Það er Evrópuland þar sem ætla mætti að konur nytu mannréttinda á við karla. Í kynningarefni sem ég fékk sent vegna þessa dags segir að franskar konur hafi fengið kosningarétt árið 1944. Reyndar nokkuð seint. Íslenskar konur fengu jú kosningarétt árið 1915. Í kynningarefninu segir einnig að „Hlutfall langskólagenginna kvenna er svipað og hjá körlum. Laun kvenna eru þó lægri en laun karla og munar um 23,5%. Ofbeldi gegn konum á sér stað þar eins og annars staðar. Erlendar konur sem eru fórnarlömb kynþáttahaturs, ofbeldis og kláms eiga oft erfitt með að leita réttar síns. Frakka eiga því enn töluvert í land með að jafna réttindi karla og kvenna“ segir í kynningarefninu. Við þekkjum umræðuna hér um launamun kynjanna og ofbeldi viðgengst því miður í landi okkar. Það er raunar einnig umhugsunarvert hvernig fréttaflutningur er af ofbeldi og öðrum misyndisverkum. Oftar en ekki er það tekið fram ef erlendur ríkisborgari er grunaður eða gerist sekur en ekki minnst á þjóðernið ef um samlanda okkar er að ræða.

Þegar ég las kynningarefnið skyldi ég betur hvers vegna fjölmiðlafólk frá Frakklandi hefur svona mikinn áhuga á fyrstu bískupsvígslu konu á Íslandi. Ég hef farið í ótal viðtöl við blaðamenn og sjónvarpsfólk vegna vígslu minnar. Okkur finnst vígsla konu til biskups vera eðlilegt framhald þeirrar umræðu og vinnu sem fram hefur farið í kirkju og þjóðfélagi um stöðu kvenna. Frökkum finnst þeir eiga langt í land með að verða vitni að vígslu konu til prests eða biskups. Það er nauðsynlegt að eiga fyrirmyndir og sjá fyrirmyndir. Við verðum fyrir áhrifum með skynfærum okkar. Sjáum, heyrum, finnum. Til gamans má líka geta þess að þegar ég vígðist til biskups s.l. sumar vildi einn biskupinn fá mynd af okkur saman. Hann heitir reyndar því þekkta nafni Michael Jackson og er írskur biskup. Hann vildi fá mynd til að sýna heima fyrir. Sýna að kona gæti orðið biskup og hafa sönnunargagn fyrir því.

Dægurmálin eru af ýmsum toga í löndum heimsins. Ég veit ekki hvaða bænarefni við íslenskar konur myndum setja á blað fyrir okkur og umheiminn ef við ættum að skipuleggja alþjóðlegan bænadag kvenna. Kannski launamálin, kannski klámvæðinguna, kannski eitthvað annað. En franskar konur leggja áherslu á málefni innflytjenda. Í Frakklandi búa margir innflytjendur. Fjölgun íbúa í Frakklandi er einhver sú mesta í Evrópu og er skýringin meðal annars sú að fjöldi innflytjenda er mikill. Þeir búa ekki allir við góðar aðstæður. Kirkjurnar í Frakklandi hafa látið í sér heyra varðandi það og hafa staðið saman að því að standa vörð um réttindi útlendinga og innflytjenda.

Auðvitað er minnst á útlendinga í Biblíunni eins og allt annað er viðkemur fólki og lífi þess. Þar er líka talað um það hvernig við tökum á móti þeim sem eru gestir okkar og við minnt á að vera gestrisin. Frönsku konurnar völdu einkunnarorðin: „Gestur var ég og þið hýstuð mig“. Þessi orð Jesú koma fram í kaflanum umn miskunnarverkin, þar sem hann minnir okkur á að „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“.

Orð Jesú: „Gestur var ég og þið hýstuð mig“ völdu frönsku konurnar okkur til íhugunar um það hvernig við tökum á móti þeim sem búa á meðal okkar en eru ekki fædd hér eða ekki af okkar bergi brotin. Konurnar erlendu hafa komið til Frakklands af ýmsum ástæðum eins og við höfum heyrt hér í kvöld. Kristnar konur um allan heim og karlar sem taka þátt í bænastundunum á þessum degi víðsvegar um heiminn biðja nú fyrir þeim og öllum þeim öðrum eru búa við skert kjör, óréttlæti og hvers konar kúgun. Við getum líka þakkað fyrir það sem við höfum og eigum og beðið þess að Jesús snerti við lífi okkar á þann hátt að við finnum köllun okkar til þess að láta okkur varða náungann og í dag sér í lagi gesti okkar. Þannig þjónum við Kristi í veröld sem svo sannarlega þarf á því að halda að finna nærveru hans og áhrif í daglegu lífi. Jóhannes postuli minnir okkur líka á að elska ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.

„Gestur var ég og þið hýstuð mig“ sagði Jesús og minnti okkur þar með á að okkur kemur við líf náunga okkar ekki hvað síst þeirra sem eru í neyð. Frönsku konurnar völdu bænarefni sem brann á þeim, en um leið hjálpa þær okkur til að líta okkur nær og kynna okkur aðstæður og stöðu þeirra innflytjenda sem hér búa.

Það er hverju samfélagi nauðsynlegt að setja lög og reglur og ætlast til þess að þeim sé fylgt eftir. En það er ekki síður nauðsynlegt að sá fræi kærleika og miskunnar í huga þegnanna. Það er betra að við finnum þörf fyrir það að koma vel fram við náungann en að við gerum það vegna settra reglna. Þegar Jesús minnir okkur á að vera gestrisin, leggur hann ábyrgð á herðar okkar. Sú byrgði er létt vegna þess að hann ber hana með okkur. En við höfum alltaf val. Viljum við fylgja honum og gera honum gott. Á það minna orð hans í kaflanum um miskunnarverkin:

„Gestur var ég og þið hýstuð mig“ því „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“. Amen.