Mér þykir vænt um þjóðkirkjuna. Síðustu 20 árin hef ég tekið virkan þátt í starfi kirkjunnar á margvíslegum vettvangi, fyrst sem leikmaður í æskulýðsstarfi og síðar sem vígður djákni. Á þeim tíma hef ég endrum og sinnum heyrt sögur af prestum sem binda ekki bagga sína sömu hnútum og aðrir.
Ég hef kynnst þeim sumum, en einn þeirra sem ég hef aldrei hitt er sr. Jón Ísleifsson. Sögurnar um hann hef ég þó svo sannarlega heyrt og þar hefur á stundum sannleikurinn ekki staðið í vegi fyrir góðri sögu. Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég fór í Bíó Paradís til að sjá heimildamynd Steinþórs Birgissonar um prestinn fyrrverandi á Árnesi á Ströndum.
Trékyllisvík er einhver fallegasti staður sem ég hef heimsótt á Íslandi. Fjallahringurinn, gróðursældin og ekki síst Reykjaneshyrnan eru ógleymanleg. Kirkjurnar tvær, sem standa andspænis hvor annarri við þjóðveginn kalla fram hjá mér endalausa þanka um framtíð og fortíð kirkjunnar sem mér þykir svo vænt um, um raunsæi og von, um deilur og sáttagjörð, um vonbrigði og upprisu. Það er ekki að undra að sr. Jón hafi bundist þessum stað sterkum böndum. Þessi fegurð víkurinnar, þessi margræði heimur samfélagsins á hjara veraldar, umgjörð kirkjustarfsins og deilur um kirkjubyggingar, fá þó því miður lítið vægi í kvikmyndinni. Að hluta til vegna þess að nokkuð skortir upp á að gæði myndupptökunnar sé viðunandi. Þá er einblínt alfarið á einstaklinginn Jón, en það umhverfi sem honum er búið af hálfu kirkjuyfirvalda í upphafi og sú saga safnaðarins sem birtist í tilvist tveggja kirkjuhúsa er látin liggja óhreyfð.
Saga Jóns er svo sem áhugaverð, einbúinn sem ákveður að standa utan við samfélagið, hefur alltaf gripið athygli okkar sem hræðumst fátt annað meira en að verða utanveltu. Kvikmyndagerðamanninum tekst ágætlega til í frásögn sinni. Hann bregður upp mynd af sr. Jóni sem einkennist af virðingu og væntumþykju. Steinþór Birgisson varpar á tjaldið, einmana manni sem langar til að standa sig, en veit ekki alveg hvernig. Við fáum að sjá að Jón getur nálgast helgihald safnaðarins af virðingu og vissri fegurð, mitt í einmanaleikanum og erfiðleikunum. Kvikmyndin Jón og séra Jón er leiftur inn í líf manns sem glímir við sjálfan sig, einmanaleikann og köllun sína, meðvitaður um eigin breyskleika og galla.
Ég fór í Bíó Paradís á þriðjudagskvöldi, salur 1 var fullur af fólki. Mér þótti vænt um að sjá séra Jón ganga frá við altarið að lokinni guðsþjónustu. Hann nálgaðist verkið af auðmýkt. Þegar sr. Jón tók kaleikinn og lauk úr honum til að hreinsa hann, þá hugsaði ég um að tveimur dögum áður hafði ég gengið frá á sama hátt eftir guðsþjónustu í Hallgrímskirkju á Saurbæ. Salurinn skellti hins vegar upp úr. Ég leit í kringum mig, velti fyrir mér köllun minni í kirkjunni, hugleiddi um stund þá fjarlægð sem bíógestir virtust hafa frá helgihaldinu og undraðist hvers vegna fólkið sæi ekki fegurðina í atferli séra Jóns. Í skamma stund var ég ekki Jón heldur séra Jón, einn, einmana og utanveltu, jafnvel þó ég sæti í sal með nokkur hundruð manns.