Sviknar vonir

Sviknar vonir

Oft hefur því verið haldið fram að ótalmargt gott sé í gangi en fólk sé svo heyrnarlaust að það heyri það ekki og svo sjónlaust að það sjái það ekki. Ég er samt ekki viss um að heyrnarleysi, sjónleysi og vitleysi séu helstu skýringarnar á óánægju fólks á Íslandi þótt eflaust megi kynna það betur sem þó er verið að gera fyrir heimilin í landinu.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
11. júní 2010

Á leið sinni til hafs grefur Glerá sér einhver hrikalegustu gljúfur á Norðurlandi.

Í þessari frétt segir biskup Íslands að fólk heyri ekki að ríkisstjórnin sé með góðar fyrirætlanir.

Hann segir líka að fólki sýnist að lítið sé verið að gera.

Nú vil ég ekki oftúlka orð míns ágæta biskups en ég hef heyrt þetta áður.

Oft hefur því verið haldið fram að ótalmargt gott sé í gangi en fólk sé svo heyrnarlaust að það heyri það ekki og svo sjónlaust að það sjái það ekki.

Og vantar þá ekki bara að bæta við að fólk sé svo vitlaust að það fatti það ekki?

Ég er samt ekki viss um að heyrnarleysi, sjónleysi og vitleysi séu helstu skýringarnar á óánægju fólks á Íslandi þótt eflaust megi kynna það betur sem þó er verið að gera fyrir heimilin í landinu.

Ef til vill er einfaldlega ekki nógu mikið gert fyrir almenning?

Á sama tíma og talað er um frystingu eða lækkun launa almennings eru stjórnvöld að finna leiðir framhjá eigin lögum til að hægt sé að hækka laun sumra.

Og sömu stjórnvöld horfa aðgerðarlaus upp á að bankar svindli á kerfinu til að hækka laun stjórnenda sinna.

Fólk er skúffað vegna þess að því finnst ekki nógu mikið gert og fólk er ekki síður skúffað vegna þess því finnst sáralítið hafa breyst frá árinu 2007.

Spillingin grasserar áfram. Ofurstyrkþegar sitja sem fastast á þingi. Auðmenn halda sínu, fyrirtækjum og fjölmiðlum.

Orkufyrirtæki telja sig þurfa að hækka gjöld til fólksins um leið og keyptir eru margra milljón króna glæsijeppar undir starfsmenn.

Hvar eru þeir sem velta um borðum og reka út mangara, okrara og víxlara?

Þessu er ágætlega lýst í stuttri en hnitmiðaðri grein eftir sr. Ólaf Jóhannsson í Mogga dagsins. Ég mæli með þeim skrifum.

Myndin: Á leið sinni til hafs grefur Glerá sér einhver hrikalegustu gljúfur á Norðurlandi.