Kirkjan stendur enn

Kirkjan stendur enn

Við eigum mörg hver sterk tilfinningatengsl við kirkjuna í þeirri merkingu að hún fóstrar andleg verðmæti og veraldleg menningarverðmæti þjóðarinnar.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
23. desember 2016

Mér verður oft hugsað til þess þegar ég kem inn í gömul kirkjuhús sú saga sem hvert hús geymir. Ég finn alltaf til ákveðinnar auðmýktar og þakklætis enda er saga kirkjunnar í gegnum aldirnar reynslusaga fólks á hverjum tíma og varðar stærstu stundirnar í lífi þess á hverjum stað. Við eigum mörg hver sterk tilfinningatengsl við kirkjuna í þeirri merkingu að hún fóstrar andleg verðmæti og veraldleg menningarverðmæti þjóðarinnar.

Þetta fór í gegnum hugann í vikunni sem leið þegar ég var við störf í Akureyrarkirkju og það kom upp á tölvuskjáinn að eldur væri laus í Laufáskirkju en við hjónin erum búsett í Laufási þar sem eiginmaður minn þjónar sem sóknarprestur. Laufáskirkja er órjúfanlegur hluti af staðarmyndinni sem vel flestir þekkja af póstkortum eða af eigin raun og hefur staðið tímans tönn í 151 ár.

Laufáskirkja var byggð á þremur mánuðum að frumkvæði sr. Björns Halldórssonar prests í Laufási en hann fékk til liðs við sig þá Tryggva Gunnarsson prestsson frá Laufási og Jóhann Bessason bónda á Skarði í Dalsmynni. Tími Björns Halldórssonar í Laufási var blómatími og má sjá af mörgu hve honum og fjölskyldu hans var annt um staðinn. Björn var skáldprestur og eftir hann liggur fallegur kveðskapur þar á meðal  jólasálmurinn fagri „Sjá himins opnast hlið“ sem er fluttur á hverjum jólum í mörgum kirkjum landsins. Að venju ómar hann í Laufáskirkju í jólamessu á annan í  jólum en upphaflega var hann frumfluttur í kirkjunni. Það er ekki laust við á þeirri stundu að sjá megi tár á hvörmum enda eitthvað heilagt við að sitja í þessari öldnu kirkju og hlýða á sálminn og þann boðskap sem hann ber.

Okkur er tamt að tala um að lífið sé tilviljunum háð. Þó er það stundum þannig að við getum líka fengið þá sterku tilfinningu að yfir öllu sé vakað. Það var sú tilfinning sem bærðist í brjósti þegar eldur logaði í Laufáskirkju um daginn en allt stóð þar tæpt um tíma og örlögum kirkjunnar verulega storkað. Það er óhætt að segja að sú tilhugsun að koma heim í  Laufás án þess að sjá kirkjuna blasa við í náttrökkrinu á fallegu vetrarkvöldi eða þar sem hún stendur reisuleg yfir Laufáshólmunum á grænum sumardegi er þyngri en tárum tekur. Laufáskirkja fóstrar, eins og ég nefndi í upphafi, reynslusögur fólks. Hún geymir tilfinningar, gleði og sorgir kynslóða sem enn í dag koma heim á Laufásstað til að upplifa þessa stemningu og allar minningarnar sem hafa búið um sig í brjósti og eru dýrmætari en mölur og ryð fá eytt. Þekkt er sagan af öldnum prestssyni frá Laufási sem sótti æskuslóðirnar heim og það fyrsta sem hann gerði var að beygja sig niður og kyssa jörðina. Sú athöfn hans staðfestir helgi staðarins og þá hlutdeild sem hann á í lífi svo margra sem hann snertir. Hún staðfestir líka þau mögnuðu viðbrögð fólks við því að ekki fór verr og fólk úr öllum áttum hefur gert sér far um að ræða þetta við okkur hjónin og því er í mun að tjá þakklæti sitt. Þessi hlýja og umhyggja fyrir kirkjunni er sannarlega ljós á aðventu og minnir okkur á þessi djúpstæðu tengsl við hana sem eru einkum tilfinningalegs eðlis og lýsa þeim sanna veruleika sem kirkjan okkar er byggð á. Það er raunverulegt líf fólks, gleði og sorgir, sigrar og ósigrar, vonbrigði og vonarljós.

Vonarljósið er veruleiki jólaguðspjallsins. Sagan af litlu barni sem fæddist í jötu við ótryggar aðstæður og söngur englanna á Betlehemsvöllum ómar í bakgrunni: Verið óhrædd! Það er við þessar aðstæður sem við föllum á kné og þökkum. Það er við þessar aðstæður sem við leyfum okkur að finna þá tilfinningu bærast í brjósti að ljósið sigri alltaf myrkrið. Það er við þessar aðstæður sem við könnumst við okkur sjálf. Það er við þessar aðstæður sem jólin koma til okkar í sinni tærustu mynd.

Ég kýs að líta svo á að yfir Laufáskirkju hafi verið vakað í síðustu viku og að það sé markmið og tilgangur með því að kirkjan standi enn á sínum stað og varði veginn áfram fyrir okkur sem eigum í henni hlutdeild og beri áfram fæðingarfrásögunni vitni. Það er að mínu mati helg jólaprédikun og það verður notaleg stund að geta sest inn í kirkjuna á öðrum degi jóla og lygna aftur augum og heyra jólasálminn hans sr. Björns Halldórssonar „Sjá himins opnast hlið“ óma enn ein jólin. Það er mitt þakkarefni á þessari aðventu.

Guð gefi ykkur góð og gleðileg jól.

Pistillinn var fyrst birtur í Akureyri vikublað 22. desember 2016