Góð guðfræði

Góð guðfræði

Góð Guðfræði byrjar ekki bakvið skrifborð, heldur í því samfélagi sem kennir sig við Jesú Krist. Góð guðfræði hefst með spurningunni: Fyrst Jesús borðaði með vændiskonum, bersyndugum, holdsveikum og útlendingum – með hverjum eigum við að setjast til borðs og þjóna, líkt og hann gerði?

Við upphaf náms í guðfræði fyrir 15 árum síðan mælti ég mér mót við þáverandi sóknarprest Laugarneskirkju, sr. Bjarna Karlsson, bauð fram þjónustu mína í söfnuðinum og bað hann um að vera handleiðari minn í gegnum prestþjálfun. Eitt af því sem situr eftir frá fyrstu samtölum okkar er sú ráðlegging að guðfræði verður aldrei stunduð einungis bakvið skrifborð.

Eins heillandi og guðfræði er sem fræðilegt viðfangsefni, þá liggur það í hlutarins eðli að góð guðfræði verður ekki iðkuð án samhengis við starf kirkjunnar. Guðfræði hefur lagt margt til félags- og hugvísinda og sækir jafnframt verkfræði til flestra greina en guðfræði er í eðli sínu viðfangsefni, ekki afmörkuð þekkingargrein, og er í senn fræði og fag. Guðfræði skoðar hinn kristna átrúnað í öllum sínum birtingarmyndum og stærra gerist viðfangsefnið ekki: Kristin trú er útbreiddasta og fjölmennasta hreyfing mannkynssögunnar.

Öll svið guðfræðinnar hafa beina skírskotun til veruleika kirkjunnar og guðfræðingar hafa flestir lagt á hilluna hugmyndir um að geta nálgast endanlegan sannleika um viðfangsefni sín. Eins og veruleiki kirkjunnar er síbreytilegur og þróast með mannlegu samfélagi, eins breytist sýn okkar á samhengi guðfræðinnar.

Biblíufræði, sem skoðar hina trúarlegu texta í sínu upphaflega samhengi, hefur jafnframt að viðfangsefni viðtöku þeirra og notkun í samhengi menningar og trúariðkunar. Kirkjusagnfræði fjallar um hið sögulega samhengi hreyfingarinnar en áherslur ganga sífellt í endurnýjun lífdaga og kirkjan tekur ítrekað á sig kunnuglegar myndir. Pendúllinn sveiflast frá uppbrots til festu, frá rétttrúnaðar til siðbótar, og hefur gert í 2.000 ár. Hin faglega hlið kirkjunnar, sem birtist í trúboði, líknarstarfi, sálgæslu og spámannlegu aðhaldi kennimanna, á sístætt erindi við mannlegt samfélag.

Viðfangsefni mitt eru fornir textar en fræðagrein nýjatestamentisfræða leitast við að lesa frumkristna texta í samhengi síns samtíma. Það er sláandi að lesa 2.000 ára gamla texta og upplifa hvað viðfangsefni og hugsun mannsins hefur í raun breyst lítið. Maðurinn er samur við sig og þrátt fyrir gríðarlegar framfarir á lífshögum okkar í kjölfar iðn-, vísinda- og tæknibyltinga síðustu alda eru viðfangsefni mannsins þau sömu.

Textar Biblíunnar gagnrýna rangláta samfélagsgerð, sem byggir á forréttindum fámennra hópa á kostnað almennings, halda uppi málstað þeirra sem standa á jaðrinum í samfélaginu og leggja til siðaboðskap sem snýr valdakerfi og forgangsröðun valdshafa á haus.

Hin pólitíska vídd kirkjunnar er áréttuð í bréfum Páls sem bera vitni um djúpstæðan ágreining við upphaf kristni um trúarleg atriði en samstöðu um þá köllun kirkjunnar að reynast hinum undirokuðu vel. Í Galatabréfi lýsir hann deilum sínum við Jakob bróður Jesú og postulana í Jerúsalem en endar á því sem samstaða var um: ,,Það eitt var til skilið að við skyldum minnast hinna fátæku og einmitt þetta hef ég líka kappkostað að gera” (Gal. 2.10).

Kristin trú er hinsvegar hvorki pólitísk hugmyndafræði, lokað hugmyndakerfi né siðfræði, hún er samfélag við lifandi Guð. Vonbrigði samtímans á veruleika trúarinnar er að miklu leiti rakið til þeirra ranghugmynda sem talsmenn bókstafshyggju hafa haldið á lofti að hægt sé að þvinga algild svör úr textum Biblíunnar. Biblían er vitnisburður um veruleika okkar og setur manneskjuna í það samhengi að vera samtímis fallin og frelsuð, fær um gríðarlega illsku og himneska fullkomnum, og fyrst og fremst elskuð sköpun Guðs.

Siðbótamaðurinn Lúther líkti ritningunni við jötu í kringum frelsarann Krist, vitnisburð um kærleika Guðs í föllnum heimi og kall til að elska eins og við erum elskuð sjálf. Sé einblínt á einstök strá er þar ýmislegt brotið að finna en sé litið til þess kjarna sem fagnaðarerindið boðar varðveitir Biblían lífsafstöðu og von sem aldrei bregst.

Átök um kennivald og kenningu kirkjunnar eru ekki nýlunda en kirkjan er á hverjum tíma dæmd á grundvelli þess hvernig að henni tekst að svara köllun sinni til þjónustu. Í okkar samhengi reynir á þá köllun með hætti sem svipar merkilega til ritunartíma Nýja testamentisins. Jesús gagnrýndi valdhroka leiðtoga, misskiptingu gæða, ofbeldismenningu og sinnuleysi í garð þeirra sem standa á jaðrinum í mannlegu samfélagi. Birtingarmyndirnar eru ólíkar en vandinn er sá sama 2.000 árum síðar.

Kristin trú ber með sér beitta þjóðfélagslega gagnrýni - en hún leggur ekki til fastmótaða þjóðfélagsskipan. Í kristinni trú er fólgin hugmyndafræðileg ádeila á valdakerfi Gyðinga og Rómverja - en hún leggur ekki til nýtt valdakerfi. Kristin trú kippir stoðunum undan hagnýtri siðfræði markaðslögmála og einstaklingshyggju - en hún leggur ekki til lögmálshlýðni.

Þess í stað leggur kristin trú til afstöðu í garð manneskjunnar.

Afstöðu sem síðan krefur okkur um sístæða gagnrýni í garð þeirrar þjóðfélagsskipunar, hugmyndafræði og siðfræði sem við komum okkur saman um á hverjum tíma.

Með augum kristninnar er lífið gjöf sem nær út fyrir sýnileg mörk þessa heims. Lífið er grundvallað á sköpun Guðs, sprettur fram af elsku hans og ber með sér helgi skaparans. Með augum kristninnar verður þannig verðgildi manneskju ekki mælt með þessa heims mælikvörðum, heldur eru í augum Guðs þau mikilvægust sem eiga sér ekki viðreisnar von í samfélagi okkar.

Góð guðfræði byrjar þar.

Biblíufræði er mikilvægur lykill að boðskap frelsararans og fyrstu fylgjenda hans en hún blómstrar fyrst þegar textar hennar tala máli þeirra sem enga von eygja. Kirkjusaga og trúfræði varðveita sögu kristinnar kirkju en mikilvægi þeirra kemur í ljós þegar látið er af því ofbeldi sem hópar hafa verið beittir í nafni trúar. Faggreinar guðfræðinnar eru heillandi rannsóknarefni en tilgangur þeirra helgast þegar þær skila sér í betra trúboði, líknarstarfi, sálgæslu og þjóðfélagsrýni.

Góð Guðfræði byrjar ekki bakvið skrifborð, heldur í því samfélagi sem kennir sig við Jesú Krist.

Góð guðfræði hefst með spurningunni: Fyrst Jesús borðaði með vændiskonum, bersyndugum, holdsveikum og útlendingum – með hverjum eigum við að setjast til borðs og þjóna, líkt og hann gerði?

Af eðlilegum ástæðum hefur háskólasamfélagið krafist sjálfstæðis frá stofnunum samfélagsins, stjórnmálafræðin frá hinu pólitíska valdi, hagfræðin og viðskiptafræðin frá peningaöflum og guðfræðin frá kirkjunni. Sjálfstæði fræðanna veitir frelsi til óháðra rannsókna og til gagnrýni.

Samfara akademísku fresli fylgir hinsvegar sú hætta að fræðin einangrist í fílabeinsturni og fari sjálf að gera tilkall til algildra sanninda. Bókstafshyggjan er svar við slíku tilkalli og við höfum á undanfarinni öld séð gjá myndast á milli guðfræði og þeirra kirkjudeilda sem telja sig hafa höndlað algild sannindi.

Áhrifa trúarlegrar hugsunar og kristninnar í heiminum fer ekki hverfandi, þvert á móti þarf einungis að líta yfir fréttaflutning á alþjóðavísu til að sjá að trú er eitt af þeim öflum sem móta samtíma okkar með afdrifaríkum hætti, til góðs og ills. Þessvegna þurfum við guðfræði. Guðfræði er verkfæri til að benda á þessi áhrif, greina þau og rannsaka og brýna, jafnt samfélag sem kirkju, til að svara kalli kristninnar um mannhelgi og elsku.

Eigi kirkjan að leiða fólk til trúar þarf hún að birta köllun sína í verki og verða áþreifanlegur vitnisburður um þann grundvöll sem trú okkar byggir á.

Guðspjall dagsins segir frá lærisveinum Jesú á hinum fyrstu gleðidögum, dögunum eftir upprisuundrið sem kom af stað hinni kristnu hreyfingu. Þá líkt og nú stóð frelsarinn með fylgjendum sínum og mætti þeim þar sem þau eru stödd.

Tómas í sorg sinni og sársauka krafðist þess að fá að þreifa á sárum krists og uppifa undrið með beinum hætti. Þeirri kröfu mætti Jesús og bauð fram líkama sinn með sárum til að hann mætti þreifa.

Kirkjan er líkami Krists í þessum heimi og hann er sannarlega lifandi. Líkt og upprisulíkami Jesú var alsettur sárum eftir átök píslargöngunnar er kirkjan alsett sárum eftir ofbeldi beitt í nafni trúar.

Valdshafar þessa heims munu aldrei getað sært fagnaðarerindið eða brotið á bak kirkju Krists, það hefur sagan kennt okkur frá ofsóknum Rómarkeisara til trúarhreinsunum kommúnista, en henni blæðir undan eigin valdbeitingu.

Samtíminn knýr dyra þar sem kirkja Krists kemur saman og krefst þess að við birtum fagnaðarerindið í verki. Til að geta mætt þeirri köllun þurfum við góða guðfræði. Guðfræði sem brýnir okkur til góðra verka, guðfræði sem veitir okkur verkfæri til þjónustu og guðfræði sem getur gert upp syndir kirkjunnar til að sárin megi byrja að gróa. Guðfræði sem gerir ekki tilkall til algildra svara, heldur til samfylgdar við sannleikann og við frelsarann Jesú Krist.