Játningar

Játningar

Játningin greiðir úr tilfinningaflækjum og gerir okkur kleift að hefja nýtt upphaf.

Í dag eru 498 ár og einn dagur frá einum þessara stóru atburða í mannkynssögunni sem breyttu miklu um það hvernig heimurinn átti eftir að þróast. Slík atvik láta ekki alltaf mikið yfir sér og sú er einmitt raunin í þessu tilviki. Það var þann 31. október árið 1517 sem Marteinn nokkur Lúther, ágústínusarmunkur festi á kirkjudyrnar í Wittenberg mótmæli í 95 greinum gegn aflátssölu kirkjunnar og því sem hann hélt fram að væri freklegt inngrip þeirrar stofnunar í innstu mál hvers og eins kristins manns.

Samviskan

Þessi gagnrýni á ríkjandi trúarhugmyndir hafði slík áhrif að vart verður fundin hliðstæða. Sannarlega hafa menn á öllum tímum mótmælt framferði kirkju og boðun hennar en í þessu tilviki varð til hreyfing sem átti eftir að leiða þess að mörg ríki í norðaverðri álfunni sögðu skilið við vald páfa og tók þjóðhöfðinginn sæti hans. Með því var æðsti maður kirkjunnar ekki lengur prestur. Sú er einmitt raunin enn á Íslandi þar sem forsetinn er í raun yfir þjóðkirkjuna settur. Má segja að það hafi einmitt verið í þeim anda sem einkenndi andóf Lúthers gegn Rómakirkjunni. Hún var alltof stór og fyrirferðamikil, hún studdi ekki einstaklinginn til þroska og vaxtar í trúnni heldur hlammaði hún sér í öllu sínu veldi á milli hans og Biblíunnar, náðarinnar og Guðs.

Að baki þessari byltingu bjuggu sárar þjáningar. Þessar raunir voru andlegar eins og við myndum orða það í dag. Lúther var þjakaður af samviskukvöl og hann benti á að flókið játninga og irðunarkerfi kirkjunnar leiddi ekkert af sér annað en böl og kvöl fyrir þá sem virkilega vildu bæta ráð sitt og iðrast. Fyrir hina forhertu bauð kirkjan á hinn bóginn upp á ódýra leið til að kaupa sér frið í sálinni, allt miðaði það við að stofnunin og embættismenn hennar réðu of miklu um örlög fólks þessa heims og annars.

Þessi guðspjallstexti sem hér var lesinn var Lúther afar kær, þótt menn vísi sjaldan til hans í dag, nema e.t.v. niðurlagsorðinna þegar fáir mæta til messu: ,,Hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni, þar er ég.” Fyrri hlutinn hafði engu að síður, mikil áhrif í hinni lúthersku kirkju.

Þarna vísar Kristur til hefða sem viðteknar voru á þessum tíma og við lesum um í fimmtu bók Móse. Sú krafa var gerð til þess sem brotið hafði gegn öðrum að hann legði eyrun við gagnrýni og ábendingum. Þeir sem létu sér fátt um finnast þegar þeir lágu undir því ámæli að hafa brotið gegn náunga sínum, fengu tækifæri til að irðast uns þeim var stefnt fram fyrir söfnuðinn þar sem þeir áttu að færa fram játningu sína.

Í huga Lúthers var þetta vissulega leið til að fá brotafólk til að horfast í augu við verknað sinn og afbrot en ekki síður hitt, að vera farvegur fyrir fólk að færa fram játningar sínar, leysa ágreiningsmál í sátt og koma í veg fyrir að þau annað hvort leiði til enn meiri átaka eða grafi um sig í afkimum sálarinnar, harðni þar og þyngist eftir því sem árin líða og ævin.

Játningar

Játningin leysir þetta. Hún er í raun ótrúlegur farvegur til að hjálpa manneskjunni að öðlast sálarró, skapar vettvanginn fyrir nýja byrjun, nýja tíma þar sem fólk hefur hreinsað til á sínu borði og gert upp sín mál við náungann. Játningin hefur þessi árhrif. Þessa dagana gluggum við í jólabækurnar og að vanda eru játningar þar fyrirferðamiklar. Mér eru sérstaklega hugleikin orð Hallgríms Helgasonar um það hversu þungu fargi er af honum létt, að greina frá þeim atburði þegar brotið var gegn honum er hann var ungur maður á ferð um Evrópu. Hann lýsti því einmitt að þarna væri eins og sveskjusteinn sem hefði losnað úr kviðnum á honum.

Það er grein af sama meiði. Játningin greiðir úr tilfinningaflækjum og gerir okkur kleift að hefja nýtt upphaf.

Að játa fyrir annarri manneskju það sem erfitt er að vitna um hefur þessi áhrif, en játning er ekki neitt sem við gerum með hálfum hug. Afsökunarbeiðni sem flutt er án þess að hugur fylgi máli er í raun móðgun númer tvö. Hún er á sinn hátt níðningsverk sem dregur enn úr reisn og velferð þess sem unnið var gegn.

Í lútherskri kirkju varð lýsing Krists, nýtt sem leiðsögn um það hvernig fólk ætti að leysa mál sín á milli, já létta af hjarta sínu oki samviskukvalar og beiskju í garð fjandmanna sinna. Þetta er hlutverk kirkjunnar, sagði hann, hvorki meira né minna. Hún á að vera boðberi fagnaðarins, finna leiðir til að benda fólki á birtuna og kærleikann sem Guð vill miðla til mannsins. Vissulega fékk lútherskan síðar á sig þann stimpil að leggja samviskukvalir á fólk og en sú boðun kom síðar þegar strangur siðaboðskapur Kalvíns leitaði inn í rit kirkjunnar manna um aldamótin 1700. Markmið siðbótarinnar var þvert á móti að hjálpa fólki til að létta af samvisku sinni, en það gerðu menn best, sögðu siðaskiptafrömuðir, með því að tala óhindrað hver við annan.

Skriftir

Af þessu leiddi kerfi skrifta sem að margra mati er bundið við kaþólskuna en hafði hins vegar enn ríkari sess í lútherskunni. Já, skriftir fóru fram að forskrift guðspjallsins sem hér var lesið. Ef bróðir þinn brýtur gegn þér, tala þá um fyrir honum og ef hann játar þá hefur þú eignast bróður þinn að nýju.

Því voru trúnaðarsamtöl þar sem fólk gat létt af hjarta sínu og samvisku mikilvægur þáttur í starfi kirkjunnar og svo er enn. Hefði fólk brotið gegn náunga sínum var það hvatt til þess að biðja hann fyrirgefningar og sýna í verki það hversu mjög hann iðraðist. Enn þann dag í dag býður kirkjan upp á sálgæsluviðtöl. Fólki er boðið að létta á hjarta sínu í trúnaðarsamtali við prestinn. Í framhaldi af slíkum játningum getur fólk svo unnið betur í sínum málum, gert upp þær sakir sem ókláraðar eru og haldið síðan áfram á þeirri braut sem leiðir til farsældar og velferðar.

Loks ef menn voru ekki tilbúnir að játa syndir sínar í neinu því samhengi sem þarna er lýst voru þeir settir út af sakramentinu eins og það var kallað. Þá fengu þeir ekki að ganga fram fyrir altarið að taka á móti brauðinu og víninu í samfélagi við önnur sóknarbörn sökum þess að þeir áttu ókláraðar sakir við aðra í sókninni. Enn þann dag í dag er undanfari altarisgöngunnar syndajátning þar sem söfnuðurinn játar syndir sínar og lýsir yfir vilja sínum að lifa í kærleika og sátt við alla menn.

Hér er með öðrum orðum leitað leiða til að leysa ágreining með friðsamlegum hætti frekar en ofbeldi, en það sem meiru máli skiptir eru þau áhrif sem játningin hefur á brotamanninn, þann sem ýmist burðast með samviskuangist sína, nú eða reynir að segja sig úr lögum við mannlegt siðferði og réttlæti.

Sáttatal

Þetta ferli er að sumu leyti barn síns tíma en meginhugsunin sem býr þar að baki er sígild. Það hefur á síðustu áratugum verið stundað í samfélögum sem hafa viljað brjótast út úr vítahring ofbeldis og hefndar. Í Suður Afríku safnaðst fólk saman í kirkjum og samkomuhúsum og þar sátu böðlar aðskilnaðarstefnunnar, frammi fyrir aðstanendum fórnarlamba sinna. Markmiðið var ekki að gjalda líku líkt, heldur einmitt það að fá þá til að færa fram játningu. Í sumum ríkjum Mið Ameríku var hið sama stundað og þar gekk fólk til altaris að loknu hinu sama ferli.

Að baki býr sú hugsun að játningin breyti svo miklu, ef hún er færð fram í einlægni og af sönnum vilja til að breyta því sem breytt verður og bæta það sem laga má. Og afstaða Lúthers var sú að hvert og eitt okkar ætti að vera reiðubúið að fyrirgefa þeim sem óskar þess í þeim anda sem Kristur bendir á í guðspjalli dagsins.