Kvenréttindi eru mannréttindi

Kvenréttindi eru mannréttindi

Ný stjórnarskrá á að færa okkur nær betra og réttlátara samfélagi, alveg eins og reglum um meðferð kynferðisbrota er ætlað að gera kirkjuna okkar betri og öruggari, fyrir okkur öll.

Til hamingju með daginn!

19. júní er sannkallaður hátíðisdagur, ekki bara íslenskra kvenna heldur íslensku þjóðarinnar. Það er erfitt að hugsa sér að fram til ársins 1915 gátu aðeins karlar kosið til Alþingis og auðvitað voru aðeins karlar kjörgengir til setu á Alþingi. Aðeins fjórum árum áður tóku gildi á Alþingi lög um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta. Frá 1886 höfðu konur haft leyfi til að stunda nám í Prestaskólanum og Læknaskólanum án þess að mega stunda lækningar eða prestsstörf.

Það voru sannarlega merk tímamót þegar íslenskar konur fengu kosningarétt til Alþingis 19. júní árið 1915. Áður höfðu þær fengið rétt til að kjósa í sóknarnefndir og í sveitastjórnarkosningum. Upphaflega var kosningaréttur aðeins veittur konum sem voru 40 ára og eldri, en þau takmörk voru afnumin árið 1920 þegar konur fengu jafnan rétt á við karla.

Kosningaréttur kvenna var afrakstur langrar og strangrar baráttu sem hafði vissulega reynt á þolinmæði þeirra sem töldu það sjálfsagt að konur hefðu sama rétt og karlar til að ákveða hverjir sætu á löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Baráttan hér á landi var um margt lík þeirri baráttu sem háð var í hinum vestræna heimi, undir lok 19. aldar og í upphafi hinnar tuttugustu, fyrir auknum samfélagslegum réttindum kvenna. Kristin trú og kristin kirkja lék víða stórt hlutverk í þessari baráttu og var oft vitnað í Biblíuna, bæði af þeim sem studdu réttindabaráttu kvenna og þeim sem fundu henni allt til foráttu. Einn af öflugustu talsmönnum aukinna réttinda kvenna var Valdimar Ásmundsson, ritstjóri Fjallkonunnar, sem síðar varð eiginmaður Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Í Fjallkonunni birtist árið 1885 grein með fyrirsögninni „Kvenfrelsi“ þar sem áhersla er lögð á mikilvægi menntunar kvenna. Það sem vekur sérstaka athygli í þessari grein er hvernig skírskotað er í vilja skaparans til þess að allir séu jafnir. Að sama skapi er það talið í andstöðu við „anda kristindómsins“ að krefjast þess að konur séu undirgefnar körlum. Orðrétt segir í greininni:

Kristindómurinn og skynsemin segir oss, að guð hafi skapað alla jafna sem bræðr og systr og börn ins sama föður; að konum og körlum séu af náttúrunni veitt öll in sömu réttindi til að leita sælu sinnar og fullkomnunar, álíka og blámenn og Indíánar eru jafnfrjálsbornir af náttúrunni sem hvítir menn. Og þó hafa menn verið að leitast við að sanna það af ritningunni, að konan eigi að vera manninum undirgefin; enn það getr engan veginn samrýmzt við anda kristindómsins. (Fjallkonan 7. janúar 1885, 1)

Við eigum sannarlega mikið að þakka þeim kjarkmiklu konum og körlum sem þorðu að standa með málstað kvenna sem vildu fá að njóta jafnréttis á við karla í samfélaginu. Í flokki þeirra sem í lok 19. aldar gengu þar í farabroddi var Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Bríet var sveitastelpa að norðan, sem snemma vaknaði til vitundar um það það óréttlæti sem konur bjuggu við allt frá bernsku. Um reynslu sína í sveitinni skrifar Bríet:

Allan þennan mun fann ég þegar á barnsaldri. Það var mikill munur á frítímum og kaupi vinnumannanna, og það skildi ég fljótt, bæði af kvörtunum stúlknanna og samanburði um þetta við mig, og eins af mismuninum, sem var í ýmsum efnum á okkur litlu stúlkunum og bræðrum okkar. Engir barnaskólar voru þá í sveitunum. En oft var þá drengjum komið fyrir til þess að læra fyrstu undirstöðuatriði barnafræðslunnar. Lestur lærðu öll börn á heimilunum. En með frekari fræðslu, svo sem skrift og reikning o. s. frv. voru stúlkubörn víðast hvar látin sitja á hakanum, jafnvel þótt þær væru námsfúsari. Þær urðu sjálfar að sjá sér fyrir þeirri fræðslu oftast nær. Annað var það, að drengirnir höfðu meiri tíma til lesturs, ef einhverjar bækur voru til á heimilunum. En litlu stúlkurnar urðu strax að fara að sitja við heimilisvinnu, og fengu engan tíma til bókalesturs ...

Eftir að hafa unnið fyrir sér með barna- og unglingakennslu fyrir norðan flutti Bríet suður til Reykjavíkur, þá liðlega þrítug að aldri. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvílíkan kjark hefur þurft til þess að kveða sér hljóðs opinberlega, eins og Bríet gerði, fyrst íslenskra kvenna, þegar hún hélt fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna fyrir húsfylli í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík 30. desember árið 1887. Í fyrirlestrinum (sem árið 1997 var endurútgefinn í Lærdómsritaröð Bókmenntafélagsins) gerir Bríet að umtalsefni hvernig konum hafi um aldir verið haldið niðri í skjóli Heilagrar ritningar. Hún talar m.a. um það hvernig síðari sköpunarsagan í öðrum kafla fyrstu Mósebókar hafir verið notuð til að réttlæta bága stöðu kvenna í samfélaginu, eða að minnsta kosti sem afsökun til þess að gera ekkert í málunum. Með orðum Bríetar sjálfrar:

Og þessu hafa margir þeirra fylgt, sem í öðrum greinum hafa eigi sýnzt vera um of trúaðir á allar frásagnir biflíunnar. Þetta var svo einstaklega handhæg ástæða, til að smeygja sjálfum sjer út úr öllum þeim þrætum og vafningum, sem af þessu hefði getað leitt, og skella allri skuldinni upp á guð, að geta í skjóli ritningarinnar og undir yfirskini guðhræðslunnar troðið alla mannúð og rjettlætistilfinningu undir fótum ...

Það reyndist mikilvægt að mótmæla þessari misnotkun Biblíunnar sem Bríet talar um í fyrirlestri sínum, þar sem hún var raunveruleg hindrun á veginum til aukinna samfélagslegra réttinda kvenna. Í grein sem birtist í Kirkjublaðinu í júní 1894 undir heitinu „Kvennfrelsi“ og er undirrituð af Bóthildi Bjarnardóttur (sem sumir telja dulnefni Bríetar) er bent á hvernig Kristur hafi kallað á ný og endurskoðuð viðhorf til kvenna, meðal annars með óvenjulegri framkomu sinni. Í greininni segir m.a.:

Jesús Kristur var kvennfrelsismaður, og allt sem ekki er í hans anda er ókristilegt. Vjer ættum að gæta þess, sem berum hans nafn. Hann kom alstaðar fram verndandi og frelsandi fyrir konur. Hann fordæmdi þær ekki nje fyrirleit, þó að menn gjöri það í breytninni. Hann áleit þær vini sína eigi síður en karlmenn. Hann áleit þær þess verðar að vitna um sig (sbr. upprisuna og hið dýrðlega samtal við samversku konuna og fleira) ...

Það er í raun ótrúlegt að þessi orð hafi verið rituð fyrir rúmum hundrað árum. Enn í dag er svo fjarri því að kristnar kirkjur um allan heim viðurkenni konur til jafns við karla. Ennþá hafa konur ekki aðgang að vígðri þjónustu í stórum kirkjudeildum, jafnvel er það svo víða í lútherskum kirkjum, m.a. í sumum lútherskum kirkjum í Bandaríkjunum. Það er mikilvægt að muna það því okkur er tamara að tala um slaka stöðu kvenna í ýmsum öðrum kirkjudeildum en okkar eigin.

Nú stendur yfir endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar í stjórnlagaráði. Markmið þeirrar vinnu er að uppfæra stjórnarskrána í ljósi nýrra aðstæðna. Margt hefur breyst frá því að Íslendingar fengu sína fyrstu stjórnarskrá árið 1874. Á þessum tæplega 140 árum hafa ákveðin ákvæði stjórnarkrárinnar verið uppfærð. Sú vinna sem nú stendur yfir er fyrsta heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er margt sem kallar á endurskoðun og uppfærslu í íslensku stjórnarskránni, þar á meðal mannréttindakaflinn, en þó eru aðeins rúm 15 ár frá því að hann var síðast endurskoðaður. Í svokölluðu áfangaskjali, sem er öllum aðgengilegt á heimasíðu Stjórnlagaráðs, er m.a. að finna uppfærða jafnræðisreglu, sem hljómar svona:

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna. (http://stjornlagarad.is/starfid/afangaskjal/)

Uppfærð jafnræðisregla miðar að því að tryggja það að við séum öll jöfn fyrir lögum og að gefin séu skýr skilaboð þessefnis að það verði ekki umborið í samfélagi okkar að gert sé upp á milli fólks af líffræðilegum, félagslegum eða öðrum ástæðum. Ennþá er raunveruleikinn því miður sá að það sitja ekki allri við sama borð að öllu leyti. Ennþá er t.d. gert upp á milli þegna samfélagsins á grundvelli kynferðis þeirra þrátt fyrir langa og stranga baráttu fyrir jöfnum réttindum og kjörum karla og kvenna. Þessvegna þykir ástæða til að tvítaka ákvæðið um kynjajafnréttið í jafnræðisreglunni, eins og gert er í núgildandi Stjórnarskrá. Slík árétting er gerð í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi í dag.

Í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, eins og hann liggur fyrir í áfangaskjalinu sem nú er til skoðunar og umsagnar hjá íslenskri þjóð, er leitast við að standa vörð um grundvallarmannréttindi allra, í anda jafnræðisreglunnar, að fyrirmynd alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem íslensk þjóð er aðili að. Þar er fjallað um réttinn til heilbrigðisþjónustu, menntunar og atvinnu, tjániningarfrelsi, upplýsingafrelsi, akademískt frelsi, og svo má áfram telja. Í sumum tilfellum er verið að endurskoða gildandi ákvæði, í öðrum tilfellum er um ný ákvæði að ræða.

Það kreppir að kristinni kirkju í samfélagi okkar að svo mörgu leyti um þessar mundir. Breytt staða kvenna í okkar samfélagi, þar með talið kirkjusamfélaginu okkar, hefur gefið okkur nýjar forsendur til að takast á við það böl sem heimilisofbeldi og kynferðislegt ofbeldi er. Það var stórt skref stigið í réttindabaráttu kvenna á Íslandi þegar kirkjuþing samþykkti reglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar haustið 1998. Auðvitað ná þær reglur líka til brota gegn körlum og er það mikilvægt að þær geri það eins og reynslan hefur sýnt. En í dag er ástæða til að fjalla sérstaklega um kynferðislega áreitni og ofbeldi sem konur hafa verið beittar af hendi starfsmanna kirkjunnar okkar. Það er engin tilviljun að aukin meðvitund um raunveruleika og alvöru kynferðisbrota eigi sér stað í samfélaginu í kjölfar aukinna réttinda kvenna. Þegar konur fóru að hafa meiri áhrif innan samfélagsins, innan kirkjunnar og inni í háskólunum, jókst meðvitundin um það ofbeldi sem mátti ekki tala um og ekki viðurkenna. Slíkt ofbeldi hefur vissulega alltaf bitnað harðast á konum og börnum.

Það er mikilvægt að við reynumst þess megnug að takast á við þann raunveruleika sem nýbirt rannsóknaskýrsla Kirkjuþings birtir okkur. Nú er ekki í boði að hlaupast undan merkjum. Staðan er alvarleg en hún er langt í frá vonlaus. Það er mikilvægt að sannleikurinn komi í ljós, þó að hann sé stundum sár. Nú reynir á að við þorum að horfast í augu við sannleikann og læra af reynslunni. Eðlileg viðbrögð þeirra sem hafa gert mistök hljóta annars vegar að felast í viðurkenningu á mistökunum og hins vegar að biðjast afsökunar á þeim. En við þurfum öll að vera hugrökk, eins og konurnar og karlarnir sem færðu okkur konunum fullan kosningarétt, sem og rétt til menntunar og aukinnar þátttöku í samfélaginu. Ný stjórnarskrá á að færa okkur nær betra og réttlátara samfélagi, alveg eins og reglum um meðferð kynferðisbrota er ætlað að gera kirkjuna okkar betri og öruggari, fyrir okkur öll. Kvenréttindi eru mannréttindi og kristin kirkja á að standa vörð um réttindi okkar allra til að lifa og starfa í samræmi við köllun okkar. Látum ekki okkar eftir liggja að keppa að því að kirkjan okkar verði til fyrirmyndar í baráttunni fyrir auknum mannréttindum og auknum réttindum okkar allra. Aðeins þá verður kirkjan okkar sá öruggi staður sem henni ber að vera.

Dýrð sé Guði, sem hefur skapað okkur og endurleyst, og vill varðveita okkur í samfélaginu við sig. Amen.