Siðbót 21. aldar

Siðbót 21. aldar

Andspænis aðsteðjandi umhverfisógn getur boðskapurinn um synd, afturhvarf og hjálpræði gefið okkur kjark til að takast á við ógnina - í stað þess að gefast upp fyrir henni. Valið - og ábyrgðin - er okkar.

Flutt 25. apríl 2018 · Neskirkja, við setningu Prestastefnu 2018

Náð sé með ykkur og friður, frá Guði sem hefur skapað okkur og endurleyst, og gætir og leiðir allar stundir. Amen.

„Og Guð leit allt sem Guð hafði gert, og sjá, það var harla gott.“ (Gen 1.31)

Í lok fyrsta kafla Fyrstu Mósebókar höfum við það svart á hvítu. Sköpunin, hinn efnislegi heimur sem við erum hluti af, er gott verk Guðs. Við, sem tilheyrum kristinni kirkju, játum trú á Guð, skapara himins og jarðar og áréttum þannig grundvöll hinnar gyðinglegu trúarhefðar, sem trú okkar byggist á. Með öðrum orðum þá er okkar Guð skapari himins og jarðar, „alls hins sýnilega og ósýnilega“, eins og Níkeujátningin orðar það, til að árétta að allt er komið frá Guði og ekkert sem til er er Guði óviðkomandi.

Í fyrri sköpunarsögunni, sem varðveitt er í fyrsta kafla Fyrstu Mósebókar, segir frá því þegar Guð skapaði himin og jörð, skapaði dýrin, fuglana og fiskana, og síðast manninn eftir sinni mynd, eftir Guðs mynd, skapaði þau karl og konu, blessaði þau og afhenti þeim það vandasama, og sameiginlega verkefni að gæta sköpunarverksins, verkefni sem hefur alltof oft verið notað til að réttlæta illa umgengni og rányrkju.

Þegar Guð hafði lokið ætlunarverki sínu og leit yfir sköpunarverkið var niðurstaðan sú að það væri „harla gott“. Þegar við aftur á móti horfum í kringum okkur sjáum við fljótt að hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að vera. Í stað þess að allt sé „harla gott“, þá erum við stöðugt minnt á það sem farið hefur úrskeiðis. Illskan veður uppi, átök í stað friðar grafa um sig á milli einstaklinga, þjóðfélagshópa og þjóða. Misskipting gæða er allsráðandi og aðsteðjandi umhverfisvandi ógnar lífi okkar til framtíðar hér á jörðu. Það líður ekki sá dagur að við séum ekki minnt á ógnina sem öllu lífi á jörðinni stafar af hækkandi hitastigi, sem orsakar síðan hækkun sjávarborðs, bráðnun jökla, öfluga hitabeltisstorma, spillingu gróðurlands ýmist vegna flóða eða þurrka og hækkandi matarverð vegna minnkandi uppskeru. Allt þetta flokkast undir aðsteðjandi umhverfisógn, því að lífinu á jörðinni stendur ógn af því sem er að gerast. Hversu vel sem við erum inni í þessum málum, þá er það eitt sem við vitum fyrir víst: hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að vera. Það er eitthvað mikið að og skilaboðin til okkar eru einfaldlega þau að útlitið sé ekki gott.

Í 3. kafla Fyrstu Mósebókar finnum við frásöguna af syndafallinu, sem skýrir það af hverju hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að vera. Það er sannarlega ekki of djúpt tekið í árinni að segja að syndahugtakið sé almennt ekki hátt skrifað í samtíma okkar. Syndin hefur með öðrum orðum á sér vont orð. Ein af megin ástæðunum er án efa sú að oft hefur syndin verið notuð af þeim valdameiri gegn þeim sem lægra eru sett í valdastiganum til að kenna þeim um það sem miður hefur farið. Þannig hefur syndahugtakið verið notað í mórölskum tilgangi, til að hafa stjórn á hegðun fólks, og oftar en ekki hefur það orðið klisjunni að bráð. Hefðbundinn syndaskilningur, sem venjulega takmarkast við hið persónulega svið passar einnig illa við áhersluna á jákvæða sjálfsmynd sem gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar.

En það er missir af syndahugtakinu, því það gerir okkur kleift að tala um þann brotna veruleika sem við erum hluti af; að viðurkenna það sem úrskeiðis hefur farið og að gera okkur grein fyrir því sem við þurfum að gera til að betur megi fara. Í grunninn er syndahugtakið tengslahugtak, því það vísar til rofinna tengsla, á milli okkar og Guðs, milli okkar og náungans og milli okkar og alls sköpunarverksins.

Andstætt því sem ætla mætti getur syndahugtakið falið í sér von. Í kristinni trúarhefð helst syndahugtakið í hendur við önnur mikilvæg hugtök, eins og iðrun eða afturhvarf og síðan hjálpræði eða endurlausn, sem felst í því að koma á nýjum tengslum, að bæta það sem er brotið, að byggja brýr. Að bera kennsl á það sem miður hefur farið og viðurkenna ábyrgð okkar, er nauðsynlegur undanfari þess að ganga í sig, að iðrast gjörða sinna og breyta um stefnu. Það getum við gert sem einstaklingar en einnig sem hópar, t.d. sem kirkja eða sem þjóð. Þess vegna er mikilvægt að syndahugtakið sé ekki einskorðað við hið persónulega, heldur sé einnig notað um hinn félagslega og kerfislega veruleika sem við erum hluti af.

Á síðasta ári minntumst við þess á margvíslegan hátt að 500 ár voru liðin síðan Marteinn Lúther skrifaði tesurnar 95 og hleypti þar með af stað hreyfingu sem átti eftir að hafa víðtæk áhrif og kljúfa Vesturkirkjuna til frambúðar.
Þessi guðfræðistefna, sem varð síðar að kirkjulegri hreyfingu, kallast á erlendum málum re-formation, sem merkir endur-mótun, endur-skoðun, eða endur-uppbygging, en hefur á íslensku ýmist verið þýtt sem sið-breyting, siða-skipti, eða sið-bót. Reformert guðfræði fól vissulega í sér siðbót á 16. öldinni en hún var sett fram sem andsvar við spillingu innan kirkjustofnunarinnar og andvaraleysi almennings gagnvart ríkjandi ástandi. Reformert guðfræði gekk að því leyti út á það að bæta siðinn og er því réttilega kölluð siðbótarguðfræði.

En 500 ára afmæli siðbótarinnar er ekki aðeins tækifæri til að líta um öxl og halda hátíð. Það gefur okkur einnig tilefni til að staldra við og huga að því hver við erum sem siðbótarkirkja, hvar við erum stödd og hvert við vilja halda. Það er einfaldlega eðli siðbótarkirkjunnar að vera í stöðugri siðbót, að stunda sjálfsgagnrýni og leggja sig fram við að gera betur í dag en í gær, að verða sífellt betri kirkja, betri þjónar Guðs, betri ráðsmenn sköpunarverksins. Eitt af brýnustu verkefnum íbúa jarðarinnar á 21. öldinni er að bregðast við þeirri ógn sem við stöndum frammi fyrir vegna loftlagsbreytinga og afleiðinga þeirra. Verkefni kristinnar kirkju í upphafi 21. aldar hlýtur því að vera að finna út úr því hvernig við tölum um Guð, hvernig við flytjum hinar góðu fréttir í samhengi loftlagsbreytinga og aðsteðjandi hættu af þeim völdum. Það hlýtur að vera stóra áskorunin sem við sem þjónar kirkjunnar stöndum frammi fyrir í dag.

Samkomulagið sem sendinefndir 195 þjóða stóðu að í París í desember 2015 markaði tímamót í viðleitni okkar sem byggjum þessa jörð til að stemma stigu við því ástandi sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur skapað og snúa við þeirri þróun sem hefur átt sér stað á síðustu árum og áratugum. Sendiboðar hinna ýmsu trúarbragða og kirknasamfélaga á Parísarfundinum í desember 2015 gerðu sér grein fyrir því að það væri ekki einkamál stjórnmálaleiðtoga og sérfræðinga í loftlagsmálum að vinna að því að ná settum markmiðum, sem er að halda hlýn¬un jarðar inn¬an við 2°C og að vinna að því að hún verði ekki meiri en 1,5°C ef mögu-legt er. Á meðal sendinefnda kristinna kirkna var í París mættur hópur ungra fulltrúa Lútherska heimssambandsins, víðs vegar að úr heiminum, til þess að leggja sín lóð á vogarskálarnar. Yfirlýst stefna Lútherska heimssambandsins í loftlagsmálum er að loftlagsbreytingar hafi að gera með réttlæti, frið, umönnun sköpunarverksins og mannréttindi. Ráðstefna Alkirkjuráðsins í Digraneskirkju í október s.l. sem fjallaði um réttlátan frið við jörðina og haldin var í tengslum við Artic Circle ráðstefnuna sem haldin er árlega í Hörpu, var sterk brýning til okkar allra, ekki síst okkar lúthersku þjóðkirkju, að leggja okkar að mörkum til þess að tryggja framtíð komandi kynslóða hér á landi sem annars staðar í heiminum. Þegar kemur að loftlagsmálum þá erum við nefnilega svo óendanlega tengd hvert öðru eins og t.d. Frans páfi áréttar á eftirminnilegan hátt í umhverfisbréfi sínu frá 2015.

Parísarsamkomulagið er vissulega mikil hvatning en um leið áskorun til allra þeirra þjóða sem skrifað hafa undir það og þannig heitið því að vinna að því að ná markmiðum þess á tilsettum tíma. Nýjar upplýsingar um stöðu mála, hérlendis sem erlendis, eru því miður ekki til að auka bjartsýni um að þeim markmiðum verði náð. Skýrsla sem Umhverfisstofnun sendi frá sér um miðjan apríl sýnir hversu mikilvægt það er að við Íslendingar, hvert og eitt okkar, gerum það sem í okkar valdi stendur til að ásættanlegur árangur náist. Það þarf sannarlega eitthvað róttækt að gerast til að þessi árangur náist, ekkert minna en hugarfarsbreyting sem felur í sér breytta forgangsröðun, bæði almennings og stjórnvalda. En til þess að slíkur viðsnúningur eða umbreyting sé möguleg þurfum við öll að leggjast á eitt. Slík re-formation eða siðbót á sér stað þegar við, sem einstaklingar eða samfélag, viðurkennum það sem hefur farið úrskeiðis, við iðrumst, eða göngum í okkur, og ákveðum að snúa við. Við ákveðum að breyta því hvernig við hugsum og hvað við gerum og opnum þannig á hjálpræðið sem kemur alltaf sem gjöf Guðs til okkar – og skapar eitthvað alveg nýtt. Hjálpræði merkir það sem er heilt, öruggt og gott. Hið synduga/brotna ástand sem við erum hluti af, minnir okkur stöðugt á takmörk okkar. Samkvæmt Marteini Lúther þá erum við hvorttveggja í senn, réttlætt og syndug – brotin og heil. En hin kristna von felst í því að treysta að hjálpræðið muni að lokum ná yfirhöndinni, að eyðingin og sundrungin muni ekki eiga síðasta orðið, heldur munum við að lokum eignast hlutdeild í umbreytingu sköpunarverksins, þegar hið gamla verður nýtt, hið brotna verður heilt. Andspænis aðsteðjandi umhverfisógn getur boðskapurinn um synd, afturhvarf og hjálpræði gefið okkur kjark til að takast á við ógnina - í stað þess að gefast upp fyrir henni. Valið - og ábyrgðin - er okkar.

Dýrð sé Guði, skapara okkar og endurlausnara, og heilögum anda sem dvelur á meðal okkar. Amen.