Hver sinnir syrgjendum um jólin?

Hver sinnir syrgjendum um jólin?

Við höfum öll mikilvægu hlutverki að gegna að sinna þeim sem eiga um sárt að binda um jólin í okkar nærumhverfi.
22. desember 2016

Það er oft erfitt að horfa fram til jóla í skugga sorgar. Við búum í samfélagi þar sem jólahátíðin er rík af dýrmætum hefðum sem geta líka orðið þungbærar þegar aðstæður eða forsendur breytast. Fyrstu jól eftir andlát ástvina eru mörgum erfið, flest okkar þekkjum einhvern í þessum sporum eða jafnvel höfum upplifað það sjálf.

Þjóðkirkjan hefur í samstarfi við Landspítalann og Nýja dögun, samtök um sorg og sorgarviðbrögð staðið fyrir aðventustund fyrir syrgjendur síðustu 17 ár og boðið þeim að mæta sem misst hafa ástvini sína á árinu.  Mörg hundruð manns hafa mætt á þessar samkomur á hverju ári og getað þar stigið inn í jólin á táknrænan hátt og minnst um leið ástvina sinna.  Þar má finna sterka samkennd því allir eru í sömu sporum, með erfiða reynslu að baki og fá þarna svigrúm til þess að horfa til jóla á sínum eigin forsendum við hátíðlega jólasöngva Harmahlíðakórsins.

Samfylgd er fólgin í að styðja og styrkja fólk á erfiðum tímum og því lýkur ekki eftir aðhlynningu á sjúkrastofnun eða þegar aðstandandi deyr og útför er lokið.  Samfylgd með syrgjendum er langtímaverkefni. Þjóðkirkjan veitir sálgæslu og eftirfylgd við fólk út um allt land sem stendur í erfiðum aðstæðum og þarf að fóta sig aftur í lífinu eftir ástvinamissi eða önnur áföll.

Nú kallar allt samfélagið á gleðihátíð og kveðjur um gleðileg jól hljóma um allt.  Jólin eru gleðihátíð, fæðingarhátíð frelsarans. Við getum líka óskað þeim gleðilegra jóla sem misst hafa ástvini jafnvel þó að við vitum að hátíðarnar verða þeim erfiðar. En það er hvernig við segjum það sem skiptir máli og oft þurfum við ekki að nota orð heldur getur handtak eða faðmlag gefið styrk. Samfélagið styrkir á margan hátt þá sem eiga um sárt að binda með hópastarfi og félagasamtökum en það sem skiptir mestu máli er nærumhverfið. Við höfum öll mikilvægu hlutverki að gegna að sinna þeim sem eiga um sárt að binda um jólin í okkar nærumhverfi. Viljum við ekki búa í samfélagi þar sem við styðjum samferðafólk okkar og gefum þau skilaboð að náunginn komi okkur við?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 22. desember 2016