Virðing, viðurkenning, réttlæti

Virðing, viðurkenning, réttlæti

Viðurkenning og réttlæti eru þau tvö orð sem leita meðal annars á hugann þegar horft er til kynferðisbrota og þöggunar á ólýsanlegum þjáningum saklausra fórnarlamba siðblindra glæpamanna.
fullname - andlitsmynd Sigfinnur Þorleifsson
26. október 2011

Viðurkenning og réttlæti eru þau tvö orð sem leita meðal annars á hugann þegar horft er til kynferðisbrota og þöggunar á ólýsanlegum þjáningum saklausra fórnarlamba siðblindra glæpamanna. Viðurkenning er fyrsta skrefið á langri leið þar sem stefnt er að því að bætt sé og grætt það sem brotið er og sektin rati þangað sem hún á heima og réttlætið nái fram að ganga.

Þögn er sama og samþykki segjum við stundum og það orðtak á hér sannarlega við. Ég var svo mikið barn að þegar ég kynntist þessum glæpum fyrst í starfi á geðdeildum vestur í Bandaríkjunum fyrir næstum þremur áratugum, þá hélt ég að þeir væru afsprengi siðferðilegrar hnignunar hins takmarkalausa frelsis og afskræmingar á friðhelgi heimilisins. Þessu væri öðruvísi háttað hér á landi og væri það yfirleitt til þá hlyti það að vera í afskekktum byggðum og einangruðum. Slík var fáfræði mín og vafalaust margra annarra.

Vanvirðing, siðblinda og fullkomið markaleysi eru m.a. ástæða þess að svo margir saklausir hafa þurft að líða og þjást enn vegna hjartaharðúðar ofbeldismanna. Og þá ekki hvað síst varnarlaus börnin. Hversu mörg börn voru ekki send að heiman hér áður fyrr og þótti gott fyrir aukið sjálfstæði þeirra og þroska. Oftast í góðri trú. Það var ekki óalgengt þegar ég var að vaxa úr grasi að fimm ára börn og jafnvel yngri voru send í sveit sumarlangt, látin deila rúmi með unglingum eða fullorðnum eða þá sumarbörnin mörg saman í herbergi á ólíkum aldri, stúlkur og drengir. Fjölmörg eiga þau myrkar minningar um óviðurkvæmilegar snertingar, áreitni og bein brot, bæði í orðum og gerðum. Það væri verðugt rannsóknarefni að skoða þetta nánar og með það í huga að enn er hægt að hlúa að græðslu gamalla sára. Nú þekkjum við orðið betur þau ótvíræðu kennimerki á líkama og sál, sem þolendur bera og veldur heilsubresti og jafnvel dauða. Samt krefst réttarkerfið frekari sannana og það veldur því m.a. annars að brotaþolinn ber sín sár og gerandinn gengur laus.

Það er ekki óalgengt að sárar minningar séu lagðar í myrkraherbergi bælingar og óminnis til að geta lifað af og aftengt sig frá því óbærilega. Margir einstaklingar sem finna síðar fyrir nauðsynlegri sorg og sársauka sem sett var á ís eiga oft erfitt með að viðurkenna fyrir sér þær erfiðu tilfinningar sem áfall bernskunnar veldur. Fjarlægi maður sig tilfinningum sínum til að komast af þá getur verið erfitt að tengjast síðar á ævinni nauðsynlegum og fullnægjandi böndum við aðrar manneskjur eins og dæmin sanna. Hættan er sú að maður sakfelli sjálfan sig og telji sig ekki eiga neitt gott skilið. Einsemdin getur svo valdið því að það reynist erfitt að leita sér aðstoðar þegar fortíðardraugarnir fara á kreik. Og rétt eins og niðurbæld reynsla tefur sorgarúrvinnslu eins getum við fjarlægst okkur sjálf og aðra með því að bregða grímu yfir sorgina og um leið farið á mis við sanna merkingu missis og þjáningarinnar sem missirinn veldur.

Sumt á hvergi annars staðar heima en í ruslakistunni sagði lítill drengur. Mamma hans var að tala við hann um stríð og ofbeldi og stundum væri það svo sárt sem fólk þyrfti að þola að það væri erfitt að finna hamingjuna og endurheimta gleðina. Þá sagði sá stutti: “Er þá ekki gott að geta talað um það” og það er vissulega rétt. Og svo bætti hann við þessari yndislegu athugasemd: ”Sumt á hvergi annar staðar heima en í ruslakistunni sem er aftast í höfðinu á mér.” Í þessari kistu er það samt geymt og stundum gleymt og getur verið nauðsynlegt að taka það fram og kalla það réttum nöfnum til að geta komið því alfarið til gerandans þar sem það á endanlega heima.

Þegar Kristur dregur fram hin æðstu gildi mannhelginnar þá bendir hann á börnin. „Nema þér snúið við og verðið eins og börn komist þér aldrei í himnaríki.“ Eitt það mikilvægasta sem við eigum er traustið, hæfileikinn til að taka á móti kærleika og veita öðrum af sama örlæti. Þessar eigindir eiga börn sem njóta öryggis og ástríkis í ríkum mæli. Og þau sem brjóta á börnum brjóta þessi æðstu gildi eins og ritað stendur. ”Hver sem hneykslar einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, betra væri honum að stór kvarnarsteinn væri hengdur um háls honum og honum væri sökkt í sjávardjúp. Vei þeim manni, sem hneyksluninni veldur.“

Börn sem lifa af kynferðislega misnotkun lifa í sorg. Þau missa það sem Kristi er kærast sakleysi sitt, sjálfsvirðingu og þann dýrmæta eiginleika að geta treyst. Og trúnaðarbresturinn yfirfærist oft á tíðum á ótal margt og veldur tilfinningalegum, andlegum og líkamlegum doða og einsemd. Barnið í okkur bíður skaða. Traustinu til Guðs, ástríks föður, blíðlyndrar móður, er hætt sérstaklega þegar við sem eigum að veita skjól og fullkominn trúnað, bregðumst, vígðir þjónar og fulltrúar kirkju Krists.

Okkur er hollt og nauðsynlegt að hugsa til þess að misbeiting valdsins getur verið á mörgum sviðum og á mörgum tímum. Líka á sviði sálgæslu sem stendur ekki undir nafni. Sé brotið þar á trausti og trúverðugleika getur skaðinn orðið margfaldur og skelfilegur. Afskræmingin er verst þegar börnin eiga í hlut, þau sem eiga svo mikið undir öðrum komið, á heimilum, í fjölskyldum, skóla, samfélagi og kirkju. Að Guð skuli vitja okkar í litlu umkomuleysi barni, bróður okkar á krossinum, merkir að við eigum að standa með þeim valdalausu í heiminum í þjónustu en ekki í þöggun eða með samtryggingu þeirra sterku. Kirkja Krists er ekki valdastofnun.

Köllun okkar allra er að standa vörð um lífið og standa með okkur sjálfum. Það kostar áræði en það er engin önnur leið fær þó leiðin kunni að vera torfarin á stundum. Sú leið liggur til lífsins og það er sannleikurinn sem gerir manninn frjálsan. Hvað varðar þau sem fremja svívirðilega glæpi hljótum við að horfa til Krists sem steig niður til heljar. Hann á lokaorðið.