Hugleiðing um Orðið

Hugleiðing um Orðið

Pétur sór og sárt við lagði: ,,Ég þekki ekki þennan mann, sem þér talið um.” Hvernig lærum við að þekkja þennan mann sem fékk nafnið Jesú og er kallaður kristur. Það er eflaust misjafnt. Það er þó eitt sem verður að vera til staðar til þess að kynnast honum og það er Orð Guðs.
fullname - andlitsmynd Ingólfur Hartvigsson
02. apríl 2003
Flokkar

Pétur sór og sárt við lagði: ,,Ég þekki ekki þennan mann, sem þér talið um.” Hvernig lærum við að þekkja þennan mann sem fékk nafnið Jesú og er kallaður kristur. Það er eflaust misjafnt. Það er þó eitt sem verður að vera til staðar til þess að kynnast honum og það er Orð Guðs.

Orðið er sterkasta verkfæri Kristninnar og er notað til þess að framkvæma skipun Drottins en í lok Markúsarguðspjalls stendur Jesú sagði við þá: ,,Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.” Orðinu verður ekki miðlað nema að sá sem hlustar hafi hæfileika til að meðtaka orð. Það er hægt að meðtaka orð á ýmsa vegu. Með augum, eyrum eða fingrum. Hægt er að sjá, heyra eða snerta orð. Þessir eiginleikar eru ekki meðfæddir heldur tileinkaðir með því að læra þá af öðrum.

Orðið verður því ekki meðtekið nema eitthvað tungumál sé til staðar. Það er nauðsynlegt að kunna að lesa og skilja orð til þess að geta lært af öðrum, en til þess að geta miðlað hugsunum er nauðsynlegt að kunna að tala og skrifa. Merking orða verður skilin með því að læra hvernig orð hafa verið notuð og í hvernig samhengi.

Þess vegna er nauðsynlegt að lesa og hlusta á það sem aðrir hafa skrifað og sagt. Það er ekki hægt að miðla neinu til þeirra sem ekki hafa lært að nema orð og myrkur ríkir í lífi þeirra. Augun, eyrun og fingur mannsins eru eins og gluggar. Þegar lært er að nema orð er verið að draga frá þessum gluggum og manneskjan verður móttækileg fyrir Orði Guðs.

Fáfræðin er hættulegasti óvinur Kristinnar trúar. Hún veldur því að fagnaðarerindi Guðs missir marks. Þar sem fáfræðin ríkir eru gluggar mannsins lokaðir, ljósið kemst ekki í gegn og innra með honum ríkir myrkur og þögn. Í rökkrinu sést lífið ekki í réttum litum, allt verður grátt og bjagað. Það er því auðvelt að villast og fyllast ótta í myrkrinu.

Þó Orðið sé talað inn í þögnina og myrkrið þá hefur það engin áhrif því engin skilningur er til staðar. Fáfræðin á sér bróðir sem nefnist skortur og þau systkin ala af sér tortryggni og hatur. Þau hafa ávallt fylgt manninum og valdið honum þjáningum. Pétur var í myrkrinu þegar hann sór af sér að þekkja Jesú. En hann hafði lært og numið orð Guðs. Hann vissi hver Jesú var ,,Kristur, sonur hins lifanda Guðs.” Fræinu hafði verið sáð í hjarta hans. Og tveimur dögum síðar hófst vöxturinn með komu Orðsins.