Veraldleg lagasetning og kristin gildi

Veraldleg lagasetning og kristin gildi

Við viljum ekki sharia-lög. Til þess að forðast þau ber okkur að leggja rækt við ákvæði laga um mannréttindi og trúfrelsi í stað þess að fara inn á sömu brautir og sharia-lögin byggja á, þ.e. að byggja löggjöf á trúarlegum gildum.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
28. febrúar 2013
Meðhöfundar:

„Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við.“

Svo hljóðaði hluti ályktunar sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins laugardaginn 23. febrúar sl. Daginn eftir var ákvæðið fellt út. Ber að harma brottfall þess eða hefur farið fé betra? Sem prestar og guðfræðingar ætlum við að greina þessa skammlífu ályktun í fáeinum orðum.

Hvað eru kristin gildi?

Í þessu sambandi er eðlilegt að að varpa fyrst fram spurningunni: hvað eru kristin gildi?

Kristin gildi eru ekki einhver einn gefinn pakki sem við erum öll sammála um hvað hafi að geyma. Líklega getum við þó flest samþykkt að þau gildi sem Jesús Kristur beitti og boðaði séu kristin. Í því sambandi má benda á framkomu hans við þau sem voru sett til hliðar í samfélaginu, hvatningu um að sýna kærleika — elsku sem beindist að Guði, náunganum og okkur sjálfum — og óttaleysi við að brjóta hefðir og venjur þegar líf, heilbrigði eða mannréttindi kölluðu á slíkt. Spyrja má hvort einhver svið lagasetningar séu þess eðlis að ekki „eigi við“ „að taka mið af“ þessum gildum svo vísað sé til ályktunarinnar.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að auðvelt er að afskræma fallegan boðskap. Það á jafnt við um kristna trú og önnur trúarbörgð heimsins. Stríð, kúgun og óréttlæti í nafni trúar eru birtingarmyndir þess í sinni dekkstu mynd. Afskræmingin þarf þó ekki að verða svo gróf. Hún getur líka falist í að algilt eftirdæmi Krists um fórnandi kærleika sé smættað niður í borgaralegan „móralisma“. Hætt er við að slíkt gerist ef litið er svo á að kristin gildi einskorðist við einhver ákveðin svið lífsins eða lagasetningarinnar.

Hvenær ber að taka mið af kristnum gildum?

Lýðræði og trúfrelsi eru lykilhugtök í frjálsu nútímasamfélagi. Því er eðlilegt að spyrja í framhaldinu: hvenær á að nota kristin gildi við lagasetningu?

Vissulega kallast kristin gildi í þeirri merkingu sem við göngum út frá hér að framan á við þá lagasetningu sem við þekkjum og hefur hingað til þróast í íslensku samfélag. Hér er ekki um séríslenskt fyrirbæri að ræða. Þetta á við um allan hinn vestræna heim. En kristin gildi kallast einnig á við gildi annarra trúarbragða og það gildismat sem fram kemur í mannréttindasamþykktum og -sáttmálum sem við erum aðilar að. Á tímum fjölhyggju og fjölmenningar verður það frekar að teljast varnarviðbrögð en raunhæf framtíðarsýn að krefjast þess að lagasetning taki mið af einhverjum sérkristnum gildum og hefðum „þegar það á við“. Veruleikinn sem við búum við í fjölhyggjusamfélagi og þátttaka okkar í alþjóðasamfélaginu krefst þess af okkur að við setjum ekki eina trú eða einn sið í þröngum skilningi ofar öðrum í veraldlegri lagasetningu.

Samkvæmt hefð sem kenna má við Martein Lúther ber ríkisvaldinu á hverjum tíma að setja réttlát lög og framfylgja þeim. Við það ber því að leggja til grundvallar gildi frelsis, lýðræðis, jöfnuðar og mannréttinda. Þetta eru gildi sem m.a. má rekja til kristninnar. Er æskilegt að löggjafinn leggi einhver önnur og sérkristnari gildi til grundvallar? Sé það gert þarf einhver að túlka í hverju þau séu fólgin, hvenær eigi við að hafa hliðsjóna af þeim og hvernig það skuli gert. Hverjir ættu að gera það? Það er vart á færi venjulegra stjórnmálamanna. Til þess þyrfti væntanlega klerkasamkomu af einhverju tagi. Inn á hvaða braut værum við þá lent?

Verum sjálfum okkur samkvæm

Það er ósamræmi í því fólgið að gagnrýna samfélög sem byggja á trúarofstæki fyrir harðlínustefnu en leggja á sama tíma til að okkar samfélag byggi beinlínis á einni trú annarri fremur þegar að lagasetningu kemur. Í umræðu um ofangreinda ályktun mun hafa komið fram sá ótti að ef við héldum ekki fast við kristin gildi gætu t.a.m. hin illræmdu sharia-lög orðið ráðandi okkar á meðal. Ljóst er að ekki verður bæði sleppt og haldið. Við getum ekki gagnrýnt aðra fyrir að leggja sína trú til grundvallar í löggjöf en miða lagasetningu okkar á sama tíma við „kristin gildi“ í þröngum skilningi.

Við viljum ekki sharia-lög. Til þess að forðast þau ber okkur að leggja rækt við ákvæði laga um mannréttindi og trúfrelsi í stað þess að fara inn á sömu brautir og sharia-lögin byggja á, þ.e. að byggja löggjöf á trúarlegum gildum. Um leið og ótti við aðra menningu eða trú tekur að stjórna gerðum okkar hefur ósigur okkar hafist. Vitanlega samþykkjum við aldrei kynjamisrétti, kúgun eða ofstjórn í skjóli trúar. Kirkjan á að láta til sín taka í baráttu gegn slíkum tilhneigingum. Það er hennar erindi. Hún á í því efni ekki að stjórnast af ótta, heldur kjarki og kærleika. Það sama á vitanlega við um öll þau sem lát sig velferð og réttlæti varða.

Forðumst bókstafstrú

Það verður ekki framhjá því litið að saga okkar, menning og lagasetning hefur mótast af þeirri trú sem flestri þegnar landsins aðhyllast. Við teljum það gæfu okkar að það hefur gerst án bókstafstrúar þar sem boð og bönn eru ofar kærleiksverkum. Þess má geta að ströng bókstafstúlkun kristinnar trúar bannar t.d. hjónaskilnaði, nokkuð sem fæst okkar teldu boðlegt í nútímasamfélagi. Staða kvenna er vond þar sem bókstafshyggja trúarbragða er ráðandi. Sorgarfréttir um voðaverk þar sem brotið er á konum með trú að vopni eiga að vera okkur til viðvörunar.

„Kristin gildi“ í þröngri merkingu sem viðmið við lagasetninu kalla fram bókstafshyggju en nýtast ekki í baráttunni gegn henni. Þar munu þau gildi sem hingað til hafa góðu heilli gilt í lagasetningu okkar — frelsi, lýðræði, jöfnuður og mannréttindi — reynast heilladrýgri. Sameinumst frekar um að efla þau!