Ljós og aðventa

Ljós og aðventa

Á aðventunni stendur Hjálparstarf Kirkjunnar fyrir jólasöfnun og í ár er yfirskriftin „hreint vatn gerir kraftaverk“ og er safnað fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfsins í þremur löndum Afríku, sem hefur gjörbreytt lífi þúsunda manna.

Það er gott að koma hingað í Bústaðakirkju á aðventukvöldi. Það vekur upp góðar minningar frá því ég söng í kirkjukórnum hér fyrir meira en 30 árum. Þá var ég guðfræðinemi og lærði kórstjórn hjá Guðna Þ. sem nýlega hafði gerst organisti hér. Hann dreif mig í kórinn og ég söng altrödd. Á fyrsta aðventukvöldinu sem ég var undraðist ég mannfjöldann sem að dreif. Fyrstu jólin voru líka eftirminnileg. Það var í fyrsta skipti sem ég var hér fyrir sunnan og það var enginn snjór. Það hafði ég aldrei fyrr upplifað um jól. Það var líka skrítið að syngja altröddina í hátíðarsöngvunum og sálmunum en ekki sópranröddina sem alla jafna syngur lagið. Ég man reyndar ekki eftir hvort það var á aðventukvöldinu eða á aðfangadagskvöld sem allir fengu kerti í hönd og þegar síðasti sálmurinn var sunginn voru ljósin tendruð eitt af öðru þar til kirkjan öll var böðuð kertaljósum. Þennan sið tók ég héðan þegar ég varð prestur á Hvanneyri. Við helgistundina á aðfangadagskvöld var hátíðleikinn mikill í litlu kirkjunni þar þegar kveikt var á kertunum og sunginn sálmurinn Heims um ból.

Nú á tímum þegar við höfum flest allt til alls þarf mikið til að bregða frá vana hversdagsins og halda hátíð. Það á við bæði um mat og umhverfi. Hér áður fyrr voru ljósskreytingar ekki eins algengar og miklar eins og nú er. Ég man þegar sr. Bernharður Guðmundsson sagði frá því þegar hann var prestur í Súðavík að hann hafi farið til Bandaríkjanna á jólaföstunni og séð öll ljósin þar. Það skyggði þó ekki á einu ljósaskreytinguna í þorpinu, sem var á húsi kaupmannsins. Það er gaman að sjá fallega skreytt hús þar sem íbúarnir hafa lagt sig fram um að komu öllu haganlega fyrir. En það getur líka verið gott að sitja og horfa á loga af einu kerti. Í gegnum hugann fara margar hugsanir sem kannski eru okkur misauðveldar, en að horfa á kertalogann róar hugann.

Í gegnum huga okkar fara margar hugsanir á degi hverjum. Þær eru oft truflaðar af utanaðkomandi áreiti, sem jafnvel vekur aðrar hugsanir. Fyrir mörgum árum var ég með son minn lítinn niðrí bæ í Reykjavík. Ég gekk niður Austurstrætið og tók eftir því að Hjálpræðishermaður stóð við Pósthúsið með baukinn góða, þar sem við erum hvött til að hjálpa hernum að hjálpa öðrum. Hann barst ekkert á hermaðurinn heldur stóð þarna við baukinn hljóður en glaðlegur. Á upphækkun á miðri götunni var mikið um að vera. Jólasveinar ásamt fylgdarliði voru að kynna nýja plötu. Margir höfðu áhuga á tónlistinni og jólasveinunum. Ég varð hugsi. Hvorutveggja var gott í sjálfu sér en það er alltaf spurning um forgangsröðun fyrir hina raunverulegu þýðingu jólanna.

Það var sem hermaðurinn væri tákn fyrir þann boðskap sem jólin flytja okkur, en jólasveinarnir væru tákn fyrir þann búning, sem við mennirnir höfum sett jólin í. Boðskapur jólanna er skýr. Guð hefur vitjað lýðs sins, frelsarinn minn og þinn er í heiminn borinn. Frammi fyrir Guði er maðurinn einn. Hans eigin afstaða skiptir öllu máli. Það er enginn fylgdarmaður, nema sá er í heiminn var borinn hina fyrstu jólanótt. En sá sem ekki hefur lært að treysta þeim fylgdarmanni, getur ekki vænst þess að finna návist hans.

Hvað skiptir máli í lífinu? Hvað verður að vera, hvað er æskilegt að hafa? Hvað er ónauðsynlegt með öllu? Slíkum spurningum er gott að velta fyrir sér, ekki hvað síst á aðventunni þegar andstæður eru miklar. Það er myrkur en við bregðumst við því með því að lýsa umhverfið. Það er bókaútgáfa en við tökum bara eftir þeim sem eru auglýstar mikið eða umtalaðar. Einn skreytir mikið og það smitar frá sér. Við viljum öll hafa fleiri ljós en færri. Okkur leiðist myrkrið.

En ekkert ljós logar að eilífu. Perur springa, kerti brenna út. En eitt er það ljós er alltaf logar, ljós heimsins. Ég er ljós heimsins, sagði Jesús. Hann kom í heiminn til að flytja fátækum gleðilegan boðskap. Boðskap náðar og miskunnar, boðskap friðar og frelsis, boðskap réttlætis og fyrirgefningar. Þess vegna höldum við jól og þess vegna búum við okkur undir fæðingu frelsarans á aðventunni. Búum okkur andlega og veraldlega undir komu hans í heiminn og minnumst orða hans er hann segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.”

Hér á landi hefur aðventan fengið nýtt innihald síðustu áratugina. Við höfum tekið upp siði annarra þjóða sem eiga sér lengri hefð hvað aðventuna varðar. Það er ekki ýkja gamall siður hér á landi að hafa aðventukrans og kveikja á kertum hans. Áður fyrr voru heldur ekki jólafundir á aðventunni. Við höfum heldur ekki daga eins og Mikaelsdag eða Lúsíudag. En við höfum aðra siði svo sem laufabrauðsbaksturinn og skötuna á Þorláksmessu. Jólasöfnun Hjálparstarfs Kirkjunnar er líka orðinn fastur liður á aðventunni og hófst söfnunin í ár í dag, fyrsta sunnudag í aðventu.

Á aðventunni stendur Hjálparstarf Kirkjunnar fyrir jólasöfnun og í ár er yfirskriftin “hreint vatn gerir kraftaverk” og er safnað fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfsins í þremur löndum Afríku, sem hefur gjörbreytt lífi þúsunda manna.

Þegar við hugsum um aðventuna kemur fleira upp í hugann. Við minnumst þess sem var áður fyrr á heimili okkar og í samfélaginu. Matur, ljós og tónlist koma í hugann en einnig hinar miklu andstæður lífsins. Hér á landi er nóg vatn. Í mörgum löndum t.d. í Afríku þarf að bora langt niður til að fá hreint vatn, því það litla sem er á yfirborðinu er mengað. Misskipting er í heimi hér því miður og eigum við öll að vinna að því að útrýma henni. En hvernig förum við að því og hvar eigum við að byrja? Viðlíka spurningar koma upp í hugann enda málið stórt og verkefnin mörg.

Í Aðventuljóði fjallar Ragnar Ingi Aðalsteinsson um flest það er hugur okkar veltir fyrir sér á aðventunni. Hann segir:

1 Í myrkrinu aðventuljósin loga sem lýsandi bæn um grið. Þessi veröld er full af skammdegisskuggum það skortir á gleði og frið. Það er margt sem vakir í vitund okkar sem við höfum þráð og misst. Þá er í sálinni styrkur og hjartanu huggun að hugsa um Jesú Krist. ​​ 2 Við lifum á uppgangs- og umbrotatíð þar sem allt á að gerast strax. Og andlegir sjóðir eyðast og glatast í erli hins rúmhelga dags. En samt er ein minning sem brennur svo björt eins og brosandi morgunsól, um hann sem var sendur frá góðum Guði og gaf okkur þessi jól.

3 Og jólin nálgast í hverju húsi og hjarta hvers trúaðs manns. Það er eins og við fáum andartakshvíld á afmælisdaginn hans. En eitt er það þó er í sál minni svíður sárt eins og þyrnikrans. að mennirnir halda markaðshátíð í minningu Frelsarans. 4 Hann boðaði hamingju frið og frelsi og fögnuð í hverri sál. Hann kenndi um guðdóminn, kraftinn og ljósið og kærleikans tungumál. Og samt eru jólin hjá sumum haldin í svartnættismyrkri og kvöl, í skugga eymdar og ofbeldisverka við örvænting, skort og böl.

5 Við lifum í dimmum og hörðum heimi með hungur, fátækt og neyð Þar sem einn er að farast úr ofáti og drykkju en annar sveltur um leið. Þar sem einn er þjakaður andlegu böli en annar ber líkamleg sár. Og samt hefur lausnin frá þjáning og þraut verið þekkt í tvöþúsund ár. 6 En þrátt fyrir mannkynsins mistök og syndir og myrkvuðu tímabil og þrátt fyrir allt sem hann þurfti að líða og þjást hér og finna til hann bíður samt ennþá með opinn faðm þar sem alltaf er skjól og hlíf, og biður um meiri mátt til að gefa mönnunum eilíft líf. 7 Í myrkrinu aðventuljósin loga sem lýsandi himnesk rós. Ógnþrungnir skammdegisskuggar víkja við skínandi kertaljós. Á jörðinni fölskvast hin andlegu efni og oft er hér þungbær vist. Þá er sálinni styrkur og hjartanu huggun að hugsa um Jesú Krist.

Gleðilega og gefandi aðventu. Guð blessi ykkur.