Stærsta virkjun sögunnar

Stærsta virkjun sögunnar

Hann var ekki stór hópurinn sem var kallaður til að byggja mestu virkjun sögunnar. Kárahnjúkar eru eins og smáhýsi úr Legókubbum í samanburði við þá orkuveitu kærleika og ljóss sem virkjuð var á ummyndunarfjallinu forðum.

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.

Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!

Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: Rísið upp, og óttist ekki. En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum. Mt 17.1–9

Af fjöllum

Gott er að vera kominn á ný í faðm þessa góða safnaðar eftir gjöfult og gleðiríkt vetrarfrí. Ég kem af fjöllum! Sólskrýddir, fannhvítir tindar, skógivaxnar hlíðar, ruddar brautir, aðeins örlítið suð í lyftunni sem bar okkur upp á fjallið. Undurfögur sýn. Við hjónin vorum í vetrarfríi og fórum m.a. til Frakklands á skíði. Dásamlegt að fá sólargeislana, bjarta á sjónhimnuna. Ljósið gerir undur. Örlítil stöð í heilanum framleiðir efni þegar sólarljósið skín á augun, sem stillir líkamsklukkuna og vinnur gegn áhrifum skammdegismyrkurs. Og svo þessi sérstaka tilfinning að standa efst í brekkunni í vel hertum skóm á gljáfægðum skíðum með egghvössum köntum og láta sig svo gossa niður hlíðarnar með snjódrífuna í gusum í kjölfarinu. Fjallaloftið tært og hreint. Óviðjafnanlegt!

Guðspjallið greinir frá mönnum á fjalli, snjólausu fjalli að vísu, en böðuðu undursamlegri, hvítri birtu, himnesku ljósi, sem breytti sýn þeirra, skein í augun og skapaði í heila þeirra og hjarta, nýja sýn á tilveruna. Ummyndun, metamorfósis, transfígúrasjón, allt breyttist, fékk nýja ásýnd, nýja vídd.

Lífbreytandi reynsla

Hefur þú orðið fyrir reynslu sem breytti öllu hjá þér, gaf þér nýja sýn, nýja von og trú, nýja tiltrú á lífið og framtíðina? Hefur þú verið á ummyndunarfjalli? Ummyndunarfjöllin geta verið margvísleg og miserfið uppgöngu. Sum okkar hafa þurft að ganga upp á ummyndunarfjall sorgar og missis. Önnur hafa orðið fyrir annars konar áföllum, vonrbrigðum, brigslum, jafnvel svikum.

Og svo eru það ummyndunarfjöll af öðru tagi, fjallið þegar þú varðst ástfangin/n, fjallið þegar þú eignaðist barn, gleðin þegar allt gekk upp og þér fannst lífið vera nýtt og tækifærin opin sem dyr upp á gátt. Og svo ummyndunarfjallið mikla þegar Kristur mætti okkur og augu okkar opnuðust fyrir því að hann var meira en merkur maður úr fortíðinni, hann var og er Guð á meðal okkar, frelsari, huggari, vinur, sigrari dauðans. Hann er upprisinn konungur að eilífu í því ríki sem við erum hluti af og vígð til í heilagri skírn.

Miðilsfundur?

Hún er sérstök þessi frásögn af Pétri, Jakobi og Jóhannesi þar sem þeir eru á fjallinu með Jesú. Furðuleg frásaga af fjarstæðukenndum fundi með löngu horfnum aðalleikurum á sviði hjálpræðissögu Guðs, Móse og Elía. Var þetta miðilsfundur? Þannig túlkuðu sumir guðfræðingar, sem voru undir áhrifum spíritismans á fyrri hluta liðinnar aldar, þessa frásögn Matteusar. Var Jesús miðill? Var hann að leiða þá til sambands við framliðna? Nei, ekki í þeim skilningi sem við þekkjum af umræðu liðinna áratuga í íslenskum veruleika þar sem framliðnir eru stöðugt að skipta sér af lífi okkar sem lifum. Í því brambolti öllu hefur margt skondið átt sér stað og sumt jafnvel vafasamt borið á góma. Sem dæmi má nefna að mörg hinna miklu þjóðskálda eru sögð hafa komið margsinnis fram á miðilsfundum og látið detta eitt og eitt ljóð frá handanverunni og til okkar í hérverunni. En það má teljast undarlegt, eins og einhver hafði á orði, að öllum hafði stórskáldunum farið stórlega aftur eftir vistaskiptin. Hverju er óhætt að treysta?

Lífið hér og fyrir handan

Í Háskólabíói, hér við Hagatorgið er verið að sýna kvikmyndina Narníu sem er byggð á sögu breska rithöfundarins, C.S. Lewis, sem var upp á sitt besta um miðja síðustu öld. Hann var náinn vinur Tolkiens sem ritaði Hringadrottinssögu. Lewis var guðleysingi, prófessor í bókmenntafræði í Oxford, sem eignaðist reynslu sem breytti sýn hans á veruleikann. Hann átti sitt ummyndunarfjall. Í kjölfar þess ritar hann sögurnar um Narníu, landið í handanverunni þar sem hið illa hefur náð völdum og veturinn ríkir. Þangað villast börn úr mannheimum og kynnast norninni, drottningu hins illa valds. En þau kynnast líka Aslan, ljóninu, sem er boðberi kærleika, ljóss og fegurðar. Aslan er kriststýpa sem fórnar sér fyrir breyska menn og rís upp á ný. Og þá kemur loksins hið langþráða sumar! Ég hvet ykkur til að sjá þessa mynd sem tekur á baráttu góðs og ills og heldur á lofti þeim gildum sem sigra að lokum allt. Sagan er í raun um kjarna kristindómsins í formi ævintýris.

Hlutverk hjartans

Í sögu C.S. Lewis, Ljónið, nornin og skápurinn er þessi handanvera aðeins að baki skápnum sem börnin fara í gegnum. Og við getum spurt: Hvar er handanveran? Hvar er himininn? Hvar eru þau sem horfin eru á undan okkur? Jesús sagði: Guðsríki er hið innra með yður. Eru heimarnir og geimarnir kannski innra með okkur, eða hér við hlið okkar en ekki einhversstaðar í fjarskanum í margra ljósára fjarlægð? Hvað sjáum við? Hvað skynjum við með augum okkar, sem eru svo undursamleg smíð en jafnframt svo takmöruð? Og svo má líka spyrja: Hvað sér hjartað? Já, hjartað! Merkilegt hvernig menn hafa um aldir talað um hjartað:

- Að finna með hjartanu.

- Að skilja með hjartanu.

Var það af þekkingarskorti fólks til forna að talað var eins og heilinn væri í hjartastað? Eða er eitthvað hér í miðju minni og þinni sem skilur og finnur til á annan hátt en heilinn gerir? Já, sú er reynsla fólks á öllum öldum.

Hugur og hjarta. Þegar barn er skírt gerir presturinn krossmark á enni og brjóst til merkis um að hugur og hjarta barnsins á að helgast fyrir trúna á hinn krossfesta og upprisna Drottinn Jesú Krist. Hugsunin og innsta tilfinningin eru merkt heilögum krossi, sigurtákni lífsins.

Hjartað bæði og húsið mitt / heimili veri, Jesú, þitt, kvað sr. Hallgrímur (Ps 10.4). Þar býr hann. Hann er í hjarta þínu fyrir heilaga skírn. Og hann knýr á í hverri messu og kemur til þín í brauði og víni, snertir tungu þína, rennur um æðar þér, tjaldar í hjarta þér. Já, hann tjaldar hjá þér og yfir þig, breiðir yfir þig elsku sína, yfir og allt um kring. Lúther sagði að Kristur væri í, með og undir brauðinu og víninu. Kristur er hér.

Sem tjald

Jóhannes guðspjallamaður talar um mesta undur sögunnar, að Guð gerðist maður, með þremur orðum: orðið varð hold. Og svo heldur hann áfram og segir: Og hann bjó með oss. Á grísku notar hann orðið skene sem merkir tjald. Hann býr hjá okkur, tjaldar yfir okkur. Og Pétur talar í pistli dagsins um tjaldbúð sína og vísar þar til ævi sinnar og lífs sem um síðir verði svipt burt. Við erum tjaldbúð sem stendur um stutta hríð en verður síðan svipt burt af Drottni og færði til hinnar miklu tjaldbúðar á himnum þar sem réttlæti og kærleikur gróa um eilífð. En það sem Pétri liggur þó meir á hjarta í pistlinum er að hann vill árétta að þessi reynsla hans af fjallinu var raunveruleg reynsla, ekki byggð á skröksögum, segir hann, heldur var hann sjónarvottur af hátign Jesú Krists, hann skynjaði og sá með hug- og hjartans augum að Jesús var meira en mannleg vera, hann var Guð á jörðu.

Virkjun og leiðsla ljóss

Á fjallinu ummyndaðist Jesús og þar umskapaðist hugur verkamannanna þriggja sem komnir voru til fjallsins til að virkja ljósið eilífa. Hann var ekki stór hópurinn sem var kallaður til að byggja mestu virkjun sögunnar. Kárahnjúkar (afmyndunarfjöllin?) eru eins og smáhýsi úr Legókubbum í samanburði við þá orkuveitu kærleika og ljóss sem virkjuð var á ummyndunarfjallinu forðum. Þaðan hefur kristin kirkja lagt ljósleiðara um veröld víða, ofið net sáttargjörðar og samhygðar um hnöttinn þveran og endilangan. Þangbrandur, Friðrik og Þorvaldur víðförli komu hingað með þennan ljósleiðara fyrir þúsund árum og drógu hann með sér um landið með því að boða trúa á Krist. Og allar götur síðan hafa menn, karlar og konur, ummyndast í ljósþræði, sem ofnir eru saman í einn máttugan ljósleiðara, kristna kirkju.

Upplýsing og umburðarlyndi

Heimurinn þarfnast upplýsingar, þarfnast birtunnar af ummyndunarfjalli Krists. Kærleikur hans þarf að ná tökum á þessari veröld þar sem blikur eru nú á lofti og ófriðlega horfir sökum vankunnáttu og fordóma, hroka og hleypidóma, heimsku og haturs. Við verðum að læra að lifa í þessum fjölskrúðuga heimi menningarstrauma og trúarbragða. Í gær var haldinn hér í safnaðarheimilinu þjóðhátíðardagur Sri Lanka. Þar kom saman fólk af ólíkum þjóðflokkum, trúarbrögðum og þjóðfélagsstöðu til að fagna sjálfstæði Sri Lanka. Í annað sinn var ég, kristinn prestur, beðinn að tala til þeirra og fagna með þeim. Það var yndisleg stund. Um allan heim er fólk sem á sér draum um betra líf, fólk sem hefur annað útlit en við, aðra trú, aðra siði, fólk sem þráir að sjá betri heim, fólk sem finnur til eins og við, gleðst og syrgir eins og við, vonar og þráir eins og við. Við þurfum að læra að skilja þetta fólk, finna hjartslátt þess, elska það og virða, fagna því að hafa framandi fólk á meðal okkar sem auðgar menninguna, þroskar okkur og bætir.

Hvar er þetta fjall?

Ef fjallið kemur ekki til Múhammeðs, kemur Múhammeð til fjallsins, sagði hinn umdeildi spámaður islam. Hér hefur hið ótrúlega gerst! Fjallið er komið til þín og þú þar með til fjallsins. Hér á helgum stað talar Jesús þegar lesið er úr bókinni hans og þau orð útlögð. Hér er fjallið þar sem hann ummyndast og breytir lífi þínu. Altarið er staður ummyndunar. Þar er Guð sem getur ummyndað huga þinn og hjarta og gefið þér nýja sýn á þennan mann Jesú frá Nasaret. Og þá gerist undrið, hann verður Messías, Kristur, frelsarinn, Guð á jörðu, sá sem sigraði illskuna og dauðann og lifir að eilífu. Vitnisburður sjónarvotta forðum er ekki skröksögur, hvorki mýrarljós né hégiljur, heldur áþreifanlegur veruleiki, barinn mannlegum augum upplýstum af anda Guðs. Þess vegna gátu fylgjendur Jesú, karlar og konur, gengið á vit framtíðarinnar, í gegnum erfiðleika og raunir, með gleði í hjarta því þau vissu að hann var með í för, hann sem sigraði dauðann og lifir að eilífu.

Við rætur fjallsins er verk að vinna

Guð gefur nýja sýn á veruleikann. Og þessi nýja sýn þarf að breiðast út um ljósleiðara kirkjunnar. Þú ert þráður í þeim mikla vef sem leiðir ljós sáttargjörðar og friðar, kærleika og réttlætis um veröldina. Heimurinn þarfnast ljóssins, birtunnar af ummyndunarfjallinu. Enn vonum við og trúum, enn leggjum við okkar að mörkum meðan við bíðum þess að heimurinn sjái ljósið.

Hversu mörg ár fær fjallið staðist uns það skolast í sjóinn? Já, hversu mörg ár fær sumt fólk lifað uns það öðlast frelsi? Já, og hversu mörg ár getur maðurinn snúið sér undan og látið sem hann sjái ekki neitt? Svarið, kæri vinur, býr í blænum, svarið býr í blænum.

Eitthvað á þessa leið söng Bob Dylan og sagði í laginu Blowing in the Wind.

Já, svarið er í anda Guðs sem blæs þar sem orð hans hljómar. Hlustaðu á svarið í andblæ Guðs og það ummyndar alla þínu tilveru. Og eins og forðum daga er dvölin stutt á fjallinu helga. Við rætur þess, úti í þjóðfélaginu bíða verkefnin. Tökumst á við þau verkefni með hvatningu Jesú í huga og hjarta:

„ Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ (Matt 5.14-16).

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.