Upphaf gleðinnar

Upphaf gleðinnar

Jólin eru stundum nefnd hátíð barnanna. Á þessu kvöldi megum við vera eins og börn þó við séum fullorðin. Við viljum vera góð eins og Berta. Í kvöld þráum við nærveru þeirra sem okkur eru kærastir og við þráum frið í sál og heimi. Á þessu kvöldi er veröldin eins nálægt því að vera fullkomin og mögulegt er. Tilfinningar bærast í brjóstum okkar, jafnvel andstæðar tilfinningar eins og gleði og sorg.

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.Lúk 2.1-14

Við skulum biðja: Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, og upphaf gleðinnar. Með fæðingu Jesúbarnsins sendir þú bjartan geisla inn í myrkur jarðar. Gef að þetta ljós lýsi einnig hjá okkur. Lát það geisla í öllu sem við gerum, svo að við megum tigna þig og tilbiðja að eilífu. Amen. Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hátíð.

Klukkurnar hringja og hátíðin er hafin. Þessi hátíð sem kemur ár hvert og vekur upp margar tilfinningar. „Jólin eiga að koma oftar af því að litlir krakkar geta ekki verið góð svo lengi í einni bunu" bað Berta. Bænin hennar er í bókinni Börn skrifa Guði sem kom út fyrir mörgum árum.

Jólin eru stundum nefnd hátíð barnanna. Á þessu kvöldi megum við vera eins og börn þó við séum fullorðin. Við viljum vera góð eins og Berta. Í kvöld þráum við nærveru þeirra sem okkur eru kærastir og við þráum frið í sál og heimi. Á þessu kvöldi er veröldin eins nálægt því að vera fullkomin og mögulegt er. Tilfinningar bærast í brjóstum okkar, jafnvel andstæðar tilfinningar eins og gleði og sorg. Aldrei erum við nær því en núna að hugsa hvar við erum stödd á lífsins vegi, þakka og njóta.

Það er umhugsunarvert að jólin og umgjörð þeirra hefur áhrif á alla. Jólaljósin lýsa þó þau séu ekki trúarlegt tákn fyrir öllum. Kirkjurnar fyllast því það er hluti af jólahaldi margra að sækja kirkju. Það hvílir leyndardómur yfir þessu kvöldi, leyndardómur sem ekki er hægt að lýsa með orðum en við verðum að finna hvert og eitt í okkur og hjá okkur.

Jólaguðspjall Lúkasar guðspjallamanns tjáir þennan leyndardóm. Segir söguna um Jósef og Maríu sem hlýddu kalli Ágústusar keisara og fóru til að skrá sig í manntal heimsbyggðarinnar þó illa stæði á hjá Maríu til ferðalaga. Lúkas guðspjallamaður fer fáum orðum en innihaldsríkum um það sem gerðist þegar þau komu til Betlehem. María fæddi barnið, lagði það í jötu því öll gistipláss bæjarins voru upptekin. Ekki beint staður til að leggja lítið nýfætt barn í, en fólk reynir að bjarga sér þegar enga hjálp er að fá. Í jötuna var hann lagður nýfæddi drengurinn og ekki er þess getið að fleiri hafi verið viðstaddir komu hans í heiminn en móðir hans og Jósef heitmaður hennar.

Við höfum áður heyrt þessa sögu um fæðingu barnsins hennar Maríu. Við rifjum hana upp ár eftir ár. Hún er stór hluti af upplifuninni sem jólin gefa. Það er út af fyrir sig ekki frásagnarvert að barn hafi fæðst í fjarlægu landi fyrir meira en 2000 árum. Margar konur hafa fætt börn inn í þennan heim og gera enn, einnig við hræðilegar aðstæður eins og nýlegar myndir sýna til dæmis frá hamfarasvæðinu á Filippseyjum. En það sem á eftir fer í frásögu Lúkasar guðspjallamanns er einstakt. Að fyrstu fréttir af fæðingu barns komi frá himnum. Þær bárust ekki ríkum og valdamiklum konungum heldur fátækum hirðum. Í myrkrinu varð allt skínandi bjart þegar boðberi tíðindanna, engillinn, birtist. Þessar andstæður ljós og myrkur eru okkur kunnar. Fáir þekkja myrkrið betur en við sem búum á norðurslóðum og fáir þekkja birtuna betur en við sem njótum hennar samfellt svo sólarhringum skiptir á sumrin. Þannig getur lífið einnig verið, fullt af andstæðum, andstæðum sem þroska okkur og gera okkur færari að skilja líf okkar og aðstæður annarra.

Orðin sem hirðarnir fengu fyrstir að heyra hafa borist alla leið hingað norður til Íslands. „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs“.  Þetta er mál jólanna. Þér er frelsari fæddur. Mér er frelsari fæddur. Fólk um allan heim hefur í gegnum aldirnar meðtekið þennan boðskap og ekki verið samt á eftir, því barnið hennar Maríu er líka fætt okkur.

Í kvöld er hugur okkar hjá börnum heimsins. Þeim sem búa við gott atlæti, þeim sem búa við ófrið. Þeim sem búa við kærleika, þeim sem búa við ástleysi. Þeim sem eru glöð og þeim sem eru döpur, jafnvel hrædd. Við fullorðna fólkið búum til minningar fyrir börnin okkar. Við viljum að þau geti átt góðar jólaminningar frá æskuheimilinu þegar þau sjálf stofna heimili. Minningar sem veita gleði og ljósi inn í líf þeirra. Minningar sem þau deila með öðrum og segja næstu kynslóð frá og jafnvel fleiri kynslóðum sem á eftir koma. Líf margra barna er flókið sem og líf margra foreldra og fjölskyldna. Litla fjölskyldan í Betlehem fékk að reyna óöryggi og þurfti að flýja til annars lands stuttu eftir fæðingu barnsins. Margar fjölskyldur hafa reynt mótlæti og spyrja hvar er hjálp að fá? Jakob Jóhannesson Smári svarar þannig í sálmi sínum:

Þú kemur enn til þjáðra' í heimi hér með huggun kærleiks þíns og æðsta von.

Trúin leyfir okkur að vona. Lætur okkur hvíla í þeirri vissu að kraftur Guðs sé að verki í heiminum og lífinu. Barnið hennar Maríu er nefnt Immanúel í spádómsbók Jesaja og Immanúel þýðir Guð með okkur. „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“

Þessi orð verða lifandi og raunveruleg í lífi og huga kristins manns. Boðskapur jólanna felur í sér gjöf. Gjöf sem við veljum að taka á móti eða ekki. Okkur finnst betra að skilja hlutina til að geta tileinkað okkur þá. Ýmis atvik lífs okkar verða til þess að skilningur okkar eykst og lífsviðhorf okkar breytist. Sú saga er sögð af manni einum sem leit á jólin sem hálfgerða vitleysu. Þessi maður var enginn furðufugl. Hann var blíður og góður við fjölskyldu sína. Hann var heiðarlegur og gerði engum manni rangt til. En hann gat ómögulega trúað því sem kirkjan boðaði um jólin, að Guð hefði fæðst sem maður. Og svo var hann heiðarlegur að hann neitaði að láta sem hann tryði þessu. Konan hans var trúuð og hann sagði henni að hann gæti alls ekki skilið þetta með að Guð hafi fæðst sem maður. Það er engin vitglóra í þessu, sagði hann.

Á aðfangadagskvöld fóru konan hans og börnin til kirkju. Hann vildi ekki fara með þeim.

Stuttu eftir að fjölskylda hans ók af stað í bílnum fór að snjóa. Hann stóð við gluggann og horfði á hvernig hríðin varð þéttari og þéttari. Nokkrum mínútum síðar hrökk hann upp við óvæntan dynk. Brátt heyrðist annar dynkur og svo annar. Það var eins og einhver væri að kasta snjóboltum í gluggann. Þegar hann fór í útidyrnar til að kanna málin sá hann hóp af smáfuglum sem hoppuðu um og tístu vesældarlega í snjónum. Í örvæntinguarfullri leit sinni að skjóli höfðu þeir reynt að fljúga gegnum gluggann hans. Manninum fannst hann þurfa að hjálpa fuglunum og velti fyrir sér hvernig hann gæti hjálpað þeim.

Allt í einu mundi hann eftir bílskúrnum. Þar var skjól og einhver hlýja. Hann flýtti sér í úlpuna og fór í kuldaskóna. Síðan þrammaði hann gegnum snjóinn opnaði bílskúrinn og kveikti ljós. En fuglarnir vildu ekki koma inn. „Örlítill matur mun fá þá inn fyrir", hugsaði hann. Síðan flýtti hann sér inn í húsið og sótti nokkra brauðmola, sem hann stráði svo á snjóinn til að mynda slóð inn í bílskúrinn. En honum til mikillar armæðu, þá litu fuglarnir ekki við brauðmolunum og héldu áfram að flögra um hjálparþurfi í snjónum. Hann reyndi að smala þeim inn í bílskúrinn með því að ganga um og veifa handleggjunum. Fuglarnir dreifðust í allar áttir... nema inn í upplýstan og hlýjan bílskúrinn.

„Ef ég aðeins gæti orðið að fugli um stundarsakir, þá gæti ég kannski leitt þá inn í hlýjuna og öryggið hugsaði hann.“ Á þessu andartaki tóku kirkjuklukkurnar að hringja. Hann stóð hljóður nokkra stund og hlustaði á klukkurnar óma fagnaðarboðskap jólanna. Þá féll hann á kné í snjónum.

„Nú skil ég", hvíslaði hann. "Nú skil ég af hverju þú þurftir að gera það.“

Það rann upp fyrir honum ljós. Nú skildi hann af hverju Guð þurfti að koma í þennan heim sem lítið barn, vaxa og þroskast og verða fullorðinn. Þannig, bara þannig gat hann náð til mannanna, með því að vera eins og þeir. Þessi reynsla mannsins breytti viðhorfi hans til trúarinnar.

Reynsla okkar mótar skoðanir okkar og því er ekki hægt að segja að skoðanir fólks séu vitleysa þó þær samrýmist ekki eigin skoðunum. Það er ástæða fyrir öllu, líka skoðunum okkar og viðhorfum. Ástæður sem við vitum kannski ekki um þegar við hittum fólk. En skiljum ef við fáum að vita um reynslu viðmælandans.

Það eru mörg orðin sem koma fyrir í jólaboðskapnum og í kristinni trú, sem eru hlaðin djúpri merkingu. Miklu dýpri en við skynjum dags daglega. Friður er eitt, réttlæti annað, fyrirgefning og kærleikur koma einnig við sögu. Og við eigum erfitt með að skilja þessi hugtök oft á tíðum.

Guð kom í þennan heim til að við mættum njóta hans og þess kærleika sem hann stendur fyrir. Sá kærleikur leitar ekki síns eigin og fellur aldrei úr gildi. Jólin eru oft nefnd hátíð ljóss og friðar. Við þráum birtu ljóssins og við þráum frið, ástand þar sem jafnvægi ríkir. Boðskapur jólanna leyfir okkur að vera nær því en oft áður að ná þessum markmiðum. Engillinn sagði við hirðana og okkur öll:

Verið óhrædd, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð. „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs“.

Gleðilega hátíð í Jesú nafni.