Vondir vínyrkjar

Vondir vínyrkjar

Af hverju var Jesús að segja þessi dæmisögu? Hann vildi sýna hvernig Ísrael, þjóð sem Guð hafði útvalið til að vera lýður sinn, hafnaði Syni Guðs. Jesús sá þannig fram í tímann og vissi hvað fyrir sig myndi koma. Hann vissi að hann yrði krossfestur fyrir það eitt að vera sonur landeigandans, Guðs. Þar lét hann lífið svo að við mættum lifa fyrir hann frá einni kynslóð til annarrar. Þar úthellti hann blóði sínu í þágu okkar allra sem lútum honum í dag með bæn og beiðni og þakkargjörð. Fyrir hann njótum við frelsis sem elskuð börn Guðs til að láta gott af okkur leiða í samfélaginu.
Mynd



Strandarkirkja stendur við skerjótta Suðurströndina, hún er leiðarljós þeirra sem um sjávarslóð fara. Kirkjan er eins og kunnugt er vinsæl til áheita og um tilurð kirkjunnar hafa myndast helgisagnir sem vitna um þann lífsháska sem sjómönnum var búinn úti fyrir þessari klettóttu, hafnlausu úthafsströnd. Hollt er okkur að rifja þekktustu helgisöguna upp af þessu tilefni. Sagan er á þessa leið

,Fyrir langa löngu gerði ungur bóndi úr uppsveitum Árnessýslu för sína til Noregs á sínu eigin skipi. Var ferð þessi farin til að sækja valinn við til húsagerðar. Segir nú ekki af ferðum bónda fyrr en hann hefur verið lengi á hafi úti á leið sinni til Eyrarbakka á  Íslandi. Lendir hann þá í sjávarháska og hafvillu í dimmviðri og veit ekki lengur hvert skip hans stefnir. Í örvæntingu sinni heitir hann því þá að gefa allan húsagerðarvið sinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi heilu og höldnu. Að þessu heiti unnu birtist honum sýn í líki ljósengils framundan stefni skipsins og verður nú ljósengill þessi stefnumið er hann stýrir eftir.

Segir ekki frekar af siglingu þessari fyrr en skipið kennir grunns í sandvík milli sjávarklappa sem síðar fékk nafnið Engilsvík.  Hvarf þá engillinn og birta tók af degi. Sáu þá skipsmenn að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafs brimströnd inn í vík.   Þar skammt fyrir ofan var hin fyrsta Strandarkirkja reist úr fórnarviðnum."  Þetta er falleg helgisaga sem yljar okkur um hjartarætur því að það segir frá bjargráði sem oft á tíðum stendur okkur nær en við höldum.

Mér skilst að það sé hefð fyrir þessari veiðimannamessu að hausti þar sem veiðimenn ganga til fundar við Guð og þakka honum fyrir uppskeruna úr Hlíðavatni.

Hlíðavatn í Selvogi er af mörgum talið drottning silungsvatna á Íslandi. Það er eitt af gjöfulustu sjóbleikjuvötnum landsins. Þar veiðist einnig stöku lax og sjóbirtingur. Ég hef heyrt að Strandarkirkja eigi jarðir sem liggja að vatninu og því má segja að veiðifélögin við vatnið séu leiguliðar.

Það fer vel á því að þakka Guði fyrir uppskeru sumarsins úr Hlíðavatni.  Við fæðumst inn í heim gnægta þar sem náttúra Íslands er forðabúr sem Guð hefur falið okkur að nýta til sjávar og sveita, inn um dali og upp til heiða. Þar sem ár renna til sjávar og heiðavötnin blá gleðja mannsins hjarta við svanasöng á heiði. Við eigum ævinlega að umgangast náttúruna af virðingu og ganga aldrei svo hart fram við veiðar að fiskistofnar verði í útrýmingarhættu til sjávar og sveita þar sem ár og vötn geyma lónbúana smáu og stóru. Það má líkja okkur við leigutaka að þessum stóra víngarði sem náttúran er, sköpunarverkið sjálft. Hvernig leigutakar höfum við reynst? Svíður náttúran undan ágangi okkar í garð náttúrunnar?  Höfum við gengið til góðs í þessum efnum?  Svari nú hver fyrr sig. Að þessu leyti lifum við undir regluverki sem við höfum sjálf sett til að vernda og viðhalda náttúrunni í allri sinni dýrð, ekki síst fiskistofnum í sjónum, ám og vötnum.

Mér skilst að árlega sé efnt til fjölskyldudags í Hlíðavatni. Fyrir nokkrum árum kom ég ásamt öðrum klerki til veiða á degi þessum, signdi mig í bak og fyrir svo ég slái á léttan streng og kastaði svörtum gylltum toby í vestanverðu vatninu minnir mig fyrir landi Selvogs.  Það var eins og við manninn mælt. Stór bleikja tók spúninn. Hún reyndist sjö pund minnir mig. Kannski hefur hún stækkað örlítið í minningunni.

Um svipað leyti fór ég til veiða í Kleifarvatni og fékk einn fimm pundara.  Maður nokkur sem ég ræddi við eftir túrinn trúði ekki að ég hefði fengið þennan fisk því að það fengist enginn fiskur úr vatninu en þessi saga er heilagur sannleikur af því að ég samdi hana sjálfur. Alltaf verð ég jafn undrandi að nokkur fiskur skuli gína við agninu mínu.

Í veiðivötnum á Landmannaafrétti þar sem ég hef stundum veitt með misjöfnum árangri eru netalagnir leyfðar eftir að veiðitímanum lýkur m.a. til að unnt sé að grisja smáa ísaldar bleikjuna í vötnum. 

 Það kann að vera að áður fyrr hafi verið stunduð netaveiði í Hlíðarvatni af bændum en ég hygg að þær hafi verið aflagðar fyrir mörgum árum.

Ég held að netaveiðar séu alfarið bannaðar í Þingvallavatni. Þar hefur aftur á móti verið reynt að hlúa að urriðastofninum með því t.d. að veiða og sleppa urriðanum aftur. Urriðastofninn hefur stækkað mikið í vatninu undanfarin ár. Þar veiðast nú mjög stórir urriðar á hverju sumri líkt og gerðist hér áður fyrr. Stofninn hefur sem sagt náð fyrra jafnvægi. Aðrir stofnar í vatninu eru á undanhaldi. Það kann að vera vegna náttúrulegra sveiflna eða vegna þess að urriðinn étur murtuna og bleikjuna í stórum stiíl. En hann getur verið mjög grimmur og ver sín svæði með öllum ráðum.

Ég sagði áðan að það mætti líkja okkur við leigutaka að þessum stóra víngarði sem náttúran er, sköpunarverkið sjálft. Hvernig leigutakar höfum við reynst? Svíður náttúran undan ágangi okkar í garð náttúrunnar?  Svari nú hver fyrr sig.  Ég hef stundum staðið mig að því að týna ekki upp stutta tauma búta eftir mig þegar ég hef verið að hnýta flugu á taum. Hins vegar hef ég týnt upp lengri taumabúta sem aðrir veiðimenn hafa skilið eftir sig og bjórdósir. Víða liggja svo skothylki eftir skotveiðimenn sem hafa ekki týnt upp eftir sig. Því miður.

Í guðspjalli dagssins segir Jesús dæmisögu af vondum vínyrkjum.  Hvað er dæmisaga? Það er stutt og táknræn frásögn sem hægt er að draga siðferðilegan lærdóm af.

 Hver haldið þið að sé landeigandinn í þessari dæmisögu Jesú?  Það er ekki Strandarkirkja, eða bændur og búalið hér á landi heldur Guð. Jesús segir það ekki berum orðum heldur gefur það og margt annað í skyn.

Hver haldið þið að séu vínbændurnir í dæmisögunni?  Það eru ekki vínbændur á Ítalíu eða á Spáni heldur Ísraelsmenn. Hver haldið þið að séu þjónar landeigandans? Það eru að mínu mati spámennirnir í gamla testamentinu sem í senn áminntu Ísraelslýð  fyrir munn Drottins og gáfu þeim von, ekki síst á tímum herleiðingarinnar í Babýloníu. Þeir máttu þola ofsóknir og létu lífið fyrir málstað sinn.  Hver er sonur landeigandans í dæmisögunni ? Það er Jesús sjálfur sem saklaus lét lífið á krossi.

 Af hverju var Jesús að segja þessi dæmisögu? Hann vildi sýna hvernig Ísrael, þjóð sem Guð hafði útvalið til að vera lýður sinn, hafnaði Syni Guðs. Jesús sá þannig fram í tímann og vissi hvað fyrir sig myndi koma. Hann vissi að hann yrði krossfestur fyrir það eitt að vera sonur landeigandans, Guðs. Þar lét hann lífið svo að við mættum lifa fyrir hann frá einni kynslóð til annarrar. Þar úthellti hann blóði sínu í þágu okkar allra sem lútum honum í dag með bæn og beiðni og þakkargjörð. Fyrir hann njótum við frelsis sem elskuð börn Guðs til að láta gott af okkur leiða í samfélaginu.

Okkur er hugsað til Ísraelsmanna nútímans. Við erum sammála um það að þeir séu vondir vínyrkjar  þar sem þeir hafa stefnt öllum heiminum á heljarþröm með stríðsrekstri sínum gagnvart íbúum Palestínu og Líbanons. Rússar eru líka vondir vínyrkjar fyrir það að hafa ráðist inn í Úkraínu og sölsað undir sig stór landsvæði í austanverðu landinu. Og líkt og ævinlega þá þjáist saklaust fólk og deyr unnvörpum, ekki síst börnin.

Þegar stríðsrekstur Rússa gegn Úkraínu hófst þá fögnuðu ýmsir kirkjuleiðtogar í landinu því. Mér blöskraði þessi afstaða kirkjunnar leiðtoga í Rússlandi.

 Þá gleymdu þeir fimmta boðorðinu sem minnir okkur á að við skulum ekki mann deyða. Þá gleymdu þeir því einnig að á dögum Rómverja þá máttu kristnir í frumkirkjunni þola ofsóknir í langan tíma. Þá faldi kristið fólk sig bak við luktar dyr. En til að kristið fólk vissi að þar innan dyra væri annað kristið fólk þá var ákveðið að búa til merki eða tákn sem Rómverjar þekktu ekki.  Það var teikning af fiski með grískum stöfum. Þar stóð  I C T H I S  sem stendur fyrir  Jesús Kristur, Guðs sonur, frelsari.

Mér var hugsað til þessa tákns eða merkis þegar ég sigldi yfir Genesaretvatn forðum með guðfræðinemum árið 1984 þegar ég fór með þeim í heimsókn til landsins helga. Mér varð þá líka hugsað til fiskanna

undir yfirborði vatnsins  og saknaði þess að hafa ekki meðferðis flugustöng til að  kasta fyrir svo kallaðan Péturs fisk í vatninu sem heitir svo í höfuðið á Símoni Pétri, lærisveininum sem varð fyrsti leiðtogi frumkirkjunnar. Við snæddum þennan fisk á veitingahúsi við vatnið og bragðaðist hann ekki eins vel og bleikjan úr Hlíðarvatni.

 Því miður þarf margt kristið fólk í þessum stríðshrjáða heimi enn að búa við ofsóknir vegna trúar sinnar á Jesú Krist og fer huldu höfði. Það er því miður veruleikinn enn þann dag í dag. Við skulum ekki gleyma þessum bræðrum okkar og systrum í trúnni á Jesú Krist og minnast þeirra í bænum okkar.

 Í dag þurfum við kristið fólk hér á landi ekki að fela okkur bak við luktar dyr með fisktákni. Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir trú okkar á frelsarann Jesú Krist. Við skulum frekar vera stolt og þakklát í garð Guðs sem vakir yfir okkur á nóttu sem nýtum degi, ekki síst þegar við rennum fyrir lónbúann í Hlíðarvatni.

 Í Strandarkirkju er fallegt altari líkt og í öðrum kirkjum. Altarið táknar návist Guðs. Það er yfirleitt prýtt kristnum táknum en ég man ekki eftir því að hafa séð fisktáknið á sjálfu altarinu. Mig minnir þó að ég hafi séð fisktáknið á klæðum þess. Þegar ég skrifa þetta þá kemur mér í hug að við hæfi væri að á altarisklæði Strandarkirkju væri glitsaumað fiskmerki. Því legg ég til að veiðifélögin við vatnið sameinist um að láta sauma glitsaumað altarisklæði til að gefa Strandarkirkju á merkum tímamótum kirkjunnar ínáinni framtíð.

Til vara þá kemur mér einnig til hugar saumað vegglistaverk í þessu sambandi en ég tek eftir því að altarið er umvafið rauðu altarisklæði sem kirkjunni var forðum gefið. Á því er glitsaumað krosstákn en  kristið fólk hefur ekki krossinn sem slíkan í heiðri heldur tignum við kross Jesú Krists. Án Jesú Krists er krossinn kvala og eyðingartákn eingöngu. Við kristið fólk heiðrum kross Jesú Krists. Það er sakir dauða hans á krossi og upprisu hans frá dauðum að krossinn er tákn vonar, friðar og sátta. Kristur var deyddur á krossi en í upprisu sinni opinberaði hann að hann hefði sigrað dauðann, að dauði hans væri lífgjöf okkar.  ,,Sigrarinn dauðans sanni, sjálfur á krossi dó,” segir Hólasveinninn sr Hallgrímur Pétursson og hann bætir við: ,,Með sínum dauða hann deyddi dauðann og sigur vann, makt hans og afl eyddi, ekkert mig skaða kann.” Kristur lifði fyrir aðra og hann dó líka fyrir aðra.

 Þegar krossinn er sýndur einfaldur að gerð merkir hann sigur Jesú yfir dauða, eyðingu og synd. Margir kjósa krossinn í þeirri mynd.  Langtréð, lóðrétti hluti krossins merkir sáttargjörðina milli himins og jarðar, milli Guðs og manna en hinn lárétti hluti, þvertréð, merkir sáttargjörðina manna í millum. Þvertréð minnir líka á útbreiddar hendur, útbreiddan faðm, og minnir á að við erum í lífi og dauða umvafin Jesú Kristi og vernd hans. Og vegna hins krossfesa er krossinn heilagt tákn sem kristið fólk vill umgangast með lotningu.

 Í dag tilbiðjum við Jesú Krist upprisinn í anda og sannleika í Strandarkirkju. Hann miðlar hér nærveru sinni með okkur í dag eins og altari kirkjunnar kunngjörir og samgleðst okkur þegar við njótum ávaxta erfiðis okkar við bakka Hlíðavatns. Amen.

 1 Sam. 20. 35-43     1.Þess. 4.1-8     Matt. 21. 33-44