Frelsarinn og réttlætið

Frelsarinn og réttlætið

Við fögnum af því að Frelsarinn kom í heiminn til þess að boða okkur réttlæti, sýna okkur fram á að það væri ekki réttleysið sem væri sterkasta aflið í heiminum, ekki myrkrið í allri sinni grimmd, heldur ljósið, ljós Guðs, í allri sinni fegurð.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
06. desember 2009

Jólaljós

Þá er kominn annar sunnudagur í aðventu, aðventutímabilið er hálfnað og nú er aðeins hálfur mánuður að hinni miklu hátíð jólanna.

Á öðrum sunnudegi í aðventu fengum við í kirkjum landsins að heyra einn af þeim textum sem mér persónulega finnst hvað fallegastur og áhrifamestur af textum Biblíunnar. Ég læt hann fljóta hér með í lok þessa pistils.

Þessi texti er skrifaður í spádómsbók Jesaja í Gamla testamentinu. Þar segir frá spádómi um heiminn eins og hann muni verða þegar Messías, Kristur, Frelsarinn, hefur fullkomnað starf sitt og rutt brott öllu hinu illa úr veröldinni.

Í upphafi spádómsins lýsir Jesaja Frelsaranum á þann hátt að hann muni dæma með réttvísi hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu. Réttlætið mun vera beltið um lendar hans og trúfestið beltið um mjaðmir hans.

Það er einmitt þess vegna sem við fögnum komu Frelsarans á aðventu og jólum, alla daga.

Við fögnum af því að Frelsarinn kom í heiminn til þess að boða okkur réttlæti, sýna okkur fram á að það væri ekki réttleysið sem væri sterkasta aflið í heiminum, ekki myrkrið í allri sinni grimmd, heldur ljósið, ljós Guðs, í allri sinni fegurð.

Þess vegna var hann hataður af valdsmönnum allt frá fæðingu. Þeir vissu sem var að hann myndi afhjúpa ill verk þeirra, sýna heiminum fram á óréttlæti þeirra, opinbera græðgi þeirra og eiginhagsmunasemi.

Það gerir hann enn.

Orð hans hafa orðið mönnum hvati öld fram af öld til þess að rísa upp gegn óréttinum, til þess að berjast fyrir réttlætinu.

Hvar sem tekist er á um réttlætið, þar er tekist á um boðskapinn hans.

Og meira en það, þar er hann nærri í baráttunni.

Líka hér á landi.

Hér er Frelsarinn mitt á meðal hinna kúguðu, fátæku, sviknu og vonlausu.

Því Jesús var ekki eins og hver annar spámaður.

Hann er Messías, Kristur, sá sem Jesaja spáði um, kvisturinn af stofni Isaja, boðberi réttlætis Guðs.

Hann er nærri í baráttunni fyrir réttlætinu í heiminum, hvar sem gott verk er unnið, þar er hann. Hann kemur til okkar hvenær sem  ljóssins er þörf í heiminum.

Og hann kallar okkur til baráttu fyrir frelsi, fyrir réttlæti, gegn kúgun, gegn valdsmönnum sem láta sér örlög lítilmagnans í léttu rúmi liggja.

Hann kallar okkur til frelsisbaráttu.

Hann kallar okkur til ábyrgðar.

Á allt þetta minnir aðventan.

En hún bendir líka lengra, miklu lengra.

Hún bendir  á komu ríkis Messíasar einhverntíman í framtíðinni, þegar Jesús Kristur snýr aftur og útrýmir endanlega öllu hinu illa, öllu hinu neikvæða, öllu myrkrinu í heiminum og lætur réttlæti sitt ríkja, ljósið sitt lýsa eitt.

Þá, segir Jesaja, mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Þá munu ljón og alifé ganga saman og ljónið mun hey eta sem naut. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar og barnið, nývanið af brjósti, stinga hendi sinni í bæli höggormsins.

Þetta hefur fólki þótt ótrúlegur og óraunverulegur spádómur.

Getur slíkt gerst ?

En það er einmitt þess vegna sem þessi texti er svona magnaður.

Hann bendir á það hvað Guð í raun og veru vill með veröldina sem við búum í. Og hann bendir líka á það, að úr því að Jesú kom í heiminn, úr því að Frelsarinn kemur til okkar í dag, úr því að hann berst með okkur gegn kúgurunum og vonleysinu, líka hér á Íslandi, þá mun sú tíð vissulega koma þegar veldi hans verður allt í öllu  í heiminum.

Hvergi munu menn þá illt fremja eða skaða gjöra eins og Jesaja segir.

Því jörðin verður eins full af þekkingu á Drottni eins djúp sjávarins er mikið og endalaust.

Og þess vegna skulum við aldrei gefast upp í baráttu okkar fyrir réttlæti.

Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans. Andi Drottins mun hvíla yfir honum: andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar og guðsótta. Guðsóttinn verður styrkur hans.

Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra.Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu.

Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns, deyða hinn guðlausa með anda vara sinna.

Réttlæti verður belti um lendar hans, trúfesti lindinn um mjaðmir hans.

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.