Fegurðin æðsta, list og trú

Fegurðin æðsta, list og trú

Ræðan var flutt við barokkmessu 17. október 2015 sem var á vegum Tónskóla þjóðkirkjunnar. Nemendur fluttu þar verk frá Barokktímanum og sungu. Ræðan er hér nokkuð aukinn og andar af hugðarefni mínu þennan októbermánuð um trú og list. Því miður heyrir þú ekki tónlistina lesandi góður en nokkrar myndir getur þú skoðað þar sem eru steindu gluggar Akureyrarkirkju þar sem messan var í viðeigandi umgjörð. Ég valdi að mér fannst viðeigandi texta og lagði út frá þeim: Lexía – Sálm. 146, pistill – Róm. 12, 1-2, 
guðspjall – Lúk. 2, 29-32.

Hugvekja eða íhugun

Trú og list hefur verið viðfangsefni fræðslu- og umræðukvöldanna í Glerárkirkju hér á Akureyri í október. Gunnar Kristjánsson flutti afar áhugaverðan inngang og umfjöllun um bókmenntir. Hann benti á að listin er stór þáttur í lúterskri kristni og að í leit mannsins að merkingu lífsins á guðfræði og list samleið. Hún er svo náin að í það minnsta kristni er nær óhugsandi án listar. Þó að skáldin fari sínar eigin leiðir þá birtast hjá þeim víðar en maður heldur trúarleg tjáning. Það sér maður við það eitt að líta í kringum sig hér í Akureyrarkirkju, myndlistin blasir við manni í steindu gluggunum, tónlist hefur verið stórkostleg sem við höfum notið hér í dag, og sálmarnir að ekki sé talað um Davíðssálmarnir eru ljóð sem tjá djúpar mannlegar tilfinningar. Síðast liðið miðvikudagskvöld sungum við svo saman og nutum sönglistarinnar með Margréti Bóasdóttur og Eyþóri Inga Jónssyni. Næst kemur svo Goddur og fjallar um myndlistina og síðasta kvöldið leiða þeir Oddur Bjarni Þorkelsson og Hannes Blandon okkur inn í heim leikhússins og trúarlegra glímu þar.

Mér datt því í hug að það væri viðeigandi að íhuga fegurðina. Og ekki síður vegna þess að Tónskóli þjóðkirkjunnar er hér á æfingaferð að fást við fegurð tónlistarinnar. Fegurðin æðsta var gjarnan tengd við Guð í rómantík 19. aldar. Það er raunar ein af guðssönnunum, sem kristnir menn hafa haldið fram frá upphafi, þessi mannlega hugsun að hin æðsta fegurð er slík að Guð einn býr yfir henni. Og fyrst við getum hugsað hana þá hlýtur hún að vera til. Ég segi mannleg hugsun því þó að okkur detti þetta í hug þá er okkur ómögulegt í brotinni veröld að lifa þá tæru fegurð. Mannleg lífsskilyrði eru oftast þannig að á dökkum grunni birtast okkur myndir fegurðarinnar, fegurðin brýst í gegnum ljótleikann. Rósin fegursta er með þyrna.

Ef við förum aftur í tímann má segja að heimsfræði miðalda færist inn í stórkostlega hugmyndasmíði og byggingar og list barokktímans. Guð verður borg á bjargi traust. Menning og trú fléttast saman eins og í eina lífræna heild. Meistari Bach setti punktinn yfir i-ið, „soli deo gloria – Guði einum sé dýrðin“, með þessum orðum sem hann skrifaði við öll sín verk. Það er yfirskrift þessarar menningar lútersku kirkjunnar og mótmælenda sem kemur einnig fram í gagnsiðbót rómversku kirkjunnar. Enn er það saman glíman um merkingu mannlegs lífs. Hún var hugsuð út frá Guði, þríeinum Guði, sem var náttúrulega meira en bara punktur yfir staf, Guð var allt í öllu. Og mennirnir undir hann settir til að þjóna, breyskir syndarar, en ljósið kom að ofan. Þvílík hugarsmíð og meistaraverk á öllum sviðum listarinnar. En hefur þú hugsað út í það að grunnurinn að þessari menningu var hebresk frásögn um barn sem var lagt í jötu, eflaust sögð við eldana?

Fegurðin og tilbeiðslan

Fegurðin, eins og orð Páls benda á, tengist Guði í kristinni trúarhugsun. Ein dýpsta og kröftugasta uppspretta fegurðar er í tilbeiðslunni. Ég á stundum erfitt með að greina á milli tilbeiðslu og tilfinningarinnar fyrir fegurð. Guð heillar mig í lofgjörðinni. Þannig opnar tilbeiðslan og lofgjörðin okkur fyrir Guði og lífinu, merkingu lífsins.

Við eigum þessa fallegu bæn í messuhandbókinni:

„Vér lofum þig, Guð, fyrir fegurð þessarar jarðar, fyrir morguninn, sólina og skugga kvöldsins, fyrir dýrð blómanna og söng fuglanna, fyrir yndisleik barnanna og þokka mannanna, fyrir gáfu listarinnar í máli, tónum og litum. Opna hjörtu vor, skapari vor og faðir, svo að vér fáum notið sköpunar þinnar og auðgað hug og hjarta.“ (Bls. 58)

Íhugun kristninnar ræktar þessa tilfinningu með sér. Einhver myndi kannski kalla þetta sjálfssefjun en það stenst ekki ef við erum að fást við það sem er merking lífsins fyrir okkur sem Guð hefur gefið okkur. Það sem við höfum verið að upplifa í samtíma okkar er að andstæðingar trúar, sem virða ekki lífsskoðanir annarra, ekki kristinna manna, hafa gengist upp í því að taka þetta grundvallartraust frá kristnu fólki. Það er ekki fallega gert. Og við höfum hlustað meira á þá en rödd Guðs. Í Kyrrðarbæninni eða Jesúbæninni leyfum við okkur að beina huga okkar til Guðs, sem er hér. Við gefum honum stund, lifum augnablikin með Guði, líðandi stund með honum. Tengjumst honum og um leið merkingu lífsins, þar sem það er Guð sem gefur okkur hana.

Nú skulum við halda inn í íhugunina. Ég bið ykkur að horfa á myndirnar fyrir augum okkar, listaverkin í steindu gluggunum hér í kórnum, þið getið virt þær fyrir ykkur þegar þið gangið innar við altarisgönguna eða eftir messuna. Þetta eru þrjár Maríumyndir sem byggja á frásögn Lúkasar guðspjallamanns. Heyrið þið ekki tónlistina í steindu rúðunum? Miðglugginn af Símeoni sem fer með „Nunc demitis“ – „Nú lætur þú þjón þinn í friði fara“. María með lofsöng sinn „Magnificat“ – „Önd mín miklar Drottin“. Þetta eru textar barokktímans. Lofgjörðin mikilfenglega sem þessar frásagnir vekja eru teiknaðar upp fyrir okkur í þessum gluggum í kórnum. Við skulum leita inn að kjarna lífsins í huga okkar. Sumir halda því fram að hann sé ekki til, að við verðum að búa okkur hann til. Jesús, sá í faðmi móður sinnar, kenndi okkur annað. Þessar myndir minna okkur á það. Barn í faðmi móður sinnar, er sameiginleg reynsla allra, sem fædd eru á þessari jörð. Það eru þó ekki allir sem njóta ástar foreldra og umhyggju. Það er sorglegt og sárt. En öll megum við vita og trúa að í grunni tilveru okkar er faðmur, ást og umhyggja, það tjá þessar myndir. Þegar bölið beygir mig, þegar þjáningin nálgast það að verða óbærileg, þegar rökkur mannlífsins sækir að mér, þegar sköpunin öll stynur af fæðingahríðum og ógnarlega náttúran snýst eins og á móti okkur, sé ég inn í nýjan heim í gegnum myndina af Jesú, hjá honum verður það augljóst, sem er eins og í skuggsjá núna, að Guð elskar sköpun sína, börnin sín, alla menn, eins og hann elskaði Jesú. Inn í þá hugsun, samfélag, líf erum við gengin fyrir trúna.

Íhugun og lofgjörð Lúkasar

Þegar Akureyrarkirkja varð 70 ára sá ég um aðventukvöld það árið og lét lesa textana sem eiga við gluggana í kórnum en það varð kveikja að íhugun eða trúarjátningu. Stundum hef ég setið hér í rökkrinu og talað við Guð og þá hefur hann talað til mín í gegnum þessar Jesúmyndir.

I. Boðun Maríu

Boðun Mar�u Ég trúi að Guð sé nærri og nái að snerta mig, hann kemur sem engill, kallar á mig. Ég trúi að Guð mig leiði í lífinu, heilla veg, í hóp barna sinna hann vill fá mig.

Guð talar í orði sínu og sögu flytur mér sem skráð er í gluggana steindu, fínu. Í kvöldkyrrð við Maríu myndir við mótum orðin trúu: ”Verði mér eftir orði þínu.”

II.  Fæðing Jesú

Fæðing Jesú Já, hjarta mitt er hans jata, þar Jesús minn á sér stað, af himni kom í hreysið lága. Nú ljómar í rúðum myndin af minni kirkju björt, við tilbiðjum Krist konunginn háa.

Við kertaljós mörg í kirkju, ég krýp við þá helgu sýn, í barninu dýrðin birtist skæra. Hann bræður og systur blessar, hann bróðir mannsbarna, hans ljósgeislar falla’ á fólkið kæra.

III. Jesúbarnið fært Drottni

Jesúbarnið fært Drottni Sú einstæða fagra saga um Símeon öldunginn í brothættu gleri geymist, talar, af guðlegri forsjón slapp það úr sprengiregni hels í helgidóm miðjan, huga svalar.

Hann faðmaði frelsarann sinn og fékk þar með hjarta frið: “Nú lætur þú þjón þinn í friði fara”. Sú geislandi gleði breiddist um gjörvalla veröld hratt, Guðs hjálpræði öllum heimsins skara.

IV. Jesú 12 ára í musterinu

Jesú 12 ára � musterinu Í Jerúsalem hvarf Jesús þeim Jósef og Maríu, Í Guðs húsi fannst hjá föður sínum. Í Drottins míns helgidómi ég dvel marga hljóða stund, hjá himneskum föður hans og mínum.

Nú sé ég í gegnum glerið þá gæfu, visku, náð, að ganga með Guði, leiðsögn njóta. Þegar ég geng í Guðs hús og geri þar mína bæn, þá finn ég mig gæfu og gæsku hljóta.

V. Skírn Jesú

Sk�rn Jesú Hlið himinsins opnast hérna í heilögum kirkjukór þar ljósið að ofan litar glugga, ég sé inn í himinn háan á helgri bænastund, Guð snertir mig, barnið sitt að hugga.

Guð nálægur er sem forðum er Frelsarinn skírður var sem faðir og sonur og friðar andi. Hans blessaða auglit lýsir, hann lyftir oss upp til sín í skaut sitt úr dauðans skugga landi.

Fegurð, list og trú

Þannig getur listaverk talað til okkar, verið okkur sannindi um fegurð lífsins, Guð, hina æðstu fegurð, ofar allri mannlegri tilveru, ofar öll sem séð verður, tær fegurð. Tilbeiðsla Jesú er að ala þessa hugsun með sér. Það er ekki blekkingarleikur heldur grunnur tilveru okkar, hér er Guð og í veröld allri sem elskar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.