Gefðu mér kærleik, gefðu mér trú

Gefðu mér kærleik, gefðu mér trú

Heilagi faðir, þú sem gætir okkar, barna þinna, alla daga, viltu blessa okkur og fjölskyldur okkar með þinni náð og þinni miskunn og gefa okkur góða og bjarta framtíð. Þakka þér fyrir þennan góða dag sem þú hefur fært okkur. Þakka þér fyrir lífið sem sigrar dauðann. Fyrir Jesú Krist, bróður okkar og Drottin, Amen.

Um þessar mundir er svo dásamlegt að fylgjast með lífinu. Vorið leggur fallega hulu yfir landið sem blæs lífi í allt sem fyrir verður. Trén eru að vakna og fuglarnir æfa vorsinfóníurnar sínar fullir af gleði yfir voninni, sem fylgir vorinu, þannig að unun er á að hlýða. Mér finnst mikið gott að lesa um góða hirðinn og sauðina hans. Mér finnst gott að tilheyra Guði og vita það að ég skuli vera eitt af lömbunum hans sem hann gætir svo vel og safnar svo saman í dagslok. Það er gott að vita til þess að einhver gæti manns þegar á þarf að halda.

Gefðu mér kærleik, gefðu mér trú orti Gísli frá Uppsölum. Það er mér dýrmætt að ég geti lagt traust mitt á Guð og samþykkt að hans vilji sé mitt leiðarljós í lífinu. Guð sér um mig fullur kærleiks rétt eins og fjárhirðirinn sem sér um sauðina sína. Hann gaf mér trú og gætir mín alla daga, þegar ég stend frammi fyrir nýjum áskorunum, sumum léttum og skemmtilegum en öðrum þyngri. Ég get alltaf leitað til Guðs og lagt mín mál í hans hendur. Í því felast mikil forréttindi fyrir mig.

Margir eru óvissir um sinn stað. Hvað ef ég er ekki kristinn? Hvað ef ég trúi ekki nógu sterkt? Heyrir Guð bænir okkar? Og hvernig í ósköpunum eigum við að fara að því að heyra svar Guðs? Eða vita hvort Guð svarar yfirhöfuð? Ég trúi því af öllu mínu hjarta að Guð heyri bænir okkar og svari þeim. Ég trúi því líka að Guð geti talað til okkar í öllum kringumstæðum. Hann getur hvíslað til okkar í grasinu, í mjúka vorblænum eða með þýðum söng fuglanna sem nú fara brátt að undirbúa hreiðurgerð. Við mannfólkið heyrum sjaldnast orð Jesú sem drynjandi röddu af himni ofan heldur miklu frekar sem hvísl í náttúrunni, í þögninni eða í kirkjunni. Það er gott að hlusta í þögn. Það er sérstakt en gott og alveg ótrúlegt hvað hægt er að heyra mikið þegar enginn segir neitt. Það er stórkostlegt að vita að einmitt þá er hirðirinn að tala við okkur lömbin sín. Gefðu mér kærleik, gefðu mér trú.

Umræðu um fólk í vanda skýtur alltaf upp kollinum af og til. Við heyrum fréttir af heimilisofbeldi og erfiðum kringumstæðum inni á heimilum. Kringumstæðum sem geta leitt til þess að börn flýja aðstæður heima fyrir og lenda jafnvel sjálf á dimmum vegi óreglu og neyslu. Hugsið ykkur, börnin okkar hverfa að heiman og enginn veit hvar þau eru niðurkomin eða í höndum hverra. Þau þurfa að glíma við brotna sjálfsmynd og fást ein við hluti sem börn ættu ekki að fást ein við. Það er skelfilegt að hugsa til þess sem getur gerst á þeim tíma sem börnin eru að heiman. Sem betur fer tekst stöku sinnum að koma blessuðum börnunum til bjargar. En það má ekki gleyma því að oft lenda þau í hræðilegri og óafturkallanlegri reynslu sem fylgir þeim til æviloka. Þau setja traust sitt á aðila sem eru einskis trausts verðir, afleiðingarnar geta orðið hræðilegri en orð megna að lýsa. Við getum öll velt því fyrir okkur hvar við erum stödd í lífinu, hvernig hlúum við að börnunum okkar og náunganum almennt. Gefðu mér kærleik, gefðu mér trú. Guðspjall dagsins fjallar um umbreytandi elsku, Jesús spyr Símon Pétur þrisvar sinnum hvort hann elski sig, Símon svarar alltaf játandi. Jesús bendir Símoni á að umbreyta þeirri ást yfir í ást til annarra. Hann býður honum að gæta sauða sinna. Auðvitað er þetta eitthvað sem við ættum öll að gera. Umbreyta elsku Guðs yfir í kærleika til annarra. Jesús fórnaði ekki lífi sínu á krossinum hann gaf það og reis síðan upp að nýju. Þessi stórkostlega gjöf hans til okkar mannanna hvetur til þess að við sínum hvort öðru elsku og kærleika. Kristur er upprisinn. Hið illa hefur tapað. Gefðu mér kærleik, gefðu mér trú.

​Erum við tilbúin til að standa við það sem okkur er boðið að gera? Erum við tilbúin til að velja hið góða fram yfir hið illa? Viljum við ganga þann veg sem krefst þess að gefa gjafir kærleikans sem krefjast þess af okkur að við tökum ábyrgð og leggjum til samfélagsins eins og Jesús bauð okkur að gera? Erum við tilbúin til að standa upp og ganga þann veg að börnin okkar og barnabörn geti fetað lífsveginn á heilbrigðri gefandi jörð umvafin heilbrigðum gildum og góðu fólki? Eða viljum við ganga veg glötunar sem á endanum felur í sér eyðileggingu og slæm örlög? Drottinn gefi að við veljum fyrri kostinn og gerum það sem gera þarf. Líðum það ekki að jörðin okkar fallega þurfi að ganga, fyrir atbeina græðgi og markaðsafla, þjáningarfulla píslargöngu sem ekkert mun gefa af sér nema eyðileggingu og dauða. Líðum það ekki að börnin okkar líði skort á nokkurn hátt. Boðum fögnuð, boðum þann boðskap Drottins sem felur það í sér að við öxlum ábyrgðina sem felst í frelsinu til lífs rétt eins og Jesús gerði þegar hann steig af fúsum og frjálsum vilja inn á veg dauðans og gaf líf sitt til að við mennirnir gætum öðlast eilíft líf. Í þessu felst að Drottinn gaf okkur eitt það dýrmætasta og öflugasta sem við getum notað okkur í lífsins ólgusjó nefnilega vonina sem er öllu öðru yfirsterkari. Og þið sem hér eruð og þekkið tólf sporakerfið vitið að í vanmættinum felst von sem getur sigrað allt með liðsinni Guðs sem tekur byrðarnar frá okkur þegar á þarf að halda. Gefðu mér kærleik, gefðu mér trú. Einmanaleiki, pyntingar, höfnun og kvalir er það sem blasti við Jesú Kristi þar til hann sigraði dauðann. Upphafið felst í upprisunni sem verður í kjölfarið. Í lífinu koma oft þeir tímar að við fáum tilefni til einhvers konar upprisu, tilefni til að umbreyta kærleikanum okkar, annað hvort í eigin garð eða annarra. Góði hirðirinn gefur okkur öllum tækifæri til endurlausnar og nýrrar breytni eins oft og við þurfum. Þannig fullkomnast fagnaðarerindið sem okkur er flutt. Fagnaðarerindið sem er að finna í orðum og gjörðum Jesú Krists.